Ágjarnir fjárplógsmenn

Ágjarnir fjárplógsmenn

Guðspjall: Jóh . 5. 24-27 Lexia: Job. 14. 1-6 Pistill: 2. Pét . 3. 8-13

Í dag er síðasti sunnudagur kirkjuársins. Aðventan hefst næsta sunnudag og með henni hefst nýtt kirkjuár. Um áramót er okkur gjarnt að líta yfir farinn veg og minnast góðra stunda með þakklæti og ljúfsáru stundanna með trega í brjósti. Um áramót strengjum við jafnan áramótaheit og göngum til móts við nýja árið í von um að það megi verða okkur blessunarríkt. Mig grunar að þær vonir gangi frekar út á það að okkur blessist afkoman í veraldlegu tilliti hvað snertir, atvinnu, fæði, klæði og húsaskjól frekar en afkoman í andlegu tilliti, samskipti okkar við Guð og þá sem við unnum mest.

Vissulega skiptir afkoma okkar í veraldlegu tilliti miklu máli en ég minnist orða Krists sem sagði: “Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni” Það sem skiptir miklu meira máli þegar upp er staðið er trúin á Guð sem er forsenda eilífa lífsins en ekki veraldlegur auður.

Töluverðrar reiði gætti í íslensku þjóðfélagi í vikunni þegar upp komst að nýríkir stjórnendur fyrirtækja höfðu í skjóli starfssamninga sinna keypt hlutabréf á mun lægra gengi en boðið var upp á á almennum markaði. Þessir einstaklingar voru slegnir siðblindu þar sem þeir mötuðu krókinn með þeim hætti að ekki var við unað. Þeir sáu að sér og hættu við kaupin þegar þeir sáu að traust almennings í þeirra garð og fyrirtækisins hafði beðið mikinn hnekk. Dómstóll götunnar hafði kveðið upp sinn úrskurð þeim í óhag. Það er athyglisvert að forsætisráðherra skyldi minna þessa ágjörnu fjárplógsmenn á orð Hallgríms Péturssonar sem hann orti í tilefni af iðrun Júdasar forðum: En Hallgrímur komst vel að orði er hann orti.

Undirrót allra lasta ágirndin kölluð er Frómleika frá sér kasta fjárplógsmenn ágjarnir, sem freklega elska féð, auði með okri safna, andlegri blessun hafna en setja sál í veð.

Þegar við brjótum af okkur í þjóðfélaginu og erum fundin sek þá erum við dæmd til sektar eða fangelsis allt eftir umfangi brotsins og tökum út okkar dóm og getum hafið nýtt líf að því loknu í nokkuð góðri sátt við samferðamennina. Þannig nær réttlætið fram að ganga á meðal mannanna barna. Enda þótt brotamennirnir iðrist þá þurfa þeir engu að síður að taka út sinn dóm. Dómarnir eru með ýmsum hætti allt eftir umfangi brotanna, jafnvel sýknudómur ef sekt er ekki sönnuð. Í umræddu tilviki iðruðust brotamennirnir gjörða sinna eftir að dómstóll götunnar hafði kveðið upp sinn dóm. Það er athyglisvert að almannarómur skyldi geta haft þvílík áhrif sem raun ber vitni. Ber það vott um að þjóðin veit hvað til síns friðar heyrir og vill standa vörð um siðferðið í landinu, a.m.k. í viðskiptalegu tilliti.

Við brjótum einnig af okkur í samskiptum okkar við samferðafólkið þó að það komi aldrei til dóms. Málin eru þá útkljáð með samræðum þar sem fólk iðrast og tekur á móti fyrirgefningu. Iðrun og fyrirgefning eru máttug verkfæri friðar í samskiptum manna, einnig í samskiptum manna og Guðs.

Með guðspjalli þessa síðasta sunnudags kirkjuársins er sleginn tónn inn í aðventuna þar sem dómsdagshugsunar gætir. En nú er það ekki dómstóll götunnar sem dæmir heldur Guð sjálfur sem sýnir þannig fram á í hverju réttlæti sitt er fólgið. Réttlæti Guðs tekur fram réttlæti mannanna að því leyti að Guð, sem dæma ætti mennina, tekur sjálfur út dóminn sem mennirnir ættu í raun og veru að fá og taka út. Guð tekur til sín skuldabréf sérhvers manns, eyðir því að minnist þess ekki framar. En þetta gat Guð ekki gert nema gefa okkur son sinn Jesú sem dó fyrir syndir mannanna á krossinum. Þetta gerir Guð af kærleika í garð syndugs mannkyns.

Í guðspjalli dagsins segir Kristur: “Sannlega, sannlega segi ég yður. Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins”.

Þessi orð fela það í sér að á hinum efsta degi þegar dómur gengur yfir þennan heim og mennirnir ganga einn af öðrum fram fyrir ásjónu skapara himins og jarðar. Þá mun Jesús vera meðalgöngumaður okkar kristinna manna sem trúum á hann frammi fyrir Guði og standa reikningsskil gjörða okkar í okkar stað. Fyrir vikið komum við kristnir menn sem höfum heyrt orð Krists ekki til dóms heldur stígum yfir frá dauðanum til lífsins!

