Það dýrmætasta er gefið

Það dýrmætasta er gefið

Allir þeir sem eru uppteknir af því að vera reiðir og úrillir út í allt og alla vegna ástandsins í þjóðfélaginu þyrftu að minnast þess að þakka fyrir það sem dýrmætast er. Því það sem dýrmætast er í lífinu er okkur jafnan gefið.
fullname - andlitsmynd Gísli Gunnarsson
13. janúar 2009

Alltaf er notalegt að heyra og syngja gömlu góðu sálmana sem eiga sinn fasta sess í áramótamessunum, eins og "Nú árið er liðið" eftir Valdimar Briem og "Hvað boðar nýárs blessuð sól" eftir Matthías Jochumsson. Þá eru gjarnan og sungnir tveir sálmar, sem upphaflega voru samdir á dönsku, þ.e. "Fögur er foldin" eftir Ingemann og "Ó, hve dýrleg er að sjá" eftir Grundtvig.

Báðir voru höfundarnir fæddir á seinni hluta 18. aldar, mikilsvirt sálmaskáld og fræðimenn og höfundar fjölda bóka.

Þeir lifðu þann tíma í Danmörku, sem nefndur hefur verið gullöldin, en það tímabil er fyrri helmingur 19. aldar og dregur nafn sitt af því hversu margir afburðamenn þá voru uppi, sem lögðu sinn skerf til menningar og lista ýmiss konar. Auk þeirra Ingemanns og Grundtvigs má nefna H.C.Andersen og Sören Kirkegaard svo og Bertel Thorvaldsen, en hann var Íslendingur í föðurætt (m.a.s. Skagfirðingur), en afi hans, Þorvaldur Gottskálksson, var prestur á Miklabæ.

Áhrifa þessara gullaldarmanna gætir enn mikið í Danmörku og víðar á Norðurlöndum, ekki síst Grundtvigs. Hann var baráttumaður lýðháskólahreyfingarinnar, sem gerði alþýðufóki kleyft að afla sér menntunar á fullorðinsaldri, og efla með sér andlega reisn og dáð. Þetta var rómantísk stefna og olli þjóðernisvakningu á sínum tíma, ekki síst til sveita.

Þessir sálmar voru sem sagt samdir á tíma dönsku gullaldarinnar. Þá var Ísland hluti af Danmörku, þ.e. danska ríkinu og var svo fram á síðustu öld.

Í liðnum mánuði átti Ísland 90 ára fullveldisafmæli. Þann fyrsta desember árið 1918 varð Ísland frjálst og fullvalda ríki, en var áfram í sambandi um einn og sama konung við Dani. Ekki var mikið um fullveldisafmælið fjallað í fjölmiðlum, enda lítið pláss vegna umræðu um inngöngu í Evrópusambandið og hvernig það eigi að redda öllu sem aflaga hefur farið hér á landi.

En árið 1918 var að þessu leyti ár fagnaðar, jafnframt því sem að fyrri heimstyrjöldinni lauk, - en um leið var það ár hallæris og hörmunga hér á landi.

Árið hófst með harðindum og frosthörkum miklum, hafís lagðist að öllu norðanverðu landinu, ísbirnir gengu á land og voru sex felldir svo vitað er.

Heybrestur varð um sumarið vegna kals í túnum og um haustið hófst síðan Kötlugos með miklu öskufalli og fjöldi búfjár drapst.

Sama daginn og Íslendingar kusu um sambandslagasamninginn svokallaða, barst svo spánska veikin til landsins og létust úr henni milli 400 og 500 manns, aðallega á suðvestanverðu landinu. Sóttvarnir voru engar og við bættist nýtt kuldakast sem jók á útbreiðslu veikinnar, þar sem bæði var húsnæðis- og eldiviðarskortur. Þann 1. desember bar upp á sunnudegi.

Blómsveigur var lagður að leiði Jóns Sigurðssonar, fáninn var dreginn að húni á stjórnarráðshúsinu og síðan var messað í dómkirkjunni. Ekki voru önnur skipulögð hátíðarhöld enda hafði almenningur varla heilsu né fjármuni til þess. En þjóðin gladdist þennan dag fyrir 90 árum, frjáls og fullvalda.

Það er kannki ekki við hæfi að bera saman kjör okkar í dag og þeirra sem bjuggu þetta land fyrir níutíu árum. En samt er það svo stutt síðan og enn er til fólk okkar á meðal sem upplifði þessa atburði.

Ég held að öllum sé hollt að rifja upp liðna tíð, til þess að læra af sögunni og finna samsemd með forfeðrum og mæðrum okkar sem byggt hafa þetta land, sem glöddust yfir sigrum þess, en fundu einnig til þegar erfitt var. — Þegar erfiðu árin komu.

Nýliðið ár var erfitt ár í hugum okkar Íslendinga. - Samt hljóta slíkir dómar ávallt að vera afstæðir. Vissulega má segja að í heimi fjármálanna hafi þetta verið hræðilegt ár, og sá heimur snertir okkur öll á einn eða anna hátt, því að við lifum ekki án tengsla við hann. Sá heimur er hluti af daglegu lífi.

En í ljósi sögunnar þá má spyrja hversu hræðilegt ár þetta hafi verið í raun. T.d. ef við hugleiðum það, hvernig umhorfs var meðal þjóðarinnar þegar fullveldi hennar var fagnað af veikum mætti fyrir 90 árum?

Og þó að það sé ósanngjarnt og gremjulegt hvernig komið er fyrir þjóð okkar nú, og næstu ár verði erfið, þá hlýtur það að vera hjóm eitt miðað við fyrri tíma og fyrri kynslóðir.

Á nýju ári þakka ég Guði fyrir lífið sem hann gefur. Eftir því sem aldurinn færist yfir þá lærir maður betur að meta hvert það ár sem okkur er gefið.

Allir þeir sem eru uppteknir af því að vera reiðir og úrillir út í allt og alla vegna ástandsins í þjóðfélaginu þyrftu að minnast þess að þakka fyrir það sem dýrmætast er. Því það sem dýrmætast er í lífinu er okkur jafnan gefið.

Gleðilegt nýtt ár.