Leirinn og listamaðurinn

Leirinn og listamaðurinn

Við erum ekki bara ómótað efni sem bíður eftir því að verða fullskapað heldur erum við sjálfstæðar siðferðilegar verur sem höfum vald yfir eigin lífi og annarra. Við erum heldur ekki eins og hinn almáttugi listamaður sem getur skapað og eytt eftir eigin höfði. Lífið okkar verður fyrir áhrifum sem við köllum ekki yfir okkur og ráðum ekki yfir. En það er í okkar höndum að meðtaka það sem mætir okkur og snúa því til góðs.

Prédikun í Bessastaðakirkju á 10. sunnudegi eftir þrenningarhátíð 2006

Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: Statt upp og gakk ofan í hús leirkerasmiðsins. Þar vil ég láta þig heyra orð mín! Og ég gekk ofan í hús leirkerasmiðsins, og var hann að verki sínu við hjólið. Mistækist kerið, sem hann var að búa til, þá bjó hann aftur til úr því annað ker, eins og leirkerasmiðinum leist að gjöra. Þá kom orð Drottins til mín: Get ég ekki farið með yður eins og þessi leirkerasmiður, þú Ísraels hús? segir Drottinn. Sjá, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins, svo eruð þér í minni hendi, Ísraels hús. Stundum hóta ég þjóð og konungsríki að uppræta það, umturna því og eyða því,en snúi þjóðin, er ég hefi hótað þessu, sér frá vonsku sinni, þá iðrar mig hins illa, er ég hugði að gjöra henni.En stundum heiti ég þjóð og konungsríki að byggja það og gróðursetja það, en ef það gjörir það, sem illt er í mínum augum, svo að það hlýðir ekki minni raustu, þá iðrar mig þess góða, er ég hafði heitið að veita því. Jeremía 18: 1-10
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ég var ein af þeim mörgu sem lögðu leið sína í bæinn á menningarnótt í gær. Meðal annars heimsótti ég verkstæði myndlistarmanna þar sem fjölmargir listamenn hafa nú aðstöðu sína til listsköpunar vestur á Seljavegi, í gamla Landhelgisgæsluhúsinu. Þar mátti finna málara, ljósmyndara, grafíkfólk – og listamenn sem skapa úr leir og vinna keramík af ýmsu tagi. Starf þeirra sem fást við keramík hefur kannski ekki breyst ýkja mikið frá dögum Jeremía spámanns, eins og við heyrðum hér í lexíu dagsins. Listamaðurinn byrjar með leir í höndunum og mótar þennan leir síðan í ker eða krús, nytjamuni eða listaverk, allt eftir því sem andinn blæs í brjóst. Og það sem hefur heldur ekki breyst frá því að leirkerasmiður Jeremía var að störfum er að ef stykkið sem listamaðurinn hefur formað mistekst eða stendur ekki undir væntingum hans eða kröfum, getur hann einfaldlega byrjað upp á nýtt, og unnið nýjan hlut úr þeim sem mistókst.

Væri ekki svolítið magnað ef þetta ætti við um það sem við segjum eða gerum almennt – að ef það mistekst eða reynist ekki vel á einhvern hátt, gætum við bara tekið það aftur og byrjað upp á nýtt? T.d. í samböndum okkar við aðra – maka, börn eða vini – að við gætum tekið það sem við höfum í höndunum og mótað það upp á nýtt, eftir okkar höfði, eftir betri vitund og þeirri reynslu sem við höfum fengið af sambandinu. Auðvitað er það ekki þannig. Þetta eru forréttindi listamannsins sem skapar og eyðir og skapar á ný.

Í texta Gamla testamentisins um leirkerasmiðinn sem við heyrðum áðan, er Guði líkt við leirkerasmið – eða listamann – sem mótar hluti eftir sínu höfði og tekur þá í gegn ef þeir mistakast. Þessi lýsing vekur auðvitað upp spurningar um Guð, hvernig Guð er og hvernig Guð stjórnar heiminum. Lýsingin hjá Jeremía spámanni er sú að Guð hafi með höndum nokkurs konar umbunar og refsikerfi sem hann beitir á mennina. Þjóðir sem eru farsælar og konungar sem stjórna af réttlæti blómstra, af því að Guð veitir þeim blessun sína. Ef þjóðirnar iðka vonsku og ranglætið geisar upprætir og eyðir Guð þeim.

