Takk fyrir mig !

Takk fyrir mig !

Þakka þér fyrir, manni. Þessi orð festust einhvern veginn í huga mér, sagði mér margt um þennan óþekkta dreng. Hann kunni að þakka, jafnvel þó óvíst væri hvor væri í raun sökudólgurinn. Þakklæti. Það var einmitt það sem ég var að reyna að tengja lífinu okkar hér í dag, þakklætið.

Hann er ekki hár í loftinu, ungi drengurinn sem kom hjólandi á móti mér einn fagran morgun í liðinni viku á göngustígnum milli Breiðholtanna. Ég sá að hann réð tæplega við hjólið sitt, með stærðar skólatösku á bakinu og öll þyngdaröfl og náttúrukraftar unnu gegn honum. Og ekki bætti úr skák er á móti honum kom ég á miðjum göngustígnum, hugsandi hvað ég ætti nú að segja hér í stólnum í dag. Svo fór að rétt áður en við mættumst missti hann stjórn á hjólinu sínu en svo vildi til að ég gat gripið í hann og varnað því að hann dytti í götuna. „Svona vinur, þetta fór nú vel“, sagði ég og horfði mildilega í andlit hans og sá að táradropar voru að myndast þar. „Þetta var nú eiginlega mér að kenna, ég gekk sjálfur á miðjum stígnum en haltu bara áfram og farðu varlega“. „Þakka þér fyrir, manni“, muldraði hann og hélt áfram sinn veg og ég minn.

„Þakka þér fyrir, manni“. Þessi orð festust einhvern veginn í huga mér, sagði mér margt um þennan óþekkta dreng. Hann kunni að þakka, jafnvel þó óvíst væri hvor væri í raun sökudólgurinn. Þakklæti. Það var einmitt það sem ég var að reyna að tengja lífinu okkar hér í dag, þakklætið.

Haustmerkin eru farin að sýna sig þó veðráttan sé enn svona einstaklega mild og falleg eins og þessa daga. Kannski er enn sumar í náttúrunni þó hausti að í hinu daglega lífi okkar, hinum hefðbundna lífsrytma. En skólinn er byrjaður, kvöldin eru dimmari, sumarleyfin senn að baki og lífið fer að falla í sínar skorður. Við getum væntanlega öll litið til baka yfir síðustu vikur og mánuði í þakklæti fyrir gjöfula tíð, góða daga hvíldar og gleði í skauti náttúrunnar, þar sem fjölskyldan fékk að fara saman innan lands sem utan og byggt sig upp fyrir daga vetrar og styttri dagsbirtu. Þeir landsmenn sem njóta afraksturs jarðagróðurs og annarra gæða lands og hafs njóta nú afraksturs erfiðis síns. Það er gott að þakka, það er gott að gefa því gaum sem gott er og jákvætt en binda sig ekki við það neikvæða og forðast að þakka fyrir sig. Var þér ekki eins og mér kennt að þakka fyrir matinn þegar staðið er upp frá matborðinu heima? Ekkert er sjálfsagt né sjálfgefið í þessum heimi. Sumir njóta nægtanna meðan aðrir sitja hnípnir með tóma matarskál og þaklaust svefnstæði háð vindum og veðri, sumir illsku þeirra manna sem lifa í myrkri hugsana og tilfinninga. Já, eigum við ekki margt að þakka og meta og virða eða erum við svo sinnulaus að telja lífsgæðin sjálfsögð? Nei, þökkum Guði það sem hann gefur okkur til að lifa mannsæmandi lífi, biðjum hann í þakklæti að opna augu okkar fyrir þeim sem eru hjálparþurfi. Sú manneskja sem kann að þakka, kann nefnilega líka að gefa.

Þeir tíu líkþráu einstaklingar sem guðspjallið fjallar um voru sviptir mannlegu samfélagi, holdsveikir, alsettir smitandi kaunum á líkama sínum, útskúfaðir, menn sem enginn vildi snerta, hugsa um, hafa samneyti við, þó þau vissu af hörmungum þeirra. Þess vegna voru þeir nefnilega ekkert sérstaklega lífsglaðir menn þessir tíu líkþráu einstaklingar sem bjuggu utan Jerúsalem og urðu á vegi Jesú í guðspjalli dagsins. Þeir dvöldu utan þorpsmarkanna, þeir áttu ekkert, ekki einu sinni samneyti við samfélagið, í raun landlausir menn. Líkþráir menn voru ekki aufúsugestir í þá daga. Líkþráin, veikindin, mynduðu ókleyfan múr milli þeirra og annars fólks. Enginn vildi umgangast þá, hvað þá snerta þá, umvefja þá hlýju og huggun, telja í þá kjark, gefa þeim von. Þeir voru ósnertanlegir, illa þokkaðir, óvelkomnir meðal manna. Veruleiki þessa heims segir okkur að við höfum alltaf þessa tíu í nágrenni við okkur, getum því ekki litið undan.

Það eru okkar skjólstæðingar, fórnarlömb ofbeldis sem ráfa um suðurhluta álfunnar þessi misserin og fáir vilja hýsa, helst varla sinna. Þau eru hinir tíu líkþráu börn nútímans sem eru utan borgarmarkanna, þau afskiptu og einangruðu einstaklingar. Þau eru það fólk sem Jesús talar um við okkur, mig og þig, þessi misserin. Biblíuna á að túlka öðrum þræði inn í aðstæður nútímans, ekki hnýta hana í forneskju sögunnar þó við megum aldrei gleyma því að fortíð og nútíð tengjast. Barnið litla sem liggur drukknað í fjöruborðinu var eitt þeirra tíu sem ekki hlaut aðhlynningu, hjálp, drengurinn særði í sjúkrabíl innan um sprengjudrunurnar er líka einn hinna tíu sem fáir skipta sér af. Eigum við endalaust að standa hjá og yppta öxlum, við sem eigum að þakka þá velmegun sem við búum við? Hvernig þökkum við þann munað að lifa í friði og öryggi? Eða þökkum við það yfirleitt? Erum við í hópi þeirra níu? Við þökkum með því að hjálpa þeim sem saklausir líða.

