Því að náð Guðs hefur opinberast!

Því að náð Guðs hefur opinberast!

Hér er kjarni jólasögunnar sagður í einni setningu, nokkrum velvöldum orðum. “Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum.” Þetta eru jólin. Guð hefur í náð sinni komið í jólabarninu smáa, til þess að frelsa mannkynið, leysa okkur úr viðjum syndar og dauða og gefa okkur allt með sér.
fullname - andlitsmynd Jón D Hróbjartsson
25. desember 2005
Flokkar

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.Hann var í upphafi hjá Guði.Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.

Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann.Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.

Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.

Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum. Jh.1.1-14

Gleðileg jól í Jesú nafni.

Jóladagur er háhelgur dagur í augum kristinna manna um allan hinn kristna heim. Það er gott að koma saman í helgidóminum í dag til þess að eiga samfélag, heyra jólatextana, syngja jólasálmana og biðja, vera hljóður fyrir augliti Guðs í undrun, í þakklæti, í tilbeiðslu. - Guð er góður.

Postulinn kemst vel að orði þegar hann segir í pistli dagsins:

“Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum.”

Hér er kjarni jólasögunnar sagður í einni setningu, nokkrum velvöldum orðum. “Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum.”

Þetta eru jólin. Guð hefur í náð sinni komið í jólabarninu smáa, til þess að frelsa mannkynið, leysa okkur úr viðjum syndar og dauða og gefa okkur allt með sér.

Guð varð hold á jörð og bjó með oss, -

Opin standa himins hlið, -

- eins og við lesum og syngjum í jólatexunum.

Guð, skaparinn eilífi, kom í miskunn sinni, kærleika sínum, elsku sinni til þess að opna himininn, til að gefa okkur brot af kærleika sínum, brot af dýrð himnanna, - já, brot, sagði ég, því við höfum ekki forsendur til að sjá alla dýrðina eða upplifa ást himnanna í fylling sinni hér á jörð, en fyrirheitið er skýrt, allt þetta eigum við í vændum. Hlið himinsins standa opin, vegna hjálpræðisins, vegna krossdauða og upprisu Jesú Krists.

“Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum.” - Það hafa allir aðgang að hjálpræði Guðs, þar er enginn undanskilinn. Sungum við ekki áðan: Vér erum systkin orðin hans, og í barnasálminum sem flestir kunna, Ó, Jesú bróðir besti. Við erum tekin inn í fjölskyldu Guðs, fáum meðhöndlun eins og prinsar og prinsessur himnaríkis, ekkert minna.

Þannig hrannast upp ótal myndir, sem tengjast þessum yndislega veruleika jólanna. Orðin og líkingarnar eru vissuelga fátæklegar, en þær eru á manna máli, þær eru úr reynsluheimi okkar og eiga að færa okkur nær undrinu mikla, leyndardómi guðsríkisins.

“Hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.”

Í guðspjöllunum finnum við gjarnan þessar andstæður ljóss og myrkurs. Ljósið kom, Guð gerðist maður, kom til að upplýsa, til að gefa okkur nýja möguleika, til að gefa okkur skýr markmið, lífsstefnu, - en margir höfnuðu honum, tóku ekki við jólagjöfinni stærstu, tóku ekki við fagnaðarerindinu um frelsara heimsins. Þetta er eins í dag, það eru ekki allir sem taka á móti honum, opna ekki hjarta sitt fyrir því sem Guð gefur.

Andstaðan við kristnina kemur víða fram. Oftar en áður koma greinar og pistlar í fréttamiðlum, sem lýsa guðleysi, sem lýsa andstöðu við grunngildi kristinna trúar. Líklega er mjög holt og gott fyrir kirkjuna í landinu, að línurnar skýrist, gott að fólk þurfi í auknum mæli að taka afstöðu til menningarinnar, til trúarinnar.

Versti óvinur trúarinnar er örugglega skeytingarleysið, - þeir sem láta sér þetta í léttu rúmi liggja, gá til dæmis ekki að því hvort börnin fái að læra kristin fræði, svo eitthvað sé nefnt, - gera lítið eða ekkert til þess að börnin fái kristilegt uppeldi, uppfræðslu, heldur láta leika á reiðanum.

Verndum bernskuna er slagorð, sem kirkjan vill vera með í að vekja athygli, kirkjan hefur ábyrgð í þessum heimi, ábyrgð til framtíðar. Kirkjan vill stuðla að velferð, réttlæti, friði, já uppeldi í trú, von og kærleika.

Í guðspjöllunum finnum andstæður ljóss og myrkurs, sagði ég, og þetta á ekki síst við um jólatextana. Þetta fengum við ríkulega að upplifa við flutning jólaoratóríunnar eftir J.S.Bach á aðventunni, sem var stjórkostlegur listviðburður og helg stund. Þar var öll jólasagan sögð með tilvitnunum í guðspjöllin, lagt út af boðskapnum í hnitmiðuðum aríum og sálmversum. En í þessum kantötum kallast þetta á, ljós og myrkur, fögnuður og angist, en niðurstaðan er sigur, friður, sátt.

Í fyrstu köflunum óratóríunnar er dýrðarsöngur jólanna undirstrikaður og upphafinn, en strax þegar farið er að segja frá vitringunum, þá kemur þessi sterka og grimma andstaða Heródesar fram, en hann er eins og holdgerfingur hins illa valds. Hann reynir með lævísi að fá vitringana á sitt band, til að vita hvar barnið er niðurkomið, hinn nýfæddi konungur. Blessunin fylgdi Jesúbarninu og foreldrum þeirra, svo þau komast undan, flýja alla leið til Egyptalands, en Heródes lét sig hafa það að myrða öll sveinbörn í Betlehem tveggja ára og þaðan af yngri til þess að freista þess að koma þessum væntanlega konungi fyrir kattarnef.

M.ö.o. Jesús er ekki orðinn hár í loftinu þegar andstaðan og þjáningin mætir honum, enda var einn titilinn sem hann fékk, hinn líðandi þjónn. Jesús var fæddur til að frelsa, leysa mannkyn úr fjötrum syndar og dauða, - sú frelsun var dýr.

Himininn yfir Betlehemsvöllum ljómaði af birtu og dýrðarsöng nóttina helgu, en 33 árum síðar myrkvaðist þessi sami himinn á miðjum degi og jörðin skalf, þegar friðarhöfðinginn var krossfestur á Golgatahæð. En , Guði sé lof, hjálpræðissagan endar ekki þar, - hún endar í upprisunni og nýju lífi.

Við erum minnt á það aftur og aftur í jólatextunum og í hjálpræðissögunni, að lífið er ekki dans á rósum. Það tekur á að vera manneskja. En trúin, hin kristna trú, sem hefur haldið velli gegnum allar aldir, gefur okkur eilífa von, sigurvon, sem við megum halda dauðahaldi í á hverju sem gengur. Í þeirri von og trú getum við tekið undir jólasönginn og sálmana, já einnig upphafssálm jólaóratórinunnar, sem hefst á þessum dýrlega sálmi:

Dunið þér bumbur, þér básúnur, hljómið Berist til himins, vort lofgjörðarmál Fagnið þér þjóiir! Já, fagnið og rómið Friðarins konung af hjarta og sál Hríf oss í anda, þú eilífðarhylling Aldanna draumur! Sé blessuð þín fylling.

Náð Guðs hefur svo sannarlega opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum!