Heilagur andi, lífgjafinn

Heilagur andi, lífgjafinn

Með Jesú Kristi verðum við ekki aðeins hluti af sístæðri sköpun Guðs, öllu sem andann dregur, þessum leyndardómi sem ekkert okkar fær skilið eða skýrt. Með Jesú Kristi fáum við boð um að verða beinlínis bústaður Guðs í meðvituðum kærleika Krists sem við þiggjum að gjöf á persónulegan hátt, með því að elska frelsara okkar og finna ást heilags anda Guðs umlykja okkur, já gegnumsýra okkur.
Mynd

Náð sé með ykkur og friður frá Guði, lífgjafa okkar og lífsanda.

Gleðilega hvítasunnuhátíð.

Undir lok Lúkasarguðspjalls heyrum við síðustu orð Jesú áður en hann var upp numinn til himins. Þar segir meðal annars: „Ég sendi ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið kyrr í borginni uns þið íklæðist krafti frá hæðum“ (Lúk 24.49). Verið kyrr. Enduróman þessara orða er að finna í upphafi Postulasögunnar; þau skyldu bíða eftir því sem faðirinn gaf fyrirheit um „og þér hafið heyrt mig tala um. Því að Jóhannes skírði með vatni en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda, nú innan fárra daga“ (Post 1.4-5).

Verið kyrr, bíðið, bíðið eftir krafti Guðs, bíðið heilags anda Guðs. Í biðinni skynjum við eftirvæntingu því þau sem fylgdu Jesú þekktu flest ritningar Gyðinga og þar svífur andi Guðs sannarlega yfir vötnunum með undrum og táknum. Í Gamla testamentinu er oftast talað um anda Guðs en líka heilagan anda: „Hvar er sá sem lét heilagan anda sinn í hjarta hans?“ (Jes 63.11, sbr. Sálm 51.13).

Verið kyrr, bíðið í eftirvæntingu. Þessi orð eiga líka við okkur sem Jesús ávarpar í dag með hvatningu um að gefa heilögum anda rými í lífi okkar, bíða og vænta snertingar Guðs.

Að vera kyrr, bíða og vænta anda Guðs, er svo magnað. Á núvitundarstundunum okkar hér í Grensáskirkju höfum við talað töluvert um lífsandann. Það gefur auga leið þegar fléttuð er saman iðkun núvitundar og kristinnar trúar að skoða andardráttinn í ljósi Biblíunnar. Í flestum gerðum hugleiðslu og íhugunar er sú einfalda - og yfirleitt ómeðvitaða aðgerð - að draga andann miðlæg. Með því að færa athygli okkar frá þessum sí-malandi hugsunum í höfðinu á okkur – sjálfstali, ósjálfráðum dómum um hvaðeina sem mætir okkur, minningum sem poppa upp við minnsta áreiti, skipulagsáráttunni sem erfitt er að þagga niður í – með því að leyfa okkur að hvíla í andardrættinum getum við opnað nýja meðvitund, nýja leið skynjunar sem leyfir okkur að lifa til fulls þetta augnablik núna, eitt andartak í einu.

Og í þeirri meðvitund vöknum við til dýpri skynjunar á því sem augnablikið færir okkur. Við heyrum fuglasönginn á nýjan hátt, finnum ilm og bragð sem við áður tókum ekki eftir, sjáum fegurðina í því smáa sem mætir okkur og jafnvel snertingin, hvernig húðin nemur við fatnað, hönd við hönd, glasið sem borið er upp að munninum, verður dýpri og merkilegri þegar skilningarvitin fá að lifa til fulls núna, í því sem er. Með því að þiggja lífsandann sem gjöf Guðs í Jesú Kristi, sem heilagan anda Guðs, finnum við lífið streyma, endurnýjast, opnast og augnablikið sameinast eilífð Guðs.

Í Biblíunni lesum við um anda Guðs sem gefur efninu lífið: „Þá myndaði Drottinn Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál“ (1Mós 2.7). Við erum efni, leir af leiri, mold af moldu, og án lífsandans verðum við aftur að mold: Af jörðu ertu komin, að jörðu skaltu aftur verða, af jörðu skaltu aftur upp rísa, er gjarna sagt við jarðarfarir. Enda segir í Prédikaranum (12.7): „og moldin hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, og andinn til Guðs, sem gaf hann“ og í Davíðssálmi 104 (v. 29-30): „Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar. Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar.“

Þannig staðfestir Biblían þá sterku fullvissu sem við mörg höfum fyrir heilagleika lífsins. Við öll sem drögum andann, gjörvalt mannkyn og dýrin stór og smá, eigum Guði lífgjöfina að þakka, enda segir í Davíðssálmi 150 (v. 6): „Allt sem andardrátt hefur lofi Drottinn! Halelúja!“

===

Allt sem andardrátt hefur lofi Drottinn. Býr þá andi Guðs í öllu sem andardrátt hefur? Er anda Guðs kannski að finna í lífríkinu öllu, dýraríki, jurtaríki og steinaríki? Ja, ef við trúum því að Guð sé að baki öllu sem er, ekki bara sem frumafl sem öllu kom af stað heldur sem síkvikur sköpunarmáttur, ef við trúm því hljótum við að sjá Guðs anda að verki í öllu því sem er, jafnvel í grjótinu sem ekki dregur andann. Slík trú er rík í ýmsum menningarheimum og getur auðvitað flokkast sem algyðistrú, að fyrst Guð búi í öllu sé allt Guð. Upp í hugann koma orðin: „Þú mikli, eilífi andi sem í öllu og allstaðar býrð,“ eins segir í Alþingishátíðarkantötunni, verðlaunaljóði Davíðs Stefánssonar fyrir Alþingishátíðina 1930.

