Keðjur

Keðjur

Við þurfum svo sem ekki að leita langt yfir skammt þegar við viljum gera okkur í hugarlund þá tímalausu keðju sem í okkar tilviki teygir sig í gegnum söguna. Nú í haust þá efndu nemendur í Hagaskóla til söfnunar fyrir vin sinn, hann Óla, sem lá veikur á sjúkrahúsi og beið þess að fara í gegnum erfiða og krefjandi endurhæfingu.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
25. desember 2017
Flokkar

Þegar við komum saman hér mitt í hjarta hátíðarinnar í helgidómnum fer vel á því að hverfa á vit hins fábrotna og einfalda, þó ekki væri nema stundarkorn. Við skulum leggja til hliðar öll þau býsn og stórmerki sem hafa dunið yfir okkur undanfarna daga, tilboð og varning af ýmsum toga.

Gjafir

Við höfum örugglega mörg fallið fyrir einhverjum gylliboðum og keypt eitt og annað handa ástvinum. Gjafir eru jú dásamlegar. Með þeim játum við ást, vináttu, virðingu hvert til annars. En áður en gripirnir losna úr viðjum umbúða þá mætum við hingað í helgidóminn og hér það sjálf hátíðin sem ríkir ómenguð. Við í kirkjunni erum svo skelfing gamaldags að sumir af þessum sálmum sem við syngjum hér í kvöld eru ævafornir. Svo ekki sé nú talað um sjálft jólaguðspjallið. Það myndu nú ekki margir aðrir þora að bjóða upp á svo gamlar fréttir. Við höfum jú blaðið misáhugasöm í gegnum tilboðsbæklingana þar sem hugvitsmenn reyna í sífellu að koma okkur á óvart með nýjungum. Og skilaboðin eru jafnan þau sömu: Dótið sem við keyptum í fyrra eða jafnvel bara í sumar er ekkert nýtt og spennandi lengur. Nú er komið nýtt númer fyrir aftan græjurnar, enn hærra en það sem áður var.

Við þekkjum þennan boðskap. Jólaguðspjallið er tvöþúsundára gamalt og vísar raunar til enn eldri atburða spádóma eða einhvers konar framtíðarsýnar sem menn höfðu fengið enn fyrr. Við hérna í kirkjunni eigum okkur örugglega ekki viðreisnar von, því við bjóðum ekki upp á nýuppfært jólaguðspjall í ár. Hér fær enginn að heyra að gupspjallið flutt var í fyrra standi langt að baki því sem verður í boði í ár. Það er nákvæmlega eins.

Hátíðin svífur á vissan hátt í einhverju tímaleysi. Kannske er það þess vegna sem við miðum við hana þegar við gerum áform eða mælum út hversdaganna. Við tölum um fyrir og eftir jól.

Sem ungur maður vann ég einhver sumur í fjölskyldufyrirtæki sem sinnti alls kyns sérsmíði fyrir viðskiptavini. Starfsemin krafðist vandvirkni en metnaðurinn lá allur í gæðum vinnunnar, ekki því hversu skjótt tókst að ljúka verkinu. Þegar kúnninn spurði því hvenær varan yrði tilbúin var viðkvæðið alltaf það sama: Fyrir jól. Og svo þegar hann hafði lokað á eftir sér, bættu reyndari sölumennirnir við, ekki endilega þau næstu. Já, handbragðið var líka gott, átti örugglega eftir að lifa sjálfa viðskiptavinina og fjölskyldan sem rak smiðjuna fannst hún hafa nóg að bíta og brenna. Einu sinni spurði ég þau hvort þeim hefði ekki látið sér detta í hug að auglýsa í fjölmiðlum þessar ágætu vörur sem þau framleiddu. „Jú, það gerðum við einu sinni en það gerum við ekki aftur” – sögðu þau að bragði, „hann stoppaði ekki hjá okkur síminn!”

Keðja tímans

Þessi andartök hérna í helgidómnum langar mig að helga einmitt þessari hugsun. Og við hverfum aftur til sömu sögunnar og við fluttum fyrir ári, og þeirrar sem hefur borist til eyrna fyrri kynslóðum allar götur. Það er þetta samhengi hlutanna og sögunnar sem birtist okkur á helgum jólum. Þar sem einn tekur í hönd annars og við myndum nokkurs konar mannlega keðju sem nær óralangt aftur í tímann. Alls kyns viðburðir og breytingar líta dagsins ljós en hér ríkir tímaleysi hátíðarinnar og um leið fegurð mennskunnar þar sem við tökum okkur stöðu með þeim Maríu og Jósef, birtan stafar frá jötunni, birtan lýsir upp áþreifanlegt náttmyrkrið, birtan skín frá stjörnunni.

Við erum þarna rétt eins og aðrar kynslóðir.

Fyrir þeim hafði birtan enn meira gildi í skammdeginu. Við látum afl ímyndunarinnar fylgja okkur inn í hugskot formæðra og feðra sem tórðu í gegnum myrkustu mánuðina þar sem minnsta ljóstýra gat breytt öllu fyrir fólkið í baðstofunni. Í tímaleysi jólanna eigum við aðkomu að þessum magnaða leyndardómi jólanna þar sem hið almáttuga birtist í öllum sínum veikleika en um leið þeirri dýpstu fegurð sem nokkur mannlegt auga fær litið – hinu nýfædda barni.

Keðja vináttu

Við þurfum svo sem ekki að leita langt yfir skammt þegar við viljum gera okkur í hugarlund þá tímalausu keðju sem í okkar tilviki teygir sig í gegnum söguna. Nú í haust þá efndu nemendur í Hagaskóla til söfnunar fyrir vin sinn, hann Óla, sem lá veikur á sjúkrahúsi og beið þess að fara í gegnum erfiða og krefjandi endurhæfingu. Börnin létu gott af sér leiða, fundu það hvað þau gátu haft mikil áhrif sjálf með glæsilegum samtakamætti í verkefni sem þau kölluðu Gott mál. Gerningurinn sem þau fluttu er þau afhentu framlagið var í raun alveg magnaður. Þau mynduðu keðju sem náði frá skólanum og upp á Landspítalann og létu ávísunina ganga barn frá barni. Þetta var gjöf sem sem skipti máli, bæði sjálf ávísunin en þó fyrst og fremst kærleikurinn sem þar bjó að baki. Þarna sýndu börnin vini sínum hvað gjafir geta verið stórkostlegar og að ríkidæmið er ekki eingöngu fólgið í innihaldinu heldur jafnvel miklu fremur í því hvað við tjáum hvert öðru þegar við gefum.

Og nú ríkir hátíð í bæ. Við erum eins og krakkarnir í Hagaskóla í keðju sem nær í gegnum tímaskeið. Það hlýtur að hafa verið magnað að vera hluti af þessum atburði og börnin eiga vafalítið eftir að endurtaka hann í breyttri mynd síðar í lífinu. Fátt toppar það að gefa góða gjöf ef hún er borin fram af einlægni, vináttu og gleði eins og þarna átti við. Við setjum okkur í spor þeirra sem við viljum gleðja. Við skulum dvelja í helgi hátíðarinnar og gleðinnar meðan hún varir. Síðan tökum við það með okkur inn hversdaginn og glæðum hann inntaki og innihaldi. Með því finnum við betur hver tilgangur okkar þar sem við stöndum í keðju kynslóðanna. Við endurnærum mennskuna, fyllum hana inntaki og merkingu.
Gleðilega hátíð.