Laun og náð Guðs

Laun og náð Guðs

Hvaða gagn hefur maðurinn af öllu erfiði sínu sem hann streitist við undir sólinni? spyr Prédikarinn… Það er augljóst að hann er ekki að spurja um… gagnsemi stritsins… á meðan maðurinn lifir… heldur er hann að velta fyrir sér… hvaða gagn maðurinn hafi af stritinu eftir dauðann… þegar sá sem stritaði er horfinn af jörðinni…

Préd 1.1-10, Fil 3.7-14 og Matt 19.27-30

Prédikun…. Laun og náð Guðs

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.                                                    

Orð Prédikarans voru að allt hér á þessari jörðu væri aumasti hégómi… þá vitum við það… að allir verðmætu og ómissandi hlutirnir okkar, sem við erum alla ævina að safna að okkur, segir hann að séu aumasti hégómi…

Vissulega komum við allslaus inn í þennan heim og allslaus förum við héðan… en við skiljum eftir okkar arfleifð… bæði í áþreifanlegum hlutum en einnig sem munnlega geymd og minningar fyrir þá sem eftir lifa. Í lífinu er illmögulegt að komast af án okkar hégómlegu eigna… amk væri lífið miklu erfiðara án þeirra…

Hvaða gagn hefur maðurinn af öllu erfiði sínu sem hann streitist við undir sólinni? spyr Prédikarinn… Það er augljóst að hann er ekki að spurja um… gagnsemi stritsins… á meðan maðurinn lifir… heldur er hann að velta fyrir sér… hvaða gagn maðurinn hafi af stritinu eftir dauðann… þegar sá sem stritaði er horfinn af jörðinni…   Hann var búinn að sjá að lífið heldur áfram og hringrásin er stöðug… sólin kemur upp á hverjum morgni, skýin þjóta um himinninn og árnar renna áfram til sjávar… Hver er tilgangurinn með striti mannsins. Prédikarinn var ekki að segja að við ættum ekki að eiga neitt… Það er gott ef við getum auðveldað okkur lífið og átt þægilegt líf… nei, hann var að velta fyrir sér tilganginum… hvað stritið gefur manni eftir dauðann?

Í seinni ritningarlestrinum tekur Páll postuli í sama streng… allt sem hann á, metur hann sem sorp… í samanburði við ávinninginn að þekkja Krist… Páll, hét áður Sál, hann var gyðingur, lifði eftir lögmáli þeirra og ofsótti kristna menn… þegar hann snérist í trúnni, missti hann stöðu sína… og hóf að útbreiða kristna trú og í bréfinu til Filippímanna segir hann að hann meti það dýrmætast í lífinu að þekkja Krist… Hann segir: án Krists áttu ekkert… og Páll er eins og Prédikarinn að vísa í ,,lífið eftir dauðann”. Páll þekkti lögmálið en nú horfir hann til upprisu Jesú sem fyrirheiti fyrir alla trúaða… og hann segir að inngöngu í ríki Guðs fái hann ekki fyrir hlýðni við lögmálið heldur… sakir þess sem trúin á Krist gefur, réttlætið frá Guði með trúnni. já, trúin á Jesú er vegabréfið þitt… vegabréf, sem við verðum stöðugt að hafa í gildi og passa að það renni ekki út… Páll sagðist ekki vera kominn með sigurlaunin en hann væri sífellt að keppa að þeim…

Í guðspjallinu spurðu lærisveinar Jesú, hann um launin sem þeir ættu að fá fyrir að fylgja honum… þeir höfðu yfirgefið allt hans vegna… Á tímum Jesú gat það kostað fjölskyldu- eða vinslit að skipta um átrúnað og ekki ólíklegt að lærisveinarnir hafi í orðsins fyllstu merkingu ,,yfirgefið ALLT” til þess að fylgja Jesú… en Jesús sagði þeim að launin fái þeir margfalt til baka í ríki Guðs… EN… launin fá þeir ekki fyrir að yfirgefa allt… heldur fyrir trúna á Krist. Ekkert ,,verk” gefur aðgang að ríki Guðs – nema trúin á Jesú.

Þema ritningartexta þessa sunnudags er ,,laun og náð Guðs” Í Róm 5:12 skrifar Páll… Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann…  Syndin (orð í eintölu) kom í heiminn þegar Adam og Eva átu ávöxtinn. Á þeim tíma var bara ein regla sett af Guði… að hlýða honum.

Í texta síðasta sunnudags var þetta vers úr Op 22:12 Sjá, ég kem skjótt og launin hef ég með mér til að gjalda hverjum og einum eins og verk hans er. Orðið er, er í eintölu, það er verið að tala um eitt verk,.. það að trúa. Í Róm 6:23 segir Páll postuli:  Því að laun syndarinnar er dauði en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum….   Orðið ,,syndarinnar” orð í eintölu… Í Jóh 16:9 segir Jesús: Syndin er að þeir trúðu ekki á mig,.. og  orðið ..syndin” er í eintölu. Í öllum tilfellum er ,,syndin” sem um er rætt -vantrú- á Guð… Syndin kom fyrir einn mann og náðin kom í heiminn fyrir einn mann, Jesú.  Náð Guðs veitist okkur ekki fyrir verk – heldur fyrir trú… Launin fyrir trúna á Jesú veitir eilíft líf í ríki Guðs…

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen 

Net-messa tekin upp í Patreksfjarðarkirkju 

https://www.youtube.com/watch?v=FlKpw78HR4w