Biðjum í anda, sannleika og kærleika

Biðjum í anda, sannleika og kærleika

Guðsþjónusta í upphafi samkirkjulegrar bænaviku 2016 sem var síðasti sd. eftir þrettándann það árið. Lagt var út frá Ummynduninni á fjallinu, Mt. 17. 1-9.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Inngangur Það er bænadagur að vetri og upphaf samkirkjulegra bænaviku (2016). Svo mér finnst eðlilegt að fjalla um bænina og bænalíf. Efni vikunnar er undirbúið í Lettlandi af samkirkjulegri nefnd þar með yfirskrift: „Kölluð til þess að víðfræga dáðir Drottins“ (1Pét 2.9).

Menn tala fjálglega um heilsusamlegt líf og ófeimið er fólk að tala um kynlíf. En bænalíf er eitthvað aftarlega á listanum. Það var lengi vel einn af hornsteinum kristninnar að biðja með börnum sínum kvöldbænir og eigum við mikinn fjársjóð af alls kyns bænaversum í menningararfinum en nú virðist orðið eitthvað rof milli kynslóða. Heimilisguðrækni sem afi minn ólst upp við í Vestur-Skaftafellsýslu er alger undantekning ef hún er viðhöfð en um aldamótin 1900 virtist heimilisguðrækni hafa verið útbreidd. Eitthvað á útvarpið að hafa tekið það hlutverk yfir, en það er líka á undanhaldi. Passíusálmalestur er þó enn við lýði og morgunbænir og guðsþjónustur. Íslensk menning virðist stefna í það að vera gerilsneydd öllu trúarlegu eða alla veganna allri kristinni trúrækni. Er það af sem áður var. Er það eitthvað sem við kristið fólk í landinu viljum? Erum við orðin svo feimin varðandi trú okkar að helst viljum við fara með það allt í felur? Er það vegna þess að fáeinar háværar gagnrýnisraddir vilja koma öllu trúarlegu út af opinberu sviði samfélagsins?

Nýlega var gefin út bók í íslenskri þýðingu eftir merkan þýskan guðfræðing Bonhoeffer. Nafnið ætti að vekja okkur til umhugsunar: Fangelsisbréfin. Það er safn bréfa sem hann skrifaði í fangelsi vegna þess að hann tók þátt í andspyrnuhreyfingunni gegn nasismanum. Hann var handtekinn og fangelsaður og í lok stríðsins var hann tekinn af lífi. Eitt af því sem hann lagði áherslu á var bænalíf og í bréfunum er að finna ljóð og bænir hans sem eru afar hrífandi og lærdómsríkar. Hann hélt því fram að í nútímanum ætti kristnin framtíð sína í bæn og réttri breytni en ekki í valdastöðu í samfélaginu sem stofnun. Og ég er á þeirri skoðun líka. Það er eðli kristinnar trúar. Þess vegna er það mikilvægt fyrir okkur kristið fólk að læra að biðja ef við kunnum það ekki, að sameinast í bæn, fyrir okkur, kirkjunni okkar og með kirkjudeildunum öllum, biðja fyrir samfélaginu, þjóðunum og heiminum öllum, vegna þess að kirkjan er ekki til fyrir sjálfa sig heldur fyrir aðra. Jesús kom ekki til að stofna „klúbb heilagra“ heldur til að kalla okkur til þjónustu sannleikans og kærleikans.

1. Hvað er bæn?  „Bæn er að ákalla Guð í allri neyð“, þannig útskýrir siðbótarmaðurinn Lúther bænina. Það er hlýðni við boðorðið um nafn Guðs (2. boðorðið), við eigum að nota það til að biðja í Jesú nafni, en ekki misnota það né leggja það við hégóma eins og væri það merkingarlaust aukaorð í málinu. En fyrst Guð býður öllum að biðja þá þarf maður ekki að vera prestur til þess heldur mega allir og eiga allir að ganga fram fyrir Guð og biðja hann. Auk þess hvetur Jesús okkur til þess í orði sínu. Auðvitað þarf hugur að fylgja bænamáli, en ef við hugsum til Guðs, lesum um loforð hans í orðinu, lofum hann og þökkum, þá verður okkur fljótt ljóst að margt er öðru vísi en það ætti að vera hjá okkur sjálfum og í mannheimi, þá sjáum við neyðina og áttum okkur á að margt er það sem við þurfum að biðja um. Þá eru það engar romsur af bænaorðum sem við förum með heldur það sem brennur okkur á hjarta.

