Lykillinn

Lykillinn

Við höfum gengið um fagrar slóðir, hlýtt á Guðs orð, lesið saman bók náttúrunnar. Við höfum hlustað á óm landsins, á klið fugla, blæinn í laufi, niðinn í ánni, æðaslög hjartans og hræringar líkamans, og notið samfylgdar hvers annars á þessari gönguför í sumarnóttinni.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
20. júní 2002
Flokkar

Nú kom sá tími, að Elísabet skyldi verða léttari, og ól hún son. Og nágrannar hennar og ættmenn heyrðu, hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni, og samfögnuðu henni.

Á áttunda degi komu þeir að umskera sveininn, og vildu þeir láta hann heita Sakaría í höfuðið á föður sínum. Þá mælti móðir hans: Eigi skal hann svo heita, heldur Jóhannes.

En þeir sögðu við hana: Enginn er í ætt þinni, sem heitir því nafni. Bentu þeir þá föður hans, að hann léti þá vita, hvað sveinninn skyldi heita.

Hann bað um spjald og reit: Jóhannes er nafn hans, og urðu þeir allir undrandi. Jafnskjótt laukst upp munnur hans og tunga, og hann fór að tala og lofaði Guð. En ótta sló á alla nágranna þeirra og þótti þessi atburður miklum tíðindum sæta í allri fjallbyggð Júdeu. Og allir, sem þetta heyrðu, festu það í huga sér og sögðu: Hvað mun barn þetta verða? Því að hönd Drottins var með honum. (Lúk. 1. 57-66)

Við höfum gengið um fagrar slóðir, hlýtt á Guðs orð, lesið saman bók náttúrunnar. Við höfum hlustað á óm landsins, á klið fugla, blæinn í laufi, niðinn í ánni, æðaslög hjartans og hræringar líkamans, og notið samfylgdar hvers annars á þessari gönguför í sumarnóttinni. „Tilvera okkar er undarlegt ferðalag,“ segir skáldið, og víst er það. Lífinu er oft líkt við ferð, ferð um framandi slóðir. Því jafnvel þótt upphaf og endir þeirrar ferðar sé okkur augljóst, móðurskautið og moldin, þá hefur manneskjan aldrei unað því sem við blasir í þessum efnum. Manneskjan hefur aldrei unað því að líf hennar og tilvera sé bundið við þessi skref og þennan veruleik, að maður sé settur á veg kynslóðanna í ferð án fyrirheits, í erindisleysu á óskiljanlegri jörð.

Við heyrðum sögu hér áðan, sögu af fæðingu barns. Biblían segir okkur margar hliðstæðar sögur. Sögur um fæðingu barna sem áttu það sameiginlegt að benda okkur á að lífsferð okkar er æðra gildis. Guðspjallið sem við heyrðum nú er texti Jónsmessunnar. Þegar sól rís hæst og sólargangur er lengstur þá beinir kristin kirkja athygli okkar að Jóhannesi skírara. Líf hans var helgað því að boða komur Jesú Krists, hans sem er sólnanna sól, og sagði um sjálfan sig: „Ég er ljós heimsins, sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“

Allar sögur Biblíunnar eru sagðar til að benda á Hann. Hann, Jesús Kristur, er lykillinn að hinni helgu bók, sögu hennar og boðskap. Og hann er lykillinn sem lýkur upp ráðgátum lífs og heims. Hann varpar birtu sinni yfir lífsferð manns og örlög heims.

Við heyrum sögu af prestinum, Sakaría. Hann hafði lagt á sig ferð til Jerúsalem þar sem hann skyldi gegna helgri þjónustu. Og hann varð fyrir reynslu sem umturnaði hreint öllu hans lífi og áformum. Engill Drottins stóð hjá honum og sagði: „Bæn þín hefur verið heyrð. Elísabet kona þín mun fæða son…“ Og hann Sakaría, sem var áreiðanlega búinn að sætta sig við að hann myndi ekki eignast erfingja og sá fram á áhyggjulaust ævikvöld, fær allt í einu skilaboð um það að ævikvöldið verði undirlagt af gráti, barnableyjum og öðru veseni sem fylgir hvítvoðungum…. Og Sakaría, garmurinn, hann missti málið. Lái honum hver sem vill.

