Jólaboðskapurinn

Jólaboðskapurinn

“Ef ég bara gæti orðið fugl sjálfur,” hugsaði hann, “þá gæti ég leiðbeint þeim inn í hlýjuna og öryggið, þar sem nægan mat er að finna og þeim er borgið.” Loks gafst hann upp. Hann fór inn, skellti vonsvikinn útidyrahurðinni á eftir sér, gekk að glugganum og starði hjálparvana og hryggur út í myrkrið og fylgdist með því, hvernig smáfuglarnir króknuðu og fennti í kaf hver af öðrum. Þeim varð ekki bjargað.
fullname - andlitsmynd Gísli Jónasson
25. desember 2005
Flokkar

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.Hann var í upphafi hjá Guði.Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.

Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes.Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann.Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.

Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.

Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum. Jh.1.1-14

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Enn á ný er jólanóttinn liðin. Þessi undarlega og helga nótt, sem svo víða hefur verið fagnað á þessari jörðu og sem svo margt hefur verið sagt um, sungið og tjáð, í aldanna rás. Dagur er runnin eftir hátíð og gleði aðfanga-dagskvölds. Og margt kemur okkur vafalaust öðruvísi fyrir sjónir í dag, en það gerði í gær, er sú stemming og eftirvænting ríkti í hugum okkar flestra, sem gjarnan fylgir aðfangadagskvöldi.

Hjá börnunum er orðið spennufall. Eftirvæntingin vegna gjafanna mörgu sem biðu og alls þess sem þessu kvöldi fylgir er horfin. Og hjá mörgum hinna fullorðnu má jafnvel skynja ákveðin þreytumerki eftir hinn margvíslega undirbúning jóla. Þar skyldi jú ekkert til sparað, að hátíðin yrði sem best.

En nú er þetta allt búið, eða hvað!

Nei, auðvitað er þetta ekki búið, því jólin eru vissulega meira en bara gjafir og góður matur eitt kvöld á ári. Jólin eru sem betur fer annað og miklu meira en sá dýrlegi fagnaður allsnægtaþjóðfélagsins sem við fengum flest að njóta í gær, aðfangadagskvöld. Jóladagurinn er runninn upp og okkur gefst nú enn á ný tækifæri til að heyra boðskap jólaguðspjallsins og skynja það, e.t.v. í meira næði en í gærkvöldi, að fagnaðarboðskapur jólanna á erindi við okkur hvert og eitt. Og þá líka okkur, mig og þig.

* * *

Hún hljómar vafalaust kunnuglega í eyrum okkar frásaga Lúkasar af hinum fyrstu jólum. Mörg okkar kunna hana jafnvel utanað. Og hún vekur áreiðanlega margskonar minningar hjá okkur. Minnir e.t.v á jól bernskunnar, þau jól sem gagntóku barnshugan, þannig að þau líða okkur seint eða aldrei úr minni. Þekkjum við ekki öll eftirvæntinguna, sem skín úr augum barnsins og gleðina einlægu, er hin langþráða stund loksins rennur upp? Vonandi eigum við öll bjartar og hlýjar minningar tengdar jólum, þessari hátíð ljóss, friðar og kærleika. En við höldum þó auðvitað ekki jól til þess eins, að eignast góðar minningar sem rifja má upp og orna sér við síðar á ævinni. Boðskapur jólaguðspjallsins er ekki, eins og stundum mætti ætla, bara friðsæll, en fjarlægur draumur mannkynsins um hamingju og frið, fallegt ævintýri, sem gott er að minnast á góðri stundu, heldur er hér sagt frá raunverulegum atburði. Atburði, sem snertir okkur öll og varðar raunar líf okkar og líf alls mannkyns meira en nokkuð annað.

