Hið heilaga

Hið heilaga

Í lífi flestra er eitthvað sem kalla má eða kallað er heilagt. Það hefur verið tekið frá og enginn óviðkomandi má snerta það eða spilla því. Hið heilaga er þannig oft nefnt á nafn án þess að alltaf sé augljóst hvað býr að baki, eða hvort um er að ræða sameiginlegan skilning. Við heyrum og lesum jákvæðar og neikvæðar setningar á borð við: ,,Það er mér heilög stund“, eða: ,, Er þeim ekkert heilagt?“.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
04. nóvember 2003

Í lífi flestra er eitthvað sem kalla má eða kallað er heilagt. Það hefur verið tekið frá og enginn óviðkomandi má snerta það eða spilla því. Hið heilaga er þannig oft nefnt á nafn án þess að alltaf sé augljóst hvað býr að baki, eða hvort um er að ræða sameiginlegan skilning. Við heyrum og lesum jákvæðar og neikvæðar setningar á borð við: ,,Það er mér heilög stund“, eða: ,, Er þeim ekkert heilagt?“.

Trúarlega skoðað er upphaf hins heilaga hinn heilagi Guð. Hið heilaga er það sem sérstaklega er tekið frá fyrir hann eða hann hefur sjálfur tekið frá. Í bréfum postulanna í Nýja Testamentinu eru þau sem tekið hafa trú á Jesú Krist ávörpuð sem hin heilögu.

Jesús segir sjálfur: Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Jh.15.16.

Við berum börn til Jesú Krists að hann helgi þau í heilagri skírn. Við göngum saman fram fyrir auglit hans og biðjum hann að helga hjúskap okkar og hjálpa okkur við að stofna kristið heimili í heilögu hjónabandi.

Nálægðin við hinn heilaga Guð kallar fram vitundina um hið heilaga og vekur löngun til að láta það hafa áhrif á líf sitt og hugsun. Það er kallað helgun.

Hugmyndir kristinnar kirkju um hið heilaga mótast fyrst og fremst af því að Guð er heilagur.

Það er grundvallar eiginleiki Guðs. Upphaf hins heilaga er hinn heilagi Guð. Hann er algjörlega annars konar en mannfólkið og heimurinn sem við höfum aðgang að og þó hefur hann gjört manninn í sinni mynd; hann gjörði þau karl og konu.

Guð sagði: Ég er Guð, en ekki maður. Ég bý á meðal yðar sem heilagur Guð. (Hós. 11.9)

Vegna helgi sinnar sem öllu er æðri á jörðu, er umhverfis Guð sérstakur helgidómur. Það er staður sem öllum mönnum er lokaður og enginn maður fær að ganga inn í: Guð sagði (við Móse) : Gakk ekki hingað! Drag skó þína af fótum þér, því að sá staður, er þú stendur á, er heilög jörð. (2M 3.5)

Hina heilögu nærveru sína tjáir Guð í móðurlegri umhyggju og föðurlegum áminningum:

Og sjá, Drottinn gekk fram hjá, og mikill og sterkur stormur, er tætti fjöllin og molaði klettana, fór fyrir Drottni, en Drottinn var ekki í storminum. Og eftir storminn kom landskjálfti, en Drottinn var ekki í landskjálftanum. Og eftir landskjálftann kom eldur, en Drottinn var ekki í eldinum. En eftir eldinn heyrðist blíður vindblær hvísla. Og er Elía heyrði það, huldi hann andlit sitt með skikkju sinni, gekk út og nam staðar við hellisdyrnar. Sjá, þá barst rödd að eyrum honum og mælti: Hvað ert þú hér að gjöra, Elía? (1.Kon. 19. 11-13)

,,Þá yfir löndin stormur geisar stríður, með sterkum róm hann boðar almátt þinn, og þá um vanga blærinn leikur blíður, hann boðar þú sért ljúfur faðir minn”. (Valdimar Briem, Sb 20,4.).