Sorgin með í för

Sorgin með í för

Sorgin er lífsförunautur frá þeirri stund sem hún kemur inn í líf okkar. Hún vex og þroskast með okkur og rennur að endingu saman við minninguna um ástvin okkar, þar sem gleði, sársauki, söknuður og von fléttast saman og verða eitt.

Sorgarrós

Frægasti Davíðssálmurinn er án efa Drottinn er minn hirðir, Sálmur 23. Textinn tjáir á einstaklega skýran og einlægan hátt trúartraust í gegnum lífsgönguna og myndmál hans hittir beint í mark. Ótal jarðarfarir á hvíta tjaldinu hafa verið rammaðar inn með 23. Sálmi og listamenn á ólíkum sviðum gert sér mat úr honum í alls konar samhengi.

Sálmurinn gegnir líka stóru hlutverki í trúarlífi einstaklingsins. Þar er ég engin undantekning. Upp á síðkastið hef ég lesið 23. Davíðssálm sem lýsingu á sorg og sorgarviðbrögðum. Mér finnst hann lýsa vel ferlinu sem við göngum í gegnum þegar sorgin er förunautur okkar í lífinu.

Sorgarfræðin kenna okkur margt um viðbrögðin við missi og áföllum. Eitt af því sem þau leggja áherslu á er að sorgin er langtíma verkefni sem við vinnum okkur ekki út úr heldur lærum að lifa með. Skilningur okkar á eðli og hegðun sorgarinnar hefur þannig breyst frá því að líta á sorgina sem eitthvað sem við fáumst við, klárum og leggjum síðan frá okkur, til þess að horfa á sorgina sem veruleika sem lýtur sínum lögmálum, breytist og þroskast með tímanum en hverfur ekki úr lífi okkar.

Sorgin er lífsförunautur frá þeirri stund sem hún kemur inn í líf okkar. Hún vex og þroskast með okkur og rennur að endingu saman við minninguna um ástvin okkar, þar sem gleði, sársauki, söknuður og von fléttast saman og verða eitt.

Það er þessi vegferð sem ég sé lýst í 23. Davíðssálmi. Þar segir frá því sem gerist þegar við leyfum Guði að leiða okkur á lífsgöngunni og í gegnum lífsreynsluna. Þar er pláss fyrir sorgina. Þótt hún sé með í för, mun mig ekkert bresta, heldur fæ ég hvílst á grænum grundum, og hjá vötnum má ég næðis njóta:

Og þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.

Að hafa sorgina með í för leiðir okkur stundum um dimman dal, í lengri eða skemmri tíma. Stundum er sorgin við stjórnvölinn og okkur finnst nóg um hvað hún vill hanga lengi í dimma dalnum. Er ekki tími til að halda áfram, spyrjum við?

Sá tími kemur vissulega en þangað til erum við alveg örugg og óttumst ekkert illt. Hirðirinn er hjá okkur og í húsi Drottins er pláss bæði fyrir okkur og sorgina.