Fiskidráttur eða köllun

Fiskidráttur eða köllun

Í nýjustu biblíuþýðingunni okkar frá árinu 1981 hefur guðspjall dagsins fyrirsögnina: Fiskidráttur Péturs. Nú fjölgar þeim sem telja að það eigi að lesa fyrirsögina með, þegar guðspjallið er kynnt. Fyrirsögnin, sem er bara lítil millifyrirsögn í kafla, er því farin að skipta verulegu máli.

Nú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð. Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum. Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar. Símon svaraði: Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin. Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna. Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir.

Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður. En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið. Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða. Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.Lk. 5.1-11

Bæn

Eilífi Guð, þú sem kallar í þína þjónustu karla og konur og framkvæmir með þeim verk þitt á jörðu. Við biðjum þig: Opna þú eyru okkar og hjörtu, að við heyrum þegar þú kallar og fylgjum Jesú Kristi sem þú sendir.

Við biðjum í nafni hans sem er bróðir okkar og Drottinn, og lifir og ríkir með þér og heilögum Anda frá eilífð til eilífðar. Amen.

Kæri söfnuður,

Í nýjustu biblíuþýðingunni okkar frá árinu 1981 hefur guðspjall dagsins fyrirsögnina: Fiskidráttur Péturs.

Nú fjölgar þeim sem telja að það eigi að lesa fyrirsögina með, þegar guðspjallið er kynnt.

Fyrirsögnin, sem er bara lítil millifyrirsögn í kafla, er því farin að skipta verulegu máli.

Kannski líka miklu meira máli en þau sáu fyrir sem ákváðu hana á sínum tíma, og eiginlega hlýtur það bara að vera, vegna þess að eitthvað er nú daufleg guðfræðin í orðunum: fiskidráttur Péturs í samanburði við inntak guðspjallsins.

Þetta er jafnmikil einföldun og þegar jólin eru kölluð sólarhátíð, eða hátíð verslunarinnar.

Hvorutveggja heitið er auðvitað alveg réttnefni að vissu marki.

En að vísa til veruleika sem að sönnu er alveg réttur en dregur þó athyglina frá því sem raunverulega skiptir máli þjónar að sjálfsögðu einhverju öðru en megin tilganginum, vitndi eða óafvitandi.

Þetta guðspjall er afskaplega afgerandi í hinum kristna sið. Ef það á að gefa því heiti eða yfirskrift þá ætti það að heita :Köllun Péturs.

Þeir sem ekkert höfðu veitt, alla nóttina, lögðu út aftur að fyrirmælum Jesú, og fylltu bæði sinn bát og annan til. Þetta hefur áreiðanlega verið eftirminnileg sjón þeim sem sátu á ströndinni og höfðu hlýtt á boðskap Jesú er hann predikaði úr bátnum,

Á lánaðri fleytu hann flutti sitt orð þeim fátæku á gleymdum stað ....

segir Sigurbjörn biskup í sálmi sínum: Þér léðu honum jötu.

Fyrsta myndin sem guðspjallið dregur upp, er af Jesú sem gerir bát að predikunarstól.

Í lífi kirkjunnar og trúarinnar er báturinn í ólgusjó íslenskrar sögu tákn um miskunn Guðs og mildi hans. Því tákni glatar hann ekki þótt við höfum líka séð hann verða að legstað þeirra sem gista hina votu gröf. Báturinn er líka tákn heilagrar kirkju í sögu hennar. Hann er tákn kirkjunnar sem lendir í óveðri og ratar í lygnu. Hún hefur traustan stýrimann, sem er Kristur.Rýmið sem söfnuðurinn gistir þegar hann sækir kirkju, heitir af gefnu tilefni kirkjuskip.

Jesús stígur á skip og predikar, og kallar til eftirfylgdar.

Það er sannarlega ekki veiðin sjálf sem er aðal atriðið í guðspjallinu heldur viðbrögð Péturs við mætti Guðs í Jesú Kristi, og hið nýja hlutverk sem Jesús felur honum.

