Kappið og metingurinn.

Kappið og metingurinn.

fullname - andlitsmynd Friðrik Hjartar
16. febrúar 2014
Flokkar

BIÐJUM: Guð gefi mér æðruleysi til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt, og vit til að greina þar á milli. Amen

Náð sé með ykkur og friður, frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. AMEN.

Það er mikil viska fólgin í æðruleysisbæninni og töluvert verkefni fólgið í að takast á við innihald hennar. Það má með nokkrum sanni segja að þetta sé verkefni sérhvers dags, ýmist meðvitað eða ómeðvitað. Það þarf æðruleysi til að mæta verkefnum dagsins og ákveðinn kjark til að gefast ekki upp fyrir þeim og talsvert vit til að gera dagana betri og umhverfið og samfélagið að betri stað til að vera á. Þessi litlu verkfæri, æðruleysi, kjarkur og vit, eru notadrjúg í daglega lífinu og studd í bak og fyrir af ýmsu því besta sem við lesum úr Biblíunni. Á það einnig við texta þessa Drottins dags, sem lesnir hafa verið. Margir hafa fylgst af áhuga með vetrarólympíuleikunum sem nú fara fram í Sotsjí í Rússlandi. Þar fáum við að sjá kjarkmikið fólk sem allt reynir að gera sitt besta og helst betur en það. Að vonum hefur mörgum orðið hált á svellinu í skautaíþróttunum en gaman hefur veri að fylgjast með glæsilegum æfingum keppendanna. Sumir lentu í að falla eða mistakast á annan hátt og voru þeim miskunnarlaust gefin refsistig í einkunnagjöfinni. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt þar sem verið er að keppa til verðlauna og ákveðnir staðlar notaðir við einkunnagjöfina. Eðlilega hlýtur maður að dást að hnitmiðuðum æfingum, fágun og færni, krafti og tækni keppendanna.

Páll postuli tekur ferska líkingu af keppninni á íþróttavellinum í textanum sem lesinn var úr Fyrra Korintubréfi og dregur fram með skýrum hætti að aðeins einn fær sigurlaunin, þótt sá fátíði atburður hafi gerst í einni af keppnisgreinunum á vetrarolympíuleikunum að tveir hlutu gullverðlaun í sömu grein. Eigi að síður er því svo varið að þeir sem komast á verðlaunapall hljóta þar aðeins forgengilegan sigursveig, því að á næstu olympíuleikum er líklegt að aðrir komi og geri ennþá betur og slái þau met sem þegar hafa verið sett. Páll kemur því til skila á skemmtilegan hátt hversu nauðsynlegt það er til árangurs að þjálfa sig. Auðvitað þarf að temja líkama, hug og anda, - hafa bæði trú og von og líkamlegt atgerfi í ríkum mæli til að standa á verðlaunapalli með þeim bestu á heimsmælikvarða. Og það er í sjálfu sér háleitt og gott markmið, enda fylgir því bæði gleði og virðing að hljóta verðlaunin. En Páll er sjálfur ekki að keppa til verðlauna þótt hann berjist eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær. Hann veit að það er ekki sigurvegaramenning íþróttavallarins sem skilur eftir það sem mestu varðar. Hann á sér æðri markmið – hann keppir eftir óforgengilegum sigursveig, en markmið hans er að koma á framfæri fagnaðarerindinu um Jesú Krist og kynna okkur fyrir launatöflu himnaríkis.

