Vorsins von og vinagleði,endurreisn og Hörpuhljómar

Vorsins von og vinagleði,endurreisn og Hörpuhljómar

,,Dýrlegt kemur sumar.” Ávallt er það fagnaðarefni og undur þess mikið, þótt þyki í sjálfu sér hverdagslegt fyrirbrigði, sem ekki kemur á óvart. Veðurfræðingar og vísindamenn lýsa sumri með sínu móti og mælikvörðum, sem þeir hafa tiltæka, segja frá möndulhalla jarðar, hitastigi lands og sjávar, sólbirtu, fuglakomum, grasprettu. Þegar skáldin tjá sig hins vegar er sem þau leiki á strengi margradda hljóðfæra og segi ekki aðeins frá því sem blasir við sjónum við fyrstu sýn heldur túlki áhrif vors og sumars á sig og aðra, sem á för þeirra verða, tilfinningar og kenndir, sem vorinu fylgja. Ást og innri eldur, von og þrá, hrifning, þökk og gleði verða þeim efniviður og yrkisefni í lýsingum sínum á undri vorsins. ,,Ég er ljúfur draumur./ Ég er dögunin rauða./ Ég er bæn hins sjúka/og blessun hins snauða, segir Gísli Guðmundsson í hrífandi ljóði, þar sem hann lætur vorið sjálft gera grein fyrir sér. ,,Ég er gras og lyng./ Ég er lamb og kálfur,/ Ég er upprisan og lífið/ og ódauðleikinn sjálfur.” Trúin í Jesú nafni tekur vissulega undir þetta. Hún túlkar lífskviknun að vori og endranær með sínum hætti og aðferðum. Hún skynjar Guðs anda og innra líf að verki í sköpun og gróanda, og sér hann fyrir sér í mynd hins krossfesta og upprisna frelsara og tekur mið af sögunni hans og getur því játað og sagt: ,,Blessaður kærleikskraftur, sem Kristur gefur jörð/ ber með sér blómgun aftur/ er breiðist vor um svörð/ Upprisu undrið bjarta/ upplífgar kalin börð./ Kærleikur hans í hjarta/ heldur um lífið vörð./Verk sem hans viðbót bera,/ vetrarbönd leysa hörð/ svo lifnar fegurð úr frera/ og flytur þakkargjörð.” (G.I.)

Vera og virkni Guðs sjálfs er forsenda sköpunar og lífs, elska hans sem um það fer.,,Þetta er kærleikurinn, ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði oss”, segir enda postulinn í pistlinum og bætir við ,,og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.”

Það er í því trausti, sem við komum hér saman á grunni brunninnar Krýsuvíkurkirkju, í trúnni á endurlausn og upprisu í Jesú nafni. Íkveikjan var illsku -og myrkraverk, bar vott um virðingar -og skeytingarleysi gagnvart bæði sýnilegum og ósýnilegum verðmætum. Við biðjum góðan Guð að snerta við hjörtum þess unga fólks, sem vann það glapræði og umbreyta hugarfari þess, svo að þar vori, og þökkum jafnframt frammi fyrir honum, hve vel miðar við að endurreisa kirkjuna.

Jesús talar um vini í Guðspjallinu og vináttan sýnir sig í því að gera það sem hann boðar og fylgja því eftir. Markmiðið er að fara sem víðast og bera lífinu, elskunni og komanda Guðsríki góða ávöxtu. Vinafélag Krýsuvíkurkirkju vinnur í þeim anda við endureisn kirkjunnar. Fagnaðarefni er hve vel gengur og margir koma við sögu og leggja sig fram í verkunum. Nemendur og kennarar Iðnskólans í Hafnarfirði, sem gert hafa smíðina að nemendaverkefni, fagfólk á vegum Þjóðminjasafns og vinir kirkjunnar. Einkar ánægjulegt var að taka þátt í fögnuði við Iðnskólann fyrir fáeinum vikum, vegna þess að ytri mynd kirkjunnar var risin. Og ég sá það í fyrradag, er ég leit við í skólanum að búið er að setja skarðssúð á þakið, svo að um það lofti. Síðan verða borð og fjalir lögð þar ofan á.

Endurreisn kirkjunnar felur að vissu leyti í sér gott fordæmi og hvatningu til að vinna að farsælli endurreisn og uppbyggingu samfélagsins eftir efnahagshrunið með því að benda á gildi fjölþætts sameiginlegs átaks í virðingu og kærleika. Hvatningin er sú, að tekið verði saman höndum við að hreinsa upp úr rústunum í samfélaginu, -það er nauðsynlegt -og einnig vandasamt og sárt. - Og byggt svo upp.– Breytingar til batnaðar og framfara verða ekki án nýrra viðmiðanna og hátta. Mikil og ranglát misskipting verður að hverfa svo að friður og sátt þrífist í samfélaginu. Uppstokkun á eigna- kvótafyrirkomulaginu á fiskveiðum er hluti af brýnum breytingum, sem miða til réttlætis og framfara.

