Þarftu á klósettið?

Þarftu á klósettið?

Ein af hverjum þremur konum í heiminum eru í hættu á áreiti, sjúkdómum, kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi af því að þær komast ekki örugglega á klósett. Áætlað er að 526 milljón kvenna þurfi að ganga örna sinna í almannarými. Aðstaða til hreinlætis og öruggar aðstæður sem virða einkastaðina eru líka lykilatriði í kynheilsu stúlkna og kvenna þegar tíðablæðingar hefjast og standa yfir.
fullname - andlitsmynd Kristín Þórunn Tómasdóttir
19. nóvember 2014

Þegar kallið kemur og við þurfum að pissa eða kúka er lítið mál fyrir okkur að finna næsta klósett, gera þarfir okkar og sturta niður svo úrgangurinn hverfi í vatnsflaumi úr augsýn. Annars staðar í veröldinni getur málum verið allt öðru vísi háttað.

Í fátækrahverfum Nairobi þarf vegfarandi að vara sig á því að verða fyrir svokölluðum fljúgandi klósettum - það er þegar plastpokar með saur koma fljúgandi, og eiga að lenda í ræsinu, lækjum, ofan á þök nágrannans eða bara eitthvert úr augsýn. Í Mexíkóskum þorpum er oft sérstök karfa fyrir notaðan klósettpappír, því lagnakerfið höndlar ekki pappír af neinu tagi.

Þetta er ekkert lekkert upphaf af pistli en fyrir ótrúlega stóran hluta mannkyns eru klósettmál ekki bara eitthvað sem helst ekki er rætt um, heldur dauðans alvara. Samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna er einn milljarður manna, langflestir í strjálbýli, án hreinlætisaðstöðu og gerir þarfir sínar í ræsin, bak við runna, við vatnsból eða rennandi vatn. Meira en helmingur íbúa í 45 löndum hafa ekki aðgengi að fullnægjandi og öruggum klósettum og hreinlætisaðstöðu. Aðeins um helmingur skóla í löndum með litla landsframleiðslu er með klósett og hreinlætisaðstöðu fyrir nemendur og starfsfólk.

Í mörgum tilvikum sækir fólk sér neysluvatn í sömu vatnsból og úrgangurinn fer í. Þetta hefur vitaskuld í för með sér stórkostlega sýkingarhættu og í dag er niðurgangur næstalgengasta dánarorsök barna undir 5 ára aldri. 2000 börn deyja úr niðurgangi á hverjum degi, það eru fleiri en falla af hendi HIV/AIDS, berkla og mislinga til samans.

Fleiri sláandi klósetttölur snúa að kynheilsu og öryggi stúlkna. Ein af hverjum þremur konum í heiminum eru í hættu á áreiti, sjúkdómum, kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi af því að þær komast ekki örugglega á klósett. Áætlað er að 526 milljón kvenna þurfi að ganga örna sinna í almannarými. Aðstaða til hreinlætis og öruggar aðstæður sem virða einkastaðina eru líka lykilatriði í kynheilsu stúlkna og kvenna þegar tíðablæðingar hefjast og standa yfir.

19. nóvember hefur verið valinn sem Alþjóða klósettdagurinn, og er ætlað að vekja til umhugsunar um mikilvægi aðgengis að öruggum klósettaðstæðum og miðla upplýsingum um hvar pottur er brotinn í þeim efnum. Kannski kennir hann okkur líka að kunna meta okkar eigin klósett.

Nánar má lesa um daginn á http://worldtoilet.org og http://www.unilever.com/images/slp-WaterAid-Women-Girls-Nov-2013_tcm13-377247.pdf.