Það er auðvelt að kenna grundvallaratriði í bæn eins og í söng. Einhverja söngtíma tók ég hjá Guðmundi Jónssyni heitnum. Hann sagði mér til á kortéri eða hálftíma hvernig fara á að við söng. En svo sagði hann mér það að það er ekki hægt að kenna söng aftur á móti er hægt að læra að syngja. Það er þrotlaus æfing og ævilöng iðja. Þannig er það líka með bænina. Þú verður að vilja það að biðja. Stundum kennir neyðin okkur það, stundum gæska Guðs sem við upplifum, stundum erum við leitandi, en sama hver ástæðan er, þá er bænin „andans andardráttur“, eins og bænaskáldið góða Valdimar Briem orðar það. Við þurfum að koma okkur í bænastellingar eða stilla okkur inn á bylgjulengd með Guði.

Haldið þið að það sé hægt? Já, ég veit það. Ég sest gjarnan niður í bæna- og íhugunarstólinn minn á morgnanna. Signi mig og les Davíðssálm og ritningarvers og bæn, síðan hlusta ég, er hljóður. Trúarjátning kristinna manna er að Guð er forsenda lífsins, svo það þarf ekkert að búa eitthvað til: Ég er til, þess vegna er Guð. Í kyrrðinni fer maður að finna fyrir sjálfum sér og veröldinni og hugsar að allt er þetta vegna þess að Guð hefur skapað allt, er hér, eins og ég. Auðvitað getur einhver sagt: Þetta eru nú meiri blekkingarleikurinn. En á móti má segja það að hugsa sem svo að enginn hugur sé á bakvið allt sem er sé nú alvarleg gleymska, undrunarleysi og vanþakklæti. Oft hef ég átt góða stundir og djúpa hvíld á þessum stundum. Það er framlenging á svefninum, svo ef ég hef sofið illa, þá bætir bænastundin upp heilmiklu. Best við þessa bænaiðju er þó það að þegar ég geng út í daginn mæti ég fólki eins og bræðrum mínum og systrum, öll eru þau Guðs börn, eitt særandi orð myndi særa Guð, ógætin framkvæmd gæti meitt eitt af hans börnum. Þetta er að vera meira lifandi, tengdur við lífið og náungann og náttúruna!

Það er til stutt en mögnuð keltnesk bæn sem ég fæ ekki betur séð en túlki þessa sömu bænareynslu. Bænin er svona:

Blessa mér, ó, Guð þá jörð sem ég geng á. Blessa mér, ó, Guð þann veg sem ég feta. Blessa mér, ó, Guð það fólk sem ég mæti. Í dag, í kvöld og á morgun. Amen.

2. Við kristið fólk höfum þurft að lifa við endalausar dylgjur að við séum nánast hálfvitar að halda því fram að Guð sé til, að halda það að Guð hafi skapað en ekki að allt varð til í miklum hvelli. Ungur drengur sagði mér reyndar að hann héldi að Guði hefði skapað mikla hvell þannig hélt hann bæði trúnni og vísindunum. Sjallt! En þetta er nú eins og spila saman á hljóðfæri sitthvert lagið annað í dúr og hitt í moll. Eða að reyna blanda saman olíu og vatni. Ég get haldið því fram að Guð skaparinn merkir einmitt það sem ég sagði áðan. Guð er grundvallaratriðið í bænalífi mínu. Ég gef mér Guð sem forsendu eins og guðleysingin gefur sér að enginn Guð sé til. Svo færum við rök okkur út frá þeim forsendum. Það undarlega er að í hugsun minni get ég alveg gengið út frá því að enginn Guð sé til í röksemdafærslu minni og prófað hvort mér lítist á það. Aftur á móti eru fundamenntalistar eða grunnhyggja eins og Páll Skúlason kallaði þann hugsanagang þannig að þeir sem hugsa á þann veg geta ekki hugsað þannig með mér, siðmenntarmennirnir eru dæmi um það, þeim virðist vera það algjörlega fyrirmunað að hugsa út frá trúarlegum forsendum, vegna þess að þeir eru uppfullir af fordómum. Ég held að aumingjarnir séu að drukkna í eigin fordómum í baráttu sinni að „aftrúa“ allt samfélag, skóla, allar stofnanir samfélagsins og helst hef ég á tilfinningunni að þeir myndu vilja reka trúað fólk á haf út vegna hálfvitaskapar eins og mig. Enda vill ungliðahreyfing þeirra berja mig, prestinn.

