Krafa Guðs

Krafa Guðs

Krafa Guðs er að við elskum hann. Að óttast Guð og þjóna honum er það sama og að elska hann og það eigum við að gera heilshugar, með öllu sem í okkur býr, “af öllu hjarta og allri sálu”.

Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn Guð þinn af þér nema þess, að þú óttist Drottin Guð þinn og gangir því ávallt á hans vegum, og að þú elskir hann og að þú þjónir Drottni Guði þínum af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni með því að halda skipanir hans og lög, er ég legg fyrir þig í dag, og þér er fyrir bestu? Sjá, Drottni Guði þínum heyrir himinninn og himnanna himnar, jörðin og allt, sem á henni er... V. Mós. 10.12-14

Krafa Guðs. Getur verið að Guð krefjist einhvers af okkur? Hvernig má það vera? Er ekki Guð kærleikur og frelsi, fullur náðar og miskunnar? Hvernig rímar það við að hann geri til okkar kröfu?

Kröfurnar eru jú nægar fyrir. Við gerum kröfur til okkar sjálfra, til maka okkar, barnanna, samstarfsfólksins – og þetta fólk á ýmsar kröfur á okkur. Gerðar eru kröfur um þjónustu, athygli, kaup og kjör og ætlast til að lífið sé í ákveðnum skorðum. Við búumst við því að allt gangi vel, að fjárhagur og heilsa sé góð, að fólki líki við okkur og fari að vilja okkar í sem flestu.

Getur verið að Guð geri líka kröfur? Reyndar stendur í textanum að Guð krefjist í raun einskis af okkur, nema.... “Hvers krefst Drottinn Guð þinn af þér nema...” Það er þetta “nema” sem öllu skiptir. Guð ætlast ekki til neins af okkur nema eins: Að við óttumst Drottin Guð okkar og göngum ávallt á hans vegum. Það er síðan útskýrt nánar með því sem á eftir kemur, að við elskum hann og þjónum honum af öllu hjarta og af allri sálu – með því að halda skipanir hans og lög....

Getur þetta staðist? Að Guð krefjist sem sagt einskis – nema alls! Krafa Guðs er að við elskum hann. Að óttast Guð og þjóna honum er það sama og að elska hann og það eigum við að gera heilshugar, með öllu sem í okkur býr, “af öllu hjarta og allri sálu”.

Þetta er nútímafólki framandi, að ástin til Guðs eigi að koma fyrst, ofar öllu öðru. Og hún birtist samkvæmt þessu í því að við höldum skipanir þær og lög, sem fyrir okkur eru lögð. Bíddu nú við. Á að setja lífi okkar einhverjar lögmálsskorður? Þurfum við að fara eftir einhverjum bókstaf? Er þetta virkilega svona flókið? Reyndar ekki.

Guð elskar – en hvað með þig? Kristin trú er ekkert flókin. Í því liggur fegurð hennar, í einfaldleika þess að elska Guð heilshugar. Og það sem meira er: Guð elskar okkur að fyrra bragði:

Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf Jh 3.16

Guð elskar. Þaðan sprettur okkur elskan til hans á móti, og elskan út til náungans. Eins og góður faðir, góð móðir, svo notuð séu orð sem við þekkjum úr daglegum veruleika, elskar börn sín og sýnir það með því að hafa ákveðnar væntingar um elsku á móti, einlæga kröfu um heilshugar væntumþykju og virðingu, þannig er Guð. Guð elskar – Guð elskar þig.

Krafa Guðs, skipanir hans og lög eru uppfyllt í kærleikanum, eins og Páll postuli segir: “Skuldið ekki neinum neitt, nema það eitt að elska hver annan, því að sá sem elskar náunga sinn, hefur uppfyllt lögmálið” (Rm 13.8).