Þessi frásögn Lúkasar kallast á við niðurlag Jóhannesarguðspjalls, þar sem hinn upprisni Drottinn stendur á ströndinni og bíður fiskimannanna, lærisveina sinna og postula, og hefur kveikt eld til að steikja fisk og neyta hans með þeim.

Við sem erum fædd við sjóinn, eða við vatnið, og kannski líka miklu fleiri, við eigum mörg dálítinn draum um það að þannig verði það þegar lífi okkar lýkur hér á jörð.

Jesús bíður á ströndinni hinumegin.

Skáldprestarnir Valdimar Briem og Matthias Jochumson kallast líka á í sálmum sínum sem tengjast þessum textum beint og óbeint: Ég horfi yfir hafið og Legg þú á djúpið.

Nú höfum við sungið allan sálminn Legg þú á djúpið, og það er eiginlega töluvert afrek í þessum söfnuði, þar sem engar kröfur eru gerðar um sönghæfni, því að þetta er ekki auðveldur sálmur í safnaðarsöng. En innihaldið er bara svo gott og uppbyggilegt.

Við sungum:

Legg þú á djúpið eftir Drottins orði og æðrast ei, því nægja mun þinn forði, þótt ómaksför þú farir marga stund. ...

Og svo þetta:

Legg þú á djúpið, ó, þú sál mín auma, en eftir skildu hégómlega drauma, þeir sviku þig, og sjá, þinn afli brást. Á djúpið út, það kvöldar, Jesús kallar, því kvitta vill nú syndir þínar allar Guðs eilíf ást.

Legg þú á djúpið, þú sem þreyttur lendir úr þungaróðri heimsins, - Jesús bendir,- ó, haf nú Drottin hjá þér innanborðs. Þú fer þá góða för í síðsta sinni, því sálarforða skaltu byrgja inni Guðs eilífs orðs.

-o-o-o-o-o-o-o-o-o-

En fyrir handan hafið þar hillir undir land, í gullnum geislum vafið það girðir skýjaband. Þar gróa' í grænum hlíðum með gullslit blómin smá, í skógarbeltum blíðum í blómsturlundum fríðum má alls kyns aldin sjá.

Ég hljóður eftir hlusta, ég heyri klukkna hljóm. Hve guðleg guðsþjónusta er Guðs í helgidóm! Ég heyri unaðsóma og engla skæra raust, um Drottins dýrðarljóma, um Drottins verk þeir róma um eilífð endalaust.

Matthías og Valdimar. Þeir segja það sem þarf að segja. Og þeir segja það skiljanlega.

Kæri söfnuður.

Jesús kallar og sendir.

Síðast kallar hann okkur öll heim til sín.

Suma kallar hann til að boða trúna beint eða óbeint. Aðra kallar hann til að leggja á djúpið bæði í bókstarflegum skilningi og óeiginlegum eins og hann kallaði Gústa Guðsmann á Siglufirði.

Jesús kallar og sendir. Hann kallar til fylgdar við sig. Og þegar hann sendir, fer hann sjálfur með.

Far þú frá mér Herra, því að ég er syndugur maður, segir Pétur.

Jeremía spámaður bregst við köllun sinni með því að segja: En, ég er svo ungur.

Einmitt sá sem sér fátækt sína og smæð og sér eigin synd frammi fyrir Drottni er hæfur til að vera sendur út með erindi hans.

Syndin sést ekki nema þegar ljós Guðs fellur á hana. Hefur þú hugsað þetta?

Maður getur velst um í syndum sínum en veit ekkert um það fyrr en daginn sem Guð varpar þangað ljósi sínu.

Og, - eins og Matthías segir í sálmi sínum: til þess að hann geti kvittað fyrir hana.

Köllun er eitthvað sem gerist án þess að hægt sé að stöðva það. Það grípur þann sem kallaður er algjörlega.

En eins og sést af dæmi Péturs er köllunin ekki eitthvað sem fleygir manni í hæstu hæðir, eða fyllir mann sigurvissu.

Miklu frekar verður maður frammi fyrir köllum Krists, smár og aumur, hjálparvana og óverðugur. Fyrir framan Drottin.