* * *

Við vitum það öll, að fyrir tvöþúsund árum fæddist lítið barn við heldur frumstæðar og fátæklegar aðstæður í fjarlægu landi. Þá sögu höfum við heyrt svo oft, að stundum er jafnvel eins og við séum hætt að heyra. Hætt að gefa því gaum, hvað það var sem raunverulega var að gerast og hvers vegna það gerðist. Getur það verið, að þannig sé fyrir okkur komið, mér og þér, hér í dag, á þessum jólum? Getur það verið, að jólafrásagan og boðskapur hennar sé að verða okkur ámóta óraunveruleg og fjarlæg, og með svipuðum ævintýrablæ og t.d. frásögurnar af jólasveininum? Er hér bara um að ræða eitt ævintýrið enn, sem við teljum okkur geta sett upp í hillu hjá öllum hinum ævintýrunum og síðan tekið fram handa börnunum á jólum og öðrum þeim tímum sem henta þykir?

Ég veit auðvitað ekki hvaða áhrif jólaboðskapurinn hefur á þig og líf þitt, eða hvort hann fær yfirleitt að hafa þar einhver áhrif. En hitt veit ég, að hér er ekki um neitt ævintýri að ræða. Nei, boðskapur jólanna hljómar hér í dag eins og ávallt vegna þess eins, að hann á erindi við okkur, brýnt erindi, sem þolir raunar enga bið.

Boðskapurinn sem englarnir fluttu nokkrum fjár-hirðum í haga þessa nótt forðum daga, á jafn brýnt erindi við okkur hér í dag og hann átti við þá sem heyrðu hann fyrst.

“Yður er í dag frelsari fæddur….”.

Þessi boðskapur hljómar enn. Það er fagnaðarerindið! Því megum við gleðjast! FRELSARINN er hér enn. Hann er hér á meðal okkar, á þessum jólum sem endranær, og vill taka þátt í lífi okkar hvers og eins og veita þá blessun og þann frið, sem hann einn getur veitt. Frelsarinn kom í þennan heim vegna þess, að við þurfum á honum að halda, getum ekki án hans verið. Hann kom til að bjarga, til að frelsa. Því megum við aldrei gleyma.

* * *

Þegar ég hugleiði þessa staðreynd, sem er raunar megin kjarni fagnaðarerindisins, þá kemur mér oft í hug stutt frásögn, sem ég las í erlendu tímariti fyrir allmörgum árum. Þú kannast e.t.v. líka við hana tilheyrandi minn góður. Ég hef a.m.k. vikið að henni áður á þessum stað.

Um er að ræða kanadískan skólapilt, sem segir frá litlu og í sjálfu sér hversdagslegu atviki, sem þó átti eftir að verða honum með öllu ógleymanlegt vegna þeirra áhrifa sem það átti eftir að hafa á líf hans allt.

Þegar þetta gerðist, nokkrum dögum fyrir jól, var hann staddur í setustofu heimavistarskólans þar sem hann stundaði nám. Hann var nánast einn í húsinu, því allir hinir nemendurnir voru farnir heim í jólaleyfi. Hann hafði hins vegar ekki viljað fara, því hann vildi helst vera laus við að taka þátt í jólahaldinum heima. Hann hafði rætt þetta mál fram og aftur við skólafélaganna. Honum fannst að jólin og jólahaldið allt væri hrein tímasóun. Jólin væru ekki annað en aðalvertíð kaupmangaranna, sem þeir auglýstu upp sem eina allsherjar kjötkveðju- og gjafahátíð, til þess eins, að auka gróða sinn. Skoðun hans var sú, að það væru einungis börnin sem í sannleika gætu glaðst á jólum vegna allra gjafanna. Jólin væru a.m.k. ekkert fyrir hann.

“Lítum bara á frásögnina af því hvernig Guð á að hafa gerst maður,” sagði hann. “Fráleitt, hvernig og hversvegna í ósköpunum ætti Guð svo sem að gerast maður? Það er ekkert vit í því, ef hann er þá einu sinni til?”

Þannig hafði hann hugsað og rökrætt við félaga sína og loks komist að þeirri niðurstöðu, að jólunum og jólaleyfinu væri miklu betur varið, ef hann yrði um kyrrt í skólanum, en ef hann færi heim og tæki þátt í þeim fánýtu hátíðarhöldum sem þar yrðu. Hann vildi ekki vera hræsnari. Betra væri að nota tímann til að ljúka við stórt námsverkefni, sem hann var í miðjum klíðum með.

