Skakkur turn, druslur og byltingar

Skakkur turn, druslur og byltingar

Þegar ég var unglingur var enn verið að ræða það hvort konur væru hæfar til þess að taka fullan þátt í stjórnmálum, stjórna fyrirtækjum eða gegna mjög ábyrgðarmiklum stöðum yfirleitt vegna þess að þær færu á blæðingar einu sinni í mánuði. Og allir vita nú hvað konur verða erfiðar og óáræðanlegar þá.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
26. júlí 2015
Flokkar

Hér er hægt að horfa og hlusta

Ráðagóður Jesús Ég veit að þið kannist öll við skakka turninn í Písa. Kannski hafa einhver ykkar séð hann. Hann var byggður sem frístandandi klukkuturn við dómkirkjuna í Písa og tók verkið um 200 ár. Byrjað var að byggja hann 1172 og fimm árum síðar var hann farinn að halla ískyggilega. Þessi rúmlega 800 ára gamla, sjö hæða bygging hallar enn mikið en undanfarin 20 ár hafa Ítalir gripið til ýmissa aðgerða til þess að rétta turninn af og bjarga honum frá hruni. Það hefur tekist nokkuð vel þó ekki sé hann beinn. En ástæðurnar fyrir því að turninn er skakkur eru galli í hönnun og lélegur jarðvegur. Undirstöðurnar náðu ekki nógu langt niður í jörðina og þar sem jarðvegurinn er svo mjúkur hefur turninn færst mikið til og sigið.

Turninn í Písa kemst nokkuð nálægt því að vera bygging sem byggð er á sandi.

Sögur af þekktum byggingum sem þolað hafa jarðskjálfta, storma og aðrar náttúruhamfarir eru óendanlega margar og er ástæðan ávallt, góð hönnun og góður jarðvegur. Reyndar eru til fjölmörg dæmi um að hús séu byggð ofan á, utan á og jafnvel innan í klettum.

Allt snýst þetta nefnilega um undirstöður. Ef undirstöðurnar eru góðar stendur húsið þrátt fyrir veður og vind og þolir jafnvel verstu náttúruhamfarir. Ef undirstaðan er léleg þolir húsið varla þyngd sjálfs sín og hvað þá ágang veðurs og vinda.

Ástæða lélegrar undirstöðu er oft lítil efni, lítill tími og/eða lítil þekking.

Já, þetta var gott ráð til verkfræðinga, arkítekta og smiða frá Jesú, enda var hann smiður sjálfur og kunni því vafalaust nokkuð til verka.

Ég er þó ekki viss um að Jesús hafi endilega verið að tala um húsbyggingar í bókstaflegri merkingu þarna sem hann stóð uppi á klettinum og hélt eina mögnuðustu ræðu sem nokkurntíma hefur verið flutt.

Undirstöður Ég var að mörgu leyti frekar óörugg fram eftir aldri þó mér tækist nokkuð vel að leyna því. Ég var nefnilega alveg sannfærð um að allt sem ég segði yrði að vera fullkomlega vatnsþétt því engin/n mætti komast að því að ég hefði ekki fullkomið vit og þekkingu á hverju því því sem ég sagði, að ég hefði ávallt skotheld rök fyrir öllu því sem ég héldi fram. Það versta sem gat gerst var að ég segði einhverja vitleysu og að fólk kæmist að því að það væri kannski ekkert vit í mér. Að ég væri hvorki, klár, skemmtileg né sæt. Því þetta þurfti ég allt að uppfylla til þess að vera fá að vera með.

Þetta eru náttúrulega fáránlegar kröfur sem aldrei hefði hvarflað að mér að gera til annarrar manneskju. En ég er nokkuð viss um að þetta séu kröfur sem margar konur gera og hafa gert til sín í gegnum tíðina.

Og ástæðan fyrir þessum ómanneskjulegu kröfum er skortur á traustum undirstöðum. Að við teljum okkur byggja á sandi og allt muni fjara undan ef við stöndumst ekki allar kröfur sem samfélagið og við sjálfar gerum til okkar.

Þegar ég var unglingur var enn verið að ræða það hvort konur væru hæfar til þess að taka fullan þátt í stjórnmálum, stjórna fyrirtækjum eða gegna mjög ábyrgðarmiklum stöðum yfirleitt vegna þess að þær færu á blæðingar einu sinni í mánuði. Og allir vita nú hvað konur verða erfiðar og óáræðanlegar þá.

Þegar ég var unglingur man ég eftir að hafa, allt of oft, tekið þátt í umræðum um hversu mikla ábyrgð konur sem þolendur kynferðisofbeldis, bæru á ofbeldinu. T.d. vegna klæðaburðar og hegðunar.

Það er ekkert undarlegt að mér hafi þótt vissara að vera ekki að halda fram einhverju sem ég hefði ekki fullkomin rök fyrir og að ég gerði nú engin mistök því konur máttu ekki gera mistök.

Druslur Tíðarandinn hefur breyst og ég hef elst og þroskast eitthvað svolítið.

Ég þori frekar að gera mistök og segja einhverja vitleysu þó enn séu einhverjar leifar eftir af þessu óöryggi.

