Hnallþórukirkjan

Hnallþórukirkjan

Hnallþórukirkjan lifir góðu lífi á 21. öldinni. Það er kirkja sem nemur staðar í önnum daglegs lífs til að hlusta, gefa og þiggja, það er gestrisin kirkja sem þyrstir í von og bjartsýni til handa fólki sínu. Vonandi upplifir hún einmitt það í vísitasíu biskups.

Vísitasía í Reynivallaprestakalli

Síðustu vikur hefur biskupinn okkar, Agnes M. Sigurðardóttir, vísiterað söfnuði í Kjalarnessprófastsdæmi. Þetta er fyrsta vísitasían hennar, eftir að hún settist í embætti biskups Íslands og við í prófastsdæminu erum mjög glöð og stolt yfir því að hún geri kirkjurnar hér að fyrsta viðkomustað sínum í tilsjónarhlutverki biskups Íslands.

Sem héraðsprestur í prófastsdæminu hef ég fengið að standa á hliðarlínunni ásamt prófasti og fylgst með Agnesi mæta prestum, sóknarnefndarfólki, starfsfólki safnaðanna og sóknarbörnum, við þessi tilefni. Söfnuðirnir sem hún hefur þegar heimsótt hafa allir tjaldað því sem til er, dúkað borð, bakað kökur og hellt upp á kaffi. Allir eru glaðir og ánægðir að fá biskupinn í heimsókn, kynna fyrir henni kirkjustarfið, kirkjuhús og safnaðarheimili, og að fá tækifæri til að spyrja hana út í málefni trúar og kirkju í samfélaginu.

Svo skemmtilega vill til, að Agnes hefur verið að koma í mjög margar kirkjur í prófastsdæminu í fyrsta sinn, svo þetta hefur án efa verið skemmtilegt og fróðlegt fyrir hana. Í Kjalarnessprófastsdæmi er að finna allar gerðir íslenskra kirkna, utan torfkirkju, af öllum stærðum og gerðum, í minni og stærri samfélögum, út til nesja og uppi í sveit. Aðstæður þessara safnaða eru líka afar ólíkar. Í prófastsdæminu eru stórir og sterkir söfnuðir með margt starfsfólk en líka fámennir söfnuðir sem varla hafa bolmagn til að halda úti einfaldasta kirkjustarfi.

Það allra skemmtilegasta hefur verið að fylgjast með móttökum Agnesar í skólum, fyrirtækjum og stofnunum á þeim stöðum sem hún hefur heimsótt. Hvarvetna hefur fólk breitt út greinar og yfirhafnir til að veita biskupi sem bestar móttökur. Þetta á við um heilbrigðisstofnanir, grunn- og leiksskóla, heimili fyrir aldraða, vinnustaði fyrir þroskahamlaða og hinsegin, íþróttamannvirki og svo framvegis, og svo framvegis. Það sýnir sig að biskup Íslands er eitt af stóru embættunum sem fólk virðir og væntir mikils af, og er djúpt snortið að fá að mæta á sínu eigin plani.

Í aðdraganda vísitasíunnar veltum við því mikið fyrir okkur hvernig vísitasía 21. aldarinnar liti út. Snýst hún um eftirlit með eigum safnaðanna, með kenningu og boðun prestanna, með almennri skikkan í samfélaginu, eða um að sýna biskupinn og leyfa öðrum að sjá hana?

Sýnileiki biskups og nærumgengni hennar við fólkið í landinu hefur leikið gríðarstórt hlutverk í þessari vísitasíu. Það vekur von og gleði að sjá hvað fólk er jákvætt og vinsamlegt í garð biskups og hvað það leggur sig fram um að láta henni líða eins og hún sé velkomin til þeirra. Íslenski virðingarvotturinn er vitaskuld sá að bjóða til veislu, með miklum rjóma, hnallþórum, upprúlluðum pönnukökum og kaffi í lítravís. Í vísitasíunni verður þess vegna til kirkja hins dúkaða veisluborðs þar sem boðun og þjónusta er ekki síst tjáð í glæsitertum og þeyttum rjóma.

Hnallþórukirkjan, sem tekur nafnið sitt auðvitað frá konunni sem vildi ekki bera fisk á borð fyrir heldra fólk, lifir því góðu lífi á 21. öldinni. Það er kirkja sem nemur staðar í önnum daglegs lífs til að hlusta, gefa og þiggja, það er gestrisin kirkja sem þyrstir í von og bjartsýni til handa fólki sínu. Vonandi upplifir hún einmitt það í vísitasíu biskups.