Kynferðisbrot innan kirkjunnar

Kynferðisbrot innan kirkjunnar

Undanfarnar vikur höfum við verið minnt svo óþyrmilega á að ein af verstu meinsemdum í mannlegu samfélagi getur líka skotið sér niður í kirkjunni. Það er alveg skelfilegt. En við verðum að minnast þess að kirkjan er ekki Guð. Kirkjan er menn, karlar og konur sem öll eru breysk. Þverbresturinn sem kynntur er í Adam, Evu og Kain er líka í okkur öllum. Þess vegna geta jafn hræðilegir hlutir og sifjaspell og kynferðisofbeldi gerst í öllum stigum samfélagsins, jafnt hjá háum og lágum, líka í kirkjunni því miður.
fullname - andlitsmynd Bára Friðriksdóttir
05. september 2010
Flokkar

„Og Jesús sneri sér að lærisveinum sínum og sagði einslega við þá: „Sæl eru þau augu sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið en sáu það ekki og heyra það sem þér heyrið en heyrðu það ekki.“

Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista Jesú og mælti: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“

Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“

Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa.“

En lögvitringurinn vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“

Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn en sveigði fram hjá. Eins kom og Levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum og er hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur. Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?“ Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gerði á honum.“ Jesús sagði þá við hann: „Far þú og ger hið sama.““ Lúk 10.23-37

  

