Fyrirgefning fyrir hvern?

Fyrirgefning fyrir hvern?

Er auðveldara að fyrirgefa stóru hlutina en þá litlu? Er nauðsynlegt að fyrirgefa allt? 
Fyrir hvern er fyrirgefningin? Er erfiðara að fyrirgefa okkur sjálfum en öðrum? Er auðveldara að fyrirgefa en að biðjast fyrirgefningar? Erum við stundum að reyna að fyrirgefa sjálfum okkur eitthvað sem við berum enga ábyrgð á?
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
20. febrúar 2014

Er auðveldara að fyrirgefa stóru hlutina en þá litlu? Er nauðsynlegt að fyrirgefa allt? Fyrir hvern er fyrirgefningin? Er erfiðara að fyrirgefa okkur sjálfum en öðrum? Er auðveldara að fyrirgefa en að biðjast fyrirgefningar? Erum við stundum að reyna að fyrirgefa sjálfum okkur eitthvað sem við berum enga ábyrgð á?

Þetta eru nokkrar þeirra spurninga sem tekist var á við beint eða óbeint í leikritinu Fyrirgefðu ehf. eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur sem sýnt er þessa dagana í Tjarnarbíói í Reykjavík.

Í verkinu er búið að markaðsvæða fyrirgefninguna og minnir hún svolítið á sölu aflátsbréfanna til forna enda er minnst á hana í leikritinu. Munurinn er sá að hér er engin himnaríkisvist í boði heldur harmónískara líf og betri samskipti við náungann og sjálfa(n) þig.

Áhorfandinn fær innsýn í nokkur dæmi um aðstæður þar sem fyrirgefning getur verið knýjandi.

Komið er inn á erfiðleika stofnanna og valdafólks með að biðjast fyrirgefningar og þar nánast vitnað beint í máttlausar fyrirgefningarbeiðnir nokkurra aðila undanfarin ár. Enda var hugtakið “fyrirgefðu” ekki það mest notaða í kjölfar hrunsins 2008 og annarra atburða er fylgdu í kjölfarið.

Nokkrar vísbendingar eru þó um að hugtakið njóti aukinna vinsælda þessa dagana og eru dæmi um að það hafi virkað bæði hratt og örugglega. Eitt nýlegt dæmi átti sér stað þegar ungur íþróttafréttamaður bað alþjóð fyrirgefningar eftir að hafa líkt íslenska landsliðinu í handbolta við Nasista í seinni heimstyrjöldinni. Hann baðst einlæglega afsökunar, nokkrum sinnum, og þjóðin fyrirgaf honum ekki aðeins heldur sáu vinnuveitendurnir enga ástæðu til þess að gera hann ábyrgan orða sinna. Væntanlega dugði þeim einlægnin í orðum hans.

Í leikritinu Fyrirgefðu ehf. er fjöldi trúarstefja enda var fyrirgefningin miðlæg í boðskapi Jesú Krists og í kristinni kirkju.

Jesús var meistari fyrirgefningarinnar og gaf okkur guðsmynd hins fyrirgefandi Guðs. Hann gefur okkur þá von að Guð geti fyrirgefið allt. Allt!

Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir telur í grein sinni, Fyrirgefning – ekki alltaf svarið sem birtist í Fréttablaðinu 16. apríl 2013, að fyrirgefningin sem boðuð er í Nýjatestamentinu snúist m.a. um valdastöðu þess er fyrirgefur og þess sem er fyrirgefið. Hún segir fyrirgefningarlíkan Nýjatestamentisins felast í því að sá eða sú sem fyrirgefur sé alltaf í valdastöðu gagnvart þeim sem er fyrirgefið.

Þrátt fyrir að fyrirgefningin sé miðlæg í kristinni trú þá tel ég að vissulega séu til atburðir, framkoma og aðstæður sem ekki er hægt að fyrirgefa. Og ekki þarf að fyrirgefa, þar sem þeir eru of skelfilegir. Þó er mikilvægt að ná ákveðinni sátt í hjarta sínu við það sem gerðist. Sáttin þarf ekki að felast í fyrirgefningu og ekki heldur í því að sætta sig við hræðilega atburði. Hún felst í því að komast á þann stað að sá eða sú sem braut á þér skiptir þig ekki máli lengur, hefur engin áhrif á líðan þína eða líf þitt. Stundum er erfitt að komast á þennan stað án hjálpar.

Í leikritinu Fyrirgefðu ehf. eru virkilega vondir hlutir fyrirgefnir og ég tel að það sé sannarlega hægt að komast þangað þó ekki sé það alltaf nauðsynlegt.

Leikritið á margar hliðstæður með góðri prédikun þar sem engin endanleg svör eru gefin en mörg verkfæri til áframhaldandi hugleiðinga og úrvinnslu. Þar sem áhorfandanum er beint í ákveðna átt en er þó gefið frelsi til að velja aðra átt.

Ég mæli með þessari sýningu fyrir öll þau sem hafa áhuga á mannlegum samskiptum, samfélagi og trúmálum. Hvort sem áhorfandinn er sammála efnistökunum, skemmtir sér vel eða grætur þá fer hann heim með nesti til áframhaldandi íhugunar.