Yfirburðir elskunnar

Yfirburðir elskunnar

Við erum ábyrg fyrir hugsun okkar og gerðum og munum að það sem við leggjum rækt við vex og dafnar. Kristur hvatti okkur til að rækta með okkur elskuna. Ást til Guðs af heilum hug, elsku til náungans og elsku til okkar sjálfra.

„Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.“ Jóh 15.12-17

Þetta er kærleikurinn fullyrðir Jóhannes guðspjallamaður:

„Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.“ 1. Jóh. 4.10

Það er þannig að Guð kemur alltaf fyrst til okkar með elsku sína. Og ef við áttum okkur á því gerist þetta sem Sigurbjörn Einarsson setur svo fallega í orð í sálminum (sálmab. 711) sem við sungum áðan.

Kristur, í náð þinni komstu til mín, kveiktir það ljós, er mig vakti til þín, orðið þitt varð mér að lifandi lind, ljómaði við mér þín heilaga mynd.

Þegar við förum að hugleiða líf Jesú, fórnardauða hans og upprisu þá fer að lifna þessi heilaga mynd sem sýnir okkur einskæra elsku. Hugsaðu þér: Þú ert elskuð, elskaður eins og þú ert. Þrátt fyrir breiskleikann og vankantana þá skín eldheit elska við þér frá himninum hans. Elska sem vill umvefja þig og umskapa, leiða þig og gefa þér ljós á veginum.

Við heyrðum lesið úr sögu Ísraelsþjóðarinnar þegar hún var í eyðimörkinni (5. Mós.1.29-33). Þar var hún minnt á að Drottinn hefði gengið með henni dag og nótt og vísað henni veginn. Þar eru dregnar upp táknmyndir þess að Guð hafi verið með þjóðinni í eldi að nóttu en skýi að degi. Það vísar til þess að nærvera Guðs hafi átt að vera þeim sýnileg. En Ísraelsmenn tóku illa eftir því þeir upplifðu sig aftur og aftur eina og afskipta í eyðimörkinni sem þeir í 40 ár villtust um. En Móse dró upp mynd þess að Guð hefði borið þjóðina „eins og maður ber son sinn hvert sem“ þjóðin fór. Hér er brugðið upp mynd ástar og velvildar.

Ætli við þekkjum okkur ekki oft í þessu? Guð hvar ertu? Afhverju er þetta svona, afhverju gengur hvorki né rekur? Og við sjáum hvorki né finnum merki Guðs í umhverfi okkar.

Það er athyglisverður punktur í Davíðssálmi 32 þar sem Davíð hefur úthellt hjarta sínu fyrir Guði, játað afbrot sín og fengið syndafyrirgefningu. Þá segist Guð vilja vísa honum veginn. Þar stendur: „Miklar eru þjáningar óguðlegs manns en þann sem treystir Drottni umlykur hann elsku.” Sálm.32.10 Drottni umlykur hann elsku. Það er ekkert sagt um að hinn trúaði sleppi við þjáningu en sá eða sú sem treystir Drottni fyrir lífi sínu er umlukin/n elsku Guðs í aðstæðunum. Það breytir öllu. Það er reynsla hins trúaða öld fram af öld.

Drottinn er með í för en til þess að við upplifum lífið ekki bara eins og möglandi Ísraelslýður í eyðimörkinni þá þurfum við að horfa til ljóssins aftur og aftur, snúa okkur til Guðs með stórt og smátt. Játa stöðuna, horfast í augu við okkur sjálf og Guð. Treysta honum fyrir þessu erfiða í lifi okkar og þá verðum við umlukin elsku. Hinn óguðlegi sem Davíð talaði um er sá eða sú sem ekki vill hafa Guð sem leiðsögumann í lífinu. Það er sá einstaklingur sem ekki er tilbúinn til að horfast í augu við hugsanir sínar og gjörðir, iðrast þess sem illt er, biðjast fyrirgefningar og styrkjast síðan í hinu góða. Áfram lýsir Sigurbjörn þessu samspili Krists og manns í sálminum: Þú hefur játast mér eins og ég er, augað þitt heilaga þekkir og sér hjarta mitt, vafið í villu og tál, vilja minn blindan og flekkaða sál.