Þetta er líka undirstrikað í pistli dagsins orðum Jóhannesar um bróðurelskuna:

Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. Sá sem elskar bróður sinn, hann er stöðugur í ljósinu og í honum er ekkert, er leitt geti hann til falls. En sá sem hatar bróður sinn, hann er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer, því að myrkrið hefur blindað augu hans. 1Jh 2. 7-11

Að elskan til Guðs er undanfari, forsenda, elskunnar til náungans er hins vegar ljóst af bæði textanum úr 5. Mósebók og guðspjallinu, Mk 10.17-27. Við þekkjum öll tvöfalda kærleiksboðorðið, sem einmitt er byggt upp á þennan hátt. Jesús var reyndar ekki upphafsmaður þessarar hugsunar. Báðir liðir kærleiksboðorðsins eru sóttir til Gamla testamentisins (sjá 5M 6.5 og 3M 19.18), en Jesús leggur þetta svona upp fyrir okkur samkvæmt þeirri hefð sem ríkti á hans tíma. Málið er ekki “bara” að elska Guð eða “bara” náungann, heldur er hvort um sig háð hinu. Án elskunnar til Guðs er erfitt að koma fram við fólk af kærleika. Og ef við elskum ekki mennina er ástinni til Guðs augljóslega ábótavant.

Fyrsta boðorðið er grundvöllur hinna Boðorðin tíu eru lesin þennan sunnudag annað hvert ár, ásamt tvöfalda kærleiksboðorðinu. Núna er hitt árið og textar dagins spegla þetta tvennt. Grundvöllur boðorðanna er fyrsta boðorðið, að við höfum ekki aðra Guði en þann Drottinn Guð, sem leiðir lýð sinn út úr þrælahúsi. Af þessu boðorði eru hin afleidd, bæði boðorð 2 og 3 sem varða samskiptin við Guð og líka hin sjö sem snerta samskipti okkar við annað fólk.

Í guðspjalli dagsins bendir Jesús auðmanninum á að skoða hvað bindur hjarta hans. Ert þú tilbúinn að gefa allt upp fyrir Guð? spyr Jesús á móti þegar maðurinn vill fá leiðbeiningar um hvaða verk hann eigi að vinna til að ávinna sér eilíft líf. Ert þú reiðubúinn að gefa Guði hjarta þitt, allt sem þér er dýrmætast? Maðurinn í frásögu Markúsar var það ekki. Líf hans var bundið auðæfum hans. Hann gat ekki haldið fyrsta boðorðið.

Lúther fjallaði mikið um boðorðin tíu, ekki síst fyrsta boðorðið. Samkvæmt honum má skoða brot á boðorðinu um að Guð skipi fyrsta sætið í lífi mannsins á ýmsa vegu:

•Þegar peningar verða mönnum allt, eins og hér í guðspjalli dagsins. Þetta á reyndar ekki bara við um þá sem eiga nóg af peningum heldur líka fólk sem vantar pening og saknar mammons sárlega! •Þegar fólk byggir líf sitt á þekkingu, völdum, vinsældum og heiðri og gera það sem þeim finnst vera eigin gáfur að guði sínum. •Þegar óttinn við erfiðleikana yfirtekur lífið, t.d. hræðslan við veikindi. Í stað þess að snúa sér beint til Guðs og biðja hann að leiða sig leitar fólk ýmissa vafasamra leiða.

Um þetta segir dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson í umfjöllun um túlkun Lúthers á fyrsta boðorðinu:

Hvorki eignir ná gáfur geta talist slæmar, hvað þá umhyggja fyrir heilsufarinu. Allt er þetta gott í sjálfu sér, en þessi gæði snúast gegn manninum þegar hann lætur þau verða að inntaki lífs síns og bindur við þau traust sem þau rísa ekki undir”. Það er þegar áhyggjurnar yfir að glata fjárhagslegu sjálfstæði sínu, vinsældum í þjóðfélaginu eða verða fyrir heilsutjóni taka yfir hugsun okkar að við virðum ekki lengur fyrsta boðorðið. Þá er óttinn við stjórnvölinn, en ekki elskan, hvorki til Guðs né náungans.

