Elska þrátt fyrir allt

Elska þrátt fyrir allt

Við dáumst að Samverjanum sem lét ekki sitt eftir liggja til þess að hjálpa manninum sem hafði verið barinn til óbóta og skilinn eftir í blóði sínu í vegkantinum. Jafnframt fyllumst við hneykslun í garð prestsins og levítans sem gengu framhjá án þess að virða hann viðlits. Þeir tóku meira að segja á sig stóran sveig er þeir gengu framhjá honum. Dæmisagan um miskunnsama Samverjann kallar þannig fram ýmsar kenndir í brjóstum okkar, hún kallar fram mannlegan veruleik sem er sígildur, sem talar til mannanna barna á öllum tímum, fyrr og nú, í dag.

Og hann sneri sér að lærisveinum sínum og sagði við þá einslega: „Sæl eru þau augu, sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það sem þér heyrið, en heyrðu það ekki.“

Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: „Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“

Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“

Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa.“

En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“

Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá. Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ,Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.'

Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?“

Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum.“

Jesús sagði þá við hann: „Far þú og gjör hið sama.“

Við höfum hlýtt á guðspjall þessa Drottins dags sem er dæmisagan um miskunnsama Samverjann og við skulum nú hugleiða það dálitla stund í návist frelsarans sem er hér hjá okkur í anda sínum. Við skulum opna hugi okkar og hjörtu fyrir lifandi orði hans með bæn og beiðni ásamt þakkargjörð.

Við dáumst að Samverjanum sem lét ekki sitt eftir liggja til þess að hjálpa manninum sem hafði verið barinn til óbóta og skilinn eftir í blóði sínu í vegkantinum. Jafnframt fyllumst við hneykslun í garð prestsins og levítans sem gengu framhjá án þess að virða hann viðlits. Þeir tóku meira að segja á sig stóran sveig er þeir gengu framhjá honum. Dæmisagan um miskunnsama Samverjann kallar þannig fram ýmsar kenndir í brjóstum okkar, hún kallar fram mannlegan veruleik sem er sígildur, sem talar til mannanna barna á öllum tímum, fyrr og nú, í dag. Talar til þín og mín, á þessu andartaki á vegferð okkar í gegnum lífið. Dæmisagan kann að kalla fram erfiðar minningar hjá okkur um vegfarendur sem líkt og presturinn og levítinn létu sem við værum ekki til þegar við þurftum hvað mest á hjálp og stuðningi að halda t.d. þegar sorgin vegna dauða nákomins ættingja þjakaði okkur. Eða þegar þeir sem við héldum að væru vinir okkar komu ekki til okkar þegar veikindi steðjuðu að, andleg sem líkamleg. Á þessu andartaki kann afskiptaleysi prestsins og levítans að minna okkur á það hversu erfitt það getur verið að vera aldraður einstaklingur í öllum hraðanum sem einkennir íslenskt þjóðfélag í dag. En einsemd hins aldraða er oft fylgiifiskur þessa hraða. Við henni þarf að bregðast því að öldruðum fjölgar ört.

Það veit ég vel og sé hversu margir bregðast við og feta í fótspor miskunnsama Samverjans og reka rétt munaðarleysingjans og ekkjunnar og elska útlendinginn og gefa honum fæði og klæði eins og segir í helgri bók. En betur má ef duga skal í íslensku þjóðfélagi nútímans. Ýmis félagasamtök, innan kirkju sem utan, fyrirtæki og einstaklingar hafa gert sér far um að heimsækja ykkur hér í Hvammi og á sjúkrahúsinu í því skyni að gleðja ykkur með ýmsum hætti. Allt þetta fólk hefur hjartað á réttum stað, skynjar þörfina og leitast við að mæta henni á heilbrigðan hátt í þágu þess sem er gott, fagurt og fullkomið en það er sá lifandi mannlegi veruleiki sem Jesús Kristur leitast sífellt við að skapa í okkar samfélagi.