Því sat hann nú aleinn í setustofunni og las. Úti var komin stórhríð og hörku frost. Allt í einu heyrði hann lága dynki eins og einhver væri að kasta snjóboltum í gluggana. Hann skimaði út í rökkrið og kom þá auga á hóp kaldra og hraktra smáfugla, sem kúrðu vesældarlegir fyrir utan húsið. Þeir höfðu augsýnilega hrakist undan veðrinu og ætlað að flýja inn í birtu og yl hússins og því flogið beint á stórar gluggarúðurnar.

“Þeir deyja þarna úti í þessu veðri,” hugsaði hann með sér um leið og hann greip úlpuna sína og fór út, “en hvernig get ég hjálpað þeim?”

Allt í einu mundi hann eftir bílskúrnum á bakvið svefnálmuna. Hann hlaut að vera sæmilega hlýr. Þar væri fuglunum borgið. Hann fór að skúrnum, opnaði dyrnar og kveikti ljós.

“Ef ég aðeins gæti komið þeim hingað inn, þá væri þeim borgið,” sagði hann hvað eftir annað við sjálfan sig. En fuglarnir vildu ekki fara inn í skúrinn, og það jafnvel þótt hann reyndi að lokka þá með því að láta ljósið loga.

“Matur,” datt honum allt í einu í hug, “örlítill matur mundi e.t.v. geta lokkað þá inn.” Hann sótti nokkra brauðmola, sem hann stráði á snjóinn til að mynda slóð inn í bílskúrinn. En honum til mikillar armæðu, þá litu fuglarnir ekki við brauðmolunum. Þeir héldu bara áfram að flögra um og láta sér verða kalt þarna úti í hríðinni!

Hann reyndi þá að smala þeim inn í skúrinn með því að fara aftur fyrir þá, baðandi út öllum öngum, en hópurinn tvístraðist þá einfaldlega í allar áttir. Í allar áttir nema inn í upplýstan og hlýjan bílskúrinn. Það var greinilegt að fuglarnir treystu ekki þessari framandi og ógnvekjandi veru né því skjóli sem hún reyndi að bjóða þeim. Það var sama hvað hann reyndi, allar tilraunir hans til að hjálpa þeim reyndust árangurslausar.

“Ef ég bara gæti orðið fugl sjálfur,” hugsaði hann, “þá gæti ég leiðbeint þeim inn í hlýjuna og öryggið, þar sem nægan mat er að finna og þeim er borgið.”

Loks gafst hann upp. Hann fór inn, skellti vonsvikinn útidyrahurðinni á eftir sér, gekk að glugganum og starði hjálparvana og hryggur út í myrkrið og fylgdist með því, hvernig smáfuglarnir króknuðu og fennti í kaf hver af öðrum. Þeim varð ekki bjargað.

“Ef ég aðeins gæti orðið fugl….”, hugsaði hann aftur og aftur. “Þá gæti ég bjargað þeim, eða a.m.k. talað við þá og bent þeim á björgunarleiðina.” Hann gekk aftur að lesborðinu og kom þá auga á jólakort sem þar lá. Á því stóð stórum stöfum: “Immanúel, Guð er með oss.”

“Guð! – Maður! Guð gerðist maður!!!”

Hann settist niður og sat þannig hugsandi nokkra stund, en spratt síðan á fætur. E.t.v. næði hann ennþá kvöldlestinni heim. Hann ætlaði þrátt fyrir allt heim, til að halda upp á jólin, fæðingarhátíð frelsarans, með fjölskyldu sinni. Því nú var allt í einu sem hann byrjaði að skilja þann leyndardóm og tilgang jólanna, sem honum var áður hulinn. Það tók allt í einu að ljúkast upp fyrir honum afhverju Guð gerðist maður!

* * *

Mér er þessi frásaga jafnan hugstæð vegna þess, að mér finnst þetta litla atvik með fuglana hjálpa mér, líkt og það hjálpaði kanadíska piltinum, að skilja ofurlítið betur og skynja leyndardóminn og dýptina í fagnaðarboðskap jólanna. Er Guð kom á jörðu og gerðist maður okkar vegna.

