Trúin er iðkun ekki aðferðafræði

Trúin er iðkun ekki aðferðafræði

Bænin er öflugasta verkfæri trúarinnar og þar skilur að í kristinni trú, trúariðkun frá aðferðafræði. Trúariðkun mannsins birtist með sambærilegum hætti í öllum hefðum, enda fólk í grunninn allstaðar eins, en kristin trú boðar persónulegt samfélag við Jesú Krist og það skilur kristni að frá annars sammannlegri trúariðkun.

Guðfræði er einstök meðal fræðigreina að því leiti að viðfangsefni fræðanna er í sjálfu sér órannsakanlegt. Sá sem leggur stund á önnur fræði verður með ástundun sinni fróðari um það viðfangsefni sem verið er að rannsaka en segja má með vissu að guðfræðiiðkun færi mann ekki nær skilningi á Guði. Guðfræði fjallar um trúariðkun mannsins og eðli trúarhugmynda, trúarrita og helgisiða, en ekki um Guð sjálfan. Guð verður ekki skilinn en hann er hægt að nálgast í gegnum trúariðkun.

Þeim verkfærum sem við búum yfir, vitnisburð Biblíunnar, leyndardóm bænarinnar, samkomur þeirra sem mynda hið kristna samfélag og helgisiði og sakramenti kirkjunnar, beitum við til að eignast samfélag við Guð. Með því að dýpka skilning okkar á þeim verkfærum og þjálfa okkur í iðkun trúarlífs, öðlumst við færni til að nálgast Guð af meiri dýpt og ígrundun í lífi okkar.

Þverstæða kristinnar trúar birtist okkur meðal annars í því að trúin byggir á opinberun, en er ekki samstæðilegt hugmyndakerfi og hún grundvallast á iðkun, en er ekki í eðli sínu aðferðafræði.

Rit og áherslur Nýja testamentsins eiga það sameiginlegt að draga lærdóm af lífi og kennslu Jesú frá Nasaret og játa sérstöðu hans sem opinberun á eðli Guðs en þau eru ótrúlega fjölbreytt í nálgunum sínum og áherslum. Sé litið út fyrir helgiritasafn Nýja testamentisins og skoðuð frumkristin rit frá fyrstu öldum okkar tímatals verður þessi fjölbreytni enn meira sláandi. Guðspjöllin fjögur t.d. rekja í grófum dráttum sömu atburðarás en nálganir þeirra eru svo ólíkar að líta má á þær sem vitniburði fulltrúa ólíkra kirkjudeilda og trúarhefða og jafnvel innan ritanna kallast á hefðir sem eru í spennu hvert við annað. Þessi fjölbreytti vitnisburður er í senn ástæða þess að Nýja testamentið er heillandi og margþætt en jafnframt ástæða þess að allar tilraunir til að búa til heildstætt kristið hugmyndakerfi hafa mistekist. Fjölbreytni kirkna og kirkjudeilda í heiminum er áfleiðing þess.

Trúarleg iðkun mannsins birtist með sambærilegum hætti í flestum trúarhefðum, þó að hugmyndafræði trúarhefðanna sé mjög ólík. Þannig birtist í flestum trúarhefðum áhersla á íhugun eða kyrrð, á bænaiðkun, á sjálfsskoðun sem miðar að því að beygja stoltið og upplifa auðmýkt hið innra, á þjónustu við náungann og á trúboð eða því að deila reynslu sinni af trúariðkun með öðrum. Þessar birtingarmyndir trúariðkunar hafa mismikið vægi á milli trúarbragða og í ólíkum hreyfingum innan þeirra en þessa iðkun er allstaðar að finna.

Íhugun og upplifun kyrrðar er líklega sá þáttur sem nútíminn er hvað fátækastur af og þörfin er hvað sárust, í samfélagi þar sem sífellt áreiti er á okkur af hljóðum og skilaboðum í umhverfinu. Með siðbótinni lögðust klausturhreyfingar af í löndum mótmælenda, en klaustur hafa í gegnum aldirnar verið afdrep íhugunar og kyrrðar fyrir fólk. Margir hafa á vesturlöndum leitað í austrænar hefðir, á borð við búddisma og jógaiðkun, í leit að aðferðum í hugleiðslu og kyrrð, en íhugun var frá upphafi ríkur þáttur í kristinni trúariðkun og er enn meðal kaþólskra og orthodoxa trúsystkina okkar.

Áherslan á að gangast við sjálfum sér í heiðarlegri sjálfsskoðun er jafnframt gefið meira vægi í öðrum kirkjudeildum, t.d. með þeim sið kaþólikka að skrifta hjá presti, en ef messan okkar er skoðuð sést að hún er enn miðlæg í guðsþjónustu safnaðarins. Í miskunnarbæninni játum við smægð okkar, í syndajátningunni horfumst við í augu við breiskleika okkar og í altarisgöngunni er ofbeldishneigð mannsins opinberuð með því að rifja upp svikin við Jesú og aftöku hans. Þessir þættir messunnar, sem kallast á við dýrðarsöng, flutningu fyrirheitis um fyrirgefningu og frið og altarisgönguna sjálfa, gagnast færri en skyldi sem verkfæri til sjálfskoðunar vegna þess að táknmál þeirra er ekki útskýrt.

Þjónusta við náungann er upphaf og endir trúariðkunnar og prédikun prestsins á að taka undir með lestri úr Biblíunni, sem áminning um að reynast í öllum aðstæðum fólki vel. Orðið messa, er dregið af latnesku sögninni að senda, og markmið messunnar er því að senda fólk út með það erindi að þjónusta náugann í gleði að fordæmi Jesú krists. Með því að þjónusta aðra upplifir maður samkennd með öðrum og verður verkfæri til að nálgast og sýna kærleika Guðs í verki í lífi okkar. Trúboð lítur sömu lögmálum, með því að deila með öðrum því sem við höfum fengið að njóta í samfélaginu við Guð og af kærleika hans, viðhöldum við því í lífi okkar og leyfum öðrum að eignast hlutdeild í þeim fjársjóði.