(Ein af djúpu trúarhugsunum kristninnar, sem rækt er í bæn, er sú að við sendum valdið til himna, þ.e.a.s. að Jesús Drottinn okkar og frelsari fór með allt vald til himna og situr þar og ríkir. Þægilegt fyrir þá sem eftir sitjum í veröldinni ef valdi hans er hafnað. En ef við gerum það ekki þá lít ég svo á að enginn maður hefur vald yfir mér annar en hann og enginn maður á rétt á slíku valdi nema Drottinn minn. Ég viðurkenni að þarna skortir mig hollustu við mannlegt samfélag. Sömuleiðis er Drottinn sannleikurinn og lífið. Það veldur því að ég get alveg sætt mig við að í veröldinni er sannleikur mannanna takmarkaður og brotakenndur, eins og í skuggasjá, eins og postulinn segir á einum stað. Þarna lenda þeir sem vilja hafa bæði sannleikann og valdið í sínum höndum í nokkrum vanda. Byltingarsinnarnir í Frakklandi vildu deila valdinu í þrennt svo að engin gæti státað af einveldi. Því var skipt í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald eins og við þekkjum í lýðræðissamfélögum. Menn sem taka sér það vald að á villukenndri skoðunarkönnun vilja túlka upp á sitt eindæmi vilja þjóðarinnar eru náttúrulega heimskan uppmáluð á einum stað. Þeir eru líka lélegir lýðræðissinnar og fjölhyggju kunna þeir engan veginn. Og ef að þjóðin öll myndi villast og samþykkja hvaða andskota sem er þá breytir það ekki sannleikanum. Þjóðin glatast vegna þess að hún týnir sannleikanum. Lýðræðið þarf nefnilega að leita sannleikans, gæfu fyrir sem flesta og nærgætni við alla borgara. Fjölhyggja felur í sér að virða sjónarmið annarra og trú mín hindrar mig ekki í því, miklu frekar gerir hún mig færari um það að hlusta á aðra vegna þess að sannleikurinn er á himni en ég er ekki handhafi hans. Aftur á móti leita ég hans í öllu sem ég hugsa, segi og geri. Og ég ætla að vera svo kræfur að ætla meðbræðrum mínum og systrum að gera það einnig. Þá kann að vera að okkur í sameiningu farnist vel.

Þetta er önnur af þeim hugsunum sem er í grunni kristinnar trúarhugsunar. Guð gerir fullkomna kröfu um sannleika. Það er þá ekki aðeins í merkingu raunvísindalegra sanninda heldur líka lífssanninda, lífsspeki. Mælikvarðinn er þar gæfan, blessunin og lífið. Nú er kristnum núið um nasir að þeir lifi í blekkingum. Við eigum að bera ábyrgð á myrku miðöldunum. Ætli megi bera það saman við að Íslendingar bera ábyrgð á djöfulskap, drápum og nauðgunum víkinganna, forfeðra okkar? Það voru Íslendingar! Hvort er það íslenska ríkið eða kirkjan sem ber ábyrgð á galdrabrennum og drekkingum á Alþingi eða var það úrelt mannlegt réttarkerfi? Sögulegar og samfélagslegar rökfærslur virka ekki þannig. Aftur á móti verðum við að horfast í augu við það sem er illa gert út frá þessari hugsun, algjör sannleikskrafa. Það er ein forsenda fyrir gagnrýninni hugsun að geta séð sig utan frá. Trúaður maður sér sig í augum Guðs út frá kröfu um sannleika og kærleika. Það er hin forsendan. Það getur verið óþægilegt, gengið nærri manni og vakið sársauka, angist og iðrun.)

