Devika

Devika

Devika er 22 ára, einstæð móðir og fyrrum barnaþræll sem Social Action Movement (SAM) á Indlandi leysti úr skuldaánuð. Hún hafði ætlað að klára tólfta bekk sem samsvarar stúdentsprófi á Íslandi, en faðir hennar stoppaði það þar sem hann taldi að hún bæði þyrfti ekki á meira námi að halda og gæti hvort sem er ekkert lært. Erfið veikindi settu líka strik í reikninginn.
fullname - andlitsmynd Ármann Hákon Gunnarsson
06. apríl 2010

Úr kvöldskóla SAM

Devika er 22 ára, einstæð móðir og fyrrum barnaþræll sem Social Action Movement (SAM) á Indlandi leysti úr skuldaánuð. Hún hafði ætlað að klára tólfta bekk sem samsvarar stúdentsprófi á Íslandi, en faðir hennar stoppaði það þar sem hann taldi að hún bæði þyrfti ekki á meira námi að halda og gæti hvort sem er ekkert lært. Erfið veikindi settu líka strik í reikninginn.

Hún náði þó að klára tíunda bekk sem veitir henni ákveðin réttindi og möguleika á betur launuðum störfum og hana langar til þess að mennta sig meira og verða kennari í framtíðinni.

Faðir hennar tók hana úr skóla til þess að gifta hana þegar hún var 17 ára en núna hefur maðurinn hennar yfirgefið hana og barnið og hún veit ekki hvar hann er. Hún býr hjá móðir sinni og hjálpar henni.

Þrátt fyrir mikla fátækt nær hún að leggja um 300 kr. fyrir á mánuði í menntasjóð fyrir barnið sitt og er staðráðin í því að stúlkunnar hennar bíði ekki sömu örlög og hennar. Hún ætlar að gera allt til þess að barnið fái góða menntun og lendi aldrei í því að fara í barnaþrælkun.

Þetta er mögnuð kona með einstaklega sterka og góða nærveru. Hún er sterk og hún segir sögu sína án sjálfsvorkunar þó hún þjáist mikið. Það er eitthvað við sögu hennar og atferli sem hefur haft ótrúlega mikil áhrif á mig. Hún fær mig til þess að vilja gera meira og taka raunverulega þátt í baráttunni fyrir auknum réttindum þeirra sem verst hafa það ... líka á Íslandi.

Mig langar til þess að deila með ykkur heima mörgu af því sem við erum að gera hérna, en líka hugmyndum um kirkju og samfélag út frá stundum róttækum gildum um félagslegt réttlæti og pólitískt hlutverk hins trúaða og kirkjunnar.

Það bíður næsta pistils.