Vantraust á Guði – vöntun lífsfyllingar Þetta vantraust á Guði á sér líka innri hlið. Það er þegar maðurinn gerir sjálfan sig að mælikvarða alls, t.d. á sviði fjármála, hæfileika og heilsu. Við reynum að uppfylla allar okkar þarfir, vera sjálfum okkur allt, gera rétt, vinna nóg, í stuttu máli að höndla í eigin mætti kröfurnar um hið fullkomna líf sem við sjálf og umhverfi okkar setur okkur. Þetta er það sem á máli guðfræðinnar er kallað verkaréttlæting. Manneskjan er svo uppfull af ytri og innri kröfum sem hún auðvitað engan vegin fær risið undir. Og margir líða skipbrot þess vegna.

Þetta var einmitt vandi mannsins í guðspjalli dagsins. Þegar Jesús benti honum á að fylgja boðorðum náungakærleikans – þú skalt ekki morð fremja, ekki drýgja hór, ekki stela, ekki bera ljúgvitni eða pretta, heiðra föður þinn og móður - svaraði hann því til að alls þessa hefði hann gætt frá æsku. Hann vantaði fleiri verk til að uppfylla, lengri kröfulista til að finna það sem á vantaði í lífsfyllinguna, þá uppfyllingu lífsins sem Biblían nefnir eilíft líf.

Við hvatningu Jesú átti hann hins vegar ekkert svar. Jesús horfði á hann með ástúð og sá hvað hann vantaði. Lífsfyllinguna sem hann leitaði eftir gæti hann ekki fundið með því að vinna allt rétt á yfirborðinu. Það yrði að rista dýpra, varða sjálfan lífsgrundvöllinn. Hann yrði að verða við hinni einu kröfu Guðs, kröfunni um að treysta algjörlega, elska heilshugar, vera reiðubúinn að leggja allt sitt í Herrans hendur: “Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan og fylg mér”, sagði Kristur. En maðurinn varð “dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur, enda átti hann miklar eignir” (Mk 10).

Hvað er þér fyrir bestu? Þessi maður skildi hryggur við Jesú. Hann gat ekki gefist Guði heilshugar og hætt að treysta á mátt sinn og megin. Hann megnaði ekki að elska Guð af öllu hjarta og allri sálu. Hann þorði ekki að taka skrefið og óttast ekkert – nema það eitt að afneita Guði. Það er það sem átt er við með orðalaginu “að óttast Guð”. Það er að leggja allan sinn ótta í kærleiksríkan faðm Drottins, fela honum allt og biðja þess að falla aldrei utanborðs við náð hans.

Og þar koma þessi styrkjandi orð til sögu, sem við heyrðum áðan í lexíunni: Það er þér fyrir bestu. Það er þér fyrir bestu að reiða þig á Guð einan. Það merkir ekki að við eigum að vera blásnauð, óvinsæl og veik. Nei, það er spurt að hugarfarinu, að við þiggjum allt okkar úr hendi Guðs, hættum að þakka okkur sjálfum þegar vel gengur og væla þegar illa fer. Það er að við elskum Guð framar öllu – og speglum þessa elsku til náunga okkar. Guð á handa okkur góðar gjafir, öryggi jafnt í fjármálum, félagslegum samskiptum og heilsu, en ekkert af þessu á að vera í fyrsta sæti lífsins. Það er okkur fyrir bestu að verða við kröfu Guðs, hinni einu kröfu, sem er að elska – og þiggja ást.

Við spurningunni um hvað eigi að gera til að öðlast eilíft líf (Mk 10.17), eignast hina sönnu lífsfyllingu hér í þessum heimi og handan hans, er aðeins eitt svar. Það svar gefur Jesús: “Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa en fyrir Guði. Guð megnar allt” (Mk 10.27).