Nýtt boðorð gef ég yður, segir frelsarinn, að þér elskið hver annan. Jesús kenndi okkur þessa dæmisögu til þess að sýna okkur hvernig við eigum að elska, ekki aðeins með orðum heldur í verki og kosta öllu til án þess að krefjast endurgjalds hvernig svo sem vegferð okkar er háttað og aðstæðum í lífinu.

Við spyrjum e.t.v. hvernig okkur sé unnt að elska þrátt fyrir allt sem ber fyrir augu og eyru okkar nema?

Ég minnist orða Móse sem sagði: “Þetta boðorð sem ég legg fyrir þig í dag er þér eigi um megn og það er eigi fjarlægt þér. Ekki er það uppi í himninum og það er eigi hinummegin hafsins. Heldur er orðið harla nærri þér, í munni þínum og hjarta þínu, svo að þú getir breytt eftir því”.

Þessi orð Móse voru Jesú Kristi hjartfólgin. Hann hafði þau í huga þegar hann mætti sérhverri manneskju á vegferð sinni. Hann vissi að anda föður síns var að finna innra með einstaklingnum sem varð á vegi hans og Hann leitaðist við að laða hann fram í dagsljósið í því skyni að upplýsa einstaklinginn um gildi hins góða, fagra og fullkomna í þessum heimi. Hann hjálpaði vegfarandanum sem varð á vegi hans að öðlast nýja sýn á sjálfan sig og umhverfið með því að hlusta á hann og tala við hann í hjartans einlægni, í bæn til föðurins á himnum.

Lögvitringurinn kom til Jesú og spurði hann: “Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf? Lögvitringurinn svaraði með vitrænum hætti með því að þylja upp kærleiksboðorðið en hjarta hans var ekki með í orðum hans. Jesús svaraði: “Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta og þú munt lifa”. Þá spurði lögvitringurinn: “Hver er þá náungi minn?”. Þessi spurning var lævís og hættuleg Jesú Kristi vegna þess að hann hann hafði verið sakaður af Gyðingum um að ganga lengra en lögmálið leyfði.

Jesús svaraði með dæmisögunni um miskunnsama Samverjann. Þegar hann hafði lokið sögunni þá spurði hann lögvitringinn: “Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?”

Lögvitringurinn hugleiddi málið úr sínum vitræna fílabeinsturni í ljósi lögmáls Gyðinga, þess siðar sem hann hafði allist upp við og kunni utan að. Svar hans hlyti að miðast við það sem hann vissi að væri réttast með tilliti til lögmálsins. Svar hans hins vegar kom innan frá hjarta hans, því að það tók fram því sem hann áður hafði haldið að væri réttast: En hann svaraði Jesú með orðunum: “Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum”. Og Jesús sagði þá við hann: “Far þú og gjör hið sama”.

Ég hefði nú viljað sjá andlitsdrætti lögvitringsins þegar hann hugleiddi svar sitt, sjá svitann boga af andliti hans, augntillitið og líkamstjáninguna. Jesús sá það allt saman og hann sá lengra inn fyrir svitastorkna húð lögvitringsins, líkamsvefina, hann sá nýru hans og lungu og las huga hans og snerti hjarta hans með sínum hlýja kærleiksblæ. Vakti með lögvitringnum heilnæmar kenndir sem hann vissi ekki að væru til í sínu fari. Því varð svar hans með þessum hætti eins og við vitum ásamt undangengnum kynslóðum sem numu orð Krists og stefndu eftir því í tímans straumi.

Þetta er verk Heilags Anda sem býr innra með okkur líkt og hjá lögvitrngnum forðum. Við erum öll smíð Guðs, sköpuð til góðra verka til þess að gera þennan heim heilli og heilbrigðari fyrir unga sem aldna. Okkur eru gefin orð heilagrar ritningar sem veganesti fyrir lífið. Þau eru hverjum þeim hollt veganesti sem tileinkar sér þau í lífi og starfi. Þau varða heill okkar og hamingju á gleði og sorgarstundum.