Jóhannes segir okkur frá því í jólaguðspjalli sínu, sem við heyrðum hér áðan, hvernig orðið varð hold. Hvernig orð Guðs sjálfs varð hold og bjó með oss. Hvernig Drottinn Guð vitjaði okkur sjálfur í Jesú Kristi, litla barninu sem fæddist á hinum fyrstu jólum. Og síðan segir guðspjallamaðurinn um Krist:

“Hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans.”

Þetta er vitnisburður Jóhannesar um það, sem hann fékk sjálfur að sjá og reyna. Hann hafði gengið með Jesú, hlustað á hann, fylgst með honum og deilt með honum kjörum í stóru sem smáu í þrjú ár og þekkti hann því vel.

Jóhannes varð sjálfur vitni að þeim óumræðilega kærleika, sem knúði Krist til þjónustu. Hann varð vitni að kærleika Guðs til mannanna og þrá hans eftir því, að fá að eiga samfélag við þá. Hann varð sjónarvottur að þeirri kærleiksríku náð, sem hafði knúið Drottin til að gerast maður, taka á sig okkar kjör, deila okkar hlutskipti í einu og öllu, til þess að geta þannig flutt okkur orð sitt og hjálpræðisboðskap með skiljanlegum hætti, – og til þess að bjarga okkur! Frelsa okkur undan þeim voða, sem mannkynið er ofurselt án Guðs. Hann kom, gerðist maður, til að við mættum lifa. Þess vegna er það jú einmitt, sem við tölum um hann sem frelsara. Við þurfum á hjálp, á björgun að halda. Og hann kom til að bjarga. Um allt þetta fékk Jóhannes að vitna.

“Hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans.”

Það er mikil stund í lífi hvers manns, þegar hann uppgötvar þetta, sem lærisveinar Jesú horfðu á og sáu með eigin augum. Þetta, að Jesús er fullur náðar og sannleika. Fullur óumræðilegs kærleika til okkar manna. Það verða jól í hverju því mannshjarta, sem þetta fær skilið og þessu fær treyst.

Það fékk ungi maðurinn kanadíski að reyna, þegar hann hélt glaður heim til að halda jól, eftir að leyndardómur fagnaðarerindisins hafði loks lokist upp fyrir honum. Og þessa gleði getur sérhver maður fengið að reyna.

Jólin eru í þessum skilningi ekki fyrst og fremst tilteknir dagar ársins, eða háð svo og svo miklu umstangi og undirbúningi að okkar hálfu, heldur eru þau í hverju því hjarta, sem fær treyst kærleika Guðs í Jesú Kristi. Treyst honum á sama hátt og lærisveinar hans gerðu, þeir sem voru með honum hvern dag og deildu öllu með honum. Þeir mættu umhyggju hans og kærleika sérhverja stund, fundu það hvernig hann vildi þjóna og blessa, leiða og líkna, og fórnaði að lokum öllu þeirra vegna.

* * *

Pétur mikli Rússakeisari yfirgaf eitt sinn hásæti sitt og ríki um skeið og fór til Hollands, þar sem hann starfaði sem óbreyttur trésmiður í skipasmíðastöð í þrjú ár. Þetta gerði hann til þess að geta síðar unnið betur fyrir þjóð sína. Hann bjó við nákvæmlega sömu kjör og aðrir verkamenn í skipasmíðastöðinni og þeir kölluðu hann einfaldlega Pétur. Engum datt í hug að hann væri einvaldur Rússlands. Allan tímann var hann þó keisari og stjórnaði raunar voldugu ríki sínu frá Hollandi. Og það var honum í sjálfsvald sett, hvenær hann færi úr vinnufötunum, klæddist skikkju keisarans og héldi aftur til rússnesku hirðarinnar.

Þetta var vissulega stórmannlegt og göfugt af keisaranum. En þó er þetta aðeins sem ákaflega dauf og ófullkomin mynd af því sem gerðist þegar Jesús lítillækkaði sig og gerðist maður. Jesús, sonur Guðs, skapara himins og jarðar, yfirgaf alla dýrð himinsins. Hann, sem var fullkominn, hreinn og heilagur steig niður í heim okkar syndugra manna. Þann heim sem er fullur af ófullkomleika, óhreinindum, myrkri, þjáningu og böli, hatri og heift, öfund, sekt og synd. Hann kom og fórnaði öllu vegna kærleika síns til okkar manna. Gaf líf sitt, að við mættum lifa.