Þetta er mikið þakkar og fagnaðarefni okkur kristnum mönnum, nokkuð sem við skulum taka með í reikninginn þegar aðventan gengur í garð. Fyrir vikið megnum við frekar að greina kjarnann frá hisminu þegar jólahátíðin sjálf gengur í garð. Hismið eru umbúðirnar mörgu sem búið er að pakka utan um jólin sem gerir hvern mann gráhærðan sem lætur þær ná tökum á sér.

Orðið aðventa merkir koma. Við fögnum komu frelsarans á jólum. Hann er kjarni málsins. Hann er lífsins og kærleikans Guð sem knýr dyra hjá seku mannkyni í von um að mannanna börn opni hjörtun fyrir sér.

Á aðventunni skyldi því hver kristinn einstaklingur sem kominn er til vits og ára enn á ný líta í eigin barm og grannskoða hug sinn og hjarta og búa sig þannig undir komu barnsins í jötunni sem allt fram á þennan dag hefur snert við hjörtum mannanna og vakið þá til trúar á sig fyrir opinberun heilags anda. Barnið í jötunni er sannarlega Guð sjálfur sem afskrýddist sinni tign og ofurseldi sig mannlegum kjörum, reiddi sig á umvefjandi faðm jarðneskra foreldra sem ólu önn fyrir honum þar til hann hleypti heimdraganum og hóf að boða fagnaðarerindið um að Guðs ríki vær orðið að veruleika.

Jesús lifir er boðskapur aðventunnar. Hann sem kemur er þegar kominn. Það fylgja því góð hughrif að horfa inn í flöktandi kertaljós. Bjarminn lýsir upp nánasta umhverfi og okkur hlýnar ósjálfrátt um hjartaræturnar. Það skyldi ekki vera vegna þess að við viljum vera ljóssins og kærleikans börn í þessum heimi og miðla trúararfinum uppbyggilega í trú, von og kærleika, einnig með því að syngja Guði dýrð í þessum helgidómi og heima fyrir kringum jólatréð sem minnir á jötuna sem jólabarnið var lagt í. Það er stundum sagt að jólin séu hátíð barnanna en hittir ekki boðskapur jólanna fyrir barnið sem býr innra með okkur sjálfum? Barnið sem elur með sér þrár og vonir um það t.d. að geta lifað við öryggi í þessum fallvalta heimi þar sem menn berast um á banaspjótum og eiga erfitt með að friðmælast? Aðventan boðar okkur einnig að við þurfum að leitast við að koma lagi á það sem hefur aflagast í samskiptum okkar við okkar nánustu vandamenn og vini. Hver vill búa við ósætti á sjálfri jólahátíðinni? Við þurfum því að brjóta odd af oflæti okkar og rétta fram sáttarhönd og leitast þannig við að gera þennan heim sem við lifum í að sannkölluðum griðastað fyrir okkur og afkomendur okkar. Guð hefur þegar stigið skrefið til okkar að þessu leyti og boðið okkur sáttarhönd. Það er okkar að taka við henni og bjóða hann í syni sínum velkominn til að neyta kvöldverðar með okkur svo ég bregði fyrir mig líkingamáli. Þegar góða veislu gjöra skal er hvergi til sparað þegar vænta má undraráðgjafans, friðarhöfðingjans inn á heimilið, inn í hjörtu okkar mannanna.

Til er sú saga að myrkrahöfðinginn hafi ætlað að afnema jólahátíðina. “Ef mér tekst ekki að binda enda á jólahátíðina, finna mennirnir að minnsta kosti einu sinni á ári þrá í brjósti sér eftir Guði og kristindómnum verður ekki útrýmt af jörðinni.”. Hann velti vöngum yfir þessu. Loksins komst hann að niðurstöðu. Hann fann upp jólaannríkið. Það er tilhlýðilegt að búa sig eitthvað undir jólahátíðina að ytra hætti. En það er ekki tilhlýðilegt að það verði eini undirbúningur jólanna.

Menn segja að í sumum skírnarveislum hafi gengið svo mikið á að fólk hafi gleymt barninu og ekki gefið því næringu. Og fullyrt er að það hafi gerst í jarðarförum að mönnum hafi sést yfir að taka með sér líkkistuna þegar þeir komust loks af stað eftir allt átið og drykkjuna.

Því miður kemur það líklega oft fyrir að fólk leggur svo hart að sér við undirbúning jólanna að enginn tími gefst til þess að hugsa um hann sem er kjarni jólanna, hið eiginlega tilefni.

Ætlum við að þreyta sama kapphlaupið og undanfarin ár? Mér sýnist raunar sumir byrja viku fyrr en ella ef marka má auglýsingaskrumið í fjölmiðlunum. Eða viljum við vera hljóð fyrir Drottni og stilla svo hugi okkar að við fáum numið hljóminn frá himnum?

Vangæslan mín er margvísleg Mildasti Jesús, beiði eg þig Vægðu veikleika mínum. Forsómun engin finnst hjá þér. Fullnaðarbót það tel ég mér. Styrk veittu þjónum þínum. ( H. P.)

Guð gefi okkur eftirvæntingarríka aðventu og gleðileg jól í Jesú nafni. Amen.