 Þverbrestur mannsins smitar líf hans

“Á ég að gæta bróður míns?“ Þannig svaraði Kain Drottni þegar hann hafði drepið Abel bróður sinn.  Það átti sér aðdraganda. Báðir bræðurnir færðu Guði fórn. Það merkir að þeir gáfu báðir hluta af afla sínum til Guðs. Þannig þökkuðu þeir Guði fyrir það sem þeir öfluðu. En tökum eftir; Guð gaf einungis gaum að gjöfum Abels. Kain reiddist. Þá svaraði Guð honum og gaf í skyn að hann hefði gert eitthvað rangt því hann sagði: „ Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“ Kain hafði einhverja ranga nálgun til hlutanna, kannski öfund, græðgi eða hvað annað sem leiðir okkur mennina afvega. Þetta er annað ranglætisverkið sem sagt er frá í Biblíunni. Adam og Eva, dæmi um hinn fyrsta mann og fyrstu konu. Þau óhlýðnuðust lögmáli lífsins sem skaparinn hafði sett og þau uppskáru fjarlægð frá Guði. Næsta illræði var morð. Afleiðing þess var að Kain var burtrekinn frá augliti Drottins og hlutskipti hans var að reika um jörðina án öryggis án heimahaga. Á þennan hátt drógu spekingar síns tíma upp mynd af þverbresti mannsins. Það var aldrei neinn ákveðinn Adam eða sérstök Eva. Sköpunarsögurnar og vegferð mannsins fyrstu kynslóðirnar voru teiknaðar upp á þennan hátt til að draga fram hvaða hlutverki maðurinn gegnir á jörðinni, tengslum hans við skaparann og þverbresti mannsins sem smitar líf okkar allra af illum hugsunum, illu umtali og illum verkum. Það er sorg innan kirkjunnar vegna kynferðisofbeldis Undanfarnar vikur höfum við verið minnt svo óþyrmilega á að ein af verstu meinsemdum í mannlegu samfélagi getur líka skotið sér niður í kirkjunni. Það er alveg skelfilegt. En við verðum að minnast þess að kirkjan er ekki Guð. Kirkjan er menn, karlar og konur sem öll eru breysk. Þverbresturinn sem kynntur er í Adam, Evu og Kain er líka í okkur öllum. Þess vegna geta jafn hræðilegir hlutir og sifjaspell og kynferðisofbeldi gerst í öllum stigum samfélagsins, jafnt hjá háum og lágum, líka í kirkjunni því miður. Þegar ég áttaði mig á innihaldi sögu Guðrúnar Ebbu dóttur sr. Ólafs Skúlasonar heitins var mér allri lokið. Hryllingur, sorg og velgja helltust yfir mig og ég held að það eigi við um marga sem starfa innan kirkjunnar. Ég er satt að segja miður mín. Þessi gríðarlegu hörðu viðbrögð sem orðið hafa held ég að sé að hluta út af því að það er gerð krafa til kirkjunnar um að hún sé lítalaus og fullkomin, sem enginn stenst. Óhugnaðurinn verður enn ægilegri í samanburði fullkomnunar. Sannleikurinn er hörmulegur, en ég er fegin að hann er kominn fram. Vil ég nú útskýra mál mitt betur. Biblían geymir margar sögur, bæði þær fegurstu en einnig þær ljótustu. Í 2. Samúelsbók segir frá Amnon syni Davíðs og Tamar dóttur hans. Þau voru hálfsystkin.  Amnon var ástfanginn af Tamar. Hann var hugsjúkur af ást. Absalon bróðir hans spurði hverju depurð hans sætti. Þegar hann vissi hvers kyns var gaf hann bróður sínum ráð hvernig þau gætu eytt tíma saman. Amnon nýtti sér ráð Absalons en meira en það hann nauðgaði Tamar, fékk ógeð á henni eftir verknað sinn og rak hana frá sér með harðri hendi.  Tamar hljóp hljóðandi frá húsinu og reyf meyjarkjólinn sem var tákn þess að hún væri óspjölluð.   Þegar Absalon hitti hana og varð áskynja um hvað hefði gerst sagði hann henni að þegja yfir þessu af því hann væri bróðir hennar og bað hana um að taka þetta ekki nærri sér. Hann bjó henni heimili heima hjá sér. Sögu Tamar líkur með þessari setningu: „Síðan bjó Tamar ein og yfirgefin í húsi Absalons“ 2. Sam.13.20. Eftir þetta hataði Absalon Amnon bróður sinn og þeir töluðust ekki framar við. Davíð konungur varð mjög reiður. Tveimur árum síðar lét Absalon drepa Amnon og fyrir það varð hann að flýja frá föður sínum í nokkur ár. Íslensk kona sem bjó við sifjaspell sem barn sagði að hvergi hefði hún séð afleiðingum sifjaspells lýst jafn vel. Í sögunni reyndi Tamar að hindra Amnon og sagði: „ Fremdu ekki slíka óhæfu. 13Og hvað ætti að verða um mig með skömm mína?“ 2. Sam. 13.12,13. Eftir nauðgunina segir að hún hafi verið ein og yfirgefin, það voru örlög hennar. Fyrstu viðbrögð Absalons voru að biðja hana að þegja yfir þessu, það tengist skömminni. Tamar varð lokuð inn í þögninni, hún einagraðist og skömmin varð fylgifiskur hennar. Reiðin kraumaði í Absalon og sjálfsagt í Tamar líka þó að það sé ekki nefnt. Absalon lét reiðina stjórna sér og hélt áfram með ranglætið og drap Amnon bróður sinn. Viðbrögð Absalons og Tamar og afleiðingarnar á líf hennar eru dæmigerð þegar sifjaspell og annað kynferðisofbeldi á við. Það eru ákveðin einkenni sem fylgja geranda sifjaspells og sumt af því yfirfærir hann yfir á fórnarlamb sitt. Gerandinn læsir fórnarlambið inn í þögninni með því að hóta því að ef það kjafti frá þá gerist eitthvað hræðilegt. Það verði drepið eða ástvinir þess. Hann kynnir það gjarnan með að þetta sé þeirra leyndarmál. Með því kemur hann þeirri hugmynd líka inn að fórnarlambið sé samsekt. Afleiðingar fórnarlambsins halda því föngnu þar til það fer að glíma við þessa hræðilegu lífsreynslu. Þær eru þögn, skömm og sektarkennd sem hafa alvarleg áhrif á sjálfsmynd þess og vellíðan. Einangrun, erfiðleikar við nánd, skömm og margt fleira litar tilveruna dökkum litum. Eina færa leiðin til að komast frá þessu er að segja frá. Tala í umhverfi þar sem þolandinn treystir hlustanda sínum svo að það geti rætt þetta hræðilega í öruggu umhverfi. Það er fyrsta skrefið til að brjótast undan vítahring ofbeldismannsins. Að rjúfa þögnina er eitt skref á leiðinni til heilunnar en jafnframt það mikilvægasta. Þegar þolandinn loksins þorir að tala skiptir miklu að hlustandinn taki við sögunni og leyfi þolandanum að skynja að hann trúi honum. Það er annað skref út úr þögninni þegar þolandinn heyrir að við honum er tekið þrátt fyrir þessa sögu. Viðurkenning annars og virðing þrátt fyrir söguna hefur mikið að segja. Þannig er fórnarlambið tekið gilt, en það á sjálft svo erfitt með að meta sig mikils vegna sifjaspellsins. Í framhaldinu þarf það að fá stuðning í langan tíma til þess að það geti gróið sára sinna. Þegar sifjaspell kemur upp á yfirborðið reynist það hverri einustu fjölskyldu hræðilegur harmleikur. Gríðarsterkar og heiftugar tilfinningar rísa. Upplifun á vanmætti er alltaf nærri. Vegna skammar eru fyrstu viðbrögðin oft eins og Absalons; „segðu engum frá því.“ 2. Sam.13.20 Guðrún Jónsdóttir fyrrum starfskona í Stígamótum sagði í Kastljósi í síðustu viku að henni hafi sýnst viðbrögð kirkjunnar vera lík viðbrögðum fjölskyldu við svona hryllingi. Líklega er það rétt. Það eru ósljálfráð viðbrögð við svo hörmulegum tíðindum. En það eru ekki rétt viðbrögð. Ég ætla ekki að tjá mig um viðbrögðin fyrir 14 árum þau fara í rannsóknarferli. En fyrstu viðbrögð nú voru að mínu mati hæg og óörugg. Varkárni og hik biskups í orðum verkaði á mig eins og hann teysti sér ekki til að standa með konunum. Það var óheppilegt og særandi bæði fyrir þær og alla sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi. En höfum í huga að á prestastefnu fyrir einu og hálfu ári bað biskup allar konur og börn sem orðið hafa fyrir kynsferðislegu ofbeldi af kirkjunnar hálfu fyrirgefningar. Bæði þá og síðar hefur hann sagst harma að slíkir hlutir hafi átt sér stað. Biskup talaði loks skýrt fyrir nokkrum dögum og sagðist trúa konunum og harma þetta mjög. Það sama gerði kirkjuráð sem bæði er skipað af prestum og leikmönnum. Í yfirlýsingu þess segir ennfremur: „Fyrir hönd þjóðkirkjunnar biður kirkjuráð þær og aðra þá sem brotið hefur verið á af hálfu starfsmanna og þjóna kirkjunnar fyrirgefningar. Kirkjuráð harmar þá þjáningu og sársauka sem þau hafa liðið. Kirkjuráð ítrekar að kynferðisbrot eru ekki liðin innan kirkjunnar og lýsir samstöðu við þá einstaklinga og félagasamtök sem styðja þau sem líða og vinna að forvörnum og vitundarvakningu meðal þjóðarinnar um þessi alvarlegu mál.“  

