Áttu vini eða bara kunningja?

Áttu vini eða bara kunningja?

Því stundum verður mönnum á. Styrka hönd þeir þurfa þá, þegar lífið, allt í einu - sýnist einskisvert. Gott er að geta talað við - einhvern sem að skilur þig. Traustur vinur - getur gert – kraftaverk.

Vinir

Áttu vin eða vinkonu? Staldraðu við og hugsaðu um það fólk, sem þú umgengst. Eru einhver þeirra vinir þínir? Treystir þú honum eða henni – eða þeim - fyrir því sem er innst í þér? Eða eru þetta allt bara kunningjar, skemmtilegir til að tala við og hlægja með eða vinna, en nei – þeim er kannski ekki trúandi fyrir leyndarmálum þínum. 

Talið er, að í Bandaríkjunum sé um fjórðungur þjóðarinnar sem eigi engan vin, heldur bara kunningja, ættingja og samstarfsfélaga. Engan vin! Átt þú vin? Hvernig vini? Svarið við þessum spurningum segir sögu um þig og kannski líka ýmislegt um tengsl þín og jafnvel eitthvað um guðsvitund þína að auki. 

Barnavinir Við viljum ala börnin upp í vináttuanda. Ýmis vináttuverkefni hafa verið unnin í skólum þjóðarinnar. Allir eru sammála um, að vinátta sé eftirsóknarverð. Vináttuleið kirkjunnar hefur verið komið á í tengslum við skólana. Svo hefur dægurmenningin lagt sitt til.

Hanna og Barbera bjuggu til margar teiknimyndaverur, sem hafa orðið klassískar og runnið inn í huga og heim barnanna og þar með okkar. Flest ykkar hafið séð teiknimyndir um Tomma og Jenna. Þeir hegða sér ekki eins og vinir, yfirleitt ríkir stríð á milli þeirra, sá stærri reynir að beita afli og snerpu en hinn minni verður að hagnýta sér vit og smæð. Á stríðunum eru stundum hlé og í Tommi og Jenni mála bæinn rauðan er gott lag og grípandi texti sem margir krakkar hafa sungið hástöfum fyrir framan skjáinn með þeim félögum:

Ekkert jafnast á við það, að eiga góðan vin í stað. Að standa tveir í hverri raun eru vináttulaun.
Kannastu við þetta? Þetta er vissulega ekki rismesti skáldskapur veraldar en boðskapurinn skilst. Að standa tveir í hverri raun er ávöxtur vináttunnar, þetta að vera ekki einn þegar maður á erfitt. Allir þarfnast stuðnings einhvern tíma. Unga fólkið söng fyrir nokkrum árum:
Því stundum verður mönnum á Styrka hönd þeir þurfa þá, þegar lífið, allt í einu - sýnist einskisvert. Gott er að geta talað við - einhvern sem að skilur þig. Traustur vinur - getur gert – kraftaverk.
Ekki heldur magnaður skáldskapur en margir sungu þennan brag hástöfum þegar gleðin var mikil. Á böllum æpti stundum allur skarinn af öllum lífs og sálar kröftum: Traustur vinur - getur gert – kraftaverk. Vitundin um mikilvægi vináttunnar býr í okkur.

Ég gúglaði orðið vinátta á netinu og þá kom í ljós að vinátta og vinir eru einkum tengd börnum en síður hugðarefnum, lífsþáttum eða skrifum þeirra sem eldri eru. Við viljum kenna börnum vináttu. Leitarvélar netsins eru ekki algilt mælitæki á iðkun fólks og alls ekki á afstöðu. Hins vegar er netið og efni þess vísbending um margt í samfélagsólgunni. Ef taka á mark á bendir netið til að við eldra fólkið séum svolítið vinaskert. Myndagúglið er ekki heldur tryggur leiðarvísir. En mér þótti þó áhugavert, að þegar beðið er um myndir af vinum á gúglinu þá birtust ekki bara mennskar myndir heldur gjarnan myndir af hestum og hundum! Hvað merkir það? Eru það bestu vinirnir og mennirnir kannski frekar kunningjar og félagar? 

Vináttuhringurinn Fiskidagurinn mikli var haldinn á Dalvík í ágúst. Tugir þúsunda komu til að taka þátt í þessari ótrúlegu útihátíð, þar sem allt er ókeypis, allir - ja alla vega langflestir - glaðir, allir gefa til þessarar miklu Svarfdælsku veislu. Á föstudagskvöldinu fyrir fiskidaginn er fiskisúpukvöld og tugir heimila opna dyr, faðma og potta fyrir þau, sem vilja í bæinn. Í ár var athöfn við ráðhúsið, tekinn fyrsta skóflustungan að menningarhúsi sem Sparisjóðurinn gefur samfélaginu. Mikill vinátturefill var gerður til að leggja áherslu á tengsl fólks. Vigdís Finnbogadóttir og Karl Sigurbjörnsson fluttu grípandi hugleiðingar um vináttuna. Vináttuorðin ófust inn í vitund þeirra, sem hlýddu á og urðu vitni að undrum himins, jarðar, menningar og mennskunnar. Í lokin tóku allir viðstaddir saman höndum og treystu böndin. Þúsundir stóðu í kirkjubrekkunni, mynduðu stóra vinakeðju og kvöldsólin lék sér í skýjabólstrum og þokubökkum. Táknmálið var sterkt og táknvefurinn snerti sálardýptir okkar sem vorum þátttakendur.

