Rödd konungsins

Rödd konungsins

Myndin á mikið erindi við okkur presta sem og til allra þeirra sem umhugað er um boðun og þjónustu kirkjunnar. Við erum kölluð og send til að prédika og það er opinber orðræða á opinberum vettvangi.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
14. febrúar 2011

Úr kvikmyndinni The King's Speech

Við hjónin fórum að sjá kvikmyndina, The King´s Speech. Það var ógleymanleg upplifun. Myndin fjallar um krónprinsinn, Bertie, sem vegna óvæntra aðstæðna þarf að taka við krúnunni í aðdraganda heimstyrjaldarinnar og varð Georg VI. Bretakonungur. Hann á við alvarlegan vanda að stríða, sem í heimi þar sem útvarpið er orðið megin áhrifavaldur er algjörlega óviðunandi, hann stamar og er yfirkominn af feimni. Kvikmyndin sýnir hvernig aðdragandi styrjaldarinnar mótast af þessu nýja afli útvarpsins sem gerir það mögulegt að bera ræður um allan heim og virkja þannig þjóðir með áróðurmætti orðsins til fylgis við hinn öfluga leiðtoga. Hitler og hans nótar kunnu að nýta sér þessa tækni til fulls. Skelfilega málhaltur og skelkaður konungur gat aldrei keppt við það áróðursafl. En England þurfti á sterkri rödd konungs síns að halda. Elísabet, eiginkona Georgs leitar uppi sjálfmenntaðan, ástralskan raddþjálfara, Lionel Logue.

Með kímni og visku knýr hann, laðar, hótar og lemur konunginn áfram. Honum tekst að fá hann til að létta af sér sálarhlekkjum stöðu og forréttinda og sárra minninga um stríðni og hroka bróður síns, harðneskju föðurins og harðúðar barnfóstrunnar. „Mitt hlutverk er að hjálpa þér að finna þína rödd,“ segir hann við konunginn.

Samspil þeirra Georgs og kennarans er einstaklega áhrifaríkt og ógleymanlegt, þrautsegja kennarans að hjálpa nemanum að yfirvinna skelfingu sína og rjúfa hlekkina, og undir niðri er stéttaskiptingin, þau djúp sem staðfest eru milli hirðar og þegna, Englendinga og nýlendubúa, svo margir þræðir mætast þarna á undursamlegan hátt.

Myndin á mikið erindi við okkur presta sem og til allra þeirra sem umhugað er um boðun og þjónustu kirkjunnar. Við erum kölluð og send til að prédika og það er opinber orðræða á opinberum vettvangi. Þar erum við oftar en ekki varnalaus frammi fyrir fólki, míkrafónum og jafnvel myndavélum, sem einatt gefa ekki grið. Og viðtakendurnir eru hjörtu af holdi, manneskjur, sálir með sögu, minningar og reynslu, samfélag sem Guð kallar saman.  Í samfélagi trúarinnar er ekki aðeins sólskin og blíða heldur líka skuggar og stormar. Við, svo varnalaus með okkar sár og sorgir, ósigra og veikleika og fjötra, erum kölluð og send með máttarorð inn í þær margvíslegu aðstæður og samhengi. Georg konungur vildi síst af öllu þurfa að tala kjark í þjóðina andspænis ógnum stríðs og hörmunga. En skyldan bauð.

Og það á eins við um okkur presta. Skyldan býður okkur að flytja orð, ekki okkar eigin, eigin orð og einkaskoðanir, heldur orð Guðs. Georg konungur varð að lesa upp orð annarra eins og þau væru hans eigin orð. Við prestar stígum í stólinn ekki til að létta af okkur eða koma eigin sjónarmiðum á framfæri, heldur vegna þess sem Guði liggur á hjarta að segja við lýð sinn. Gleymum ekki því sem Drottinn sagði við Pál:„Náð mín nægir þér því mátturinn fullkomnast í veikleika.“ Og Páll bætir við:„Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér. Þess vegna uni ég mér vel í veikleika, í misþyrmingum, í nauðum, í ofsóknum, í þrenginum vegna Krists. Þegar ég er veikur þá er ég máttugur.“ (2Kor.12.9-10)