Hann kom til að vera hjá okkur og gefa okkur allt með sér. Gefa okkur hlutdeild í ríki sínu, sonarrétti sínum á himnum. Því megum við leita til hans sérhverja stund, jafnt með gleði sem sorg. Hann vill fá að deila öllu með okkur, taka þátt í lífi okkar, LÍFI ÞÍNU! Einnig í þínu lífi, sem nú átt erfitt og finnst jafnvel varla að þú getir haldið jól. Séum við glöð, vill hann fá að gleðjast með. Séum við hrygg, vill hann fá að mýkja harminn og hugga. Séum við kvíðin eða óttaslegin vill hann styrkja og sefa. Séum við vanmáttug eða sjúk, vill hann líkna og leiða. Og séum við sek, þá er hann fús að fyrirgefa og gleyma.

Hann er fús að bjarga, reisa hinn fallna, styðja hinn veika og máttvana, og fyrirgefa hverjum þeim sem til hans leitar og af honum vill þiggja. Hann kom í þennan heim sem ljós Guðs. Ljós heimsins, ljós mannanna. Hið sanna ljós, komið til að lýsa okkur leiðina út úr myrkri og kulda syndar og dauða. Því myrkri, sem við verðum svo oft áþreifanlega vör við í okkar daglega lífi. Hann vill lýsa okkur leiðina heim til Föðurins, þar sem við megum búa að eilífu óhult og í náðum, sem börn hans.

Þetta er fagnaðarboðskapur jólanna. Þetta, að Drottinn vitjaði okkar sem maður, að hann kom í Kristi og að “öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.”

Þessi réttindi og sá stórkostlegi náðarboðskapur sem í þeim felst, hafa verið staðfest okkur til handa, hverju og einu, í heilagri skírn og verða aldrei frá okkur tekin, ef við aðeins sjálf viljum þiggja þau. Þiggja náðargjöf Drottins, tileinka okkur fyrirheitin og treysta kærleika hans, sem aldrei bregst.

Jesús Kristur kom í þennan heim til að veita okkur ótakmarkað af birtu og yl kærleika síns. Gefa okkur hlutdeild í himneskum sonarrétti sínum, gefa okkur hlutdeild í eilífa lífinu með föðurnum á himnum. En viljum við þiggja hjálpræði hans? Viljum við fylgja honum er hann kallar? Það er spurningin sem öllu varðar, á jólum sem endranær.

Fuglarnir höfðu ekki vit til að þiggja þá hjálp sem ungi maðurinn vildi veita. Þess vegna var það, að hann óskaði þess að hann gæti orðið fugl, ef það mætti verða til þess, að hann gæti bjargað þeim, frelsað þá, komið þeim í skilning um hvar öruggt skjól væri að finna.

Guð gerðist maður í Kristi til að frelsa okkur, veita okkur öruggt skjól á himnum. Viljum við þiggja náð hans? Það er spurningin, sem við hvert og eitt stöndum frammi fyrir. Jóhannes segir: “Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.” – “Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.”

Eiga þessi orð við um okkur og móttökur okkar, er hann enn á ný vitjar okkar mannanna á þessum jólum? Berum við e.t.v. ekki til þess gæfu, frekar en fuglarnir forðum, að þiggja þá hjálp, sem okkur stendur til boða?

Megi góður Guð gefa að því sé ekki þannig varið, heldur megi framhaldið á orðum Jóhannesar eiga við um okkur og okkar hlutskipti, er hann segir:

“En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.”

Biðjum góðan Guð að gefa okkur öllum gæfu til að sjá dýrð hans og kærleika, þannig að við getum síðan með fögnuði skundað af stað eins og pilturinn ungi, til að halda sanna jólahátíð, upplýsta af kærleiksljósi Drottins sjálfs. Hans, sem lagði allt í sölurnar að við mættum bjargast.

Megi góður Guð gefa okkur öllum gleðileg jól í Jesú nafni. Amen.