Þú mikli, eilífi andi, sem í öllu og allstaðar býrð,
þinn er mátturinn, þitt er valdið, þín er öll heimsins dýrð.
Þú ríktir frá upphafi alda, ert allra skapari og skjól,
horfir um heima alla hulinn af myrkri og sól.
Frá því hin fyrsta móðir fæddi sinn fyrsta son,
varst þú í meðvitund manna mannkynsins líf og von.
Alt lifandi lofsyngur þig, hvert barn, hvert blóm,
þótt enginn skynji né skilji þinn skapandi leyndardóm.
[...]
Allt lofsyngur lífið, og lífið er þú,
mikli, eilífi andi, sem í öllu og allstaðar býrð.
Þinn er mátturinn, þitt er ríkið, þín er öll heimsins dýrð.

Þó skáldið taki sterkt til orða um andann sem í öllu býr er alveg ljóst að ljóðið talar ekki bara um Guð í öllu sem er, heldur einnig Guð sem er handan alls sem við fáum skilið og skynjað, „hulinn af myrkri og sól.“ „Allt lifandi lofsyngur þig [...], þótt enginn skynji né skilji þinn skapandi leyndardóm.“ Kristin trú getur vel tekið undir þessa lífssýn enda segir í Davíðssálmi 139: „Þekking þín er undursamlegri en svo að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxin [...] Guð, hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, hversu stórfenglegur er fjöldi þeirra.“

Í þessu sambandi talar guðfræðin um „hinn hulda Guð“. En þar lætur Heilög ritning ekki staðar numið, við erum ekki skilin eftir í myrkrinu, því óræða, háleita, fjarlæga. Í Gamla testamentinu er Guð sannarlega einnig nálægur og andi Guðs verkar á margvíslegan hátt beint inn í líf fólks.


Í fæðingu, lífi, dauða og upprisu Jesú Krist verður Guð sýnilega nálægur, áþreifanlega nærri öllum skilningarvitum. Þau sem Jesús mætti á veginum sáu Guð, heyrðu Guð tala, gátu snert Guð, fundið ilminn af Guði og jafnvel smakkað nærveru Guðs í grilluðum fiski og glóðuðu brauði. Guð sem gekk um í aldingarðinum í kvöldsvalanum við upphaf daga, sýnilega og áþreifanlega nálægur sköpun sinni, kom til að endurnýja þessa nærveru sem græðgi og dómsýki mannkyns hafði sundrað. Nærvera Guðs var þó aldrei að fullu horfin á brott frá fólkinu, það sjáum við í frásögum Gamla testamentisins og birtist meðal annars myndmálinu um bústað Guðs á himni og á jörðu, ekki síst í þrunginni merkingu sáttmálsarkarinnar. 

Með Jesú Kristi verður endurreisnin, kærleikurinn kemur, kærleikurinn sem breiðir yfir allt, sem sameinar það sem sundrað er, sem endurreisir brotin tengsl. Með Jesú Kristi verðum við ekki aðeins hluti af sístæðri sköpun Guðs, öllu sem andann dregur, þessum leyndardómi sem ekkert okkar fær skilið eða skýrt. Með Jesú Kristi fáum við boð um að verða beinlínis bústaður Guðs í meðvituðum kærleika Krists sem við þiggjum að gjöf á persónulegan hátt, með því að elska frelsara okkar og finna ást heilags anda Guðs umlykja okkur, já gegnumsýra okkur. 

Til ykkar sem elskið mig og varðveitið orð mitt „munum við koma og gera okkur bústað“ segir Jesús við okkur í dag. „Við“ merkir hér eins og í upphafskafla Biblíunnar (1Mós 1.26) Guð, Heilaga þrenningu sem við með orðfæri hefðbundinnar kristinnar guðfræði skilgreinum sem Föðurinn, Soninn og Heilagan anda og sú útgáfa af Níkeujátningunni sem við notum skilgreinir þannig: „Ég trú á einn Guð [...] heilagan anda, Drottin og lífgjafann, sem út gengur af föður og syni og með föður og syni er tilbeðinn og ávallt dýrkaður og mælti af munni spámannanna.“ Heilagur andi er lífgjafi okkar, kraftur Guðs frá hæðum. 

Postulasagan gefur okkur stórkostlega lýsingu á því sem getur gerst þegar heilagur andi Guðs gerir sér bústað í fólki, þegar fólk fyllist heilögum anda: Gnýr af himni, eldtungur og tungumál andans. Tungutal er himnesk reynsla, bænamál og blessun fyrir þau sem það reyna. En koma heilags anda inn í líf okkar getur líka verið með hæglátari hætti, í kyrrð hjartans frammi fyrir Guði, í heilagri lotningu á bænastund, í ástríkri þjónustu, sterkri lífsreynslu úti í Guðs fögru sköpun. 

„Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar.“ Mörg okkar hafa átt slíka trúarlega reynslu þar sem lífsandinn í brjóstinu eins og lifnaði við, endurnýjaðist, allt varð nýtt. Við urðum til á nýjan hátt, dýpri hátt, vöknuðum til vitundar um nærveru Guðs sem gefur lífið, lífið sem opnar nýja sýn, nýjan skilning, nýjan þrótt. Þetta líf er í Jesú sem hefur líf í sjálfum sér, Jesú sem lífgar okkur (Jóh 5.21, 26), veitir okkur líf sem flæðir yfir, líf í fullri gnægð (Jóh 10.10), Jesú sem sendir okkur hjálparann frá föðurnum (Jóh 15.26, 16.7), sannleiksandann sem er hjá okkur og verður í okkur (Jóh 14.17). 

Kom, helgur andi, að ég verði til, kom og endurnýja allt í mér.