Vestfirsk ferming

Vestfirsk ferming

Að vera þrjá mánuði að ferma fimmtíu börn, er ekki til marks um einhvern hægagang heldur erum við með þessu að koma til móts við ólíkar kringumstæður hverrar fjölskyldu. Þegar fermingarnar dreifast á svona langan tíma þá hverfur líka mikið af þeirri spennu og markaðsvæðingu, sem stundum hefur verið fylgifiskur ferminga.
fullname - andlitsmynd Magnús Erlingsson
25. mars 2008

Við þjónum einstaklingnum

Það verða sjö fermingarmessur í Ísafjarðarkirkju og var sú fyrsta á pálmasunnudag en sú síðasta 15. júní. Fjöldi fermingarbarna í hverri athöfn er alveg frá einu barni upp í átján. Þá verður ein fermingarmessa í Hnífsdalskapellu. Og loks fermist einn drengur í Staðarkirkju í Aðalvík í ágúst.

Hér vestra höfum við horfið frá því að hafa nokkrar stórar fermingarathafnir og reynt í staðinn að hafa hverja fermingarmessu einstaka og sniðna að þörfum hverrar fjölskyldu. Við leggjum áherslu á þátttöku unglinganna sjálfra bæði í söng og lestri. Andrúmsloftið er afslappað og engin fermingarmessa er lengur en klukkustund.

Að vera þrjá mánuði að ferma fimmtíu börn, er ekki til marks um einhvern hægagang heldur erum við með þessu að koma til móts við ólíkar kringumstæður hverrar fjölskyldu. Þegar fermingarnar dreifast á svona langan tíma þá hverfur líka mikið af þeirri spennu og markaðsvæðingu, sem stundum hefur verið fylgifiskur ferminga.

Þrjá daga að ferma eitt barn

Á Vestfjörðum er annar taktur í mannlífinu. Hér getur það tekið heila þrjá daga að ferma eitt barn. Fyrir nokkrum árum síðan tók ég það að mér að ferma pilt í Bænhúsinu í Furufirði. Sigldi ég með skipi norður fyrir Horn og var ferjaður á gúmmíbáti í land í roki og ólgusjó. Lá þar við í tjaldi. Daginn eftir var pilturinn fermdur og haldin mikil veisla í stóra bjálkahúsinu í Furufirði. Fermingarpilturinn, Einar Birkir Sveinbjörnsson hafði dagana áður unnið að því hörðum höndum að slá og hreinsa burt hvönn og njóla svo að kirkjan sæist og veislugestir gætu gengið til messunnar. Má segja að hann hafi í sveita síns andlits rutt sér braut að kirkjunni.

Á þriðja degi héldum við fótgangandi heim á leið. Gengið var yfir Skorarheiði. Þar datt nú reyndar prestsfrúin á bólakaf í ána. Náðum henni þó skjótlega aftur upp á þurrt land. Við leiði Fjalla-Eyvinds í Hrafnsfirði sótti okkur svo hraðnökkvi, er ferjaði okkur yfir Djúpið.

Biblíusögur og busl

Fimmtíu og tveir unglingar hafa verið í fermingarfræðslu í Ísafjaðarkirkju í vetur. Auk hefðbundinna fræðslustunda um kirkju og kristni þá var fræðsla um skaðsemi fíkniefna. Það forvarnaverkefni var unnið í samstarfi við Tollgæsluna og komu tollvörður og fíkniefnahundur í heimsókn í kirkjuna.

Þá söfnuðu unglingarnar peningum fyrir Hjálparstarf kirkjunnar svo að hægt væri að grafa eftir hreinu vatni í Austur-Afríku og reisa þar brunna með handdælu. Einn slíkur brunnur getur tryggt þúsund manns hreint vatn í marga áratugi, en hreint vatn er undirstaða heilbrigðis.

Haldið var vídeókvöld í safnaðarheimilinu og horft á rómantíska gamanmynd, sem varpað var upp á stóran vegg meðan presturinn sýndi hversu klár hann er í því að poppa. Þá var farið í ferðalag inn í Ísafjarðardjúp og gist þar í Reykjanesi. Í kvöldkyrrðinni og myrkrinu, með tindrandi stjörnur á himni var synt í lengstu sundlaug landsins, sem jafnframt er ein sú heitasta. Kvöldvakan verður lengi í minnum höfð og er undirritaður bundinn þagnareiði að segja engum frá því, sem þar var brallað.