Draumurinn um veginn, einsemd og einvera

Draumurinn um veginn, einsemd og einvera

,,Greiðið veg Drottins, gerið beinar brautir hans.” Þessi spámannsorð Jesaja og Jóhannesar skírara, sem hljóma á aðventu í boðskap kirkju Krists, eiga vel við pílagrímaleiðir fyrri tíðar, sem greiddu Guði veg í hugum og hjörtum þeirra sem fóru þær.
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
14. desember 2010

Draumurinn um veginn

,,Greiðið veg Drottins, gerið beinar brautir hans.” Þessi spámannsorð Jesaja og Jóhannesar skírara, sem hljóma á aðventu í boðskap kirkju Krists, eiga vel við pílagrímaleiðir fyrri tíðar, sem greiddu Guði veg í hugum og hjörtum þeirra sem fóru þær. Sumar þeirra eru enn farnar enda áhugi vaxandi á því að reyna trúna á eigin líkama í íhugun á fornum helgileiðum. Lærdómsríkt er að horfa í huga til nafngreindra íslenskra miðaldapílagríma, sem við afar bágborin samgönguskilyrði og ytri aðstæður lögðu í langa pílagrímsför. Guðríður Þorbjarnardóttir gekk heimkomin úr Vínlands- og vesturheimsför til Rómar. Hrafn Sveinbjarnarson sigldi fyrst til Kantaraborgar og fór þaðan suður um haf og kom til St. Gilles í Suður-Frakklandi, þar sem gröf heilags Egidusar, verndardýrlings fatlaðara, var að finna, ef til vill í von um að lækningagáfa sín glæddist enn við það. Sögu hans má skilja sem svo að hann hafi farið þaðan Jakobsveginn til Santiago de Compostela og svo til Rómar. Sturla Sighvatsson gekk í þrá eftir lausn frá syndum og sekt til Rómar.

Í skáldsögu sinni ,,Morgunþulu í stráum” lýsir og túlkar Thor Vilhjálmssson, sem nýverið var maklega útnefndur heiðursdoktor við Háskóla Íslands, pílagrímsför Sturlu, einnar aðalpersónu Sturlungu, sem glímu við tilgang og merkingu lífsins, gildi þess og siðferðilega ábyrgð. Sjálfur gengur Thor Jakobsveginn, um 800 km leið, þegar hann er að verða áttræður og uppfyllir með því 40 ára draum sem búið hefur í huga hans.

Í list- og ljóðrænni kvikmynd Erlendar Sveinssonar um pílagrímsgöngu Thors á Jakobsveginum kemur það vel fram enda ber hún heitið: ,,Draumurinn um veginn.” Fyrsti hluti hennar af fimm, sem nýlega var frumsýndur í Háskólabíói við góðar undirtektir nefnist ,,Inngangan.”

Í fyrri verkum sínum, sem eru sérstæð um margt í íslenskri kvikmyndagerð, sýnir Erlendur ljóslega gildi trúarinnar í lífsbaráttunni og glímu við örlög og lífsgátur. Myndaflokkkur hans ,,Verstöðin Ísland”, lýsir t.d. vel útgerð og sjósókn, mikilvægi sölusamninga, óvissu og hættum á sjó en jafnframt trúarlegum stefjum sem undirtónum er snerta sjósókn og fiskneyslu. Þau stef útfærir hann frekar í árabátamyndinni ,,Íslands þúsund ár.” Í síðustu mynd sinni á undan ,,Draumnum”, ,,Málaranum og sálminum hans um litinn”, bregður Erlendur ljósi á listmálun sem trúarlega tjáningu og reynslu. Svo sem sýnir sig í ,,Inngöngunni” er ,,Draumurinn” ekki heimildakvikmyndabálkur í venjulegum skilningi. Saga fyrri tíðar lifnar í verkinu jafnframt því sem Thor gengur Jakobsveginn. Saga Karlamagnúsar gerir það, sem sagt er að hafi fyrstur farið veginn sem pílagrímur. Trúarsagan verður nærtæk sem samnefnari kynslóðanna, er fóru veginn í þrá eftir ljósi og líkn í Jesú nafni og fornar byggingar og minnismerki á veginum minna á. Mótunarsaga Evrópuþjóða birtist í því fólki hvarvetna að úr álfunni, sem horft er til og rann sem fjölþjóðastraumur í tímans rás um þessar gönguslóðir. Saga Thors sjálfs sem rithöfundar og víðföruls ferðlangs um Evrópulönd, menningarsögu þeirra og listsköpun er jafnframt í sjónmáli og höfundarverk hans, sem mjög hefur mótast af kynnum hans af og þekkingu á Evrópusögu í fortíð og nútíð.

