Hann á að skína

Hann á að skína

Prúðbúnir og glaðlegir gestir mættu hver eftir öðrum þar til að á fimmta tug manneskja var komin að gleðjast með glöðum á skírndardegi barnsins sem lét sér fátt um finnast. Öðru máli gengdi með stóra bróður.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
30. júní 2014

Þegar þetta er sett á blað þá hefur verið fátt um sólardaga ( á suðvesturhorninu) en gróðurinn í Elliðarárdalnum og görðum borgarinnar og umferðaeyjum hefur sannarlega tekið við sér og ungviði dýra og manna úti fram eftir kvöldum í leikjum.  Sólin mun koma og kasta vermandi geislum sínum á okkur vonandi um allt land á láglendi sem hálendi í þorpum sem borg.   Skólanum lokið og endalaust sumarið framundan með sín ævintýri í huga.  Það fór ekki framhjá okkur í kirkjunni að margt og mikið var gert síðustu daga skólans fyrir sumarfrí.  Vinsælt var að eiga viðkomu úti í kirkju til að fá “Selfie” með prestinum, sem var einn liður í ratleik barnanna, var ljúft og skemmtilegt að vera við þeirri ósk.  Sem leiðir hugan að óskum fólks um þjónustu kirkjunnar.  Kirkjan fer ekki í sumarfrí þótt sólin skíni með sín fyrirheit um létta og glaðværa daga.  Það er fátt eða ekkert yndislegra þegar maður hittir fyrir heiðríkju hugans.  Það gerðist nefnilega einn daginn í vetur sem mig langar að deila með lesendum.

 

“Ert þú presturinn.”   Fyrir framan mig stóð strákur á að giska 4 ára.  Hann virti mig fyrir sér dágóða stund orðlaus, eða þar til að móður hans fannst nóg um.  “Leyfðu prestinum að vera í friði” sagði hún.  Sá stutti sagði mér að hann væri stóri bróðir litla barnsins sem átti að fara að skína.   “Skíra” leiðrétti móðir hans.   Hann sagði mér að að hann kynni ekki að lesa en afi hans væri að kenna honum stafina því bráðum byrjaði hann í alvöru stórum skóla.  “Ætlar þú að segja hvað litli bróðir á að heita?” spurði stráksi.  Án þess að bíða eftir svari, sagði hann.  “Ég veit hvað hann á að heita”  “en ég má ekki segja það.”  “Það er leyndarmálið okkar” varð mér á að segja.  “Veist þú hvað á að skína hann?” sagði hann og leyndi ekki undrun sinni.   “Já” sagði ég og klæddí mig hempuna og sá stutti horfði andaktugur á.  “Hvert ertu að fara” spurði hann.  “Ég ætla skíra litla bróður þinn og um leið fær hann nafn.”  “Hann á nafn en engin má vita það” sagði sá stutti um leið og ég setti stóluna á mig.

Prúðbúnir og glaðlegir gestir mættu hver eftir öðrum þar til að á fimmta tug manneskja var komin að gleðjast með glöðum á skírndardegi barnsins sem lét sér fátt um finnast.  Öðru máli gengdi með stóra bróður sem samviskusamlega tók við gjöfum fyrir hönd litla bróðurs og sagði hverjum sem vildi heyra að litli bróðir hans sem ætti að “skínast” gæti ekki tekið við gjöfunum hann væri svo lítill.  Fékk hann að heyra að litli bróðir væri heppinn að eiga svona stóran og duglegan bróður eins og hann.  Samsinnti hann því með því að kinka kolli.

Eftir tilhlýðilegan undirbúning hófst athöfnin.  Stóri bróðir stóð við hlið foreldra sinna vatnsgreiddur í hvítri skyrtu og stuttbuxum og splúnkunýjum skóm eins og hann samviskusamlega hafði frætt mig um nokkru áður á milli þess að taka á móti gjöfum fyrir litla bróður og með leyndarmálið í huga.

Eftir hafa farið yfir skírnarskipunina (Matt.28.18-20)  Sagði ég frá því sem segir í (Mark.10-13). Þegar menn færðu börn til Jesú, að hann snerti þau…heyrist þá í stóra bróður.  “Heyrðu prestur, ég hef heyrt þessa sögu áður…” eftir innilegan hlátur kirkjugesta og ég að halda andlitinu  svaraði ég því til “að það væri gott en kannski hafa hinir í kirkjunni ekki heyrt söguna.”   Samþykkti sá stutti það að ég héldi áfram með söguna.   Ég endaði á að segja.  “Og hann tók börnin sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.”  Varla búin að sleppa orðinu heyrist í þeim stutta.  “Heyrðu prestur, það var ekki þessi saga sem ég hef heyrt áður heldur var það sagan þegar Jesú var krossfestur.”

Reyndar bætti hann við áður en ég komst til þess að skíra barnið að “hann og Jesú væru vinir.”   Þennan eftirmiðdag bættist enn einn vinur Jesú í hópinn!  En höfum við ekki margoft heyrt þá sögu áður?

Hverju máli skiptir hvort sólin skín eða ekki þegar við höfum litla sem stóra ljósbera allt í kringum okkur.  Leggjum við hlustir þetta sumarið.  Lítum eftir því smáa í tilverunni og gleðjumst því þegar upp er staðið frá hversdagsverkum hvort heldur það er í vinnu, skóla eða garðinum á sumareftirmiðdegi, er nokkur ástæða til annars en að láta hugan skína sjálfum okkur og öðrum til gleði í sumar.

Þór Hauksson