,,Þegar ég mæti Jesú“

,,Þegar ég mæti Jesú“

,,Þegar ég prédika, er ég alltaf með bara einn texta, en textinn er sá: «þegar ég mæti Jesú», og þaðan koma allar hugmyndir og hugleiðingar sem ég verð að deila með fólki“ : sagði Sojourner Truth.
fullname - andlitsmynd Toshiki Toma
07. apríl 2010
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

1. Gleðilega páska! ,,Jesús er upp risinn og hann er ekki lengur í gröfinni“. Þetta eru tíðindi fagnaðar, sönnun á kærleika Guðs og loforð hans til okkar um eilíft líf. Við fögnum öll þessum tíðindum og gleðjumst saman. En ekki voru fréttirnar jafnbjartar og gleðilegar fyrir alla skömmu eftir upprisu Jesú.

María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme voru þær fyrstu sem fengu fregnirnar af upprisu Jesú. Hver voru viðbrögð þeirra? Næstu setningar í Guðspalli dagsins hljóma svo: ,,Þær fóru út og flýðu frá gröfinni, því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu, því þær voru hræddar“. (Mk.16:8)

Það hefði mátt búast við því að konurnar fylltust gleði og byrjuðu ef til vill að dansa í kringum gröfina en slíkt gerðist ekki. Þvert á móti flýttu þær sér heim en sögðu hvorki frá því sem þær sáu né heyrðu. En ef við veltum málinu fyrir okkur vel, þá eru viðbrögð kvennanna mjög eðlileg og skiljanleg. Það er jú ekki svo auðvelt að upplifa eitthvað nýtt í lífi sinu eða meta ókunnugt fyrirbæri og dæma hvort því eigi að trúa eða ekki.

En líklegast er að konurnar hafi ekki skilið boðskap engilsins um upprisu Jesú. María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme fóru í gröfina til þess að smyrja ilmsmyrsl á líkama Jesú en ekki til að sjá upprisinn Jesú. Eftir að þær höfðu séð Jesú á krossinum, voru þær uppteknar með dauða Jesú og líkama hans og áttu ef til vill erfitt með að hugsa um hann í annarri mynd. Þetta er eðlilegt. Atburðurinn sýnir þá upplifun sem manneskjur hafa oft af dauðanum, sem endalok lífsins.

Þetta er einnig sú mynd sem við höfum í dag. Við lifum lífi okkar á hverjum degi en horfum ávallt á endalokin í fjarlægð, hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað. Við þurfum ekki að neita þessari staðreynd eða fyrirlíta. Við eigum að lifa lífi okkar hér á jörðinni og að þakka fyrir hvern dag, sem er ómetanlegur, mikilvægur og fallegur. Við eigum að einbeita okkur að hverjum degi.

Engu að síður er mikilvægt að horfa til endalokanna, til þess að fullvissa sig um að maður sé að lifa lífi sínu við Guð og menn. Þegar endalokin nálgast finnst samt mörgum spurningum ósvarað um líf sitt og örlög, og á kveðjustundinni upplifa þeir oft harm eða eftirsjá. Stundum hverfur fólk úr jarðnesku lífi ófullnægt og án þess að fá þessi svör.

En eilíft líf Jesú Krists gefur okkur svar fyrir ósvöruðum spurningum og græðir ófullnægju okkar. Við ímyndum okkur venjulega eins og eilíft líf sé aðeins að lifa að eilífu, en það er ekki rétt . Eilíft líf er einnig það sem gerir líf okkar sem við eigum eða áttum á jörð fullkomið. Þegar við leggjum trú okkar á eilíft líf, þá eignumst við von, þótt spurningum okkar sé ekki alltaf svarað og við séum stundum óánægð með lífsferil okkar. Eilíft líf er svarið sjálft fyrir ósvöruðum spurningum, og einnig lækning við sársauka okkar í jarðnesku lífi.

María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme, urðu hræddar og geymdu vitneskju sína í þögninni eftir að hafa séð tómu gröfina. En þegar þær mættu Jesú upprisnum í Galíleu, breyttist viðhorf þeirra. Þær hættu að halda að dauðinn væri endalok lífsins og trúðu því að það héldi áfram, að til væri eilíft líf í Jesú Kristi, sem hafði verið krossfestur en var nú upprisinn.

2. Sojourner Truth var þekkt svört kona sem bjó í Bandaríkjunum á 19. öld. Í byrjun 19. aldarinnar var þrælahald enn við lýði í Bandaríkjunum. Sojouner fæddist sem þræll og upplifði margt hræðilegt þess vegna. En þegar farið var að banna þrælahald smám saman varð Sojouner á fullorðinsárum kraftmikil baráttukona, bæði kvenréttinda og einnig sem trúboði kristinnar trúar. Ávarp hennar, sem hún flutti á kvenréttindaráðstefnu í Ohio árið 1857 ,,Er ég ekki kona?“, var velmetið í Bandaríkjunum og gefið út eftir nokkur ár.

Hún prédikaði einnig mörgum sinnum sem trúboði, en hún sagði einu sinni við fólk: ,, Satt að segja, get ég ekki lesið, ekki einu sinni bréf, og ekki Biblíuna. Þegar ég prédika, er ég alltaf með bara einn texta, en textinn er sá: «þegar ég mæti Jesú», og þaðan koma allar hugmyndir og hugleiðingar sem ég verð að deila með fólki“.

Sojourner sagði að hún hefði víst fundið til reiði og haturs gagnvart hvítum mönnum vegna þrældómsins. En eftir að hún mætti Jesú, sem var líka eins og þræll og krossfestur, en upprisinn, breytist eitthvað innra sér og hún byrjaði að hugsa að hún gæti elskað alla, svart fólk sem hvítt. Ég held að það hljóti að hafa tekið mörg ár þar til Soujouner komst yfir reiðina og hatrið gegn hvítum mönnum, en líf hennar snerist í aðra átt, eftir að hún mætti Jesú. Hún kaus að reyna að elska jafnvel hvíta menn og búa saman með þeim í samfélagi fremur en að hata þá og útiloka.

Kannski getum við lært eitthvað frá upplifun Soujouner. Á það ekki einnig að vera kjarni trúar okkar að mæta Jesú? Að mæta Jesú er persónuleg upplifun. Við getum bætt þekkingu og dýpkað skilning okkar á kristninni með því að lesa bækur og fara í námskeið. En við getum ekki endilega mætt Jesú með því að bera saman bækur eða hlusta á fyrirlestur. Við þurfum frekar að íhuga orð Jesú og framkomu í samhengi við daglegt líf okkar sjálfra og hugsa : ,,Hvað myndi Jesús segja mér ef hann væri með mér núna? Hvernig myndi Jesús haga sér ef hann væri hér núna?” Stundum getum við ímyndað okkur orð og framkomu Jesú, en ef okkur langar að hitta Jesú og við höldum áfram í þessu ferli, trúi ég að Jesús verður víst hjá okkur í raun, bæði á góðum og slæmum tímum. Mætum Jesú og biðjum hann að vera með okkur í lífsleiðangri okkar. Þá snýst líf okkar að eilífu lífi, og við fáum allt sem okkur vantar í lífinu á jörðinni, sem og á himnum.

Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú. Amen.

(á páskadaginn)