Þú átt gott

Þú átt gott

Þrettán dagar jóla eru að baki og senn heilsar hann okkur með sínu gráa aðdráttarafli – sjálfur hversdagurinn.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
06. janúar 2019
Flokkar

Þrettán dagar jóla eru að baki og senn heilsar hann okkur með sínu gráa aðdráttarafli – sjálfur hversdagurinn.

Þú átt gott

Við setjum jólaskraut í geymslu og viljum helst ekki vita af því næsta tæpa árið. Jólatré enda í stórum bálkesti og brennan sú eru auðvitað stórmerkileg. Við stöndum umhverfis bálið og eyðum þessu fyrrum stofustássi að viðstöddum álfum og forynjum. Þetta er eitthvert sambland jóla, áramóta og hvunndags þar sem allt er í uppnámi, skil heima mætast og virðingarstigum er snúið á hvolf.

Annað dæmið er helsta umræðuefnið þessara daga, hið séríslenska karnival þar sem við horfum upp í efstu lög samfélagsins og gerum stólpagrín að þeim sem þar sitja. Hér er sumsé talað um sjálft skaupið. Sum gömul skaupatriði hafa öðlast sess í menningunni og eru innblástur gárungum í tilsvörum og orðatiltækjum: „Á ekki bara að svívirða móður manns?“ spurði Edda Björgvins: Sjálfur fæ ég stundum að heyra: „Merkja þetta betur næst, Skúli minn“ einmitt úr þessum ranni.

Þrettándinn er stefnumót hins hátíðlega og litríka og þess sem er fábrotið, venjulegt og gengur sinn vanagang. Það eru mikil forréttindi að fá að njóta hvors tveggja og við erum öfundsverð í ljósi sögunnar. Allar breytingar krefjast þó einhvers af okkur. Sumir verða kvíðnir í aðdraganda stórhátíða og fyrir öðrum taka nú við myrkir dagar án mikillar tilbreytingar. Flest fáum við í það minnsta snert af þeim kenndum.

Ein af mínum eftirlætisbókum heitir, Þú átt gott Einar Áskell og hún fjallar einmitt um þetta: Þegar tilveran skiptir sparifötunum út fyrir fábreyttan klæðnað. Hinn næmi höfundur Gunilla Bergström lýsir því hvernig þeir feðgar Einar Áskell og nafnlaus pabbi hans dæsa og andvarpa yfir þessum umskiptum. Þeim finnst tilveran orðin harla grá og sakna hátíðarinnar.

En amman skemmtir sér konunglega og bendir þeim á að tilbreytingin væri nú ekki mikil ef alltaf væri hátíð. Og þaðan kemur uppbyggilegur titill verksins: Þú átt gott Einar Áskell – það er einmitt gæfa þín að hversdagur skuli hefja að nýju innreið í tilveruna. Gráu og daufu tónarnir eru nauðsynlegir til þess að þeir litríku fá að njóta sín. Sannarlega er hinn rammíslenski þrettándi, óður til þeirrar hugsunar.

Flóttafólk

Hin gráleitu tilbrigði eru fleiri. Ískaldur veruleikinn er einn þeirra. Hér er það ekki fábreytileiki tilverunnar sem kallast á við litadýrð jólanna heldur er sjónum okkar beint að erfiðum aðstæðum fólks. Hér hlýddum við á söguna af því þegar Jósef, María og Jesús þurftu að flýja land. Já, við lásum um flóttamenn. Í bakgrunninum var hið óttaslegna yfirvald sem sveifst einskis í viðleitni sinni til að tryggja völd sín.

Hér stöndum við frammi fyrir illsku heimsins. Jesús frá Nazaret, sá sem átti eftir að enda líf sitt á krossi endurspeglar hlutskipti þeirra sem þurfa að flýja valdhafa, þar sem óttinn og uggurinn er samofin því að beita varnarlaust fólk ofbeldi og yfirgangi. Sú hugsun hefur verið við lýði í kristinni kirkju að túlka líf Jesú með þeim hætti að þar setji hann sig í spor þeirra okkar minnstu systkina.

Víða í fornum kirkjum Evrópu er að finna málverk af krossfestingunni sem gerð voru á tímum þar sem bólusótt geysaði og hinn krossfesti ber á sér kaun lík þeim sem fylgdu banvænni veikinni. Og sjálfur tengdi Jesús saman hið æðsta og hið lægsta þegar hann talaði fyrir munn dómarans á efsta degi og sagði að allt það sem við gerðum hans minnstu systkinum það myndum við gera honum.

Í því ljósi verður saga Mattheusar af Jesú sem flóttabarni svo áleitin. Hún færir okkur inn í veruleika lífsins og þarna er barnið, sem þáði gjafir hinna tignu gesta, orðið brottrækt og hörfandi undan ofríkinu. Jólaskrautið er tekið niður. Fallega sagan af fæðingunni í Betlehem. Heimurinn er stundum átakanlega vondur kvað Megas. Hér skynjum við skuggahlið tilverunnar og þann lamandi ótta sem því fylgir að vita að hinu veikburða lífi er ekki aðeins ógnað af völdum náttúru, sjúkdóma, kulda, skorti eða því öðru sem reynist ungu lífi hættulegt. Yfirvaldið hefur fengið fregnir af því að stöðu þess er ógnað. Veiklyndið dvelur undir skrúðanum. Óttinn nagar sálina og nærist því hversu ótraustar þær eru stoðirnar sem halda valdhafanum uppi.

