Hugleiðing um biskupsembættið

Hugleiðing um biskupsembættið

Ef við tökum allar þessar væntingar saman þá er ljóst að enginn einn maður getur sinnt þeim og óneitanlega bera þær einkenni vissrar „messíanskrar“ vonar enda samrýmast þær þremur embættum Krists.
fullname - andlitsmynd Sigurjón Árni Eyjólfsson
08. desember 2011

Andspænis fjölbreytileika í trúmálum og fjölhyggju í trúarhugsun og trúarmótun verður maður var við kröfu á kirkjuna um skýra stefnu og leiðsögn í lífi einstaklingsins. Margir vilja líta á hana sem athvarf fyrir gnauði vinda hverfullar samtíðar og er það skoðun sumra að sá eða sú sem sinni biskupsembættinu eigi að vera n.k. húsráðandi í þessu athvarfi. Ef þessar væntingar eru athugaðar nánar kemur í ljós að þær innihalda þrjá megin áhersluþætti.

Fyrir það fyrsta ber að nefna kröfuna um að biskup sé n.k. „forstjóri“ kirkjunnar. Allt skipulag og stjórnarform kirkjunnar hefur langt frameftir síðustu öld og á þessari mikið miðast við sveitakirkjuna og í raun og veru er kraftaverk hversu vel það hefur nýst. Auk þess hefur efnahagur og skipulag kirkjunnar tekið stakkaskiptum og eru kirkjur og söfnuðir orðnar stórar „rekstrareiningar“. Samfara því er hlutverk prestsins sem „rekstrarstjóra“ í söfnuðinum orðið miðlægt og endurspeglar sú staða mjög þá ósk innan kirkjunnar að biskupsembættið taki tillit til þessa. Í samræmi við það vilja allmargir sjá biskupsembættið sem n.k. „forstjóraembætti“ og líta svo á að biskupinn eigi að hafa fullt vald á rekstri þess „stórfyrirtækis“ sem þjóðkirkjan er. Spurning er hvort menn gera ekki of mikið úr þessum þætti.

Í annan stað hefur áherslan á prestslega þjónustu biskupsins gagnvart prestum og söfnuðum verið miðlæg í starfi biskups (t.d. í vísitasíum). Þónokkra þörf er að finna fyrir biskupinn sem sálusorgara presta, annarra starfsmanna kirkjunnar og þjóðarinnar í heild. Í því hlutverki á biskup að koma fram sem fremstur meðal jafningja.

Loks verður maður var við þær væntingar að biskup verði að vera merkur guðfræðingur sem verji játningu kirkjunnar og taki skýra afstöðu til þjóðfélagsmála í ljósi hennar. Þessi áhersla tengist þeirri kröfu að biskup sé andlit kirkjunnar út á við, sem svari spurningum samtíðarinnar jafnt í riti sem ræðu. Í nágrannalöndunum og í Þýskalandi er þessi þáttur biskupsstarfsins einnig mjög miðlægur.

II Ef við tökum allar þessar væntingar saman þá er ljóst að enginn einn maður getur sinnt þeim og óneitanlega bera þær einkenni vissrar „messíanskrar“ vonar enda samrýmast þær þremur embættum Krists: Hinu konunglega þar sem hann er leiðtogi og stjórnandi; prestalega þar sem hann er hirðir, huggandi og styrkjandi; og hinu spámannlega þar sem hann boðar vilja Guðs skýrt og skorinort. Biskup er ekki staðgengill Krists, heldur fylgir Kristi og því er nauðsynlegt að draga úr þessum væntingum með að beina sjónum okkar að því sem embættið á að standa fyrir samkvæmt ritningunni og útleggingu hennar í játningum okkar evangelísk-lúthersku kirkju (CA 5, 14 og 28). Þá kemur í ljós að biskupsembættið er í eðli sínu hið sama og prestsembættið og hefur það að inntaki að prédika fagnaðarerindið og úthluta sakramentunum. Eitt meginverkefni siðbótarinnar á sínum tíma var að gera skýran greinarmun á þessu hlutverki og öllu veraldarvafstrinu sem einkennt hafði biskupa þess tíma (CA 28). Í ljósi þess væri rétt að binda biskups starf fremur við beint við boðun og eftirlit (vísitasíur), og ítreka það að biskupinn er tilsjónarmaður sem hefur það verkefni að tryggja að innan kirkjunnar sé orðið rétt boðað og sakramentunum veitt rétt þjónusta (sbr. CA 5 og 14). Það er því hrapallegur misskilningur að álíta að við getum búið til biskupsembætti eftir vilja okkar og þörfum. Biskupsembætti setur maður ekki saman eins og matseðil á veitingastað þótt sumir vilji álíta það.

III Andspænis örum vexti kirkjunnar sem stofnunar má spyrja hvort ekki megi fela öðrum sum þeirra verkefna sem alltaf eru tengd biskupi, t.d. daglegan rekstur, stjórnum o.s.frv. Slík verkaskipting og valddreifing samræmist nútíma þjóðfélagsgerð og evangelísk-lútherskri trú, þar sem gengið er út frá fjölbreytileika í stjórnarháttum og ytra fyrirkomulagi kirkjunnar. Í lokin er rétt að geta þess að innan guðfræðilegrar umræðu í dag eru menn orðnir meðvitaðir um að kenning kirkjunnar verður að hljóma skýrt í nútíma samfélagi til að geta virkað og verið raunveruleg hjálp fyrir menn. Undanfarin ár hafa og næstu ár munu byggingar- og skipulagsmál vera komin tiltölulega vel í réttan farveg. Verkefni kristinna manna er ætíð hið sama: Að koma inntaki fagnaðarerindisins um Krist skýrt á framfæri í orði og verki. Það getur hún einungis gert í gegnum samræðu við samtímann, samræðu sem biskup Íslands á að hvetja til og styðja.