Var Jesús með ADHD?

Var Jesús með ADHD?

Geta ADHD fólks til að hugsa út fyrir rammann er mannkyninu nauðsynlegt og framlag þeirra í framþróun siðmenningar ómetanlegt. ADHD fólk þarf fyrst og fremst rými til að vera það sjálft – og það er málstaður sem varðar okkur öll, ADHD eða ekki.

ADHD er taugalífeðlisfræðileg röskun, sem birtist aðallega á þrennan hátt; með skertri athygli, hreyfiofvirkni og hvatvísri hegðun og er í flestum tilfellum líffræðilegt, meðfætt og arfgengt. Fólk sem glímir við ADHD á erfitt með að passa inn í þann ramma sem að samfélagið býr fólki og ýmsir þættir daglegs lífs, sem flestum þykja sjálfsagðir, reynast ADHD fólki flóknir.

Þannig eiga börn sem hafa hreyfiofvirkni erfitt með mikla kyrrsetu og órammaðar aðstæður á borð við frímínútur. Hvatvís hegðun felst í því að börn framkvæma, áður en þau ná að hugsa út í afleiðingar gjörða sinna, jafnvel þó þau hafi fullan þroska til. Þá getur athyglisbrestur haft áhrif á námsárangur en börn með athyglisbrest hafa oft mikla getu til að sökkva sér ofan í efni sem vekur áhuga þeirra en festa varla hugann við námsefni sem þeim þykir minna áhugavert.

Fullorðnir með ADHD velja sér gjarnan óhefðbundin störf eða starfsvettvang og eiga erfitt með að sinna einhæfri vinnu. Þeir eru oft skapandi og frjóir í hugsun en röskunin veldur því að þeim þykir erfitt að skipuleggja sig, eiga sum erfitt með að ljúka verkefnum, halda sér við ramma og vera lengi á sama stað.

ADHD samtökin eru í ár 25 ára og það hefur sannarlega margt áunnist á þeim árum. Það sem áður var kallað leti, óþekkt eða þroskaleysi er nú almennt viðurkennt sem taugalífeðlisfræðilegt frávik. En fordómarnir leynast víða og börn jafnt sem fullorðnir mæta skilningsleysi og hindrunum í íslensku samfélagi og því er starf ADHD samtakanna gríðarlega mikilvægt.

Leitin að ADHD-Jesú felst í því að skoða þætti í fari frelsarans sem benda til að hann hafi búið yfir skapgerðareinkennum, sem algeng eru í fari fólks með ADHD. Slík leit þjónar þeim tilgangi einum að gefa ADHD fólki tækifæri til að samsama sig honum og benda á að Jesús passaði ekki inn í rammann. Að sjálfsögðu getum við ekki sagt með afgerandi hætti hvort Jesús hafi verið með ADHD, en börn og fullorðnir sem hingað til hafa ekki getað notið sín í kirkjunni finna vonandi í kjölfarið að þau séu velkomin í samfélag lærisveina hans.

Rannsóknarspurning okkar er því: Gefa frásagnir Nýja testamentisins vísbendingar um að Jesús hafi verið ofvirkur, hvatvís eða með athyglisbrest?

ADHD fólk dregur að sér athygli, enda eiga ofvirkir einstaklingar það til að vera litríkir persónuleikar. Jesús kom í heiminn með látum og vakti alþjóðlega athygli, strax við fæðingu. Svo ofvirk var fæðingin í fjárhúsinu að herskari engla brast í söng og útlenskir konungar birtust í hrönnum.

Þegar börn er greind með ADHD eru kennarar hafðir með í ráðum og þeir spurðir um hegðun nemenda sinna. Einkunnarspjöld Jesú hafa ekki varðveist en Jóhannes Skírari sagði Jesú hafa haft eld í sér, sem gæti verið vísbending um að hann hafi verið orkumikið barn.

Við vitum lítið um barnæsku Jesú af frásögnum Nýja testamentisins, en það eru varðveitt fjölmörg bernskuguðspjöll úr frumkristni, þar sem margt bendir til þass að hann hafi verið uppátektarsamt barn. Hann t.d. átti það til að lífga við harðfisk, samkvæmt helgisögn í bernskuguðspjalli Tómasar og úr sama riti er komin saga af því þegar hann blæs lífi í leirdúfur en þá sögu er einnig að finna í þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Í Lúkasarguðspjalli er sagt frá bæjarferð fjölskyldunnar til Jerúsalem, en þá hefur Jesús verið 12 ára. Jesús fær skyndilega þá hugmynd að fara í kirkju og strýkur frá foreldrum sínum, sem leita hans áhyggjufull í eina þrjá daga. Foreldrar barna með ADHD kunna öll slíkar strokusögur af börnum sínum og þekkja jafnframt að börnin þeirra hafa yfirleitt kotroskin svör á reiðum höndum þegar þau finnast. Þegar María og Jósef skamma Jesú með orðunum „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin“, stendur ekki á svörum og bráðger Jesús segir við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“.