Guð hefur lag á því að raska áformum manna. Venda um koll því sem við höfum ákveðið og ætlað. Reyndar er öll hjálpræðissagan, þessi undarlega saga, eða öllu heldur, undarlegu sögur sem Biblían segir, fjalla meir og minna um það. Þetta óvænta sem Guð gerir og gefur. Það kallast NÁÐ, af því að það kemur óvænt og óverðskuldað, og kostar ekkert. En gefur ómælt þeim sem þiggur í trú. Náð.

Undrun Sakaría, já og lofsöngur hans eftir að barnið var fætt og hann fékk svo málið á ný, það eru lifandi viðbrögð úr djúpum hjartans. Úr djúpum hjartans, þeirrar sálar, þar sem djúpin duldu og innstu inni skynja aðeins sem mola og brot, í skuggsjá og ráðgátu þrána djúpu, þorstann sára til HANS sem einn megnar að svala, frelsa, leysa. En þar sem eitthvað nýtt brýst fram, eins og sólargeisli gegnum svört ský. Þetta óvænta og ótrúlega og gleðiríka: Guð kemur til þín. Góðu fréttirnar, fagnaðarerindið berst þér að eyrum og hjarta. Það er fagnaðarerindið um Jesú Krist, frelsarann krossfesta og upprisna. Hann sem fæddist í Betlehem og flutti fjallræðuna og dó á krossinum.

Jesús Kristur sem birtir Guð á jörð. Sýnir hver hann er sem er aflið æðsta í alheimsgeimi og innst í þinni sál. Sýnir hver gæfuleiðin er í lífinu. Hvar er Guð að finna, hvar er Guð að sjá? Hlustaðu á óm landsins, niðinn í ánni, fuglakliðinn? Það talar um Guð, góðan Guð. Já, reyndar ber öll sköpunin í sér fangamark höfundar síns. Þetta er þó hulið nema augum trúarinnar. Trúin er að sjá Guð að verki. Trúin sér kraftaverk hans í vorsins blæ og sumarsól, trúin sér krosstáknið í snjókristöllum og gullnum augum sóleyjanna, og sér lífsins fyrirheit brosa við í hverri sólarupprás og í augum ungbarnsins og brosi ástvinarins. Trúin sér fótspor Guðs, finnur handtak hans, nemur rödd Guðs. Og í skuggsjá krossins og upprisunnar sér trúin harm Guðs í hverju tári jarðarbarna og skugga hans í hverju myrkri og heyrir fótatak hans í hverju því sem laðar fram líf og söng og gleði í lífi manns og heims. Trúin er að kannast við andvörpin duldu og óróleikann innst í sál og segja: „Þú Guð hefur skapað mig handa þér, og hjarta mitt er órótt uns það hvílist í þér.“ Trú er að biðja og vona: „Vísa mér veg þinn Drottinn og gjör mig fúsan að fara hann.“

Hér erum við, í undraveröld miðsumarnætur. Göngumenn, pílagrímar. Til okkar berst boðið frá Guði: Að dögunin er í nánd, dagrenning með nóttlausa voraldarveröld þar sem Drottinn hefur leyst viðjar allar, læknað öll þín mein, þerrað öll tár, nema gleðitárin og feginleikans. Höfum við heyrt, höfum við skilið? Við skulum þakka, við skulum syngja og við skulum fagna og við skulum láta líf okkar og viðmót bera því vitni að við trúum, vonum og elskum í frelsarans Jesú nafni.

Miðnæturguðsþjónusta í Egilsstaðaskógi við lok prestastefnu 20. Júní 2002