Fiskidagurinn, Fiskisúpukvöldið og allt sem þeim tengist heillar. Veruleiki vísar alltaf til einhvers dýpra og allt táknmál hátíða hefur merkingu, sem má líka skoða með trúarlegum gleraugum. Allt, sem sagt var og gerðist á þessari hátíð tengist með margvíslegum hætti boðskap kristninnar. Vinablöðrurnar voru eins og bænir sem stigu til himins; hugleiðingarnar voru andlegar tengingar, Sparisjóðurinn gaf af hagnaði sínum og hegðaði sér siðlega og ábyrgt; í súpu og borgurum og því sem fólk borðaði var fiskur sem er gamalt Kriststákn; höftin voru fjarlægð og fólk náði saman, stóri vinahringurinn sem myndaðist með handtökum var sem friðarkveðjan í kirkjunni. Svo er auðvitað Svarfaðardalur eins og risamusteri, öndvegi íslenskra náttúrukirkna. Menn urðu vinir og Júlíus frumkvöðull Fiskidagsins vill að allur heimurinn sé heimur vináttu. Það var blessun og helgun í atferli og táknáli Fiskidagsins, trúarleg dýpt. Mér er næst að halda að Fiskidaginn mikla megi best túlka trúarlega.

Vinurinn Jesús og vinahópur hans Áttu þér vini? Viltu eiga vin? Í guðspjalli dagsins er maður sem vildi eiga vin og búa við vinsamlegt umhverfi. Hann er fulltrúi okkar allra sem vitum, að lífshamingjuna er ekki hægt að kaupa. Hann þarfnaðist lífsfyllingar. Svo kemur Jesús og segir einfaldlega við hann: “Fylg þú mér.” Og hann stendur upp og fer með honum, klúðrar þar með vinnunni og stöðu sinni. Fylg þú mér þýðir: Vertu vinur minn. Vertu í þessum hóp fólks, sem er mismunandi en á sameiginlegt að vera vinir lífmannsins Jesú.

Við erum vön því að tala um kristna menn. En löngu áður en farið var að kalla Jesúfólkið kristna menn var talað um vini Jesú. Jesús var líka afar skýr í afstöðu sinni til fólks, ekki síst lærisveina sinna. Hann kallaði þá vini sína. Í Jóhannesarguðspjalli segir (15.15): “Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum.” Kristinn maður er því kallaður til vinskapar. Líf kristins manns skal vera vinerni.

Biblían er full af vináttu, vinarhjali, vinaorðum, vinaáherslum. Guði er lýst, sem vini og okkur mönnum stendur til boða að vera vinir Jesú. En áherslan á vináttuna hefur kannski ekki orðið eins áberandi eins og áhersla og orð Jesú hefði getað leitt til. Boðskapur Jesú hefur verið mótaður af þeim sem komu á eftir honum. Orð manna skipta máli. Páll postuli notaði gjarnan orðfærið systur og bræður, sem leiddi fremur sjónir að fjölskyldunni fremur en vinahópnum. Í kirkjusögunni var því ekki spunnið úr vinatoganum, sem vert hefði verið og þar með ekki í guðfræðinni heldur. Við ættum að heyra vinaráherslu Jesú og hlýða anda hans!

Kannski höfum við ekki heldur verið nægilega vandvirk í að byggja upp vináttuanda í safnaðarlífinu. Viltu eiga þér vini í þessum hópi. Hér eru nokkur, sem koma til að hitta vini sína og efla tengslin og það er vel. Svo er það verkefni okkar hér í vetur að mynda messuhópa, hópa fólks sem vinnur sameiginlega að undirbúningi og framkvæmd messunnar. Það er merkilegt framtak og auglýst eftir sjálfboðaliðum, fólki sem hefur áhuga á kirkjulegri vináttu og eflingu mennskra tengsla og vinaanda messunnar – mynda vinatengsl fólks til eflingar lífinu.

Við erum hér Í auglýsingu Símans segir Jesús eitthvað á þessa leið: “Við erum hér. Hvar ert þú?” Þessi spurning er bergmál gömlu Edenspurningarinnar þegar Guð kallaði til Adams: “Hvar ertu?” Við erum kannski í sporum Leví Alfeussonar og bíðum eftir að komast út úr vondum aðstæðum. Við erum e.t.v. í sporum Jóns Gnarr með peningapyngjuna að baki. Við erum kannski í hópi Ameríkananna, eigum marga kunningja en kannski enga vini. Við erum sum í hópi Íslendinga, sem sækja norður í land og teygjum hendurnar til ókunnugs fólks og viljum vera vinir þess.