Gætt hefur mikils metings að þessu sinni um sjálft ólympíuleikahaldið. Þetta eru samkvæmt fréttum ekki einungis dýrustu vetrarólympíuleikar sem haldnir hafa verið, heldur dýrustu leikar sem þekkjast – og það sem verra er, er að samkvæmt fréttum hefur miklu af kostnaðinum verið varið á miður góðan máta. Spámaðurinn Jeremía sem ritaði lexíu dagsins kemur líka inn á metinginn og þótt orð hans séu ekki ný af nálinni eiga þau vel við. Hann segir: “Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni, hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum.” Jer. 9:22 Það er auðsótt að upphefja sjálfan sig með visku, afli og auði og í ljósi þess sem fram hefur komið hefur Pútín verið dreginn inn í þá umræðu vegna aðkomu hans að kappleikunum í Sotsjí. Pútín er tákngerfingur hins sterka manns. Hann er handhafi auðs og valda og verður varla frýjað vits, eftir að hafa náð þessari sterku stöðu í samfélagi sínu. Það má vafalaust finna anga af Pútín í okkur öllum. Fæstir fúlsa við auði og völdum og hver er ekki vitur í eigin augum. Það er oftast stutt í metinginn og einnig hættir okkur til að misnota aðstöðu okkar og freistingin blasir við sérhverjum einstaklingi dag hvern. Metingurinn varðar þó gjarnast forgengilega hluti og annað sem ekki lendir framarlega í forgangsröðinni þegar á reynir í lífinu. Jeremía dregur fram visku, afl og auð, en hann nefnir einnig það sem mestu varðar, hinn sönnu hyggindi, sem fólgin eru í því að þekkja Drottinn, en þar erum við líka farin að nálgast hinn óforgengilega sigursveig sem Páll talar um, - þau sigurlaun sem af engum manni verða tekin. Verkamennirnir í víngarðinum sem guðspjallið greinir frá kenna okkur einnig margt um það hvernig mennirnir metast á og hvernig öfundin skýtur upp kollinum þegar kemur að hinum daglegu kjörum. Það þarf ekki að hafa mörg orð um lægstu launin og kjör öryrkja og annarra sem berjast við heilsubrest og fátækt. Fátæktargildrum virðist fara fjölgandi og úrlausn vantar fyrir marga. Í baráttu þeirra sem minna mega sín veitir sannarlega ekki af að hafa æðruleysi, vit og kjark til styrktar í lífsbaráttunni til að vonleysið taki ekki yfirhöndina.

Það er öllum mikilvægt að eiga von. Þegar vonina brestur er fokið í flest skjól. Það er því harla gott að geta átt von á því fram eftir öllu að vera valinn til starfa og jafnframt að hljóta sömu laun og þeir sem fyrst voru ráðnir. Þeir voru þrautseygir verkamennirnir sem sátu á torginu fram á elleftu stundu. Það er óendanlega mikilvægt að eiga von, því að samfara henni er jafnan einhver vottur af trú. Trú, von og kærleikur eru þrefalt bandalag heilagleikans í hugum margra. Líkt og kryddið gefur matnum bragð gefa trú, von og kærleikur lífinu aukið gildi og innihald. “Keppið eftir kærleikanum” segir Páll. Kærleikurinn á sér upphaf í þeirri fórn sem Jesús Kristur færir með því að gefa líf sitt á krossi til að friðþægja fyrir syndir mannanna. Í guðspjallinu er ekki aðeins verið að tala um mikilvæga atvinnu og lífsafkomu verkamannanna. Þar er verið að tala um fyrirgefninguna og það að öðlast lykilinn að himnaríki. Fyrirgefningin er í boði “fram á elleftu stundu” eins og segir í guðspjallinu. Gagnvart ríki himinsins og hinum óforgengilega sigursveig sem Páll talar um verða hinir fyrstu síðastir og hinir síðustu fyrstir. – ENGINN ER VONLAUS! Og í ríki himnanna eru ekki skráð nein refsistig. Náð Guðs sem textar dagsins boða er veitt okkur að gjöf. Fyrir þeirri gjöf er ekki hægt að vinna og ekki hægt að þjálfa sig upp í að öðlast hana. Ykkur sem til mín heyrið vil ég leggja það á hjarta þessa nýju viku, að losa ykkur við fordóma og meting og rýmka þannig til í lífi ykkar fyrir því sem er jákvætt og fyllt af von og trú. – Því sem kemur náunga ykkar og ykkur sjálfum til góða. KÆRLEIKURINN er sprottinn af verki Krists. Það er þverstæða kristins lífs að sá sem keppir eftir launum tapar þeim, en sá sem gleymir laununum fær þau. AMEN. Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. AMEN.