En einn skildi þá, einn var hann sem horfði í vondöpur augu þeirra, einn var hann sem gaf sig á tal við þá, hlustaði á skerandi hrópið um líkn og miskunn. Jesús er hann sem mætir hinu rúnum rista andliti, hvort sem það var utan þorpsmarkanna á leið hans frá Jerúsalem eða þau andlit þess fólks sem við þekkjum og vitum að þarfnast handa okkar og hugafars. Hann vill að þjáð manneskja finni frið og viðurkenningu þess að vera manneskja í samfélagi annars fólks, manneskja sem þarf hjálp og stuðning. 10 voru þeir forðum og urðu heilir og gleði þeirra var undursamlegri en svo að þeir áttuðu sig ekki allir á þeirri frumskyldu að þakka fyrir sig. Aðeins einn sneri við og þakkaði Jesú. Og er ekki eins og sérkennilega sár tónn í spurningu Jesú: “Urðu þeir ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu”? Eigum við ekki að þakka lífslán okkar, við sem njótum vellystinga, sýna þakklæti með því að hjálpa öðrum?

Já „hvar eru hinir níu“, spyr Jesús? Það er spurning hvers dags í lífi okkar. Í hvorum hópnum erum við? Þessum níu manna sem þustu burt heilshraustir og sælir og sinna ekki öðrum eða erum við þessi einn sem mundi að þakka? Sjálfsagt hvorutveggja. Við erum oftast full þakklæti og kunnum að þakka fyrir okkur þegar vel er við okkur gert. En stundum gleymum við hverjum við eigum allt að þakka, gleymum að koma í kirkjuna hans til að þakka honum gleði og unað lífsins, styrkinn sem hann gaf þér í mótlætinu, huggunina sem hann gaf þér í sorginni. “Hvar ert þú barnið mitt, lífsins barn, ljóssins barn sem ég ber á örmum mér frá getnaði þínum og mun bera þig áfram? Hvar ertu, hví þakkar þú mér ekki þetta sem ég gef þér, líf og lán, styrk í mótlæti, já líf að loknu þessu? Þakka þú það allt með því að leggja særðum lið“.

Þessi eftirminnilega frásögn þessa sunnudags hefur alltaf snert mig með sérstökum hætti. Ég gleymi oft að þakka Guði mínum. En ég lifi margar stundir þakklætis fyrir að mega ganga erinda hans sem gaf mér lífið og allt sem því fylgir. Það er mitt stærsta þakkarefni, þakklæti sem ég get aldrei tjáð nógu sterkum orðum. Og nú í dag er komið að því, kæru vinir, að standa hér og kveðja embætti mitt og þakka, þakka svo margt og mörgum í samferð okkar. Þakklæti og gleði eru í huga mínum, viss tilhlökkun að takast á við komandi tíma. Hugur minn er fullur þakklætis, þakklæti fyrir þann trúnað og traust sem mér hefur veriði sýnt af fólki þau tæp fjörtíu ár sem prestur í Þjóðkirkjunni. Í mínum huga hafa það verið forréttindi að gegna prestsþjónustu, eiga ánægjulegar og stundum daprar stundir með fólki og finna að það hefur fengið örlitla hjálp og uppörvun í samskiptum okkar. Bæn, ritningarorð, samræður. Allt veitir það styrk ef hugur fylgir máli. Ég hef notið þeirrar gæfu að hafa átt góða söfnuði í Dölunum, í Neskaupstað, í Ölfusinu og loks hér í Efra-Breiðholti. Og sú vinátta sem myndast hefur við fólkið á þessum stöðum hefur varað alla tíð og mun vonandi gera áfram. Ég hef líka verið þeirrar gæfu njótandi að hafa alltaf átt sérlega gott samstarfsfólk og vil þakka þeim öllum, lífs og liðnum fyrir þeirra samskipti og vinskap. Fjölskylda mín hefur líka í einu og öllu staðið með mér og veitt mér hvatningu, hugmyndir og ómælda aðstoð. Þeim þakka ég líka. Ég hverf úr starfi sáttur og glaður fyrir að hafa vonandi lagt öðrum eitthvert lið í baráttu lífsins. Ég vil þakka ykkur öllum og öðrum sem ekki eru hér í dag fyrir samveruna og vináttuna og góðar minningar geymir maður alla tíð í hugskoti hjartans. Guði þakka ég að hafa sent mig á þessa akra, fært mér vini og vináttu, auðgað líf mitt í gleði og sorg sóknarbarna minna allra. Guði blessi öll þau sem ég hef verið sendur til að þjóna, nær og fjær, lífs sem liðna og megi hann vaka yfir ykkur í gleði og sorg. Takk fyrir mig!

Prédikun í Fella- og Hólakirkju sunnudaginn 28. ágúst 2016 er sr. Svavar Stefánsson flutti í lok embættisferils síns sem sóknarðrestur Fellasókna, Reykjavík.

(Guðspjall: Lúk 17.11-19)