Á fullorðinsárum eldist hvatvísi og hreyfiorvirkni af mörgum en það eru vísbendingar um að Jesús hafi verið orkumikill út ævina. Hann t.d. náði á einungis þremur árum að hafa slík áhrif á samborgara sína að mjög ólíkir hópar manna og kvenna hrifust með, en fjölbreytileiki hefða úr frumkristni bera þess merki. Í niðurlagi Jóhannesarguðspjalls er eins og að guðspjallamanninum hafi fallist hendur gagnvart því sem Jesús hafði komið í verk en hann segir: ,,Margt er það annað sem Jesús gerði og yrði það hvað eina upp skrifað ætla ég að öll veröldin mundi ekki rúma þær bækur sem þá yrðu ritaðar.”

Hvatvís hegðun getur til dæmis falist í því að láta hispurslaust út úr sér það sem manni kemur í hug og þannig ummæli eru á tíðum álitin hneykslanleg, þó þau séu sönn. Með þannig ummælum er Jesús ítrekað að hneyksla samborgara sína og ögra þeim, í þeim tilgangi að fá þau til að opna hjörtu sín fyrir fólki sem var á jaðrinum. Þannig upphefur hann konur, útlendinga, holdsveika, tollheimtumenn og skækjur á kostnað þeirra sem telja sig yfir þessa hópa hafnir, sérstaklega prestastétt musterisins. Hvatvísin bar hann augljóslega ofurliði eitt sinn þegar hann var staddur í musterinu, en honum ofbauð svo gróðabraskið sem var unnið í húsi Guðs að hann hrinti um koll borðum víxlaranna og rak út alla þá sem voru að kaupa og selja.

Ein birtingarmynd athyglisbrests er að vera sundurlaus í máli og vaða úr einu í annað. Þannig er Fjallræðan, merkasta ræða Jesú, en honum hefur augljóslega legið mikið á hjarta því þær skipta hudruðum þúsunda blaðsíðunum sem fræðimenn og prédikarar hafa skrifað í viðleitni sinni til að vinna úr og skilja þessa ræðu, sem einungis telur rúmlega 2.000 orð.

Í Jóhannesarguðspjalli er áhugaverð vísbending um að Jesús hafi verið utan við sig. Í 13 kafla spyr Símon Pétur: „Drottinn, hvert ferðu?“ og Jesús svarar: „Þú getur ekki fylgt mér nú þangað sem ég fer en síðar muntu fylgja mér.“ Tveimur köflum síðar, í 16. kafla, segir Jesús síðan við lærisveina sína: ,,En nú fer ég [...] og enginn yðar [hefur spurt] mig: Hvert ferð þú?” Símon Pétur var of kurteis til að benda honum á að hann var einmitt nýbúinn að spyrja nákvæmlega þessarar spurningar.

Hægt er að tiltaka fjölmörg fleiri dæmi en þessi yfirferð nægir til að draga þá ályktun að Jesús hafi verið afgerandi ofvirkur og hvatvís, með snert af athyglisbresti og leyfum við þá tilgangnum að helga meðalið.

(Gert var hlé á prédikun og flutt friðarkveðja. Allir stóðu upp heilsuðust með orðunum ,,Friður sé með þér")

ADHD er ekki fötlun.

Þvert á móti getur ADHD verið náðargáfa, þeim sem ná að beina kröftum sínum í jákvæðan farveg og ná stjórn á þeim þáttum sem mest hindra þá í daglegu lífi, með hjálp lyfja og/eða annarra úrræða. Á heimasíðu Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins er að finna skjal með jákvæðum eiginleikum sem algengir eru meðal þeirra sem hafa ADHD. Þar má finna marga eiginleika sem Jesús bjó yfir og hafa verið öðrum fyrirmynd á öllum öldum, samanber samhyggð, getuna til að hugsa út fyrir rammann, ríka réttlætiskennd og þrautsegju.

