Siðbótardagur

Siðbótardagur

Það er kominn vetur. En bara á dagatalinu. Við horfum fram til tíma sem einkennast mun af vaxandi myrkri og kannski kulda og kannski hríð og frosti og hálku. Einhversstaðar lengra framundan grillir í jólin og grillir í nýja birtu og yl.

En Jesús kallaði þá til sín og mælti: Þér vitið, að þeir, sem teljast ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.Mk. 10. 42-45

Bæn

Kominn er veturinn. Kærasti faðir á hæðum, kvíða vér mættum, ef ei undir vernd þinni stæðum. Hvað erum vér? Hjálpræði vort er hjá þér, öllum sem útbýtir gæðum.

Gjör við oss, faðir, sem gæska þín hollast oss metur, gef oss upp sakir og hjálpa' oss að þóknast þér betur. Að þér oss tak, yfir oss hverja stund vak, blessa hinn byrjaða vetur.

Sb 484, Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Fólk á ferð

Það er kominn vetur. En bara á dagatalinu.

Við horfum fram til tíma sem einkennast mun af vaxandi myrkri og kannski kulda og kannski hríð og frosti og hálku. Einhversstaðar lengra framundan grillir í jólin og grillir í nýja birtu og yl.

Ef við horfum aðeins lengra þá sjáum við framúr. Vorið kemur aftur, og það verður aftur sumar. Þannig er hrynjandi lífsins. Árstíðirnar. Stundir dagsins Atvik ævinnar.

Lífið hefur margar myndir. Ævin er samfella þeirra, röð þeirra.

Sumum finnst haustið fallegasta árstíðin, öðrum vorið.

,,Þetta er svo skemmtilegur aldur”, segjum við um börnin. Er ekki allur aldur barnanna okkar skemmtilegur aldur? Er ekki gaman að vera til, einmitt núna?

Ef það er ekki gaman , þá er það örugglega ekki vegna þess að við erum 23 eða 56, 14 eða 78. Það er ekki heldur vegna þess að það er haust og enn langt til jóla og enn lengra til næsta vors. Það vegna þess að við erum venjulegt fólk með tilfinningar, langanir og þrár, og erum stundum glöð og stundum leið og stundum mitt á milli. Og stundum fer það eftir því hvort við erum ein eða í hóp, með vini eða vinum eða án.

Og nú erum við hér. Við sitjum kyrr en erum þó á leiðinni. Einstaklingar og hópur. Hópur einstaklinga eða einstakur hópur.

Við erum kirkja á ferð. Þess vegna erum við hér. Pílagrímar á leið milli stunda og daga og árstíða, frá vöggu til grafar.

Við erum fólk í förum og það er spurt um leiðina, um áfangastaði og leiðarlok. Svo er spurt um vinnulag. Hvert er hlutverk okkar á jörðu ? Hvernig er vinnulag guðsríkisins? Hvað bíður okkar þegar þessari ferð á jörðu lýkur?

Við erum fólk í förum, ef ferðin er erfið og löng, við setjumst við læki og lindar og leitum þín Guð, í söng.

Við erum fólk í förum, á flótta, í óró og nauð, og leitum að sátt þegar saman er safnast um vín og brauð.

Við erum fólk í förum og færumst í trúnni æ nær því heima sem heimfús leitar, og himininn okkur ljær.

Sálmur fyrir pílagríma. Britt G Hallqvist 1981, Vi är et folk på vandring. Sænsk sálmabók 617. Eyvind Skeie 1982,Vi er et folk på vandring. Norsk sálmabók 106. Lag: Egil Hovland 1981

Og nú höfum komið til kirkju. Við eigum það sameiginlegt. Jafnvel það eitt. Við höfum gengið inn til fundar við Drottin. Inn til guðsþjónustu í þessu fagra Guðs húsi. Og Jesús kemur sjálfur til fundar við okkur hér í orði sínu. Eins og ævinlega. Í guðspjallinu.

Jesús er á ferð ásamt lærisveinunum á leið til Jerúsalem. Við sláumst í för með þeim. Og hann með okkur.

Jesús slæst í för.

Við höfum heyrt sem guðspjall og predikunartexta fáein vers úr tíunda kafla Markúsarguðspjalls. Við þyrftum eiginlega að lesa allan kaflann. Reynið að finna tíma til þess seinna í dag. Það er svo margt sem gerist í þessum kafla.