Ákveðið hefur verið að setja á laggirnar nefnd sem rannsaka á meint kynferðisofbeldi sr. Ólafs Skúlasonar. Forseti kirkjuþings, Pétur Kr. Hafstein velur fagaðila sem óháðir eru Þjóðkirkjunni til að rannska málið. Það tekur tíma að gera þetta svo að vandað sé. Nú þurfum við að bíða eins og eftir rannsóknarskýrslunni um bankahrunið. Markmiðið að mínu mati er að rjúfa þögnina, leyfa því að koma fram í dagsljósið sem þarf og læra síðan af þessu skelfilega máli. Kirkjan dró reyndar strax ákveðinn lærdóm af ásökununum sem komu upp á hendur Ólafi fyrir fjórtán árum. Eftir það var stofnað fagráð um kynferðisofbeldi sem hefur það verkefni að koma slíkum málum í rétt ferli ef koma upp ásakanir um slíkt af starfsmönnum eða þjónum kirkjunnar. Eins voru unnin heilræði fyrir barna- og unglingastarfið og siðareglur fyrir alla sem starfa í kirkjunni.  

Ósk okkar allra er að kynferðisofbeldi eigi sér aldrei aftur stað innan kirkjunnar frekar en annars staðar. En við vitum að það er tálsýn í ljósi reynslunnar af breyskleika mannsins. Ef við hins vegar verðum áskynja um slíkt hvar sem er þá ber okkur að styðja þolandann og stöðva ofbeldið með þeim ráðum sem eru hjálpleg. Einn þáttur þess er að koma með það fram í ljósið.  

Mikilvægasta boðið Ef við lítum á viðhorf Jesú í guðspjallinu um hvað er mikilvægast, þá er það að elska Drottin skaparann af öllu hjarta, hug og mætti. M.ö.o. að setja Guð í fyrsta sæti í lífi okkar. Afleiðingin af því er að við elskum náunga okkar eins og við elskum okkur sjálf. Þegar lögvitringurinn vildi finna sér afsökun frá þessu sagði Jesús dæmisöguna um miskunnsama Samverjann. Niðurstaða Jesú var að við ættum að gæta bróður okkar. Við eigum að vera þolanda kynferðisofbeldis eyra og stuðningur. Við eigum að gera miskunnarverk á bræðrum okkar og systrum þegar við getum. Ef við setjum Guð í fyrsta sæti í lífi okkar þá berum við virðingu bæði fyrir Guði og mönnum. Þá ræktum við með okkur kærleika og erum í réttu samhengi við lífið.

En þetta er kærleikurinn segir ritningin: „Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar. Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað.“ 1. Jóh. 4.9-11