Vinirnir styðja þig í vandræðum segja Tommi og Jenni. Jú, traustir vinir geta gert kraftaverk var sungið á móti sól. Hvernig eru tengsl okkar, við fólk, við gildi, við hamingju, við líkama okkar, við náttúruna, við Guð. Þau tengsl varða hver við erum og hvaða vini við eigum. Ef þú átt enga vini er líklegt að þér þyki Guð ekki vera þér nálægur vinur. En þá kemur gjarnan þetta tiltal: Fylg þú mér. Það þýðir, að þú mátt gjarnan líta á þennan Jesú sem aðila sem byggir upp vináttu.

Gildi G3 auglýsingarinnar í trúarlegu samhengi er einmitt það, að Jesús er tengslamyndandi vinur. Heitið G3 er skiljanlegt, þetta er þriðja kynslóð farsíma, third generation. En nafnið hefur líka aðrar víddir. Vináttan getur auðvitað styrkst við það að tala mikið í þriðju kynslóðar síma, en maðurinn verður vinur lífsins með því að tala við Guð-þríeinan, hinn raunverulega G3. Þar er hin dýpsta vinátta. Teresa frá Avíla minnti á fyrir mörgum öldum, að Guð væri vinur mannanna og dýpsta tjáning vina væri að tala, bæn væri vináttutal mannsins og Guðs.

Myndin af Guði kristninnar er líka af Guði sem vini, sem stendur við hlið okkar og hjálpar okkur, gerir kraftaverk þegar við þörfnumst þeirra, breytir mannkynssögunni, umbyltir líka okkar smásögu, er okkur nærri þegar allt er í strandi, hlær með okkur á gleðidögum, gefur okkur styrk þegar við veiklumst – er okkur allt þetta sem vinur er og gerir. Fjölskyldubönd hafa verið sterk á Íslandi, en mér býður í grun að gildi þeirra fari minnkandi og önnur tengsl fólks komi í staðinn og þá ekki síst vinátta, tengsl vinanna.

Allt táknmál messunnar varðar vinskap himins og jarðar, Guðs og manna. Guð kallar: Fylg þú mér, sem merkir vertu vinur minn. Söfnuður í kirkjunni er kallaður til að vera vinahópur. Það kall hljómar til okkar. Hvar ertu? Hvar varstu Adam. “Við erum hér” merkir að vináttan skuli ríkja, tengsl skuli mynduð, sátt skuli ríkja milli manna, friður skuli ríkja milli ólíkra einstaklinga.

Amen

Prédikun í Neskirkju á 17. sunnudegi eftir þrenningarhátíð B-röð, 30. september 2007. 

Lexía; Jes 1.16-17 Þvoið yður, hreinsið yður. Takið illskubreytni yðar í burt frá augum mínum. Látið af að gjöra illt, lærið gott að gjöra!

Leitið þess, sem rétt er. Hjálpið þeim, sem fyrir ofríki verður. Rekið réttar hins munaðarlausa. Verjið málefni ekkjunnar.

Pistill: Gal 5.1-6 Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok.

Takið eftir því, sem ég, Páll, segi yður: Ef þér látið umskerast, þá gagnar Kristur yður ekkert. Og enn vitna ég fyrir hverjum manni, sem lætur umskerast: Hann er skyldur til að halda allt lögmálið. Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þér eruð fallnir úr náðinni. En vér væntum í andanum að öðlast af trúnni réttlætinguna, sem er von vor. Í Kristi Jesú er ekkert komið undir umskurn né yfirhúð, heldur undir trú, sem starfar í kærleika.

Guðspjall: Mk 2.14-28 Og er hann gekk þar, sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni, og hann segir við hann: Fylg þú mér! Og hann stóð upp og fylgdi honum.

Svo bar við, að Jesús sat að borði í húsi hans, og margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans, en margir fylgdu honum. Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu, að hann samneytti bersyndugum og tollheimtumönnum, sögðu þá við lærisveina hans: Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum.

Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir, sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara.

Lærisveinar Jóhannesar og farísear héldu nú föstu. Þá koma menn til Jesú og spyrja hann: Hví fasta lærisveinar Jóhannesar og lærisveinar farísea, en þínir lærisveinar fasta ekki?

Jesús svaraði þeim: Hvort geta brúðkaupsgestir fastað, meðan brúðguminn er hjá þeim? Alla þá stund, sem brúðguminn er hjá þeim, geta þeir ekki fastað. En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta, á þeim degi.

Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa. Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir vínið belgina, og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi.

Svo bar við, að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi, og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni. Farísearnir sögðu þá við hann: Lít á, hví gjöra þeir það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?

Hann svaraði þeim: Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans? Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum.

Og hann sagði við þá: Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. Því er Mannssonurinn einnig herra hvíldardagsins.