Stattu upp!

Stattu upp!

Því það er þannig sem Jesús mætir okkur. Með lausnir, með verkefni sem krefjast einhvers af okkur. Krefjast þess að við söfnum saman allri orkunni okkar og rísum á fætur, eins og lamaði maðurinn, eða gefumst einfaldlega upp og hvílum okkur, eins og Elizabeth Gilbert þurfti að gera áður en hún lagði upp í sitt ferðalag.
fullname - andlitsmynd Arna Ýrr Sigurðardóttir
18. október 2012
Flokkar

Í bókinni Borða, elska, biðja, segir Elizabeth Gilbert frá glímu sinni við Guð og leitinni að hamingju. Ég geri ráð fyrir að einhverjir hér inni hafi lesið hana (sennilega helst við konurnar). Snemma í bókinni er eftirminnleg sena. Elísabet lýsir einni af mörgum svefnlausum nóttum, þar sem hún situr á baðherbergisgólfinu og grátbiður Guð um svar við bænum sínum. Hún er í alvarlegri tilvistarkreppu, glímir við þunglyndi og er óhamingjusöm í hjónabandi sínu. Hún er orðin aðframkomin af þreytu og örvæntingu og ákallar Guð. Og svarið kemur: Farðu að sofa, Elísabet!

Farðu að sofa! Ekki einhver flugeldasýning þar sem Guð birtist henni, ekki einhver hástemmd opinberun á visku Guðs, ekki svar sem segir henni í smáatriðum hvað hún á að gera, heldur bara svar sem er fullt af umhyggju og kærleika, svar sem tekur á aðstæðunum eins og þær eru, ef þú ert ósofin, geturðu ekki tekist á við aðstæður lífsins og þau verkefni sem bíða.

Statt upp! Tak rekkju þína og far heim til þín! Jesús hittir lamaðan mann. Mann sem er svo heppinn að hann á vini sem færa hann fram fyrir Jesú. Og Jesús bænheyrir hann. Syndir þínar eru fyrirgefnar, segir hann við manninn. En þá koma upp efasemdaraddirnar! Hann guðlastar! Hvaða vald hefur hann til að fyrirgefa syndir. Hvaða vald hefur hann til að bænheyra? Jesús hefði getað farið út í það að þræta við þá sem efuðust. Hann hefði getað vitnað í ritningarnar, rakið fyrir þeim spádómana um hann í Gamla testamentinu, rökrætt við þá á heimspekilegan hátt um eðli syndarinnar og velt upp ýmsum skýringum á því hvers vegna lamaði maðurinn lægi þarna. En hann gerði það ekki. Jesús sagði bara, Stattu upp! Hann benti manninum á einföldustu lausnina og gaf honum styrk til þess að að yfirvinna það sem hafði svipt hann kröftum. Og hann stóð upp og fór heim til sín! Stattu upp! Farðu að sofa! Bænasvör sem snerta beint við aðstæðum, taka á vandanum í hnotskurn. Og þetta eru bænasvör sem gera kröfur til þeirra sem fá þau. Þau þurfa að gera eitthvað sjálf! Taka frumkvæði, koma einhverju í verk. Taka ábyrgð á lífi sínu. Því það er þannig sem Jesús mætir okkur. Með lausnir, með verkefni sem krefjast einhvers af okkur. Krefjast þess að við söfnum saman allri orkunni okkar og rísum á fætur, eins og lamaði maðurinn, eða gefumst einfaldlega upp og hvílum okkur, eins og Elizabeth Gilbert þurfti að gera áður en hún lagði upp í sitt ferðalag.

Kannski ertu hlaðinn einhverri byrði sem lamar þig. Kannski er einhver synd í lífi þínu sem gerir þig máttvana. Magnvana til að takast á við lífið og tilveruna. Það er engin synd í mínu lífi, hugsar þú kannski núna! Ég reyni að vera góð manneskja, og breyta rétt. En syndin felst ekki bara í einhverjum siðferðilegum brestum. Syndin á sér margvíslegar birtingarmyndir. Kannski ertu háður einhverju sem stjórnar lífi þínu. Áfengi, lyfjum, peningaspilum, klámi. Það getur líka verið einhver ákveðinn félagsskapur sem gerir þér ekki gott, en þú hefur ekki krafta til að losa þig. Kannski ertu þjökuð af þeirri byrði sem synd annarra leggur á þig. Kannski ertu fórnarlamb eineltis. Kannski ertu lömuð vegna þess að þér hefur verið talin trú um að þú sért ómöguleg. Að þú sért einskis virði. Kannski ertu í aðstæðum sem þú ræður engu um. Átt sjúkan maka, veikt barn, ástvin sem þú ert bundinn af að hugsa um, og lífið rennur hjá án þess að þú fáir tækifæri á að taka þátt í því. Allt þetta lamar og kreppir og gerir okkur ófær um að lifa lífinu til fullnustu. Jesús segir: Stattu upp. Og í því felst fyrirgefning. Fyrirgefning þeirra synda sem lama okkur, sem gera okkur magnvana og ófær um að standa með sjálfum okkur. Jesús tekur af okkur byrðarnar. Alveg eins og stendur fyrir ofan kirkjudyrnar , og við minnum ykkur fermingarbörnin á: Jesús segir, komið til mín allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar og ég mun veita yður hvíld. Og það er það sem sum okkkar þurfa. Hvíld. Tækifæri til að leggja frá okkur byrðarnar í smá stund, og endurnærast. Og Guð gefur okkur leyfi til þess. Hann segir: Farðu að sofa! Hvíldu þig! Ekki til að þú getir varpað af þér allri ábyrgð, heldur til þess að þú getir öðlast meiri styrk til að standa undir þeim byrðum sem þú berð. Og Guð lofar okkur því að hann muni hlaupa undir bagga. Við þurfum ekki að bera byrðarnar ein. Sum okkar þurfa að taka frumkvæði. Standa upp! Rísa upp undan því sem hefur lamandi áhrif í lífinu. Guð ætlast til þess af okkur. En það er ekki óbærileg krafa, því að Guð gefur okkur líka styrk. Alveg eins og Jesús hafði vald sem enginn annar hefur og gaf lamaða manninum styrk til þess að rísa upp.

Því að Mannssonurinn, Jesús, hefur vald á jörðu til að fyrirgefa syndir. Jesús segir þér að standa upp, því að hann hefur vald til þess að taka frá þér skömm og sektarkennd, vanmátt og doða. Guð vill gefa þér nýtt hjarta og nýjan anda. Hjarta sem er ekki lamað af vanmáttarkennd og þreytu og anda sem er frjáls undan oki sektarkenndar og syndar. Stattu upp og taktu á móti! Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.