En í þessari gömlu keltnesku bæn sem ég fór með áðan er bænaleiðin mörkuð. Guð er gæskan og kærleikurinn í lífinu. Um það biður kristinn maður föðurinn á himnum. Biðjandi maður gengur inn á við sem leiðir til syndajátningar, þar sem hann viðurkennir allt sem hann brýtur gegn meðbræðrum sínum og systrum. Sálfræðingar myndu kannski nefna það að horfast í augu við vandann. En biðjandi maður setur traust sitt til Guðs sem situr á himni og kemur með neyð sína og samferðafólks síns til hans. Það er leið kærleikans sem postulinn talaði um. Það þýðir að við lítum á raunverulegar aðstæður okkar og samferðafólks okkar og leggjum okkar af mörkum að lífið blessist. Og þá vil ég spyrja: Hvað er fólk að hugsa þegar það hafnar leið bænarinnar? Í bænaarfi okkar kirkju er sálgæsla aldanna, sálmaarfurinn geymir huggun og styrk, leiðbeiningu fyrir sálina. Það er bull og vitleysa í þessu liði sem hafnar því sem það hefur ekki hundsvit á, er sneytt öllu andlegu innsæi og stinga úr sér augum með því sem þau kalla skynsemi. Eigum við kristið fólk að hlusta á villuleiðbeiningar þeirra? Nei, við eigum að vera trú þeim arfi sem Guð hefur gefið okkur og kristnin í landinu. Ég óttast að skynsemistrú tímans komi til með að tröllríða íslenskri menningu og sneiða hana sannleika og kærleika sem kristnin hefur gefið okkur í arf. Eigum við að trúa gagnrýni þeirra sem mér sýnist þeir hafa fengið frá kommúnistum og var notuð gegn kristinni trú og voru þá að ráðast á borgarlega valdastétt sem notaði trúna til að tryggja sig í sessi eða gegn prestum sem þorðu ekki að ganga í trú eins og þeir voru kallaðir til af Guði sjálfum og höfðu lofað opinberlega í kirkjunni. Leið bænarinnar er tryggasta leiðin með Guði undir leiðsögn Meistarans frá Nasaret til gæfulegs samfélags. Það var ábending Bonhoeffers í fangelsinu á sínum tíma, bæn og rétt breytni er leið kirkjunnar, en ekki valdastaða í samfélaginu, heldur þjónusta við fólk.

3. Matteus guðspjallamaður segir okkur frá undrinu á fjallinu. Þar lítum við eins og inn í himininn. Þetta er frásögn af bænastund á fjallinu með Drottni. Jesús fór oft í óbyggðir og upp til fjalla til að ver á bæn og stunda íhugun. Þannig er hann okkur fordæmi. Við eigum að leggja stund á andlegt líf, bænalíf og þjónustu við náunga okkar. Guðspjallið kennir okkur að fylgja Jesú og bænin er þar grundvallarþáttur. Því miður höfum við glatað mikið af þeim andlega auð sem við eigum í menningarsjóði kirkju okkar. Það þarf ekki lengi að lesa í guðspjallinu til að sjá að það eru leiðbeiningar í því. Kannski á gagnrýnin við að við erum að reyna tryggja valdastöðu okkar í samfélaginu. Þá þurfum við að ganga í okkur og iðrast og fara upp á fjallið til Drottins í bæn. Það sem gerist þar er bæði ánægjulegt og ógnvekjandi. Jesús einn birtist okkur sem Drottinn og frelsari. Játning okkar er að hann er Drottinn Jesús Kristur, Sonur Guðs. Við eigum að vera vitnisburður um hann í heiminum og taka afleiðingunum af því að fylgja honum í sannleika og kærleika. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.