Kirkjan og lífsins brauð

Kirkjan og lífsins brauð

Innilega til hamingju með kirkjuna ykkar og afmælið hennar. Megið þið áfram eiga hér góðar og gefandi stundir ykkur til uppbyggingar og Guði til dýrðar. Blessun fylgi nýrri byggingu og ferlinu öllu frá upphafi til enda.

Jóh. 6:47-51.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag komum við saman hér í Árbæjarkirkju í Reykjavík og fögnum því að 30 eru liðin frá vígslu þessa guðshúss. 9 árum áður hafði safnaðarheimilið verið vígt og notað til helgihalds áður en kirkjuskipið sjálf var byggt og tilbúið til notkunar. 25 árum áður hafði Reykjavíkurborg samþykkt skipulag fyrir byggð austan Elliðaáa og var Árbæjarhverfið fyrsta hverfið sem kom til skipulagningar. Þá eins og nú var fólk að huga að framtíðarhúsnæði fyrir fjölskyldur í höfuðborginni. Í nýjum hverfum er gert ráð fyrir kirkjuhúsi og það er ekki byggt af hinu opinbera eins og kunnugt er, heldur fólkinu sem þar býr. Árbæjarsöfnuður var stofnaður árið 1968 og fljótlega fóru safnaðarmeðlimir að huga að samastað fyrir starfsemina. Árbæjarkirkja reis og sóknarbörnin lögðu sig fram um að koma húsinu upp og höfðu mikið fyrir því að finna fjármagn og búa til fjármagn til framkvæmdanna.

En Árbærinn er ekki bara eitt hverfi. Við bættust Selás, Ártúnholt og Norðlingaholt og nær Árbæjarprestakall yfir öll þessi hverfi. Fjöldinn í prestakallinu hefur aukist eftir því sem fólkinu fjölgar. Starfið í söfnuðinum er fjölbreytt og nær til allra aldurshópa og ólíkt því sem sumir halda þá er starfsemi í kirkjunni nær alla daga og kvöld flesta mánuði ársins í öllum krókum og kimum. Sú samheldni sem bjó í þeim sem byggðu kirkjuna ríkir enn hjá sóknarbörnunum eins og sést meðal annars á því að hér að athöfn lokinni verður tekin fyrsta skóflustungan að safnaðarheimili við kirkjuna. Til að bæta þjónustuna og efla safnaðarstarfið þarf stærra húsnæði.

Kirkjan er eins og heimili. Þar eru allir velkomnir og þar hafa allir sitt hlutverk og vinna saman að því að boða fagnaðarerindið hver á sinn máta. Prestar, organisti, kirkjukór, meðhjálpari og kirkjuvörður vita hvað til síns friðar heyrir og það veit líka sóknarnefndin sem hefur það hlutverk að sjá til þess að allt sé til reiðu í kirkjunni fyrir helgihald, athafnir og safnaðarstarf. Og ekki má gleyma bræðrafélaginu og konunum í kvenfélaginu sem leggja sig fram um að styðja við safnaðarstarfið með ýmsu móti og hafa konurnar án efa undirbúið hátíðarkaffið sem býður okkar hér á eftir.

Kirkjan er samfélag fólks sem kemur saman í nafni Jesú Krists og nærist af heilögum anda hans. Kirkjan er fólk sem vill láta gott af sér leiða í anda hans sem minnti okkur á að elska Guð og náungann eins og okkur sjálf. Þjóðkirkjan er þannig ekki stofnun heldur félag fólks sem vill halda kristnum gildum á lofti og lifa og starfa samkvæmt þeim. Þjóðkirkjan er kirkja þjóðarinnar ekki vegna þess fjölda sem henni tilheyrir heldur vegna þess að hún þjónar fólkinu í landinu. Það gerir hún með því að leitast við boða kærleika Krists í orði og í verki og koma til móts við hvern einstakling á þann hátt sem Jesús sjálfur gerði og sýndi og við getum lesið um í guðspjöllunum.

Í dag er miðfasta og í guðspjalli dagsins talar Jesús til fólks sem átti erfitt með að skilja það sem hann sagði. „Ég er hið lifandi brauð“ segir hann um sjálfan sig. Við vitum um atburði páskanna. Við vitum það sem áheyrendur hans vissu ekki að mótlæti ætti eftir að mæta Jesú og að hann var píndur á dögum Pontíusar Pílatusar og dæmdur til dauða. En hann reis upp frá dauðum. Sigraði hið illa. Sigraði dauðann. „Sá sem trúir á mig hefur eilíft líf“ segir hann í guðspjallinu. Eilífa lífið er ekki eingöngu bundið við líf eftir dauðann. Eilífa lífið er lífið sem helgað hefur verið honum. Lífið sem við göngum í trú á Guð, hér og nú og um eilífð alla. Hvort sem við lifum eða deyjum þá erum við Guðs, segir Páll postuli. Í þessum orðum Páls og í orðum Jesú felst von, sem veitir huggun harmi gegn og styrk á erfiðum stundum.

