Veislan

Veislan

Við Símon bjóðum Jesú gjarnan í mat. Við komum honum fyrir á góðum stað við borðið en ekki allt of nálægt okkur. Hann getur orðið svo erfiður. Boðið getur farið hvernig sem er. Hann ögrar tilveru okkar.

Farísei nokkur bauð Jesú til máltíðar og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, nam staðar að baki Jesú til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. Þegar faríseinn, sem hafði boðið honum, sá þetta sagði hann með sjálfum sér: „Væri þetta spámaður mundi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug.“ Jesús sagði þá við hann: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“ Hann svaraði: „Seg þú það, meistari.“ „Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?“ Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“ Jesús sagði við hann: „Þú ályktaðir rétt.“ Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ Síðan sagði hann við hana: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Þá tóku þeir sem til borðs voru með honum að segja með sjálfum sér: „Hver er sá er fyrirgefur syndir?“ En Jesús sagði við konuna: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“   Lúk 7.36-50  

Veislan Þér er boðið í veislu. Það er matarboð. Sá sem býður er virtur maður í samfélaginu. Hann heitir Símon. Hann er guðfræðingur og Guðsmaður mikill. Hann býður öðru fólki, aðallega körlum í góðum stöðum, flestir eru þeir fræðimenn eins og Símon. Svo býður hann Jesú. Jesús er að öllum líkindum sá eini sem ekki er í góðri eða í það minnsta viðurkenndri stöðu í samfélaginu, í samfélagi trúaðra.  

Jesú er kannski boðið til þess að komast að því í eitt skipti fyrir öll hver þessi maður er. Það er svo óþægilegt að geta ekki staðsett fólk.  

Kannski vildi Símon komast að því hvort Jesú væri spámaður eins og margir héldu fram.  

Kannski átti bara að hæðast svolítið að honum.  

Nafnlaus kona Svo kemur konan. Hún er ein af þessum konum sem eru svo ómerkilegar í huga guðspjallsritara eða sögumanna að hún hefur ekkert nafn.  

Hún er bersyndug (þ.e. óskaplega syndug) og hún heitir ekkert.  

Hún hefur að öllum líkindum brotið af sé í siðferðilegum málum.  

Hún gæti verið gleðikona. Hún gæti líka bara verið gift manni sem ekki er í „réttu“ starfi. Kannski er hún skuldug. Kannski hefur hún haldið framhjá eða tekið þátt í framhjáhaldi.  

Við munum aldrei komast að því hvað gerði hana bersynduga.  

Hún er ótrúlega kjörkuð. Hún er ein af þessum kjarkmiklu konum í Biblíunni og hún er ekki ein um að vera nafnlaus.  

Hún er boðflenna í fínu boði.  

Hún getur ekki hafa vitað hver viðbrögð Jesú yrði þegar hún færi að þvo fætur hans. Kannski hafði hún þó hitt hann áður. Kannski hafði hún sjálf séð hvernig hann kom fram við fólk. Kannski hafði hún heyrt af því. Sagan um Jesú sem kom fram við alla af virðingu, líka þau sem ekki þóttu virðingar verð, hafði borist út. Sagan um manninn sem talaði við konur, afbrotafólk, fólk sem hafði lent utanvið samfélagið, nafnlaust fólk.  

Maður með nafn Við erum í veislu hjá Símoni. Hann hefur undirbúið allt vel. Hann hefur vandað sig við val á gestum. Fólk liggur til borðs eins og siður er í fínni veislum og gæðir sér á dýrindis veitingum.  

Það eina sem ekki er skipulagt er að þessi kona skyldi bjóða sjálfri sér.  

Vandamál Símons er samt sem áður ekki þessi nafnlausa kona. Vandamálið er Jesús. Símon getur alveg losað sig við þessa konu. Það er ekkert mál og þá væri þessi saga ekki í Biblíunni, í mismunandi útgáfum í öllum guðspjöllunum.  

Vandamál Símons er Jesú.  

Jesús leyfir konunni að smyrja fætur sína og sýna sér blíðuhót. Hann horfir í augun á henni og hann sér Hana. Hann sér ekki nafnlausa konu sem hefur brotið af sér. Hann sér manneskju sem er góð sköpun Guðs, hvernig sem líf hennar hefur æxlast.  

Gleðitár renna niður kinnar konunnar. Hún upplifir virðingu...fyrir sér! Hún upplifir að hún er einhvers virði.  

