„Gat ekki hugsað mér að standa í biðröð til að fá mat“

„Gat ekki hugsað mér að standa í biðröð til að fá mat“

Það eru ófá símtölin sem við höfum fengið hjá Hjálpastarfi kirkjunnar eftir að við breyttum til varðandi mataraðstoðina. Frá 1. maí hættum við að útdeila mat í poka og tókum upp inneignarkort fyrir barnafjölskyldur.
fullname - andlitsmynd Bjarni Gíslason
19. maí 2011

Það eru ófá símtölin sem við höfum fengið hjá Hjálpastarfi kirkjunnar eftir að við breyttum til varðandi mataraðstoðina. Frá 1. maí hættum við að útdeila mat í poka og tókum upp inneignarkort fyrir barnafjölskyldur. „Ég gat ekki hugsað mér að standa í biðröð til að fá mat í poka, samt er ástandið hjá mér mjög slæmt, nú langar mig aðathuga með þessi inneignarkort" sagði einstæð tveggja barna móðir sem hringdi.

„Það er niðurlægjandi að fara í röð aftur og aftur til að fá mat í poka" eru orð konu sem var að leita sér aðstoðar. „Það fylgir þessu skömm. Þetta á alls ekki að vera svona en það er eitthvað með hvernig maður upplifir þetta" sagði önnur. Hluti af nýrri leið er einmitt að gera fólki kleift að leita sér aðstoðar með meiri virðingu. Kostir við inneignarkortin eru m.a. þeir að hver og einn sækir sér þær matvörur sem hann kýs, börn verða ekki vör við að aðföng heimilisins komi frá hjálparsamtökum og hægt er að leggja inn á kortin án þess að viðtakandi þurfi að fara sérferð til Hjálparstarfsins. Engin kort eru afhent fyrr en eftir að ítarlegum gögnum um tekjur og gjöld hefur verið skilað og viðtal við félagsráðgjafa þar sem farið er yfir stöðu hvers og eins.

Í nýjum siðareglum Hjálparstarfs kirkjunnar segir: „Hjálparstarf kirkjunnar veitir aðstoð til sjálfshjálpar og virkjar skjólstæðinga eins og mögulegt er, í öllu ferli aðstoðar." Ráðgjöf og hvati til sjálfshjálpar, samstarf, virkni og virðing eru grunnþættir í aðstoðinni. Sjálfshjálp og virkni sem skapar von um breyttar aðstæður, kraft og aukið sjálfstraust til að taka lítil skref til betra lífs.

Það eru líka lítil skref, framlag og stuðningur eftir getu hvers og eins, sem skapa samstöðu og hjálparafl sem þarf til að veita stuðning með meiri virðingu. Ert þú með? Að greiða valgreiðslu í heimabanka til stuðnings nýrri nálgun í mataraðstoð er lítið skref. Að setja sig í spor þeirra sem orðið hafa undir og fræðast um aðstæður þeirra er líka lítið skref. Tækifæri til þess gefst með því að horfa á þátt á Stöð 2 um fátækt á Íslandi 26. maí og um leið auka hjálparaflið í samfélaginu með þátttöku í söfnunarátaki.