Augu Drottins hvíla á okkur, ekki hlutlaus og köld, heldur í kærleika, í umhyggju fyrir velferð okkar til líkama og sálar, að blessun fylgi vegferð okkar þar sem hætturnar leynast á sérhverjum vegamótum og í hverjum vegkanti. Hjartanlega hef ég þráð að vera með ykkur segir Kristur. Hann þekkir sérhverja dulda þrá í mannsins hjarta, sérhverja ósk, allan ótta og vill gefa þér og mér sinn frið og sitt líf. Hann er besti vinur sem hægt er að hugsa sér og besti þjálfari í mannlegum samskiptum sem til er eins og ég sagði fermingarbörnunum mínum í vor.

Kristur hvetur okkur til þess að vera gjörendur orða sinna en ekki aðeins áheyrendur í þessum víðsjárverða heimi þar sem illskan birtist í ýmsum myndum og grefur undan siðmenningu ríkja heimsins.

Náungi okkar er ekki aðeins sá sem stendur okkur nær eða tilheyrir því samfélagi sem við tilheyrum. Náungi okkar er einnig sá sem býr í öðrum löndum. Hann er Dalítinn á Indlandi, stéttleysinginn, sem fólk af æðri stéttum forðast að láta skuggann af sér falla á af ótta við að verða óhreint. Hann er talíbaninn sem situr í rammgerðu fangelsi Bandaríkjamanna á Kúbu og má sæta niðurlægingu til líkama og sálar. Hann er íslenski gæsluvarðhaldsfanginn sem er leiddur á náttklæðum fyrir dómara. Hann er sérhver manneskja sem Guð hefur skapað.

Við skulum styðja Hjálparstarf kirkjunnar sem er útrétt hönd Guðs í þessum heimi. Þegar við styðjum hjálparstarfið þá erum við gjörendur orða frelsarans Jesú Krists og ölum önn fyrir fátækum og sjúkum, munaðarlausum, ekkjum og börnum sem eru fórnarlömb aðstæðna sem þau ráða ekki við. Nú með haustinu fer í gang hér á landi athyglisvert samstarf Fræðsludeildar Biskupsstofu og Hjálparstarfs kirkjunnar þar sem heimilin í landinu verða einnig hvött til samstarfs í þágu náungans sem er fórnarlamb eigin aðstæðna, fátæktar, hungurs, náttúruhamfara. Markmiðið með samstarfinu er að kenna börnum þessa lands í nánu samstarfi við foreldra hversu lítil gjöf getur komið miklu til leiðar, einnig að gjöfin verði sjálfsögð og eðlileg og krefjist ekki endurgjalds.

Það er athyglisvert og reyndar hneyksli að við Íslendingar skulum ekki verja meiri fjármunum til alþjóðlegs hjálparstarfs en raun ber vitni. Af fréttum að dæma þá verjum við sáralitlu til þessara hluta sé miðað við önnur vestræn ríki. Við erum auðug þjóð og búum í gjöfulu landi og við erum mjög aflögufær. Við þurfum að læra að því fylgir blessun að gefa af okkar veraldlega auði.

Höfum hvatningu Krists í huga á daglegri vegferð okkar og fetum í fótspor miskunnsama Samverjans sem sagði við gestgjafann: “Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur”. Minnumst þess að innra fyrir hverjum og einum náunga okkar í þessum heimi býr andi Guðs og það er okkar kristileg skylda að leitast við að mæta þörfum hans til líkama og sálar. Amen í Jesú nafni. Amen.

Megi friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveita hjörtu yðar og hugsanir í Jesú Kristi. Amen.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag Heilags Anda sé og veri með yður öllum. Amen.

Sr. Sighvatur Karlsson flutti þessa predikun á Helgistund á Dvalarheimilinu Hvammi, Húsavík sunnudaginn 25. ágúst 2002 þegar vísitasía biskups Íslands Herra Karls Sigurbjörnssonar stóð yfir.