Samfélagsramminn í því samfélagi sem lýst er í Nýja testamentinu kann að virðast okkur framandi, en tilhneigingin til að flokka, greina og hólfa niður fólk er gild á öllum tímum. Á tímum Jesú voru félagsleg landamæri mjög afgerandi: Samverjar, Rómverjar og heiðingjar, sem var safnheiti yfir aðrar þjóðir, áttu ekki hlutdeild í fyrirheitum Ísraels, konum var meinuð full þátttaka í samfélaginu, holdsveikir voru einangraðir utan borgarmúranna og fötlun fordæmd sem afleiðing synda. Öllum þessum hópum mætir Jesús sem jafningi, uppfyllir þarfir þeirra og veitir þeim heiðursess. Þessi geta til að greina og geta rofið félagsleg landamæri, felur í sér mikla manngæsku og einungis sá sem af einhverjum ástæðum hefur reynt það að passa ekki inn í rammann, getur sett sig í spor þeirra sem standa fyrir utan samfélagið.

Okkar samfélag hefur sömu þörf til að flokka og greina, hylla og jaðarsetja fólk. Það er því sístæð nauðsyn að benda á og rjúfa félagsleg landamæri og þau kerfi sem við höfum komið okkur upp, hafa ekki síður en á tímum Jesú innbyggða tregðu til að koma til móts við mismunandi þarfir fólks. Skólakerfið okkar hefur mikið breyst undanfarin ár en við erum langt frá því markmiði að þörfum allra sé mætt. Til þess þarf hugarfarsbyltingu, enda hafa kennsluaðferðir í grunninn haldist óbreyttar frá iðnbyltingu. Fullorðnir sem þiggja aðstoð við ADHD sæta reglulega fordómum í umræðu samfélagsins og réttmæti stuðnings frá heilbrigðiskerfinu við ADHD fólk er ítrekað dregin í efa.

Það er öllum þjóðfélögum og stofnunum nauðsynlegt að setja ramma utan um starfsemi sína, en öll þekkjum við þá tilfinningu í einhverri mynd að tilheyra ekki að fullu eða passa ekki inn í rammann. ADHD fólk passar sjaldnast inn í rammann og þegar ramminn er það stífur að fólk rekst harkalaga á kantana – þarf að endurskoða forgangsröðun samfélagsins. Geta ADHD fólks til að hugsa út fyrir rammann er hinsvegar mannkyninu nauðsynlegt og framlag þeirra í framþróun siðmenningar ómetanlegt. ADHD fólk þarf fyrst og fremst rými til að vera það sjálft – og það er málstaður sem varðar okkur öll, ADHD eða ekki.

Réttlætiskennd Jesú fylgdi þrautsegja og getan til að gera ekki málamiðlanir þegar kemur að kerfisbundnu ofbeldi í garð fólks. Að lokum hafði hann ögrað rammanum það mikið að almenningur og valdshafar urðu sammála um að hann yrði að deyja. Náðargáfa Jesú hefur áhrif til þessa dags og áskorun hans um að skapa réttlátt samfélag, þar sem enginn þarf að rekast á rammann, er okkar að mæta.

Samfélag þeirra sem vilja taka áskorun Jesú er kristin kirkja og hún er þverstæðukennt fyrirbæri: Líf kirkjunnar er afleiðing af krossfestingu frelsarans, þeirrar ákvörðunar að hann yrði að deyja; hún er sem stofnun formföst og bundin í hefðir en á sama tíma sífellt fús að mæta róttækum ögrunum Jesú; hún er heilög og frátekin Guði á sama tíma og hún er fullkomlega afhjúpuð í syndum þjóna sinna; og hún er á köflum algjörlega ofvirk, hvatvís og fljót að gleyma grunntilgangi sínum að mæta þörfum fólks í kærleika Krists.

Í kirkjunni er rými fyrir okkur öll og í dag vill Laugarneskirkja segja við þá sem takast á við lífið, ofvirk, hvatvís og með athyglisbrest: Takk fyrir að vera eins og þið eruð.

Til hamingju með 25 ára samstöðu – ADHD samtökin.

Bænir fermingarungmenna:

Þegar hvatvísin tekur stjórnina og ég er komin upp í tré án þess að hugsa. Viltu hjálpa mér að hugsa hlutina til enda. Viltu vera mér nær.

Þegar hugur minn er órólegur og ég er svo spenntur að ég næ ekki að sofna. Viltu hjálpa mér að slaka á og hvíla mig. Viltu vera mér nær.

Þegar ég týni lyklunum, síma og veski. Veit ekki hvar ég á að vera og man ekki nöfnin á fólki. Viltu gefa mér umburðarlyndi fyrir sjálfum mér. Viltu vera mér nær.

Þegar ég dæmi aðra fyrirfram og þegar ég dæmi sjálfa mig. Þegar ég fer að setja lífið í hólf. Viltu hjálpa mér að vera fordómalaus og samþykkja sjálfa mig og aðra. Viltu vera mér nær.