Stefán

Stefán

Þjónusta okkar á jólunum er ávallt fyrst og fremst þjónustan við Guðs heilaga Orð. Það gildir ekki síður þegar hún kemur fram í því að gera vel við heimafólk og gesti og búa þeim veislu. Því að þjónustan við okkar nánustu, er þjónusta við Krist.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
26. desember 2005

En hann horfði til himins, fullur af heilögum anda og leit dýrð Guðs og Jesú standa til hægri handar Guði og sagði: Ég sé himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði. Þá æptu þeir hástöfum, héldu fyrir eyrun og réðust að honum, allir sem einn maður. Þeir hröktu hann út úr borginni og tóku að grýta hann. En vottarnir lögðu yfirhafnir sínar að fótum ungum manni, er Sál hét.

Þannig grýttu þeir Stefán. En hann ákallaði Drottin og sagði: Drottinn Jesús, meðtak þú anda minn. Post. 7. 55 -59

Myndin sem dregin er upp í þessum texta annars jóladags er ekki friðsæl eins og sú sem jólaguðspjallið dregur upp. Margir listamenn hafa spreytt sig á því að festa jólanóttina í Betlehem á mynd. Í túlkun þeirra sumra felst í senn guðfræðileg íhugun og nærfærin tjáning trúarinnar. Þar er fæðing frelsarans sannarlega aðalatriðið en um leið er vísað lengra. Þá gægjast fram tákn um sögu hins nýfædda og ætlunarverk hans.

Dæmi um það er krosstré í skugganum bak við jötu Jesúbarnsins.

Krossinn sem stendur við enda jarðvistar Jesú Krists var sjáanlegur frá upphafi.

Þegar ákveðið var að halda fæðingarhátíð frelsarans 25. desember var jafnframt ákveðið að halda næsta dag, hinn 26. desember, minningardag um fyrsta píslarvottinn, Stefán djákna.

Stefán var jafnframt sá fyrsti sem valinn var til aðstoðar við hina postullegu þjónustu. Meðan postularnir sáu fyrst og fremst um þá hlið þjónustunnar sem snéri að boðun orðsins og varðveislu kenningarinnar, skyldu djáknarnir annast um aðrar þarfir safnaðar og einstaklinga og finna leiðir til að mæta þeim. Djáknaþjónustan var þó aldrei þegjandi þjónusta við borð heldur kröftug boðunarþjónusta, eins og ræða Stefáns í Postulasögunni er dæmi um. Sannarlega sinntu þeir um líkamlega velferð safnaðarins, en þeir gerðu það sem þjónar Guðs orðs.

Þetta skyldi kristið fólk á jörð hafa sérstaklega í huga. Þjónusta okkar á jólunum er ávallt fyrst og fremst þjónustan við Guðs heilaga Orð. Það gildir ekki síður þegar hún kemur fram í því að gera vel við heimafólk og gesti og búa þeim veislu.

Því að þjónustan við okkar nánustu, er þjónusta við Krist.

En ekki aðeins þess vegna heyrir saman jólaguðspjallið og minning píslarvottarins Stefáns. Kirkjan sem tekur undir gleði- og fagnaðarsöngva himneskra hirðsveita á jólanótt, getur ekki gleymt því að á hennar eigin vegi er blóð píslarvottanna, eins og á vegi meistarans. Hún má heldur aldrei gleyma því að enn þann dag í dag er fólki misþyrmt og það deytt vegna trúar sinnar. Og heimurinn sem frelsarinn fæddist inn í, var óvinveittur, fallinn heimur.

Um þetta allt bera textar annars jóladags vitni. Samt er algengast er að horfa markvisst framhjá þeim. Væntanlega er það til þess að spilla ekki jólagleðinni með sorgarsögum. En sorgin á líka sinn stað á jólum. Eins og Stefán.

Barnið í jötunni er frelsarinn á krossinum, í bjarma eilífs lífs.

Eftir þögn jólaföstunnar hljómar dýrðarsöngur kirkjunnar: Dýrð sé Guði í upphæðum, að nýju í messu jólanna. Í dýrðarsöngnum er allt verk Guðs vegsamað.

Söfnuðurinn tekur undir með Stefáni í sýn hans og andlátsorðum :

... þú sem situr við hægri hönd föðurins, miskunna þú oss. Því að þú einn ert hinn heilagi, þú einn ert Drottinn, þú einn ert hinn hæsti, Jesús Kristur með heilögum anda í dýrð Guðs föður. Amen.