Tónlistarhúið mikla við höfnina í Reyjavík hefur nú verið opnað og fengið hið fagra nafn Harpa, sem skírskotar bæði til fagurra hörpuhljóma og vormánaðarins, þegar lífið fer að glitra og óma af litfegurð og fuglasöng. Byggingin ber með sér minningar um gróðærið háskasamlega og hrunið sem því fylgdi. En vonandi verður það jafnframt táknmynd uppbyggingar og endurreisnar í þjóðfélaginu. Og sem slíku er sannarlega vert að fagna því enda lögðu tugþúsundir manna leið sína inn í Hörpuna á opnunardögum hennar. Tónleikasalirnir eru glæsilegir hver með sínu móti. Nöfn þeirra vísa á íslenska náttúru: Eldborg, Norðurljós, Kaldalón og Silfurberg. Og einn veitingastaður Hörpu ber hið skemmtilega nafn ,,Munnharpa.”

Hljómharpan stóra og volduga er mikið fagnaðarefni allra Íslendinga, svo framarlega, sem þeir finni til þess, að hún sé þeim öllum opin, ekki bara fyrstu dagana heldur ávallt. Hún er ekki reist af almannafé á erfiðum tímum, aðeins fyrir þá, sem geta greitt hátt verð fyrir aðgöngumiða á tónleika og listviðburði og sýnt þannig fram á yfirburði sína og forréttindi. Það væri að hverfa aftur til fyrri hátta glans- og gervitilveru, sem aðgreina og upphefja fáeina á kostnað fjöldans og heildarinnar og hindraði samstöðuna og vinaþelið, sem þarf að ríka í samskiptum og samfélagi, að minnsta kosti, ef það á að bera með sér kristin viðmið, áhrif og auðkenni.

Glerhjúpurinn litfagri utan um Hörpu er tilkomumikill eins og byggingin sjálf. Hann minnir á möskva í miklu neti, og gæti falið í sér þá líkingu, að verið væri að veiða fólk inn í heim listarinnar. Táknmyndin gæti verið tekin úr Guðspjöllunum þar sem dregin er upp mynd af neti, sem veiðir fólk inn í Guðríkið enda eiga listin og trúin vel saman, svo sem sýnt var fram á við helgihaldið í Krýsuvík. Þar voru kirkjan lágreista og listasafnið í Sveinshúsi í góðu vinfengi hvort við annað. Göfgandi list og lifandi Guðstrú í Jesú nafni eiga góða samleið líkt og trúin og lífið sjálft, því að trúin er farvegur ljóssins og lífsins Guði frá inn í hjarta og huga manna, sálu þeirra og líkama og allt lífríki. Fuglinn syngur skaparanum lof og blóm og liljugrös ilma honum til dýrðar. Og hjörtu manna eru sköpuð til að enduróma og slá í takt við hann, anda hans og elsku.

Sem betur fer varð ekki heimsendir í fyrradag eins og einhverjir óttuðust. Við komumst næst honum hér á landi í gær, þegar enn eitt eldgosið hófst í hrinu tíðra eldgosa. Hugur okkar er hjá þeim sem líða fyrir það og glíma við afleiðingar þess. Gosið minnir á að ávallt er brýnt að halda vöku sinni, gæta sín á öllu því er ógnar lífi og lífsfarnaði, og vinna líka gegn ofríki og ófriði í samskiptum og stuðla að réttlæti og friði. Alkirkjuráðið vísar til þess og óskar eftir því, að fyrir því sé beðið í kirkjum heimsins í dag, að ólgu og ófriði megi linna sem svo víða steðja að lífi og samfélögum nú um stundir. Og auðvitað hæfir að biðja svo einnig við kirkjugrunna.

Ekkert réttlætir að örvænt sé, ekki einu sinni við brunarústir, sé gert ráð fyrir líkn og ljósi trúarinnar. Það höfum við reynt sem vinnum samhent í trú og vinagleði að endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju. Það gildir líka í efnahagshruni, svo að atorka og atgervi nýtist vel við endurreisnina.

Við fögnum vori og gerum það hér á grunni Krýsuvíkurkirkju með því m.a. að horfa fram til komanda vors að ári í von og trú á það í Jesú nafni að þá verði ný Krýsuvíkurkirkja vígð. Við biðjum þess að okkar ráð og dáð, sem að því miða votti blessun Guðs, vilja hans, virkni og elsku í Jesú nafni. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.