Erlendur hefur lýst því að hann hafi hugsað sér að gera heimildarmynd um hóp pílagríma á veginum en komist að því, að hún næði ekki að lýsa andrúminu sem þar ríkir. Leikinni mynd tækist það fremur. Eftir að hafa skrifað handrit að kvikmynd, sem ekki tókst að koma í vinnslu, varð honum hugsað til Thors Vilhjálmssonar sem mikils ferðalangs og Evrópumanns og skáldsögu hans ,,Morgunþulu í stráum”, er lýsir pílagrímsferð á miðöldum. Kvikmynd um Thor á Jakobsveginum, sem væri hvorki leikin mynd né heimildarmynd en þó blanda af hvoru tveggja varð Erlendi lausn í leit hans að aðferð til að gera draum sinn að veruleika í ,,lifandi” mynd. Og má ekki líta á það sem handleiðslu að þeir Thor náðu saman til að gera drauma beggja að veruleika?

,,Á veginum hættir tilviljunin smám saman að vera til hafi þoka ekki búið um sig í sálarlífi pílagrímsins og ef tilviljunin er ekki lengur til staðar tekur þá ekki kraftaverkið við?”, skrifar og spyr Erlendur í vönduðum þulartexta sínum, sem Egill Ólafsson les styrkri hljómþýðri röddu.

Kvikmyndastjórinn kemur sjálfur fram í upphafsatriðum ,,Inngöngunnar” sem pílagrímur fortíðar eða sendiboði æðra heims og segir við Thor, pílagríminn tilvonandi, sem er milli svefns og vöku. ,,Skapari þinn mun vaka yfir þér og leiða í birtu og myrkri, en ég er þulur hans, birtist eins og Jakob postuli forðum, þegar hann sendi Karlamagnús til að frelsa Spán og gröf sína í Compostela”... Hann biður Thor að hugsa um íslensku miðaldahöfðingjana, Hrafn og Sturlu, sem séu nátengdir veginum og lífsgöngu hans eins og þeir birtast í bókum hans...Og hann bætir við: „Láttu þá vakna í vitund þinni. Þá mun glæðast margt sem áður var hulið.”

,,Inngangan” hefst á því að Thor velur sér traustan staf til farar í bænum Saint Jean Pied de Port, Frakklands megin við Pyrenneafjöllin, og leggur síðan upp á Pyrenneafjallgarðinn og vestur eftir norðurhéruðum Spánar og er kominn til Santo Domingo de la Calzada, bæjar í Rioja héraði, þegar ,,Inngöngunni” lýkur.

Svo vill til að fyrstu pílagrímarnir á vegi Thors eru Íslandsfarar frá Ítalíu, landinu sem honum er hvað kærast. Þar hefur verðlaunaskáldsaga hans ,,Grámosinn glóir” verið gefin út og ráðgert er að ,,Morgunþulan” hans verði það líka. Thor hefur æft sig fyrir ferðina löngu með því að ganga um víðerni og á hróstrug fjöll á Íslandi. Jafnframt því sem leið hans liggur um há fjöll, víða skógivaxna dali og litrík þorp og bæi á Jakobsveginum, sem er vel lýst með glæstri kvikmyndatöku Sigurðar Sverris Pálssonar, er myndbrotum frá Íslandi, sem birta vandaðan undirbúning Thors, skotið inn í kvikmyndina sem leifturmyndum og endurlitum. Góðvinur hans, tónskáldið Atli Heimir Sveinsson, kemur þar við sögu og fylgist þannig með gönguferðinni, að Thor sendir honum, svo sem lofað var, smáskilaboð öðru hverju með stuttum lýsingum af þeim hughrifum, sem hann verður fyrir á leiðinni, er verða í meðförum Atla Heimis að tónsmiðum. Myndin lýsir umhverfi og ytri aðstæðum á leiðinni en þulartextinn er ýmist í 2. persónu eða 3. persónu eftir því sem við á. Söguminni og trúarstef gefa frásögunni vægi og tilvísanir í eigin verk Thors fléttast fagurlega í hana. Það er sem leiðsöguengill mæli frá annarri vídd og setji göngu Thors í samhengi við æðri heima og hafi áhrif á innri skynjun hans og tali til hans innhaldsríkt:,,Nú reynirðu það á fyrsta degi þínum á veginum að píslir fylgja pílagrímsgöngum og margvíslegt ófyrirséð mótlæti...Samfelld ganga í fimm vikur til Jakobs mun sannprófa allan þinn styrk.“ ,,Það er stundum sagt að bakpoki pílagrímsins birti sjálf eiganda síns og þunga þeirra byrða sem hann ber í lífinu. Við sjáum að Thor setur tvær þungar bækur í pokann í viðbót við aðrar lífsnauðsynjar... án bóka væri bakpoki Thors Vilhjálmssonar ekki táknmynd fyrir byrði hans í lífinu.”

