Erindi á okursíðuna

Erindi á okursíðuna

Ég ætla að deila þeirri tilfinningu með ykkur kæru kirkjugestir að stundum líður mér eins og ég hafi álpast inn í tímavél einhvern tímann á kyrrstöðuskeiði síðasta áratugar og rankað við mér í fjarlægri framtíð.

Flutt á 17. sunnudag eftir trinitatis 

Textar: Jer.1.16-17; Gal.5.1-6 og Mk.2.14-28

Nú á dögunum benti ágætur maður mér á heimasíðu sem nýlega var sett á laggirnar og hlotið hefur verðskuldaða athygli. Fjölmiðlamaður og sjálfsskipaður doktor hefur opnað svo kallaða „Okursíðu“ en þar kallar hann eftir upplýsingum frá fólki um óhóflega verðlagningu á neysluvörur og þjónustu.  Og það er eins og við manninn mælt: á skömmum tíma hafa þrautpíndir Íslendingar úthellt úr skálum reiði sinnar á síðunni og rignir inn frásögnum af meintu okri hér á Fróni.

Takmarkalaust

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að þetta er hin hryggilegasta lesning og eru dæmin úr ýmsum áttum. Í framhaldi er gjarnan skammast út í kaupmenn go skyldar stéttir en því má þó ekki gleyma að forsenda þess að hægt er að okra svona hressileg á okkur er skefjalaus kaupgleði landans. Ef hennar nyti ekki við væri varla hægt að leggja svo hressilega ofan á varninginn sem ratar í innkaupapokana okkar.

Sjálfur minnist ég þess þegar ég bjó ásamt fjölskyldu minni bæði í Danmörku og Svíþjóð – hvernig okkur tókst að lifa þokkalegu lífi fyrir aðeins hluta af því ráðstöfunarfé sem virðist þurfa hérna á Íslandi. Það var þó ekki eingöngu vegna þess að verðið var lægra þar heldur ekki síður vegna hins að mannlífið virtist einhvern veginn í fastari skorðum: Menn tömdu sér meiri nægjusemi heldur en hér er.

Já, líklega er raunin sú að þeir sem láta okra á sér bera á endanum sökina á okrinu. Því þegar allt kemur til alls eru þessar aðstæður aðeins eitt dæmið um hömluleysið og stjórnleysið sem einkennir okkur. Takmörkin eru ekki virt – leiðsögnin er ekki til staðar. Verðmætamatið virðist brenglað og fyrir vikið hverfa allar skynsamlegar og eðlilegar hömlur. Þetta birtist í margri mynd – meðal annars í því hvernig kaupgleðin getur skyggt á aðra gleði og innihaldsríkari í tilverunni.

Lenti ég í tímavél?

Ég ætla að deila þeirri tilfinningu með ykkur kæru kirkjugestir að stundum líður mér eins og ég hafi álpast inn í tímavél einhvern tímann á kyrrstöðuskeiði síðasta áratugar og rankað við mér í fjarlægri framtíð. Sú kennd sækir a.m.k. að mér oft og einatt að ég sé gestur í þessu umhverfi okkar.  Það í svo mörgu frábrugðið því Íslandi sem hér var til skamms tíma.

Nú er svo komið að venjulegt fólk er löngu hætt að furða sig á óvenjulegum fréttum og óvenjulegum uppákomum sem varða hærri fjárhæðir en verður með góðu móti eytt á einni mannsævi. Menn eru hættir að berja sér á brjóst við það þegar gamlir bekkjarfélagar eða kunningjar festa kaup á stórverslunum og grónum fyrirtækjum á erlendri grund. Þetta er orðið eins og hverjar aðrar fréttir af aflabrögðum togaranna í Auðlindinni á gömlu gufunni. „Jasso, eru þeir enn að kaupa?“ Og svo er ekki meira um það hugsað.

Það sem rétt er

Textarnir sem kórfélagar lásu hér í dag tala inn í umhverfi sem líkist þessum aðstæðum okkar vel að því leyti að þar hafa átt sér stað miklar breytingar og hugarfarið virðist búið að slíta af sér öll höft. Spámaðurinn Jesaja áminnir yfirstéttina í gamla Ísrael. Af lýsingum hans að dæma var hún orðin spillt og fjarlægð þeirri köllun sem Drottinn hafði með hinni útvöldu þjóð. Þetta var fólk sem hafði glatað sjónum á tilgangi sínum. Það vefst þó ekki fyrir spámanninum að benda á það hvar hin sönnu markmið mannlífsins eru: „Leitið þess, sem rétt er. Hjálpið þeim, sem fyrir ofríki verður. Rekið réttar hins munaðarlausa. Verjið málefni ekkjunnar.“

Hvað er þetta? Skilaboð Drottins til okkar? Boðskapurinn um það hvernig lífinu skuli lifað? Hvar greinir á milli þessara lýsinga og sjálfhverfunnar sem einkennir samfélagið sem spámaðurinn gagnrýnir og einkennir einnig samfélagið okkar? Hvernig myndum við sjálf svara þeirri spurningu hvert líf okkar á að stefna? Ef við gefum okkur tóm og kyrrum hugann kann að vera að hið rétta svar sé ekki svo langt undan. Ef við horfum í eigin skaut og veltum því fyrir okkur hvað það er sem gefur lífinu mest gildi – væru svör okkar þá í samræmi við hegðun okkar? Væru svör okkar þau að vinna sleitulaust, afla okkur „nauðsynja“ sem standa svo ekki lengur undir nafni að mjög skömmum tíma liðnum?

