Jólin og sorgin

Jólin og sorgin

Jólaljósin kvikna eitt af öðru og lýsa upp svartasta skammdegið. Jólalögin hljóma alla daga og það styttist óðum í það að jólahátíðin gangi í garð. En jólaljósin ná þó ekki að lýsa öllum, þau ná ekki að lýsa þeim sem syrgja og sakna.
fullname - andlitsmynd Elína Hrund Kristjánsdóttir
12. desember 2006

Jólaljósin kvikna eitt af öðru og lýsa upp svartasta skammdegið. Jólalögin hljóma alla daga og það styttist óðum í það að jólahátíðin gangi í garð. En jólaljósin ná þó ekki að lýsa öllum, þau ná ekki að lýsa þeim sem syrgja og sakna. Allt í kring er eitthvað sem minnir á horfna ástvini og jólalögin sem hljómuðu svo skemmtilega hljóma nú á allt annan hátt og ilmur aðventunnar fer fyrir brjóstið á mörgum.

Það er eðlilegt að sakna þeirra sem við höfum misst þegar aðventan gengur í garð og jólaundirbúningurinn nær hámarki. Það eru ekki einungis þau sem nýlega hafa misst sem finna hvernig sorgin og söknuðurinn eykst með hverjum degi þegar nær dregur jólum. Aðventan og aðdragandi jólanna reynist mörgum erfiður og í stað þess að vera tími sem einkennist af gleði og tilhlökkun getur aðventan einkennst af depurð og einmanaleika. Við eigum öll að vera glöð á jólunum, það er nánast skylda, það má ekkert skyggja á jólagleðina. Flestar manneskjur hlakka til jólanna á einhvern hátt en það eru líka margar sem kvíða jólunum og taka á móti þeim með sorg og söknuði í hjarta.

Að fara úr fötunum í kalsaveðri, að hella ediki út í saltpétur, eins er að syngja skapvondum ljóð segir í Orðskviðunum og við getum ekkert gert til að stöðva komu jólanna. Jólin koma hvort sem við viljum eða ekki. Jólaljósin ná ekki að kveikja ljós í hjörtum þeirra sem syrgja og sakna. En samt sendi Guð ljós heimsins inn í slíkt myrkur.

Jólin og jólabarnið voru ekki velkomin í þennan heim hin fyrstu jól. Ljós heimsins kom í heiminn í dimmu fjárhúsi við erfiðar aðstæður á erfiðum tímum.

Það getur verið erfitt að setjast niður þessi jól og senda jólakort með óskum um gleðileg jól til ættingja og vina þegar það reynist erfitt að finna gleðina í eigin hjarta. En mitt í þessu öllu er fagnaðaerindið og nærvera Guðs, nærvera Guðs sem umlykur okkur öll og heldur okkur í fangi sér þar til við getum staðið aftur á eigin fótum. Jesús var sendur í heiminn til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þau sem hafa sundurmarið hjarta

Okkur er alveg óhætt að gefast upp og einfaldlega sleppa því að skrifa jólakortin og hætta að reyna að brosa í gegnum tárin og viðurkenna fyrir sjálfum okkur og öllum þeim sem eru í kringum okkur að það sé erfitt að halda gleðileg jól í þetta sinn. En þó okkur sé óhætt að gefast upp og missa kjarkinn þá skulum við umfram allt ekki setjast að í vanlíðan okkar heldur ganga út úr henni með hjálp Guðs og leyfa okkur að gleðjast yfir komu frelsarans.

Reynum að njóta aðventunnar, fara á kaffihús, finna ilminn af mandarínunum og piparkökunum og við skulum umfram allt njóta samvista við fólkið okkar. Þó okkur kenni ef til vill til hjartanu og söknuðurinn sé þyngri en tárum taki þá skulum við reyna að leyfa friðnum sem fylgir aðventunni að umvefja okkur. Jesús sagði okkur aldrei að lífið myndi verða sársaukalaust en hann sagði að hann gæfi okkur frið, sinn frið sem er ofar öllum skilningi.

Notum aðventuna til að hlúa að okkur og taka til í hjörtum okkar og rýma til fyrir boðskap jólanna, rýma fyrir friði jólanna og hleypum hinu sanna jólaljósi inn.