Þetta þekkjum við úr þessum heimi okkar. Myrkur sjálfhverfunnar leynist víða og grefur undan því sem gott er og markmiðið verður ekki annað en að tryggja þann í sessi sem heldur um stjórnartaumana. Þetta vald birtist með margvíslegum hætti. Við sjáum það í fari þeirra sem stýra löndum, samfélögum og fyrirtækjum og í raun öllum gerðum mannlegs samfélags.

Reiðilestur

Meistari Jón Vídalín gerði þetta að yrkisefni í postillu sinni frá árinu 1718. Í umfjöllun um þessa frásögn guðspjallsins beindi hann augum að Heródesi sem er í augum predikanas, harla máttvana og magnlítill karl. Það má vel skoða orð Vídalíns í því ljósi sem skaupið er, sem er jú eins konar karnival þar sem öllu er snúið á höfuð. Þeir sem efstir tróna þurfa að þola háð og spé. Það sýnir mögulega hversu óskýr sá stigi er á okkar dögum að nú eru persónur í skaupinu farnar að kveina undan gríninu og finna því allt til foráttu.

Vídalín setur upp sitt áramótaskaup um þetta leyti árs þar sem hann ræðir um hinn mikla og máttuga Heródes: Frásögnin hefst á þessum orðum:

Þá sá Heródes að vitringarnir höfðu gabbað hann og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri en það svaraði þeim tíma er hann hafði komist að hjá vitringunum.

Þetta er hinn nafntogaði Reiðilestur Vídalíns sem fjallar um reiðina sem slíka. Höfundur fer á þvílíkt flug er hann lýsir áhrifum þess þegar heiftin stýrir fólki, að enn vitna menn til þeirrar samlíkingar sem hann dregur upp:

En sá, sem reiður er, hann er vitlaus. Og því segir Horatíus, að hún sé nokkurs konar stutt æði, teiknandi þar með, að enginn sé munur þess, sem reiður, og hins, sem vitstola er, nema að reiðin varir skemur, æðið lengur, og eru þó dæmi þess, að sumir hafa búið svo lengi að heiftinni, að þeir hafi aldrei orðið heilvita aftur.

Já, hér sjáum við hvernig ofbeldið og vanmátturinn eru tvær hliðar á sama peningnum. Slíkar aðstæður birtast okkur víða. Við sjáum það í samskiptum stétta, kynþátta, kynja – og bera það með sér að þau sem yfirráðin hafa reyna að viðhalda þeim með órétti og aflsmunum. Aftur verður saga Jesú frá Nazaret eins og stór hugleiðing um þennan veruleika.

Sagan af því þegar þau Jósef og María þurftu að flýja með Jesúbarnið er verðugur endir á hátíð jólanna. Hún minnir okkur á það að enginn er undanskilin þeirri grimmd sem býr í heiminum. Jafnvel sá sem Guð sendi í heiminn er í hættu þegar valdið birtir sínar skuggahliðar. Andstæðurnar, hið hjálparvana barn og hinn alvaldi landstjóri tala til okkar í guðspjallinu en þær lýsa því líka sem er kjarni í boðskap Biblíunnar. Hið sanna afl býr ekki í vopnum þess sem situr á valdastólnum. Mátturinn leynist í brjósti þess sem á kærleikann og á sér leiðarljós sem vísar til réttrar áttar.

Hátíð og hversdagur

Nú er jólahátíðin á baki. Við eigum sannarlega gott að geta notið bæði hátíðar og hversdags. Um leið erum minnt á það hvernig veruleikinn heilsar okkur og veruleikinn skrýðist ekki þeim skartklæðum sem hátíðin gerir. Við þurfum að horfast í augu við það að heimurinn er stundum vondur, já átakanlega vondur eins og dæmin sýna. Upp úr vanmættinum sprettur illskan. Frá óttanum vex grimmdin og skeytingarleysið. Hin helgustu vé eru svívirt. Sá stóri hópur sem á sér lifandi trú í brjósti og lítur á Krist sem leiðtoga sinn og fyrirmynd finnur fyrir því að ábyrgðin kallar því við erum verkamenn Guðs.

Við kristið fólk ættum að taka það ljós með okkur frá birtu hátíðarinnar og bera það inn í hversdaginn. Það á að skína í lífi okkar og minna okkur á skyldur okkar hvert gagnvart öðru, í heimi sem þarf svo mjög á hugsjónum okkar og kröftum að halda. Þetta ljós er umhyggjan fyrir náunganum einkum þeim sem þarf að þola órétt og ranglæti af hálfu þeirra sem með völdin fara.