Hér eru sett fram mjög bein orsakatengsl þannig að vond breytni leiðir til slæmrar útkomu. Ég býst við að þessi hugsun sé ekki eins framandi okkur sjálfum og samtíð okkar eins og við gætum haldið. Sífellt er verið að benda á orsakir ýmissa sjúkdóma og erfiðleka í lífsstíl og hegðun nútímamannsins. Sá sem reykir má undirbúa sig undir að fá alla þessa hjarta- og æðasjúkdóma, getuleysi og krabbamein, sem hótað er á sígarettupökkunum. Fitubollurnar ættu líka að vænta allra mögulegra fylgifiska af ofþyngd sinni. Þeir sem neyta áfengis í óhófi eða fíkniefna þurfa að súpa seyðið af því í eigin lífi og því miður vitum við full vel til hvers gáleysi eða kæruleysi í umferðinni getur leitt.

Við vitum hins vegar líka að þessi skýru orsakatengsl eiga hreint ekki alltaf við. Slæmir hlutir henda líka þá sem hafa ekkert til þess unnið og allir munu fyrr og síðar reyna erfiða hluti á eigin skinni. Harold Kushner er bandarískur rabbí og fræðimaður í gyðinglegum fræðum. 1987 skrifaði hann bókina When Bad Things Happen to Good People um þá reynslu þegar sonur hans Aaron lést ungur úr sjaldgæfum hrörnunarsjúkdómi. Í bókinni glímir hann við reynslu þjáningarinnar og spyr spurninga út frá trú sinni á eilítið annan hátt en Jeremía spámaður myndi gera. Kushner velti því fyrir sér hvers vegna algóður og almáttugur Guð lætur slæma hluti henda gott fólk. Hvaðan kemur hið illa ef Guð er algóður og almáttugur? Ef Guð vill bara gott og ef hann stjórnar öllu, hvernig kemur það heim og saman að saklausir þjást og að lífið er stundum óbærilegt? Í bókinni sinni rekur Kushner nokkrar ástæður þess að fólk heldur fast í þá hugmynd að hlutirnir í kringum okkur– sérstaklega þegar slæmir hlutir henda annað fólk en okkur sjálf – gerist vegna þess að Guð sé réttlátur dómari sem veitir fólki það sem það á skilið. Þannig reyni fólk að halda reglu og lögum í tilverunni. Hann segir frá konu sem var haldin MS sjúkdóminum. Fyrir hana var nógu erfitt að glíma við sjúkdóminn og afleiðingar hans en enn erfiðara var fyrir konuna að hún hafi fengið sjúkdóminn fyrir tilviljun eina – að Guð hefði ekkert með það að gera og að það væri enginn sem stjórnaði því sem gerðist. Þegar þessi vonda tilfinning um stjórnleysi tilverunnar gerir vart við sig, grípur fólk til ólíkra útskýringa á því hvað eiginlega hafi átt sér stað sem orsakar þá ógæfu sem skollið hefur á. Kannski hefur einhver gert mistök, kannski vill Guð koma einhverju til leiðar sem við skiljum ekki hvað er, kannski er þjáningin sjálf góð fyrir okkur, kannski er líf og líðan einstaklingsins marklaus í hinu stóra samhengi himins og jarðar, kannski kennir þjáningin þeim sem þjáist eða ástvinum hans eitthvað merkilegt, kannski er þjáningin próf sem við erum sett í, kannski er dauðinn upphaf á einhverju nýju og betra fyrir okkur og þau sem við elskum. Eða kannski ekki. Kushner hafnar þessum skýringum öllum. Allar eigi þær sameiginlegt að gera Guð að orsök þjáningarinnar og allar reyna þær að gera það skiljanlegt hvers vegna Guð myndi vilja að einhver þjáist. Eina leiðin út úr þessum pælingum var fyrir Kushner að segja skýrt og klárt: Guð er ekki orsök þjáningarinnar í heiminum. Hún á sér stað af öðrum orsökum en því að Guð vilji það. Þetta var svolítið á skjön við hefðbundna