Kvikmyndin nær vel að túlka áhrifamátt pílagrímamessunnar í klausturkirkjunni í Runzival, sem Thor líkt og aðrir pílgrímar sækir, þegar hann er kominn til Spánar. Hann nærist af brauði lífsins og þiggur bæn og blessun fyrir gönguna fram. ,,Jakob sjálfur er í hópi pílagríma og myndgerður á veginum með staf og skreppu að vitja grafar sinnar eins og þeir”, segir þulurinn uppörvandi, ,,Og minnir kannski á göngu þína til rithöfundarins í sjálfum þér, hina endalausu leit um sporlausa slóð.” Kirkjur og klaustur eru áningarstaðir á gönguleiðinni og vísa til þess, að hún er ekki aðeins farin á sýnilegu ytra borði heldur er einnig innri vegur til að hreinsa og helga hug og hjarta svo að næmi og lífsskyn skerpist og endurspegli nánd og veru Guðs.

Thor gefur sig að öðrum pílagrímum og þeir að honum á veginum og einkum á pílgrímakránum eftir göngu dagsins. Hann ræðir lipurlega við þá á frönsku, spönsku, ítölsku og ensku. Samræðurnar einkennast af hvetjandi gleði, samhug og vinaþeli jafnframt því sem þekking Thors á grunnþáttum evrópskar menningar kemur glöggt fram.

Samfundir og samtal Thors og enska sjónvarpsmannsins John Francis eru þungvæg og dýrmætt í ,,Inngöngunni” og fylgja Thor fram á leið. John hefur komið sér fyrir á veginum og útbúið athvarf fyrir pílagríma er þarfnast aðhlynningar vegna fótasára eða eru úrvinda af þreytu. Hann hefur gengið veginn vegna ástvinamissis, sem hann varð að vinna úr og tókst það á veginum. Svo eru um fleiri, einnig þá sem sjálfir eiga við bágindi og veikindi að stríða. John vill stuðla að því, að sem flestir geti nýtt sér veginn til að verða fyrir sálrænni innri lækningu og líkn í vanda og þrautum.

Thor reynir á göngu sinni, að mikill munur er á einsemd og einveru. ,,Maðurinn er alltaf einn” er heitið á fyrstu bók hans. Hún ber með sér áhrif af tilvistarstefnu Sartre og Camus, sem greina hvorki lífstilgang né huggun í veröldinni enda er hún guðlaus samkvæmt viðmiðunum þeirra. Hugsun og veruleiki skynfæranna er þeim gáta sem þeir eiga engin svör við. Einsemd af þessu tagi er ógnandi umkomuleysi, en einveran er allt annars eðlis. Hún er nærandi og innihaldsrík. Thor hefur augljóslega fjarlægst einstigi og tómhyggju tilvistarstefnunnar áður en hann fetar Jakobsveginn svo sem síðari tíma ritverk hans votta. Þau bera með sér auðmýkt gagnvart gátum og lífsundrum og þroskað næmi fyrir trúarreynslu og sýn. Og það næmi eykst á veginum.

Í „Inngöngunni“ er fjallað af glöggum skilningi um einveruna: ,,Einveran er einkenni hins andlega heims, skrifar einn starfsbróðir þinn á Íslandi.” (og er þar vitnað í Sigurður Nordal) ,,Sú dýpsta sjón, hún sýnist aldrei tveim”, yrkir annar.” (úr kvæði Einars Ben.) ,,Til þess að eignast sjálfan sig þarf maðurinn að hafna öllu félagi og verða svo aleinn, að hann finni hina frjóu nærveru Guðs”, skrifar þú í Morgunþulu þinni,” segir þulurinn. Thor reynir nærandi einveru á leið sinni en líka þrúgandi einsemdina, á heitasta tíma dagsins, í síestunni, þegar ekki sést sála á ferli og hitinn og þreytan er mest.

Hrífandi Maríusöngur og önnur trúartónlist hljóma sem endurnærandi leiðarstef á vegi Thors einkum er hann nálgast helga staði og söguríka bæi. Sú tónlist minnir hann á undirbúning ferðarinnar sem fólst líka í því að hlýða á trúartóna.

