Þjóðkirkjufrumvarpið

Þjóðkirkjufrumvarpið

Öll þau atriði sem hér eru upp talin eru álitamál. Þetta eru líka praktísk mál. Með því að fjölga verkefnum leikmanna og fækka verkefnum vígðra þá kemur upp sú spurning hvernig á að fjármagna slíkt. Leikmenn gefa ekki af tíma sínum endalaust án þess að fá greiðslu fyrir.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
08. febrúar 2012

Á síðustu kirkjuþingum hefur nýtt þjóðkirkjufrumvarp verið á dagskrá. Milliþinganefnd hefur endurskoðað frumvarpið með tilliti til athugasemda sem fram hafa komið á þinginu og athugasemda sem fram hafa komið á kirkjulegum fundum þar sem frumvarpið hefur verið kynnt. Fyrir nokkrum dögum tilkynnti formaður nefndarinnar og forseti kirkjuþings Pétur Kr. Hafstein að nefndin hefði ákveðið að falla frá helsta ágreiningsefni frumvarpsins um að prestar væru embættismenn þjóðkirkjunnar en ekki ríkisins. Frumvarpið verður áfram til umræðu á kirkjulegum vettvangi meðal annars á héraðsfundum og er það virðingarverð leið til að skapa sátt um það. Nú er þörf fyrir einingu og samhug eins og forseti kirkjuþings bendir á í grein sinni.

Í frumvarpinu er ekki stefnt að aðskilnaði ríkis og kirkju og er það vel. Það væru mikil mistök enda kirkjan eitt af grunnstoðum íslensks samfélags. Líklegt er þó að miklar umræður verði um þjóðkirkjuna og samband hennar við ríkið þegar umræða um tillögur stjórnlagaráðs verða og um það hvort afnema eigi 62. grein núverandi stjórnarskrár um stuðning ríkisvaldsins við þjóðkirkjuna. Einnig geta viðræður kirkju og ríkis um kirkjujarðasamkomulagið haft áhrif á skoðanir um samband þjóðkirkjunnar og ríkisvaldsins. En í þeim viðræðum er brýnt að gæta hagsmuna þjóðkirkjunnar í hvívetna.

Þjóðkirkjufrumvarpið ber þess merki að nefndin telur þörf á breytingum í ýmsum innri málum kirkjunnar. Ef það verður að lögum mun það leysa af hólmi lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar sem nú eru í gildi. Nefndin hefur tekið mið að því sem ekki hefur reynst vel í þeim lögum eins og tillaga þeirra um að úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd starfi ekki lengur, heldur fjalli aðrir um ágreiningsmál og agamál innan kirkjunnar.

Önnur breyting er að biskup Íslands verði ekki lengur forseti kirkjuráðs og telst það mikil breyting frá því sem nú er. Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar nema lög mæli á annan veg, segir í frumvarpinu og svipað orðalag er í núgildandi lögum. Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Lagt er til í 2. mgr. að ótvírætt skuli vera að kirkjuráð beri ábyrgð gagnvart kirkjuþingi en slíkt ákvæði er ekki í núgildandi lögum. Þetta felur til að mynda í sér að kirkjuþing getur vikið einstökum kirkjuráðsmönnum frá eða kirkjuráði í heild. Nánari ákvæði um framkvæmd þessa setur kirkjuþing í starfsreglur, sbr. 2. mgr. 17. gr. og 21. gr. Frumvarpsins“.

Er þessi tillaga í samræmi við anda þessa frumvarps um að auka vald kirkjuþings og fela því fleiri verkefni. Þegar breytingartillögur koma fram er nauðsynlegt að hugsa málið til enda. Einnig er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að leikmenn verði fleiri á kirkjuþingi en vígðir, eins og nú er. Ein breytingartillagan gerir ráð fyrir því að færa fjárstjórnarvaldið til kirkjuþings. Þetta hlýtur að kalla á meiri vinni fulltrúanna og lengri fundarsetu en hingað til hefur verið talið boðlegt að fólk afgreiði nærri 40 mál á 5-6 dögum. Það er til mikils ætlast að mínum dómi.

Einnig er lagt til að tilsjónarskylda prófasts færist yfir á vígslubiskupa. Þetta er mikil breyting frá því sem verið hefur í gegnum aldirnar. Eitt meginverkefni prófasta er að vera „augu og eyru“ biskups heima í héraði og trúnaðarmenn biskups þar. Einnig er lagt til að prófastar verði ekki lengur formenn héraðsnefnda heldur verði það leikmaðurinn í héraðsnefndinni.

Öll þau atriði sem hér eru upp talin eru álitamál. Þetta eru líka praktísk mál. Með því að fjölga verkefnum leikmanna og fækka verkefnum vígðra þá kemur upp sú spurning hvernig á að fjármagna slíkt. Leikmenn gefa ekki af tíma sínum endalaust án þess að fá greiðslu fyrir. Nú sjá t.d. prófastar, a.m.k. í fólksfærri prófastsdæmunum um ýmis verkefni á milli héraðsnefndafunda og undirbúa héraðsfund. Það tekur tíma fólks sem hefur laun á meðan vinnan er unnin. Munu útgjöldin ekki aukast ef formenn héraðsnefndanna eru leikmenn?

Við verðum líka að vera hagsýn í hugsun. Við megum ekki gera þau mistök í lagasetningu og/eða relgugerðarákvörðunum að það gangi ekki í raunveruleikanum. Nýlegt dæmi, sem kostaði kirkjuna fjármuni og kirkjuþingsfulltrúa tíma, höfum við í huga sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir ef kirkjuþingsfulltrúar hefðu haft meiri tíma til umfjöllunar á kirkjuþingi í nóvember.

Margar breytingar sem lagðar eru til í þjóðkirkjufrumvarpinu eru í samræmi við þá stefnu að auka vægi leikmanna og draga úr vægi vígðra. Ég vil sannfærast um að það sé kirkjunni til hagsbóta áður en ég samþykki þær. Ekki vegna þess að vægi leikra er aukið með auknum völdum kirkjuþings þar sem þau eru í meirihluta heldur vegna þess að við verðum líka að líta á málin hagsýnum augum.