guðfræðilega túlkun eins og Biblían hefur haldið fram eins og t.d. í sögunni um Job, réttláta manninn sem missti allt sitt, en segir samt: “Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað verði nafn Drottins”. Kushner segir að við verðum að sleppa takinu á þeirri trú að Guð sé orsök alls – vegna þess að við trúum því að Guð sé góður. Þar af leiðandi veltir hann upp nokkrum ástæðum fyrir þjáningu mannsins, sem hafa ekki með vilja Guðs eða getu Guðs að gera. Í fyrsta lagi er stundum ekki hægt að finna neina ástæðu. Stundum er maður bara á röngum stað á vitlausum tíma. Sumt gerist af tilviljun einni saman og það þjónar engum tilgangi að leita að ástæðu. Í öðru lagi segir Kushner að veröldin stjórnist ekki af siðferðilegum lögum sem verðlauni það sem er gott og refsi fyrir það sem er rangt. Náttúrulögin eru blind á siðferðilega hegðun og Guð grípur ekki inn í gang náttúrulaganna, hvorki til að bjarga góðu fólki úr jarðskjálftum og slysum eða láta náttúrulega ógæfu skella á vondu fólki. Í þriðja lagi þá hefur manneskjan sjálf vald til að velja á milli góðs og ills – það er eitt af því sem gerir okkur að því sem við erum. Guð skerst ekki í leikinn heldur leyfir okkur að vera manneskjur. Þá er stór hluti þjáningar okkar því að kenna hvernig við bregðumst við því erfiða í lífinu. Ef við lifum í ásökun eða sekt þar sem við í sífellu skellum skuldinni á okkur sjálf, aðra, eða Guð, margföldum við þjáninguna sem var til staðar í upphafi. En ef Guð er ekki þessi almáttugi sem kemur öllu, góðu og slæmu, til leiðar, hvaða tilgangi þjónar hann? Ef Guð er ekki orsök erfiðleikanna í lífi okkar og ef hann getur ekki fjarlægt þá, hvaða tilgangi þjóna bænir okkar og tilbeiðsla þá? Þessu svarar Kushner á þann hátt að Guð geti vissulega gefið okkur styrk og karakter til að þola það erfiða sem mætir okkur í lífinu, ef við viljum taka á móti. Og bænirnar sem við biðjum fyrir hvert öðru minna okkur á að við erum aldrei ein þegar við mætum áföllum og þjáningu í lífinu. Er þá einhvert svar við spurningunni why bad things happen to good people? Ekki ef við leitum að einu einföldu svari sem útskýrir allt. Við getum líka sett fram flóknar og lærðar útskýringar sem þrátt fyrir dýpt sína og snilld taka ekki í burtu sársaukann og sorgina sem áföllin valda. En svar er ekki bara útskýring heldur líka það sem kemur til baka til okkar og í þeim skilningi getum við fundið svar við þjáningunni í lífinu. Það getur verið það að umbera og fyrirgefa lífinu að það er ekki fullkomið, að fyrirgefa Guði að hafa ekki búið til fullkominn heim, að tengjast fólkinu í kringum okkur betur – og að halda áfram að lifa, þrátt fyrir allt.

Við erum sem sagt hvorki eins og leirinn né listamaðurinn – eða kannski væri réttara að segja að við séum hvoru tveggja. Við erum ekki bara ómótað efni sem bíður eftir því að verða fullskapað heldur erum við sjálfstæðar siðferðilegar verur sem höfum vald yfir eigin lífi og annarra. Við erum heldur ekki eins og hinn almáttugi listamaður sem getur skapað og eytt eftir eigin höfði. Lífið okkar verður fyrir áhrifum sem við köllum ekki yfir okkur og ráðum ekki yfir. En það er í okkar höndum að meðtaka það sem mætir okkur og snúa því til góðs.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.