Samt viltu eiga mig, allsvana barn, eigrandi skugga um vegalaust hjarn, sekt minni gleyma, þótt særði ég þig, sýkna og lækna og umskapa mig. Sigurbjörn Ein. sb. 711

Þetta er vegferð hvers kristins einstaklings í lífinu aftur og aftur. Og smám saman fær orð Guðs og viðhorf að móta hann og umlykja með elsku sinni. Og elska Guðs til okkar á síðan að smitast út til heimsins.

* * *

Leiðarljós Jesús til lærisveina sinna er enn í fullu gildi: „Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður.“ Jóh. 15.12 Það er einfalt, það er stórt og það er erfitt. En þetta er merkið um að elska Guðs hafi haft áhrif á okkur. Eða eins og Bernard frá Clairvaux sagði: „Við förum að líkjast þeim sem við elskum.“

Í pistlinum segir: „Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.“ 1. Jóh.4.16b Á fyrstu áratugum kristinnar kirkju fóru kristnir menn að huga að sjúkum og munaðarlausum sem engir höfðu skipt sér af. Þannig fylgdi lífum þeirra kærleiksverk. Við sjáum margar aðrar birtingamyndir í heiminum okkar en kærleikann. Þær draga okkur margar niður. Þessi skondna þula varpar ljósi á eina af dökku hliðum mannlífsins, bakmælgina:

Ef sumir væru við suma eins og sumir eru við suma þegar sumir eru frá. Væru sumir ekki við suma eins og sumir eru við suma þegar sumir eru hjá. Ók. höf.

Rógburður ber ekki vitni um elsku. Það var einhverju sinni gömul kona í sveit sem talaði aldrei illa um nokkurn mann. Nágranni hennar trúði ekki að hún gæti haldið þetta endalaust út og vildi láta á það reyna. Hann skrapp í heimsókn til hennar og í rabbi um daginn og veginn sagði hann: „Þú getur nú ekki annað en talað illa um fjandann sjálfan!” Það varð stundarþögn, þá svaraði konan: „Ja, hann er nú duglegur að halda sig að verki.” Hún vissi að hún ætti val í þessari stöðu eins og öðrum og hún valdi leið miskunnar og elsku, jafnvel gegn hinum illa. Hún bar vitni um að vera mótuð af elskunni sjálfri.

Guð gaf okkur frjálsan vilja, hvernig notum við hann? Við vitum að oft notar maðurinn frjálsan vilja sinn kæruleysislega og illa. Við getum tekið Gaddafi sem dæmi, hann fer ekki að Guðs vilja með því að stráfella sitt eigið fólk. Hans vilji sveigist að því að halda sér að völdum á kostnað annarra. Ef við lítum okkur nær sýnir efnahagshrunið okkur spillingu og yfirtroðslu á grundvallarreglum eins og þú skalt ekki rangt við hafa. Mikilvægast er þó að við skoðum okkur sjálf, vegum og metum hvaða hugsanir við fóstrum því að hugsanir okkar leiða síðar til athafna. Okkar frjálsi vilji velur hverju hann leyfir að dvelja hjá sér og dafna og hann velur hvaða hugsunum hann vísar á bug.