Hefði átt erindi á okursíðuna

Okursíðan hefði líka getað tíundað frásagnir af viðskiptum manna við söguhetjuna í guðspjalli dagsins. Tollheimtumaðurinn Leví Alfeusson sat við tollbúðina sem staðsett var við borgarhliðið. Óvinsæll hefur hann verið meðal fólksins enda okrari af verstu sort eins og starfsbræður hans voru í þá tíð. Launin sín fengu þeir með því að bæta álagi ofan á hinn lögbundna skatt og því urðu byrðar þeirra sem héldu á markaðinn enn hærri. Og verðið á markaðnum auðvitað líka. Þetta var kunnuglegur vítahringur.

Leví var einmitt maðurinn sem Jesús vildi eiga orðastað við. Hann kallaði boðskapinn til hans sem átti eftir að breyta lífi hins rangsláta manns og færa það inn í algerlega nýtt samhengi. Kristur bauð honum leiðsögn í lífinu, og meira en það, hann bauð honum fyrirmynd sem hjálpaði honum að greina veginn sem leiðir til réttlætis og farsældar – sé litið til þess mælikvarða sem Guð setur. Og í framhaldi frásagnarinnar er eins og Jesús sé sestur til borðs mitt í allsnægtargleði nútímamannsins hér á okkar nýríka landi: þarna sitja með honum, vafalítið í mikilli gleði, fulltrúar þeirra sem maka krókinn og lifa lífi sínu í hinu stundlega og takmarkaða.

Þetta vakti vitaskuld hneykslan þeirra sem frómari töldust og höfðu lengi haft horn í síðu hinna. En Kristur kom ekki til þess að fordæma eða útskúfa fólki þótt hegðun þess sé ekki hnökralaus. Hann kom til þess að lækna sjúka og efla heilbrigði þeirra sem glatað höfðu sjónar á veginum breiða og góða. Hvernig voru nú aftur boðin sem Drottinn færði Ísraelsmönnum í lexíu dagsins? Jú, það miðuðust að því að tilgangur okkar væri að deila með okkur – að vekja kærleika og efla samstöðu.

Guð og samviskan

Er það ekki líklegt, þegar öllu er á botninn hvolft, að við myndum sjálf komast að sömu niðurstöðu ef við drægjum okkur stundarkorn út úr hávaðaerli samtímans og spyrðum okkur að því í hjartans einlægni hvert við viljum að líf okkar stefndi? Væri ekki sennilegt að svarið yrði einhvern veginn á þá leið að við vildum hafa áhrif á umhverfi okkar? Er ekki líklegt að við myndum lýsa þeirri löngun okkar að miðla kærleika og góðum gildum? Má ekki gera ráð fyrir því að við myndum lýsa þeirri einlægu ósk að létta byrðar þeirra sem minna mega sín.

Þetta er einmitt boðskapurinn sem Guð færir okkur enda er samviskan sem talar í hjarta okkar, og má sín stundum svo lítils fyrir öllum hávaðanum, rödd Guðs til okkar. Hún hrópar mishátt til okkar og stundum bjögum við rödd hennar með rangri leiðsögn og röngum mælikvörðum. En þar sem hún fær að hljóma ómenguð og skýr er erindi hennar til okkar uppbyggilegt og lífgefandi: Að elska Guð og elska náungann.

Leiðsögn á öllum tímum

Kristin trú vill ekki svipta okkur frelsinu. Það er engin tilviljun að í þeim heimshluta þar sem ástandið er hvað skárst í þeim efnum hefur evangelísk kristin kirkja mótað menningu og mannlíf með dýpri hætti en felstir aðrir áhrifavaldar þótt stundum villumst við út af brautinni. Nei, eins og Páll postuli segir: „Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok.“

En um leið og frelsið er mikið verður þörfin fyrir leiðsögn jafnvel enn meiri. Markmiðið er ekki að þvinga okkur til rétta verka heldur til þess að láta hug okkar og hjörtu vilja það sem gott er og leita þess sem rétt er. Góðir tímar kalla á sterk bein og í lífi okkar skynjum við hvernig þörfin fyrir köllun og innri staðfestu verður þeim mun ríkari eftir því sem ytri skilyrðin verða mildari og betri. Leiðsögn Krists er sígild í lífi okkar nú sem ætíð.