HáEmm

HáEmm

Nú er að eiga sér stað viðburður í Brasilíu sem margir, þó ekki allir, hafa beðið lengi eftir. Heimsmeistaramótið í knattspyrnu hófst þann 12. júní og stendur til 13. júlí.
fullname - andlitsmynd Gunnar Stígur Reynisson
19. júní 2014

HM

Nú er að eiga sér stað viðburður í Brasilíu sem margir, þó ekki allir, hafa beðið lengi eftir. Heimsmeistaramótið í knattspyrnu hófst þann 12. júní og stendur til 13. júlí. Hvað er það sem gerir knattspyrnuna svona merkilega og eru þetta kannski hin nýju trúarbrögð mannsins? Hér fyrir neðan má lesa stuttan pistil sem tekin er úr ritgerð sem skrifuð var af undirrituðum fyrir nokkrum árum og nefnist Ekki bara leikur. Knattspyrna: Lífstíll og menning eða trú?

Fyrir margan manninn er knattspyrna lífið. Það er lifað fyrir knattspyrnuna og allt snýst um hana. Þetta sést víða um heim meðal annars á Bretlandseyjum þar sem knattspyrnan er orðin að menningarlegu fyrirbæri. Þar eltir hópur fólks sitt lið hvert sem það fer, hvort sem það er næsta bæjarfélag eða þvert yfir Evrópu. Hjá þessu fólki fer allur frítími í knattspyrnuna og sérstaklega umræðu um hana. Það hittist og talar um knattspyrnu, annað hvort til að dásama eða úthúða einhverja vissa leikmenn eða lið. Aðrir hafa engan áhuga á knattspyrnu og skilja ekkert í þessum mikla áhuga. Rithöfundur bókarinnar Faith of Our Fathers: Football as a Religion, Alan Edge, segir skemmtilega frá því þegar fólk gerir lítið úr áhuga á knattspyrnu og knattspyrnuofstæki.

Það eru auðvitað enn nokkrir sem halda því fram að knattspyrnuofstæki sé ekkert meira en tveggja tíma brjálæði síðdegis á laugardögum. Það er greinilegt að þessar manneskjur hafa aldrei komið nálægt stað þar sem knattspyrnuáhugamenn koma saman á meðan tímabili stendur. Hver veit, kannski hafa þessar manneskjur aldrei farið til kirkju. Kannski ekki einu sinni komið til skírnar.

Ef knattspyrna og kristin trú eru borin saman má sjá margt sem er sameiginlegt. Bæði knattspyrnan og kristin trú hafa dygga og einlæga fylgjendur. Báðir þessi hópar ferðast oft langar leiðir til að tilbiðja eða standa með liði sínu. Þegar farið er að tilbiðja, hvort sem það er í kirkju eða á knattspyrnuvelli, er oftast klætt sig upp. Knattspyrnuáhugamenn fara í liðsbúninginn og kirkjugestir í betri fötin. Í kirkju eru sungnir vissir söngvar við ákveðin tilefni og það sama er hægt að segja um knattspyrnuleiki. Eins er staðið upp á vissum tímum bæði í messum og á leikjum.

Thomas Mitchell er einn þeirra sem skrifað hefur um að knattspyrna sé hin nýju trúarbrögð í Evrópu. Í stúdentablaðinu The Daily Targum árið 2002 fjallar hann meðal annars um mikilvægi dagsetninga bæði í kristinni trú og í knattspyrnunni. Í kristinni trú eru nokkrar dagsetningar mikilvægari en aðrar eins og páskar, fastan og jólin. Í knattspyrnunni, þá helst í löndum eins og Englandi, Þýskalandi, Ítalíu og Spáni er dagsetning eins og mánaðarmót ágúst/september mikilvæg. Þá á sér stað einskonar fögnuður vegna fæðingu nýs knattspyrnutímabils og er hægt að líkja því við jólin þar sem kristnir fagna fæðingu Jesú. Apríl og maí eru einnig mikilvægir í knattspyrnunni en þá er tímabilið á enda og má sjá líkingu þar við páskahátíðina, þó sérstaklega föstudaginn langa þegar Jesú er krossfestur. Þegar komið er undir lok tímabilsins hellist yfir margan áhugamanninn um knattspyrnu blanda af sorg og gleði. Í júní og júlí kemur svo „fastan“ hjá knattspyrnuáhugamönnunum en þá er sumarfrí í knattspyrnunni. Í rauninni er fastan aðeins annað hvert ár því inn kemur Heimsmeistarakeppnin og svo Evrópukeppnin. Greinilegt er því að margt er líkt með knattspyrnu og kristinni trú. Hins vegar er enn spurning um hvort þetta sé hið sama, það er hvort knattspyrna sé í raun ein gerð trúar.

Ritgerðina má finna í Skemmunni.