Samræmt sjónarhorn á fátækt

Samræmt sjónarhorn á fátækt

Það merkilega gerðist á þessum fundi að allir virtust sammála um þau megin atriði sem lögð voru fram. Samkomulag var á fundinum um þá megin staðhæfingu að langvarandi fátækt sé mannskemmandi og að hún birtist í skertri heilsu, félagslegri einangrun og vonleysi og ræni fólk reisn sinni og hamingju.
fullname - andlitsmynd Bjarni Karlsson
30. apríl 2013

Þann fyrsta mars sl. komu saman fulltrúar allra starfandi þingflokka á opnum borgarafundi í Þjóðminjasafninu til þess að hlýða á kynningu á nýrri skýrslu um fátækt og farsæld á Íslandi og gefa viðbrögð við efni hennar. Skýrslan er birt á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar og Rauða Krossins í Reykjavík en er ávöxtur af samstarfi breiðs hóps embættismanna hins opinbera, fulltrúa líknarsamtaka og hagsmunahópa auk félagsráðgjafa sveitarfélaga og fræðimanna á sviði félagsráðgjafar og siðfræði.

Það merkilega gerðist á þessum fundi að allir virtust sammála um þau megin atriði sem lögð voru fram. Samkomulag var á fundinum um þá megin staðhæfingu að langvarandi fátækt sé mannskemmandi og að hún birtist í skertri heilsu, félagslegri einangrun og vonleysi og ræni fólk reisn sinni og hamingju.

Hópurinn bendir á fjögur hugmyndafræðileg atriði og þrjá aðgerðarþætti sem þverpólitískur einhugur virðist um að sjá sem leiðir að því markmiði að útrýma langvarandi fátækt í landi okkar.

Fyrsta hugmyndafræðilega atriðið er það að við þurfum að kannast við sameiginlega ábyrgð okkar á fátæktarvandanum í stað þess að burtskýra fátækt ýmist sem aumingjaskap hinna fátæku eða sem afleiðingu af götóttu velferðarkerfi.

Fátækt er ekki annað hvort eymd eða kerfisgalli. Hún á rætur í menningu okkar og engar kerfisbreytingar vega þyngra en menningin í landinu.

Annað hugmyndafræðilega atriðið er tillaga í þá veru að í stað þess viðtekna viðhorfs að fátækt sé eins konar náttúrulögmál og það hljóti alltaf að vera til fátækt fólk þá skyldum við opna augun fyrir þeirri staðreynd að hver persóna er uppspretta gæða og allt fólk á erindi við umhverfi sitt. Fátækt er ekki náttúrulögmál heldur skortur á flæði. Því leggjum við til að við iðkum mannréttindi í stað þeirrar nauðhyggju að fátækt sé náttúrulögmál.

Þriðja hugmyndafræðilega atriðið varðar upphrópana-mennskuna og þá misskildu aumingjagæsku sem umvafið hefur málaflokkinn of lengi. Forsenda viðunandi velferðar er forræði á eigin tilveru og vitneskjan um það að hafa um líf sitt að segja. Í stað þess að aumka hina fátæku þarf samfélagið að efla þau að völdum í eigin lífi.

Í vinnu okkar höfum við stuðst við þekkta og býsna notadrjúga skilgreiningu á viðunandi velferð sem er svona: „Viðunandi velferð er að hafa tök á því að eiga líf sem maður sér ástæðu til að meta gott.” Um þessa skilgreiningu má margt segja. Hún felur m.a. í sér þá nálgun að virða forræði persónunnar og umboð hennar fyrir eigin lífi. Við tökum undir það og vísum til þekktra hugmynda um valdeflingu í því sambandi. Valdefling birtist í því að fólk hafi sjálft um líf sitt að segja og séu virkir gerendur í eigin lífi. Líka fátækt fólk.