Bænin er öflugasta verkfæri trúarinnar og þar skilur að í kristinni trú, trúariðkun frá aðferðafræði. Trúariðkun mannsins birtist með sambærilegum hætti í öllum hefðum, enda fólk í grunninn allstaðar eins, en kristin trú boðar persónulegt samfélag við Jesú Krist og það skilur kristni að frá annars sammannlegri trúariðkun. Persónulegt þýðir ekki í einrúmi, og það er mikill leyndardómur fólginn í því að sameinast í bænasamfélagi, en það þýðir að það er ábyrð hins trúaða að kalla eftir og nálgast Guð á sínum forsendum.

Guð er samtímis fullkomlega framandi og verður ekki skilinn með þeim takmörkuðu skynfærum og vitsmunagreind sem okkur eru gefinn og nálægur í trúariðkun okkar og bænahaldi. Það er sannfæring mín að hver sem er, óháð hæfileikum, greind, uppruna, þjóðfélagsstöðu eða fortíðarsyndum, geti nálgast og upplifað Guð á eigin forsendum í gegnum trúariðkun og bæn.

Þau verkfæri sem við búum yfir aðstoða okkur við að ryðja burt þeim hindrunum í sálarlífinu sem varna okkur að upplifa og njóta nálægðar við Guð, en Guð er alltaf nærri hvort sem við höfum getu til að skynja nærveru hans eður ei. Starf kirkjunnar miðar að því að gera þeim sem til hennar leita kleift að nálgast Guð á sínum forsendum og er vettvangur til að deila reynslu sinni af Guði með öðrum.

Í fermingarfræðslunni nota ég iðulega þá líkingu að ég vilji að börnin fái að kynnast foreldrum mínum, enda er það nærtæk mynd, þar sem myndin af Guði sem foreldri er miðlæg í boðun Jesú. Það eru margar leiðir færar í því að kenna börnunum um foreldra mína, ég get sýnt þeim ljósmyndir af þeim og dregið upp mynd með lýsingum mínum, ég get sagt þeim frá upplifunum mínum af því að þekkja þau og alast upp hjá þeim, deilt með þeim tilfinningum mínum í garð þeirra og jafnvel reynt að líkja eftir þeim til að gefa börnum skýrari mynd af því hver þau eru. Hversu sannfærandi sem ég er í framsetningu minni, kemur þó ekkert í staðin fyrir þá upplifun að heimsækja þau og leyfa þeim að kynnast foreldrum mínum á eigin forsendum.

Í fermingarfræðslu og í raun öllu æskulýðsstarfi er áherslan ekki á eiginlega trúarfræðslu, þó hún sé sannarlega hluti starfsins, heldur á að kenna ungu fólki að iðka trú. Það barn eða ungmenni sem lærir að nálgast Guð á eigin forsendum í gegnum trúariðkun fer út í lífið með þá vissu að það stendur ekki eitt í lífinu og betri grundvell er ekki hægt að leggja. Sú takmarkaða þekking sem að við, sem sjáum um fermingarfræðsluna, deilum með börnunum gagnast þeim vonandi tímabundið og verður síðan gleymd, en þau verkfæri sem við veitum þeim að nálgast Guð í gegnum bæn og trúariðkun, kemur til með að þjóna þeim út lífið.

Á þessari stundu er hópur ungmenna á vegum kirkjunnar í Vatnaskógi á æskulýðsmóti, að iðka saman trú og upplifa þá gleði að þekkja Jesú, og það er okkur sem hér störfum mikið gleðiefni að Laugarneskirkja er þar með myndarlegan hóp. Það er reynsla mín að þeir unglingar sem sækja þessi mót vilja flest fara aftur og leggja í kjölfarið dýrmætann grunn að trúarlífi sínu út lífið.

Í Guðspjalli dagsins líkir Jesús í dæmisögu hinum trúarlega veruleika við víngarð sem Drottinn á. Fólk finnur hjá sér þörf til að iðka trú á mismunandi æviskeiðum og fær til þess mis-góða leiðsögn, en hvort sem fólk öðlast trú við byrjun ævinnar, á miðjum aldri eða þegar aldurinn færist yfir eru launin þau sömu. Presturinn og fanginn, hinn heilbrigði og hinn sjúki, hinn ungi og hinn gamli, standa jafnfætis gagnvart Guði og geta á sömu forsendum leitað Guðs í gegnum verkfæri trúariðkunnar, jafn skilningsvana og jafn elskuð. Verandi manneskjur hættir okkur til, sem störfum í kirkjunni, erum menntuð í guðfræði eða höfum átt trú lengi, að líta svo á að við séum með forskot á þá sem eru að taka fyrstu skrefin í að iðka trú en dæmisagan er áminning um að við stöndum öll jöfn frammi fyrir Guði. Þvert á móti getur það verið hindrun að hafa iðkað trú lengi, þar sem hrokinn blindar okkur sýn. Með orðum Jesú ,,Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“

Verkfæri trúarinnar standa okkur til boða og ávextir þess að iðka trú láta ekki á sér standa. Með því að leita Guðs í bæn og íhugun, horfast í augu við það hið innra sem að hindrar okkur í að vera einlæg frammi fyrir honum, með því að deila reynslu okkar og þjóna náunganum í gleði, öðlumst við fyrirheiti Biblíunnar. Fyrirheiti um nálægð Guðs í lífi okkar og þeirri gleði og þeim friði sem því fylgir.