Eða eru þetta kannski sorgartár. Sorg yfir því lífi sem aldrei varð. Hún sér líf sitt í nýju ljósi. Það var aldrei ætlunin að lífið færi á þennan veg, að hún yrði fyrirlitin af öllum.  

Símon og synduga konan Sem sagt, vandamál Símons er Jesús. Hann hefði ekki átt að bjóða þessum manni. Hann vissi svo sem að þetta gæti farið illa en hann gerði ekki ráð fyrir því að þetta færi svona illa. „Ef Jesús væri raunverulega spámaður myndi hann sjá að þessi kona er bersyndug“ hugsar hann. Í augum Símons er konan ekki manneskja. Hún telst ekki með, því hún er ekkert.  

Við megum samt ekki gera Símoni rangt til. Hann er góður maður. Hann er vel menntaður. Hann er Guðsmaður. Hann sækir samkunduhúsið reglulega. Hann biður fyrir fólki, hugsar vel um fjölskylduna sína og gefur fátækum bæði pening og mat. Það er engin ástæða til að gera Símon að „vonda kallinum“ í sögunni. Hann er að öllum líkindum góður maður. En Símon er í góðri stöðu. Hann er einhver. Hann ber nafn.  

Áður en við dæmum Símon ættum við kannski að velta fyrir okkur hvernig við myndum bregðast við í hans sporum. Hversu mikla þörf höfum við til þess að flokka fólk og setja það í hólf til þess að við vitum hvar við höfum það?  

Vandamál Símons er Jesús og vandamál okkar er Jesús. Það er ekkert mál að útiloka konu eins og þessa. En þegar Jesús hefur snert þig, þegar hann er með í veislunni, þá verður það ekki jafn auðvelt.  

Jesús segir hvergi að konan sé saklaus en hann sýnir okkur að hún er jafn mikils virði og kirkjuræknu karlarnir í matarboðinu.  

En það sem konan gerir er að hún gefur sig algjörlega á vald Jesú. Hún gefur sig alla. Hún biður um fyrirgefningu af sál sinni og líkama öllum.  

Jesús þekkir syndir hennar. Hann veit hvað hún hefur gert rangt og hann horfir í augu hennar og segir: „Syndir þínar eru fyrirgefnar. Syndir þínar eru fyrirgefnar“  

Símon og ég Ég verð að viðurkenna að ég á að mörgu leyti auðvelt með að setja mig í spor Símons. Ég vil gjarnan hafa stjórn á hlutum og aðstæðum. Auðvitað vil ég hafa stað í samfélaginu, tilheyra einhverju samhengi, fólki. Hafa stöðu.  

Fólk eins og Símon á erfiðara með að gefa sig algjörlega á vald Jesú. Það er svo stolt. Það getur sjálft og þarf ekki að biðja um hjálp.  

Við Símon bjóðum Jesú gjarnan í mat. Við komum honum fyrir á góðum stað við borðið en ekki allt of nálægt okkur. Hann getur orðið svo erfiður. Boðið getur farið hvernig sem er. Hann ögrar tilveru okkar. En mikið höfum við Símon gott af því að sitja nálægt Jesú og finna hvað það er sem raunverulega skiptir máli. Finna að öll erum við bersyndug og þurfum að kasta okkur í fang Jesú og biðjast fyrirgefningar.  

Við Símon þurfum að læra að láta að stjórn og treysta Guði.  

Það er þá sem Jesús lætur okkur finna að öll erum við jafn mikils virði, sama hver við erum. Sama hvaða stöðu við höfum í samfélaginu. Sama hvort við er um rík eða fátæk, karlar eða konur.  

Jesús Kristur getur ekki reist okkur við nema við viðurkennum veikleika okkar, þorum að viðurkenna fyrir okkur sjálfum og öðrum að við höfum ekki alltaf fullkomna stjórn. Hann reisir okkur ekki við nema við þorum að viðurkenna, að hversu mikill Símon sem blundar í okkur þá erum við öll synduga konan líka. Og hversu syndug og ómöguleg sem okkur finnst við vera, þá er alltaf fyrirgefningu og sátt að fá.  

Ég er sannfærð um að enginn fór ósnortinn úr þessu matarboði hans Símons. Fyrir Símon greyið var þetta að öllum líkindum frekar óþægileg uppákoma. Við vitum ekki hvernig gestunum varð við. Vonandi hafa einhverjir orðið snortnir hvort sem þeir viðurkenndu það eða ekki. Ég veit um eina konu sem fór heim svo djúpt snortin að líf hennar varð aldrei eins og áður. Hún var nafnlaus. Amen.