Estella er einn þeirra fögru bæja á Jakobsveginum, sem liggur að hluta eftir fornu vegakerfi Rómverja, er nýst hefur pílagrímum um aldir. ,,Hin frjóa nærvera Guðs, hún leitar þig kannski uppi hér”, segir þulurinn og lýsir því svo að Estella merki stjarna eins og í heitinu Compostella, sem minni á að spegilmynd Jakobsvegarins á himnum sé sá Stjörnuvegur sem Karlamagnús sá (í rúmi sínu) um nætur og vísaði honum leiðina til Compostella áður en Jakob birtist honum í draumi. Og seiðandi röddu bætir þulurinn við: ,,En spegilmynd vegarins er ekki einvörðungu á himnum um stjörnubjartar nætur. Hún er ekki síður inni í vitundarlífi pílagrímsins sjálfs.”

Í Péturskirkjunni í Estella þiggur Thor enn blessun af presti til farsællar göngu, og þegar hann hefur náð til bæjarins Los Argos er hann við því búinn að verða sér úti um Jakobsskel og hengir hana sér um háls. ,,Jakobsskelin, elsta tákn pílagrímavegarins, fullkomnar inngöngu Thors í heim vegarins,” upplýsir þulurinn.

Í bænum Rocamadour í Frakklandi, sem byggður er utan í brattri hamraborg hefur Thor áður veitt viðtöku heiðursborgaratign og verðlaunum fyrir framlag sitt til bókmennta. Í endurliti horfir hann þangað af veginum og pílagrímarnir Hrafn og Sturla leita sterkt á hann. Í sögu sinni um þá lætur Thor þá fara inn í þennan sérstæða bæ. Líkt og Sturla gerir í ,,Morgunþulunni” gekk Thor upp hin mörgu þrep sem liggja til mærinnar svörtu í aðal helgidómi staðarins.

,,Heimurinn hið innra er heimurinn þaðan sem skáldið virðir fyrir sér mannlífið til þess að færa það síðan í búning skáldskaparins.” Við lok fyrsta hluta ,,Draumsins um veginn” skilja áhorfendur við pílagríminn Thor, þar sem hann fylgist með iðandi mannlífinu í bænum sem kenndur er við heilagan Domingo, með góðum óskum um, að draumurinn rætist. Og þeir taka undir þær óskir líka, sem þulurinn tjáir, að hugmynd að nýrri skáldsögu fæðist í ferðinni.

,,Inngangan” er innihaldsrík og heildstæð kvikmynd í sjálfri sér þótt sé hluti stærra kvikmyndabálks. Hún líður hjá og nær tökum á þeim, sem horfir og hlýðir á hana með fjölþættum skírskotunum sínum. Thor gengur Jakobsveginn sem sá djúpvitri menningarfrömuður og skáld, er horft getur vítt yfir svið. Liðin saga birtist honum, raunveruleiki hennar og skáldskapur tvinnast í reynslu hans. Helgisagnir, trúarstef og tónar snerta hjarta og sálarstrengi. Saga hans sjálfs og skáldverk tengjast pílagrímsgöngunni og samferðarmönnum hans líkt og litfagrir drættir í helgimynd.

Færni kvikmyndahöfundar og glöggur skilningur hans á miðaldasögu og kristnum trúarviðmiðunum og kunnátta og hæfni kvikmyndatökumanns sem og hljóðupptökumanns valda því, að ,,Inngangan” megnar að færa þessa margþættu reynslu Thors á kvikmyndatjaldið, svo að áhorfandinn og áheyrandinn eignast hlutdeild í henni. Mynd og texti falla vel saman og klipping er vönduð. Þessi fyrsti hluti ,,Draumsins um veginn” er aldrei langdreginn en opnast til fjölþættra átta sem breytilegt litróf eða hljómbrigði við grunnstef. Auðvelt er að ráða í ,,Drauminn” og hrífast af honum með opnum skynfærum og huga. En ,, sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi skilja þeir ekki”, segir þó frelsarinn í helgri ritningu.” ,,Það er kanski eitt af hinum stóru verkefnum rithöfundarins í heiminum, ekkert síður en kirkjunnar, að gefa blindum sýn”, segir spámannlega í ,,Inngöngunni.”

Tilhlökkarefni er að eiga von á framhaldi ,,Draumsins um veginn” í fjórum kvikmyndum, því að hann er ekki venjulegt kvikmyndaverk heldur listrænt og trúarlegt íhugunarferli, andlegt ferðalag. Líkt og boðskapur aðventu greiðir hann veg Drottins og glæðir þann lífsskilning, að í lifandi trú, sem mið tekur af Jesú Kristi og fylgir honum á pílagríms- og lífsgöngunni er stefnt til landsins fyrirheitna. ,,Draumurinn” gefur til kynna að pílagrímsganga að fornhelgum stað gagnist vel til að ná réttum áttum.

Stjörnugjöf: *****