En samt er það einmitt þesssi efagjarni Pétur, með lítið sjálfsálit og hrædda samvisku, sem er kallaður til postuladóms. Hann sem á örlagastundu afneitaði Herra sínum og Drottni.

Pétur er alla ævi að gera að eiginlegu ævistarfi það sem hann var kallaður til hálfvegis gegn vilja sínum.

Í undrun og áhyggjum. Eða eins og hann sagði síðar: Vér getum ekki annað en talað það sem vér höfum heyrt og séð. (Post.4.20)

Köllun Péturs er fallegur og einstæður atburður. Það er ekki meiningin að gera lítið úr því þótt minnt sé á að einmitt í þessari frásögn felst reynsla kirkjunnar og þeirra sem mynda hana sem lifandi steinar á öllum tímum.

Hver sá sem kallaður er í eftirfylgd Krists á hliðstæða reynslu. Það gerist ekki með rökum skilningsins, ekki með gildum ástæðum eða innri sannfæringu, heldur verður köllunin til vegna þess að það gerist eitthvað sérstakt sem er andstætt öllum líkindum og á engan hátt árangur af nokkru erfiði manns.

Gagnvart köllun sinni verður maðurinn auðmjúkur og auðmýktur, tapar öryggi sínu og sjálfstrausti, efast um að hann geti haldist við í nálægð hins heilaga eins og hann myndi bráðna eins og vax í eldi. En mátturinn sem gerir hann að þjóni og verkfæri Guðs fyllir hann.

Og þessi köllun verður til fyrir Orð Guðs. Enginn maður kallar annan, heldur aðeins Guð í orði sínu. En hann velur munn til að mæla það fram. Köllun er Vocatio. Það er köllun með munni, með raust og röddu. (Latneska orðið vocatio þýddi raunar upphaflega að vera kallaður fyrir rétt, eða vera boðið í mat, - en um það verður meira að hugsa um næstu tvo sunnudaga).

Við sem fáum að þjóna Guðs orði, Guðs raustu, við verðum vitni að því hvernig orðið kallar.

Þess vegna eru líka þessir textar tengdir við ferminguna og fermingarheitið. Og sálmur Matthíasar var áður fyrr einskonar skyldusálmur við fermingar, í það minnsta versið:

Legg þú á djúpið, þú, sem enn ert ungur, og æðrast ei, þótt straumur lífs sé þungur, en set þér snemma háleitt mark og mið, haf Guðs orð fyrir leiðarstein í stafni og stýrðu síðan beint í Jesú nafni á himins hlið.

Það er alltaf gaman að fela fermingarbörnunum það verkefni að finna út hvað orðið leiðarsteinn merkir.

Boðskapurinn gildir jafnt fyrir ný fermingarbörn þessa árs og okkur öll fermingarbörn allra tíma.

Orðin : Leggðu á djúpið, hafa eilííft gildi Þau snerta ekki sjósókn nema óverulega.

Djúpið í merkingu textans táknar hið hulda, hið ógvænlega og ókunna. Í fornum textum var það Levjatan sem var krafturinn í djúpum hafsins, og hver sem hélt á miðin tók þá áhættu að Levjatan myndi gleypa hann.

Jesús gefur þau skilaboð í guðspjallinu að við skulum leggja á djúpið í nafni hans. Óhrædd.

Eins og hann segir á öðrum stað:

Vertu ekki hrædd litla hjörð, því föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.

Við erum send út til að fylgja Jesú Kristi og bera vitni um hann. Við fiskimenn sína, og þar með einnig okkur, segir hann: Eg mun gera yður að mannaveiðurum.

Djúp Levjatans eru ekki fiskimið, heldur mannlegt líf í öllum myndum þess og öllum ógnum þess.

Það þarf ekki að upplýsa söfnuðinn neitt um það sem hann þegar veit og þekkir.

Legg á djúpið.

Og veiðarfærin eru Guðs Orð og bænin og samfélagið.

,,haf Guðs orð fyrir leiðarstein í stafni og stýrðu síðan beint í Jesú nafni á himins hlið”,

eins og Pétur postuli, og Gústi guðsmaður.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, um aldir alda. Amen.