Jesús er að kenna. Hann kennir í beinni ræðu og í samtali. Hann segir til og hann er spurður. Hann er spurður hvort maður megi skilja við konu sína, og hann svarar því út frá Móse-lögum, en fyrst og fremst út frá reglu Guðs sköpunar. Ríkur maður kemur og spyr hvað maður eigi að gjöra til að öðlast eilíft líf. Jesús sér að hann er ekki tilbúinn til að heyra svarið vegna þess að hann er svo upptekinn af eignum sínum, og segir honum það. Fólk kemur með börnin sín og biður hann að blessa þau, en lærisveinarnir halda að börn séu bara til truflunar og hann leiðréttir þá. Svo kemur þetta mikla reiðarslag yfir lærisveinana: Jesús segir þeim hvað bíður hans í Jerúsalem: Þjáning, kvöl og dauði – og upprisa á þriðja degi.

Og svo hefst samtalið sem við heyrum hluta af. Inngangur þess er í senn dapurlegur, lærdómsríkur og merkilegur. Bræðurnir Jakob og Jóhannes virðast bregðast þannig við fréttunum um að jarðvist Jesú sé að ljúka og viðtaki hin himneska, að þeir fara að hugsa um hvar þeir muni nú sitja í dýrð himnanna. Þeir fara fram á sérstakt heiðurssæti. Þetta er sem sagt eftir þeirri aðferðinni að hugsa ekki bara: hvað verður um mig þegar hann er farinn, - heldur: hvaða hagnað hef ég af því að þekkja hann? Það er svona álíka eins og þegar einhver hugsar ekki sem svo: hvernig fer með líf mitt þegar ég missi mína nánustu, heldur: hvað erfi ég þegar þau deyja?

Hinir lærisveinarnir urðu að vonum gramir yfir hugleiðingum þeirra bræðranna. En Jesús ávítar þá ekki.

Hann kallar þá til alla sín og gefur þeim þá lexíu sem kristin kirkja er alltaf að reyna að muna, og er alltaf kölluð til að muna, jafnvel stundum með miklum átökum og kröftugum siðbætandi aðgerðum.

Það er þess vegna sem þetta guðspjall er til tekið fyrir daginn í dag. Þetta er jú ekki bara fyrsti sunnudagur í vetri og síðasti sunnudagur í október, heldur líka minningardagur siðbótar Martins Luther sem okkar kirkja kennir sig til þó að hún hafi verið kölluð ýmsum öðrum nöfnum síðustu daga í fjölmiðlum.

Ríki og kirkja.

En Jesús kallaði þá til sín og mælti: Þér vitið, að þeir, sem teljast ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.

Það skyldi þó ekki vera að hér væri kominn texti sem er svo heppilegur á siðbótardegi að hann getur verið innlegg í umræðuna um samskipti ríkis og kirkju? Skyldi hér vera að finna eina af ástæðunum fyrir því hversu samskipti ríkis og kirkju geta oft verið erfið?

Þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar!

Það fyrsta sem við gætum tekið eftir hér er að það felst engin einasta ásökun í orðum Jesú. Ríki er svona, ríkið verður alltaf svona, - það þarf að stjórna. Ríki er ekki kirkja. Kirkja er öðruvísi. Þar gilda aðrar aðferðir og önnur lögmál. Þess vegna geta ríki og kirkja aldrei orðið eitt. Þess vegna þurfa ríki og kirkja að vinna saman.

Þessi ræða Jesú Krists sem hér er til umfjöllunar kemur að innsta kjarna málsins. Hann er þessi: Meðal lærisveina Jesú gilda aðrar reglur, aðrar leikreglur og aðrir mælikvarðar heldur en eru í venjulegu jarðnesku samfélagi sem lög ríkisins gilda um og koma skikki á.

Tókstu eftir því hversu sjálfsagt og eðlilega Jesús talar um hin veraldlegu yfirvöld, um hina stóru herra jarðarinnar, valdhafa þjóðanna, og hvernig þeir nota ráðandi vald sitt til að ráðskast með þjóðirnar.

Skyldum við kannast við þær aðferðir?

Hann gerir ekki minnstu tilraun til að krefjast þess að þeir útiloki ofbeldið í heiminum og dragi úr muninum á milli þeirra sem beita ofbeldi og eru beittir ofbeldi eða slípi þann mun til með einhverskonar jafnvægisaðgerðum.

Það er nánast eins og hann gangi út frá því að þannig sé þetta í heiminum og skipulagi hans, og þannig verði það áfram í þessum heimi,- því það er eðli þessa heims og hins veraldlega skipulags. Á öðrum stað segir hann um lærisveinana: Þeir eru ekki af heiminum, (Jh.17.16) þeir eru í heiminum. (Jh.17.11).

Þetta minnir líka á það þegar hann sagði: Fátæka hafið þér ætíð hjá yður. – (Jh.12.8) Hann sagði ekki : Þiið munið geta útrýmt fátæktinni, - þið hin kristnu. Draumurinn um guðsríki á jörð er sem sagt bara draumur. En það er ekki þar með sagt að allt sé og eigi að vera í föstum óumbreytanlegum skorðum. Við getum sem kirkja reynt að útrýma fátæktinni okkar á milli og atvinnuleysinu. Og við eigum að gera það. En við megum ekki gleyma því að það getur á sama tíma verið markmið ríkisins að viðhalda ákveðnu atvinnuleysi til að tryggja jafnvægi.

