Lífið er alls ekkert leiðindarspil

Lífið er alls ekkert leiðindarspil

Því hamingjan er þar sem við erum stödd hverju sinni. Hún leynist á ótrúlegum stöðum eins og konurnar upplifðu þar sem þér héldu að gröfinni hinn fyrsta páskadagsmorgunn.

Biðjum með orðum Hallgríms Péturssonar:

Dýrð, vald, virðing og vegsemd hæst, viska, makt, speki og lofgjörð stærst sé þér, ó, Jesú, herra hár, og heiður klár. Amen, amen, um eilíf ár.

Páskarnir eru runnir upp. Sólin hækkar á himninum: „Svo rís og brosir röðull nýr.“ Vorið er allt í kringum okkur í öllum þess tilbrigðum, þótt stundum bregði það yfir sig hvítri hulu páskahretsins. „Hvað ætlar þú að gera um páskana?“ höfum við spurt hvert annað undanfarið. Já, hvað ætlum við að gera? Á ekki að skella sér eitthvað? Hvernig er planið? Kyrrstaðan má ekki einkenna líf okkar!

Líf á iði

Sprunga opnast milli tveggja jökla á háskalegum slóðum. Þar gnauðar í vindinum, frostið er í tveggja stafa tölu, sjóðheitt hraun rennur niður gjár og gil, hraunkúlum rignir yfir umhverfið og eiturgufur leggjast yfir svæðið.

„Á ekki að skella sér?“

Já, nema hvað? Það verður að skoða þetta eigin augum! Hver veit nema að allt verði búið á morgun og maður vill náttúrulega geta sagt frá því að hafa skoðað þetta allt saman.

Við erum stundum svolítið einkennilegir, við mennirnir sem kennum okkur við nútímann. Þrýstingurinn er mikill, á að við þeysumst á milli staða og vottum það að hafa verið viðstödd þegar atburðirnir gerðust. Eins og lífið sjálft sé ekki nógu merkilegt í öllum litbrigðum sínum. Það er svo mikilvægt að geta notið tilverunnar án þess að þar sé þaulskipulögð dagskrá eða stöðugt áreiti á skynfærin.

Lífið er alls ekkert leiðindaspil, já og loks er kaffið til.“ segir í íslenskri þýðingu á þekktum dönskum kveðskap.

Mögnuð tilvist

Nú eru páskarnir runnir upp og þá er heldur betur tími til þess að skoða þá mögnuðu tilvist sem við njótum og eigum. Hluti af því er að velta vöngum yfir því eftir hverju mennirnir keppa á þeim tíma sem þeim er úthlutaður í þessu lífi. Oft er það svo að það sem mest umstang fylgir fær þar mest rými og það er litið hornauga sem ekki felur það í sér að auka olnbogarými sitt sem mest.

Sumir halda því fram að mönnum sé eðlislægt að stefna að því að ná meiri völdum. Því séu hin kristnu gildi um fyrirgefningu og þjónustu við manninn til þess að svipta menn þessum dýrmæta tilgangi sínum. Aðrir segja að lífið gangi út á það að uppfylla hvatirnar sem við eigum sameiginlegar með dýrum merkurinnar og gagnrýna kristindóminn fyrir það að færa þessar kenndir í ákveðinn farveg.

En kirkjan hlúir að lífinu og páskarnir eru sigurhátíð lífsins. „Dauðinn dó en lífið lifði“ syngjum við hér í lok messunnar. Nú er hugur okkar bundinn lífinu. Og ekki þeirri hugsun að lífið snúist um það að endasendast út um holt og hæðir til þess að sjá og upplifa allt. Ekki heldur þeirri blekkingu að það sé lífinu til framdráttar að sölsa undir sig meira en góðu hófi gegnir. Nei, páskarnir fjalla um það hvernig eilífðin teygir sig alla leið inn í okkar tímanlega líf og auðgar það – jafnvel þótt við gerum ekki annað en að nostra við þann blett sem okkur er úthlutaður. Já, sjálf páskafrásögnin er einmitt óður til þeirrar tignar sem hið fábrotna nýtur þegar það er umlukið dýrð Guðs. Þarna er horft til annarrar áttar en við stundum gerum sjálf.