„Ég er hið lifandi brauð.“ Brauð nærir. Brauð er tákn um fæðu. „Gef oss í dag vort dagslegt brauð“ segir í faðir vorinu. Okkar daglega brauð á ekki aðeins við um líkamlega fæðu, heldur einnig andlega. Þetta tvennt verður að fara saman. Það getur enginn lifað eingöngu af andlegri fæðu og ekki heldur eingöngu af líkamlegri fæðu. „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ Já, það bætir lífsgæðin að hlusta á Orð Guð og nærast af því. Það gefur kraft til að takast á við verkefni daganna og það leiðir okkur að lausnum sem við þurfum á að halda.

Undanfarna 3 laugardaga hafa verið þættir í ríkisútvarpinu um fátækt á Íslandi. Það er sárt til þess að vita að skipting heimsins gæða séu þannig að sumir fá ekkert. Í síðasta þætti var meðal annars rætt við félagsráðgjafa hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. Starfsfólk Hjálparstarfsins vinnur eftir þeirri hugmyndafræði að vald efla fólk. Að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Þar er til dæmis sjóður til að styðja ungt fólk til að mennta sig. Það er fallegt og vonarríkt að vita til þess að sumt af þessu unga fólki hefur farið í gegnum framhaldsskóla og háskóla og komið svo til baka fullt þakklætis og vilja til að hjálpa öðrum sem eru í sömu stöðu og þau voru í. Það hefur líka verið sláandi í þessum þáttum að heyra að vinnandi fólk hefur svo lág laun að þau duga ekki fyrir framfærslu fjölskyldunnar. Það er ekki hvetjandi að fara út á slíkan vinnumarkað.

Við stóðum við gluggann og horfðum yfir græn túnin. Hann var orðinn aldraður maður og sagði orð sem ég gleymi ekki. Hann benti mér á slétt túnin sem hann hafði ræktað og girðingarnar sem voru í góðu standi. Hann bjó með fjölskyldu sinni í hlýju myndarlegu húsi sem hann hafði byggt. „Það var dyggð að vera duglegur“ sagði hann „þegar ég var upp á mitt besta en nú er bannað að vera duglegur.“ „Nú má ekki stækka ræktarlandið. Nú má ekki auka mjólkurkvótann. Nú má ekki fjölga fénu.“ Þessi orð bóndans aldraða hafa setið í huga mínum í nærri 30 ár og rifjast upp fyrir mér af og til. Öll kerfi er snúa að lifuðu lífi þurfa að vera hvetjandi en ekki letjandi.

Sumir hafa ekki nógan mat aðrir þurfa að henda mat. Matarsóun hefur verið til umræðu undanfarin ár og við höfum vaknað til vitundar um að það er ekki boðlegt að hafa svo mikið af mat að honum þurfi að henda. Kirkjan er sá staður sem við getum leitað til bæði í gleði og í sorg. Á hversdögum og um helgar og hátíðar. Í vanda og fengið uppörvun og samfélag. Hér er komið saman í nafni hans sem sagðist vera hið lifandi brauð. Hér er brauðið brotið og skipt þannig að allir fá og njóta. Hér er mennskan viðurkennd og hér er þekking til að ganga veginn með fólki í öllum aðstæðum lífsins. Trú er persónuleg og jafnvel einkamál. En kristinni trú er ekki hægt að halda bara fyrir sjálfan sig því hún er samfélagstrú. Þess vegna eru kirkjur byggðar. Þess vegna kemur fólk saman um trúna, uppbyggist saman og fer með blessun Guðs út í heiminn til að vinna honum og náunganum gagn. Heldur áfram guðsþjónustunni í hversdeginum með því að sýna kærleikann í verki og framganga í þeim anda sem Jesús birti og boðaði.

„Ég er hið lifandi brauð“ sagði Jesús um sjálfan sig. Hann líkir sér við hið himneska brauð sem talað er um í hans helgu bók Gamla-testamentinu og fullyrðir að hann muni seðja hungur og þorska allra sem á hann trúa. Hann er hin sanna næring trúarinnar. Trúin færir okkur áræðni til að takast á við verkefni daganna hvort sem þau eru einföld eða flókin. Trúin gefur okkur færni til að finna leiðir til lausnar og hugsun til að snúa okkur til Guðs í öllum aðstæðum lífsins. Þekkt er bænin sem margir kunna og biðja: „Guð - gef mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.“ Kæri söfnuður hér í Árbænum. Innilega til hamingju með kirkjuna ykkar og afmælið hennar. Megið þið áfram eiga hér góðar og gefandi stundir ykkur til uppbyggingar og Guði til dýrðar. Blessun fylgi nýrri byggingu og ferlinu öllu frá upphafi til enda.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.