Umburðarlyndið

Umburðarlyndið

Á unglingsárum mínum stundaði ég nám í enskuskóla í Englandi. Ég bjó hjá fjölskyldu sem hýsti nokkra nemendur skólans. Þar var múslimi sem tók fram bænateppið sitt fimm sinnum á dag og baðst fyrir með því að snúa sér í átt til Mekka.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
11. desember 2007

Á unglingsárum mínum stundaði ég nám í enskuskóla í Englandi.  Ég bjó hjá fjölskyldu sem hýsti nokkra nemendur skólans.  Þar var múslimi sem tók fram bænateppið sitt fimm sinnum á dag og baðst fyrir með því að snúa sér í átt til Mekka. Eitt kvöldið fórum við saman á krá og drukkum nokkrar ölkrúsir. Hann sagðist ekki mega drekka áfengi samkvæmt siðum múslima en nú væri hann fjarri heimalandinu. Því gæti hann drukkið. Síðar kom í ljós að hann var samkynhneigður.   Ég sat mörgum árum síðar á bekk í Minneapolis og beið eftir strætisvagninum. Við hliðina á mér sat tötrum klæddur maður. Andlitið var blásvart, hendurnar grófgerðar. Hann lyktaði af vínanda. Ég hafði ekki séð svartari mann. Hann ávarpaði mig en ég svaraði honum ekki vegna þess að ég var hræddur við hann.   Ég fór á  landsleik á Laugardalsvellinum. Sætið í gömlu stúkunni var betra en  bekkurinn í Minnesota forðum.  Stemningin stigmagnaðist. Áhorfendur gátu vart haldið vatni af hrifningu eða vandlætingu yfir gangi leiksins. Ég hreifst með og lét ýmislegt yfir mig ganga, t.d. kaffislettur. Brátt fór ég að hrópa í vandlætingartóni með áhorfendaskaranum: ,,Út af með dómarann!”.   Það er erfitt að vera múslimi og eiga líflát yfir höfði sér fyrir samkynhneigð. Það er  torvelt að vera litinn hornauga vegna  húðlitar. Það er örðugt að vera dómari í knattspyrnu.  Það er  erfiðast  að dæma sjálfan sig.   Á vegferð minni hef ég komist í kynni við  fólk af öllum kynþáttum með ólíkan menningarbakgrunn, trú og siði.  Þessi kynni hafa laðað fram  jákvætt hugarfar í mínu dagfari. Ég hef jafnan litið í eigin barm og barist við mína hleypidóma. Ég á töluvert langt í land með að verða fordómalaus en ég leitast  við að bera virðingu fyrir fólki í ljósi gullnu reglunnar. Sjálfsskoðunin hefur aukið dómgreind mína. Fyrir það er ég þakklátur. Það er  lífstíðarverkefni að sigrast á eigin hleypidómum.  

Góðar stundir.