Páskarnir breyttu öllu

Áður en lengra er haldið, er rétt að ítreka það að páskarnir hafa alveg sérstaka stöðu í kirkjunni. Ef það væri ekki fyrir páskana, fyrir upprisu Krists, þá ættum við enga Biblíu, enga kirkju, enga kristna trú sem beinir okkur leiðina góðu í gegnum lífið. Þá væru orð Jesú að eilífu glötuð, krossfestingin væri ekki annað en eitt blóðugt hermdarverkið enn, á saklausri manneskju sem mannkynssagan hefur ekki pláss til þess að muna og segja frá. Það er ekki fyrr en eftir að Kristur er upprisinn sem atburðirnir fá sitt rétta samhengi. Þá skynja lærisveinar hans þann kraft sem felst ræðum hans og verkum. Þegar þeir verða vitni að sigri lífsins á dauðanum breytist allt og þeir bera frásagnirnar áfram óhræddir og uppréttir þrátt fyrir margskonar mótlæti. Þeir fylltust heilögum anda og fluttu fréttina góðu til fólksins sem þyrsti að heyra meira og myndaði hina fyrstu kristnu söfnuði.

Fyrstu prestarnir

Og þessi vatnaskil, hefjast á hófsaman og látlausan hátt: Konur eru á leiðinn að gröf Krists þar sem hann átti að hvíla. Þetta er að morgni dags eins og núna þegar við söfnumst hér saman í helgidómnum. Svo lýsir guðspjallamaðurinn miklum hamförum – rétt eins og til þess að undirstrika það hvernig náttúran öll vaknar til lífsins við þennan sögulega atburð. Nú fer kirkjan senn að starfa, ekki satt? Hún hefur það hlutverk að boða hinn upprisna Krist. Orðin sem flutt eru að undangenginni þeirri miklu boðun, koma frá vörum engilsins.

Hann huggar konurnar með orðunum: „Þið skulið ekki óttast“. Svona hefst boðunin og það ætti að vera okkur hugleikið á helgri páskahátíð. Þessi skilaboð eru af sama toga og hirðarnir fengu á Bethlehemsvöllum, í jólaguðspjallinu. Í framhaldi segir hann annað sem er allrar athygli vert. Hann sendir konurnar út af örkinni til þess að boða hinn upprisna Krist. Þetta er einmitt hlutverk kirkjunnar, prestanna og allra þeirra annarra sem vinna hjálpræðinu veg. Þær verða frumkvöðlarnir, það eru þær sem byrja það starf sem kirkjan öll er grundvölluð á. Þær eru eiginlega fyrstu prestarnir, þessar kærleiksríku konur.

Já, margt er með öðrum hætti í frásögn Biblíunnar en við gætum í fyrstu haldið. Kirkjan, þessi stofnun sem stundum hefur verið við það að sligast undan klakaböndum íhaldsemi og hefðarhyggju, á sér upphaf í því að nokkrar konur úr alþýðustétt fara af stað með fréttina um hinn upprisna Krist í farteskinu.

Friður í sálinni

Nú eru páskar gengnir í garð og mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því fyrstu skrefin voru stigin á þeirri löngu leið sem framundan var í kirkjunni. Kirkjan flytur þessa fregn ennþá og umhverfið er margbreytilegt. Ýmislegt ógnar kirkjunni í þeirri boðun og sú ógn kemur ekki aðeins að utan. Hún blundar einnig innan veggja kirkjunnar þar sem margur dofnar í boðun sinni og ýmislegt vill skyggja á upprisubirtuna.

Páskarnir eru sigurhátíð lífsins. Nú er tilefni til að fagna þeirri gjöf sem okkur hefur öllum hlotnast. Og þegar við gerum það – þegar við hugleiðum hlutdeildina í eilífðinni, finnum við öryggi og frið í sálinni. „Þið skulið ekki óttast“ sagði engillinn við konurnar. Þau orð ættu að gefa okkur kjölfestu og öryggi í lífinu svo að við kunnum sannarlega að njóta þess sem við eigum án þess að eyða lífinu í það að leita hamingjunnar handan við sjóndeildarhringinn. Orð þessi eiga sannarlega erindi til okkar þar sem við leitum stundum langt yfir skammt að lífsfyllingu og tilgangi á lífsins leið.

Því hamingjan er þar sem við erum stödd hverju sinni. Hún leynist á ótrúlegum stöðum eins og konurnar upplifðu þar sem þér héldu að gröfinni hinn fyrsta páskadagsmorgunn.

Nú eru páskar í kirkjunni og hér í Keflavíkurkirkju bjóðum við ykkur til morgunverðar hér í safnaðarheimilinu. Þar ætlum við að njóta stundarinnar og samfélagsins hvert við annað. Því, „[l]ífið er alls ekkert leiðindaspil, já og loks er kaffið til.“