Fjórða hugmyndafræðilega atriðið felur í sér hin þrjú. Þar er gengið út frá hinni deildu ábyrgð, mannréttindi eru viðurkennd og valdeflandi nálgun viðhöfð um leið og við segjum: Veðjum á félagsauð og þátttökumenningu í stað ölmusumenningar. Stundum þarf að efna til safnana eða ganga í sjóði og gefa fólki einfaldlega það sem það skortir. Langavarndi og skemmandi fátækt verður þó ekki leyst með þeim hætti því að fátæktin á rætur í menningu okkar fremur en fjárskorti. Ölmusugjafir einar leysa ekki fátæktarvandann. Raunverulegir möguleikar fólks til þess að eiga líf sem það sjálft telur sig hafa ástæðu til að meta gott ráðast af mörgum þáttum. Vissulega skiptir kaupmáttur miklu og þegar tekjur fara niður fyrir grunnframfærslu rýrast þeir snarlega. En raunverulegir möguleikar fólks til þess að skapa sér líf sem það sjálft metur gott byggja líka á félagslegum tækifærum s.s. menntun, félagsstöðu, atvinnuþátttöku og aðgengi að kerfum samfélagsins. Félagsauður er líka stór áhrifaþáttur í allri velferð. Félagsauður birtist í því þegar samskipti ganga vel í þjóðfélaginu vegna þess að fólk telur sig hafa ástæðu til þess að búast við góðu af náunga sínum og hann er forsenda þess að fólk hafi áhuga á samfélagsþátttöku.

Fyrsti aðgerðarþátturinn af þremur sem hópurinn leggur til í skýrslunni lýtur að nauðsyn þess að þróa þátttökumenningu í landinu. Við þurfum að finna leiðir til að virkja félagsauðinn og þróa þátttökumenningu í landi okkar með mun markvissari hætti en hingað til hefur verið. Það mætti m.a. gera með því að meta færni í stað örorku og gera samkomulag um skilgreind grunnframfærsluviðmið sem kallist á við skilgreind þátttökuviðmið í samfélaginu. Fleiri tillögur í þessum efnum má sjá í skýrslunni.

Annar aðgerðarþátturinn að því marki að útrýma langvarandi fátækt í samfélagi okkar varðar flækjustig velferðarkerfisins sem veldur því að kerfið vinnur gegn markmiðum sínum og notendur fara á mis við gæði þess. M.a var á fundinum vel tekið í hugmyndir um svo nefndan velferðarreikni og tillögur um samræmingu á þeim mörgu kerfum sem skapa velferðarkerfi landsins en hafa tilhneigingu til þess að skarast.

Þriðji og síðasti aðgerðarþátturinn varðar þær fátæktargildrur sem við blasa og þá staðreynd að sitthvað má gera strax. Enginn hefur andmælt staðhæfingu hópsins sem hljóðar svo: Þekktar fátæktargildrur megi aftengja. Er þar af mörgu að taka en hópurinn bendir einkum á heilbrigðismál barna, málefni ungmenna sem lifa við óvirkni og stöðu barna af erlendum uppruna.

Við vitum öll að langvarandi fátækt skemmir fólk og það er augljóst þjóðþrifamál að útrýma henni. Skýrslan eru niðurstaða af löngu, skipulögðu og lýðræðislegu samtali þar sem ótal raddir hafa heyrst, líka raddir fátækra. Við vörpum fram þeirri áskorun til landsmanna að skoða skýrsluna þar sem hún liggur á heimasíðum Rauðakrossins í Reykjavík og Hjálparstarfs Kirkjunnar eins má nálgast hana beint á skrifstofum samtakanna. Hið mikilvægasta er þó það að við séum virk í umræðu í okkar eigin umhverfi og nýtum tækifærin til þess í aðdraganda kosninganna. Fátækt er ekki einkamál.

Höfundar eru samstarfshópur um enn betra samfélag:

Birna Sigurðardóttir félagsráðgjafi, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar Bjarni Karlsson sóknarprestur í Laugarneskirkju Halldór S. Guðmundsson lektor, félagsráðgjafardeild HÍ Hrafnhildur Gísladóttir verkefnisstjóri, Rauða krossinum í Reykjavík Katla Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins í Reykjavík Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi, Hjáparstarfi kirkjunnar