Að hjálpa er að forgangsraða

Að hjálpa er að forgangsraða

Auðvitað gefum við og styðjum vegna þess að okkur langar til þess, lítum á það sem siðferðislega skyldu, af því að við tökum ábyrgð. Af því að við forgangsröðum öðrum til heilla. Erum hluti af þeirri fjölskyldu sem býr hér á jörð og viljum standa saman.
fullname - andlitsmynd Bjarni Gíslason
29. apríl 2013

Ég get bara ekki orða bundist yfir hugsunarhætti sem komið hefur fram af og til undanfarið sem lýsir sér í setningum á borð við: „Við Íslendingar eigum nóg með okkur, hvernig getum við hjálpað öðrum?“ Ef við útfærum þennan hugsunarhátt til hins ýtrasta má leiða líkur að því að enginn geti hjálpað neinum nema sjálfum sér. Eigingirnin og sjálfhverfan verður algjör.

Fengu Íslendingar lán og stuðning í kreppunni af því að þær þjóðir sem stóðu að því höfðu bara ekkert annað að gera við peningana? Gátu ekki bætt úr neinu í sínu heimalandi og settu því fjármagn í björgunarsjóði fyrir aðrar þjóðir? Nei, auðvitað ekki. Ég vona að þeir sem tala svona og halda að þeir fái fylgi út á það séu eins og malavíska spakmælið sem segir: „Sá sem heldur að hann sé að leiða fólk en enginn fylgir honum er aðeins í göngutúr.“

Auðvitað gefum við og styðjum vegna þess að okkur langar til þess, lítum á það sem siðferðislega skyldu, af því að við tökum ábyrgð. Af því að við forgangsröðum öðrum til heilla. Erum hluti af þeirri fjölskyldu sem býr hér á jörð og viljum standa saman. Saman um samfélagið hér á þessu góða landi okkar og úti í heimi þar sem staðan er víða enn verri en hér. Þetta er ekki spurning um að byggja upp annaðhvort á Íslandi eða erlendis. Hjálparstarf kirkjunnar er um þessar mundir að safna fyrir öflugri aðstoð um allt Ísland en um síðustu jól var safnað fyrir vatnsverkefni í Afríku, sem sagt ekki annaðhvort eða heldur bæði og.

Að elska aðra og gefa er mikilvægara en að skara eld að eigin köku. Það er ekki þar með sagt að ekki komi tímar þar sem ég get ekki gefið sjálfur, en þá er gott að vita að ég gef samt sem þjóðfélagsþegn í samfélagi sem telur það skyldu sína í gegnum skatta og gjöld að veita aðstoð í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og í nærsamfélagi.