Og allt snýst þetta um undirstöðurnar. Þegar ég upplifi að stuðningurinn, bæði í mínu persónulega umhverfi og í samfélaginu, sé til staðar og að umhverfið sé kærleiksríkara, þá verður auðveldara að vera ég sjálf án þess að þurfa stöðugt að vera á varðbergi.

Stuðningurinn þarf ekki vera frá öllum til þess að undirstöðurnar verði góðar. En hann þarf að vera frá nógu mörgum til þess að við finnum fyrir honum.

Í gær var Druslugangan haldin í fimmta sinn og gangan haldin bæði í Reykjavík, á Akureyri og á Borgarfirði eystri. Þar tóku “druslur” af báðum kynjum og á öllum aldri þátt. Þessar “druslur” eiga það sameiginlegt að að vilja koma þeim boðskapi til samfélagsins alls að kynferðisofbeldi er ALDREI þolandanum að kenna. Að klæðnaður, útlit eða hegðun afsakar aldrei kynferðisofbeldi.

Þau sem standa fyrir druslugöngunni og taka þátt í henni eru að byggja undirstöður. Þau er að byggja undirstöður fyrir fólk framtíðarinnar svo það þurfi aldrei að efast um að ofbeldi sé nokkrum öðrum að kenna en gerandanum.

Stelpurnar sem stóðu fyrir og tóku þátt í #freethenipple fyrir nokkrum mánuðum voru líka að byggja undirstöður fyrir fólk framtíðarinnar. Undirstöðurnar sem þær byggja felast í því að það sé í lagi að vera á móti því að líkamar kvenna séu hlutgerðir því það á aldrei að hlutgera líkama fólks.

Stelpurnar á facebooksíðunni Beutytips, sem opnuðu fyrir að konur gætu tjáð sig um ofbeldið sem þær höfðu orðið fyrir, voru að byggja undirstöður. Þeirra undirstöður hjálpa fleirum að segja frá reynslu af ofbeldi án þess að efast um frásögn sína og án þess að óttast harða dóma samfélagsins.

Konurnar sem stóðu fyrir því að við fengum kosningarétt fyrir 100 árum voru líka að byggja undirstöður.

Vigdís Finnbogadóttir byggði undirstöðu undir það að mér og öðrum konum og körlum þykir ekki lengur neitt merkilegt við það að kona sé forseti.

Agnes Sigurðardóttir, biskup byggði undirstöður undir það að okkur þykir nú sjálfsagt að kona verði biskup og að í framtíðinni munu konur frekar þora að gefa kost á sér án þess að upplifa sig framhleypnar og óttast að vera reknar á gat af árásargjörnum körlum.

Ég tek þessa hluti sem dæmi í dag á 100 kosningaafmæli kvenna og vegna þess að á þessu ári (og undanfarin ár) hefur svo margt annað merkilegt gerst í kvenfrelsisátt, byltingar sem ungar konur hafa staðið fyrir.

Góðar undirstöðurnar eru þær sem halda alltaf, sama hvernig allt um kring æxlast. Góðar undirstöður þola bæði storma, flóðbylgjur og jarðskjálfta. En veikar undirstöður þola lítið sem ekkert, gera okkur óörugg og einmanna.

Sterkar undirstöður gefa okkur kjark og þor til þess að vera við sjálf og þá fyrst getum við farið að breyta heiminum og gera hann elskuríkari.

Vonarturninn í Písa Jesús sem var einn sá klárasti í að segja dæmisögur, líkti þessum undirstöðum við húsbyggingar því það er eitthvað sem við skiljum öll og á við hvar sem er í heiminum. En það sem Jesús er að gera með þessari sögu er að brýna okkur til þess að byggja líf okkar á góðum undirstöðum. Og hann er tilbúin að vera ein af þessum sterku undirstöðum í lífi okkar. Hann vill styðja okkur til þess að verða frjálsari og kjarkmeiri því við eigum hann alltaf að sem undirstöðu. Og Jesús sem undirstaða getur gert það að verkum að við látum frekar gott af okkur leiða og hjálpumst að við að byggja betri undirstöður fyrir aðra.

Sumar undirstöður getum við valið eins og t.d. að fylgja Jesús en á öðrum höfum við litla stjórn á. Við stjórnum því t.a.m. ekki í hvers konar samfélagi við ölumst upp í, hvernig fjölskyldur við fæðumst inn í o.s.frv. En þegar við eldumst getum við þó lagt okkar að mörkum til þess að bæta umhverfi okkar með því að byggja nýjar undirstöður fyrir aðra. Fyrir börnin sem fæðast inn í okkar fjölskyldur og þau sem alast upp í samfélaginu sem við höfum tekið þátt í að byggja.

Skakki turninn í Písa er vinsæll meðal ferðafólks enda merkilegur á að líta þó hann sé bæði dæmi um vonda hönnun og lélegar undirstöður. Það jákvæða við turninn er þó ekki aðeins fegurð hans heldur sú staðreynd að það tókst að rétta hann nokkuð við og gera hann stöðugri, með góðri hönnun. Og því er hann hættur að færast til og síga.

Og í því liggur vonin. Þótt undirstöðurnar okkar séu ekki góðar framan af þá er yfirleitt hægt að bæta þær með betri hönnun síðar. Það er aldrei of seint. Amen.