Það er næstum eins og Jesús sé að segja að sérhver tilraun til að skipta út þessu harða óvægna skipulagi valdhafanna og setja í staðinn miskunnsamari og mjúklátari aðferðir í samskiptum manna á milli yrðu bara til þess eins fallin að leysa upp regluverk hins opinbera skipulags, sem líka kirkjan hefur gagn af og þarf að geta hallað sér að.

En inn á við, inn gagnvart kirkju sinni segir Jesús: Hjá ykkur á þetta að vera öðruvísi. Hjá ykkur gildir annað lögmál. Það er lífslögmál hinnar þjónandi elsku. Og að vera tilbúinn til þjónustu samkvæmt því, án fyrirvara og án eftirmála, án útreikninga um ávinning eða tap, er einkenni kristins manns og kristinnar kirkju.

Jesús lætur okkur eftir fyrirmynd. Sá sem vill vera mestur á að vera fremstur í þjónustunni. Það hljómar vel , - en þó felst í því mikil freisting sem við verðum að standa gegn. Það er freistingin að gera auðmýktina og þjónustulundina að aðferð til að reyna að fá sérstaka athygli Guðs, (eða manna) - til að fá lof og fá laun frá honum fyrir það. Með því er í Jesú orðin að andhverfu sinni.

Hann segist vera meðal lærisveina sinna eins og þjónninn – eins og sá sem þjónar til borðs (Lk.22.27) og hann undirstrikar það með táknrænni athöfn fyrir síðustu kvöldmáltíðina, með því að þvo fætur borðnauta sinna.(Jh.13.). Þið munið eftir því.

Filippibréfið segir um hannFyrir því hefur Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið sem hverju nafni er æðra (2.9) Hversvegna ?

Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.(2.7-8)

Hæstu metorð hins himneska veruleika falla þeim í skaut sem alls ekki eiga von á því yfir leitt að komast á verðlaunapall , eða að skipta máli yfirleitt.

Hæsti heiður og virðing er af þeirri gerð að það er aðeins hægt að taka á móti honum í auðmýkt, en hvorki krefjast hans né hrifsa hann til sín með nokkrum meðölum.

Heiðursplássin sem Sebedeussynirnir sækjast eftir geta einungis fallið þeim í skaut sem bundin eru vilja Guðs með hlýðni hinnar þjónandi og líðandi eftirfylgdar við Krist, og enginn nema Guð einn þekkir nöfn þeirra.

Siðbótardagur

Og nú hefði auðvitað átt að koma löng predikun um það hversvegna þessi texti er valinn til að vera umhugsunarefni fyrir siðbótardaginn. Til hennar mætti sækja bæði vísdóm og hvatningu til þess manns sem með guðfræði sinni lagði grunninn að stefnumótun þeirrar kirkju sem við tilheyrum og er jafn nútímaleg í dag eins og fyrir tæpum 500 árum þegar Marteinn Luther hóf sitt umbóta starf.

Og líka væri sjálfsagt að byggja þá predikun á þeim manni sem Luther lærði hvað mest af, nefnilega Ágústínusi kirkjuföður, og var hann þó þúsund árum fyrr. En að vissu leyti hafa þeir þó samið þau stef sem hér hafa verið rauluð í dag í þessari predikun.

En af hinni löngu predikuninni verðið þið því miður að missa, amk í dag. Útmældur tími fyrir predikun er búinn.

Við höfum bara tíma til að hugfesta þetta:

Siðbótin er ekki atburður eða stefnumörkun á tilteknum tíma á 16.öld. Siðbótin er lifandi hreyfing fólks á ferð í þjónustu Krists. Siðbótin er áminning um að halda sig við Krist, erindi hans og Orð.

Samhengið á milli þessa guðspjalls og þeirrar meginstefnu, liggur í boðskap Jesú : Þið skulið ekki hafa það eins og hin veraldlegu yfirvöld og stjórna hvert öðru með valdboði. Hjá ykkur á að ríkja samábyrgð hinnar þjónandi elsku.

Við erum fólk á ferð og berum ábyrgð hvert á öðru.

Við skulum því þjóna hvert öðru í kærleika, daga og stundir, á hverri tíð og nú á nýjum vetri. Í daglegri endurnýjun trúarinnar því aðsiðbótin stendur alltaf yfir. Ríki jarðar eru ekki á leiðinni að verða Guðsríki. En Guðsríki er þar. Mitt á meðal þeirra.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Amen.