Rita Davenport gaf heiminum þessi spakmæli: „Það sem ég hugsa um kem ég á framfæri. Hugsun um velgengni fóstrar velgengni. Hugsun um ást elur af sér ást. Hugsun um öryggi elur af sér öryggi. Hvað er ég að hugsa um í dag?“

Já það er umhugsunarefni að hvaða hugsunum við hlúum. Við erum ábyrg fyrir hugsun okkar og gerðum og munum að það sem við leggjum rækt við vex og dafnar. Kristur hvatti okkur til að rækta með okkur elskuna. Ást til Guðs af heilum hug, elsku til náungans og elsku til okkar sjálfra. Við eigum að horfa á stöðu okkar þar sem við erum núna og spyrja hvernig get ég látið kærleikann blómstra í mínu umhverfi? Það getur stundum verið erfitt að elska. Það getur komið fram í því þegar við þurfum að fórna okkar hagsmunum fyrir hagsmuni annarra. Móðir Theresa sagði að við gæfum nóg þegar við gæfum það mikið að við finndum til undan því. Vinkona mín sagðist alltaf hafa dáðst að mömmu sinni þegar ísinn var búinn og hún var tilbúin að deila sínum parti á milli barnanna. Í barnshuganum var þetta mikil ástarjátning. Við þurfum hvert og eitt að finna út hvernig við getum tjáð ást okkar til umheimsins daglega. Okkur mistekst öllum í því verki. Við skulum ekki rífa okkur niður fyrir það heldur snúa okkur að uppsprettulind kærleikans og leyfa henni að flæða með kærleika sinn til okkar þannig að við getum leyft kærleika himinsins sem vill umlykja okkur að flæða áfram út til heimsins. Þetta þarf ekki að vera mikið í hvert sinn. Það getur falist í hringingu til einmana einstaklings, tillitssemi í vinnunni, þolinmæði gagnvart ástvini eða þeim sem þú þolir ekki o.s.frv. Það er gott ráð að spyrja sig að kveldi: Hef ég gert einhverjum gott í dag? Bónusinn sem fylgir því að gera öðrum gott er þessi hamingja sem við öll erum að leita að. Móðir fórnar sér í dauða fyrir börn sín

Þið hafið sjálfsagt komið í götur í suður hluta Evrópu þar sem þær eru mjög þröngar. Þá eru gjarnan snúrur strengdar á milli húsa þvert yfir götuna. Það var eitt sinn við slíka götu að eldur kviknaði í stóru húsi. Íbúarnir sem inni voru þustu út á götu. Ein móðirin áttaði sig á því þegar hún var komin út að tvö barna hennar voru enn í íbúðinni á þriðju hæð. Hún hljóp með skyndingu inn í húsið og upp til sín. Rétt eftir að hún var búin að finna börnin sín féll logandi tréstólpi fyrir útidyrnar. Hún komst ekki út með börnin. Þegar þau litu út sá hún að ekki gætu þau hoppað niður af þriðju hæð með steinlagða stétt fyrir neðan. Móðirin horfði í angist í kringum sig, þá sá hún að eldurinn var ekki kominn í húsið á móti. Það var gluggi beint á móti hennar glugga. Án frekari umhugsunar snaraðist móðirin upp í gluggakistuna. Hún sagði börnum sínum að vera ekki hrædd, hún ætlaði að teygja sig í gluggann á móti og mynda þannig brú fyrir þau yfir í hitt húsið. Hún lét sig falla að glugganum og gat með erfiðismunum skorðað sig þannig af að fætur hennar hvíldu á gluggakistunni í logandi húsinu en hendurnar héldu í gluggakistuna á húsinu á móti. Eldurinn færðist nær og var farinn að brenna inn í íbúðinni. Móðirin kallaði á börn sín að skríða yfir. Grátandi fikruðu börnin sig yfir sundið. Þau héldu dauðahaldi í mömmu og komust loks yfir í hitt húsið. Þegar seinna barnið steig inn um gluggann voru kraftar móðurinnar búnir. Hún hrapaði til jarðar og dó. Það var móðurást sem rak hana áfram. Hún fórnaði sér í dauða fyrir börn sín.

Það var það sem Kristur gerði fyrir þig og mig. „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.” sagði hann Jóh. 15.13 Og postulinn bætti við: „Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.“ 1.Jóh.4.10