Minning um ár og annað tækifæri

Minning um ár og annað tækifæri

Ég á minningar úr Kópavoginum. Frá snakki og 7Up í spariglasi með röri. Öll í góðu skapi. Útivistarleyfið opið í báða enda. Ég á minningar frá Stuðmannaballi í Sigtúni. Heimferðum á háum hælum með ókunnugum bílstjórum á óveðursnóttum. Partýum, böllum og samkomum hér og þar um borgina. Allir í stuði.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
31. desember 2012
Flokkar

Væntingar Ég veit ekki hvernig þetta byrjaði eða hvaðan þessar hugmyndir komu en ég var nokkuð ung þegar ég áttaði mig á að gamlárskvöld var öðru vísi en önnur kvöld.

Það var eins og reglurnar breyttust eða að þeim fækkaði. Fullorðna fólkið varð meðfærilegra og það sem venjulega var bannað varð leyfilegt. Snakk og gos í boði eins og hver gat í sig látið. Enginn ákveðinn háttatími. Allir í stuði en um leið einhver viðkvæmni í fólki.

Ég á minningar frá þessu kvöldi hjá afa og ömmu í Kjósinni. Stórt húsið fullt af fólki. Frændfólkið eitthvað svo jákvætt og yndislegt. Ég úti í snjónum logandi hrædd með rautt blys. Allir í stuði.

Ég á minningar úr Kópavoginum. Frá snakki og 7Up í spariglasi með röri. Öll í góðu skapi. Útivistarleyfið opið í báða enda.

Ég á minningar frá Stuðmannaballi í Sigtúni. Heimferðum á háum hælum með ókunnugum bílstjórum á óveðursnóttum. Partýum, böllum og samkomum hér og þar um borgina. Allir í stuði.

Reyndar kom í ljós stór galli á þessu kvöldi þeagr ég komst til nokkurs vit og einhverra ára. Það var eins og kvöldið stæðist aldrei væntingar, sama hversu skemmtilegt og vel heppnað það var. Þetta kvöld, hversu vel undirbúið sem það var, misheppnaðist alltaf.

Eftir nokkuð margar misheppnaðar tilraunir til að gera kvöldið fullkomið skildi ég að vandinn lá alls ekki í því hvernig kvöldið tókst til, heldur lá hann í væntingunum. Væntingarnar voru alltaf of miklar. Kvöldið átti að vera betra og skemmtilegra en öll önnur kvöld. Það átti að vera fullkomið. Og að sjálfsögðu er ekki nokkur leið að uppfylla þvílíkar væntingar.

Minningar um ár En hverjar sem væntingar okkar til þessa síðasta kvölds ársins eru eða hvort þær eru nokkrar, þá held ég að við getum flest verið sammála um að þetta er kvöld tilfinninga. Kannski vegna þess að við komumst fæst hjá því að renna lauslega, í huganum, yfir árið sem er að líða og ef minningar um atburði ársins kalla ekki fram tilfinningar þá fylgir því oft tregi að hugsa til þess að við erum svolítið nær endalokunum í dag en í gær. Við erum ári eldri en síðast þegar við rifjuðum upp árið sem leið.

Hvernig munum við minnast ársins 2012?

Var þetta gott ár fyrir þig eða manstu eftir öðrum betri?

Þetta var ekki gott ár fyrir konur sem komust að því að púðarnir í brjóstum þeirra væru fylltir iðnaðarsílikoni, eða fyrir þolendur nauðgana og ofbeldis, hvort sem er á útihátíð á Íslandi eða í strætisvagni í Delhí á Indlandi. Þetta var ekki gott ár fyrir konur sem búa við ofbeldi en aldrei hafa jafn margar konur leitað til kvennaathvarfsins og þetta ár. Árið var ekki gott jafnréttisár því enn er launamunur karla og kvenna óviðunnandi og jókst meira að segja á árinu 2012 og á sama tíma kom í ljós að menntaskólanemar í dag hafa merkilega gamaldags hugmyndir um hlutverk og stöðu kynjanna. Árið var ekki gott fyrir bændur á norðurlandi sem urðu fyrir miklum skaða í hamfaraveðri í haust og árið var skelfilegt fyrir öll þau er búa við ófrið, fyrir þau sem misstu börn í skothríð í skóla.

Árið reyndist forseta Íslands aftur á móti gott þegar hann var kosinn forseti landsins í fimmta sinn. Árið var Þjóðkirkjunni gott þar sem hún er á góðri leið með að vinna úr erfiðum fortíðarmálum og virðist ætla að fylgja þjóðinni inn í framtíðina með tvær biskupsvígðar konur af þremur í stafni. Vissulega á eftir að nútímavæða marga hluti en ég vona og bið þess að 2012 hafi markað upphafið að nýjum tímum í kirkjunni. Higgs bóseindin fannst á þessu ágæta ári sem eru merkilegar fréttir fyrir eðlisfræðinga og áhugafólk um vísindi. Innbrotum og glæpum fækkaði á árinu og það hljóta að vera góðar fréttir. Alvarlegum umferðaslysum hefur fækkað verulega á milli ára þó enn látist of mikið af fólki í umferðinni.

Umburðarlyndi Af nógu er að taka og fleira gerðist en hvernig var þitt 2012?

Gerðist eitthvað sem vert er að minnast? Er þetta árið sem þú munt alltaf minnast eða mun það fljótlega renna saman við önnur ár í aldanna skaut?

Í dæmisögunni sem við heyrðum áðan baðst starfsmaður víngarðseigandans griða fyrir tréð sem ekki bar ávöxt. Hann vildi að því yrði gefið annað tækifæri. Ég held að þessi væni starfsmaður tákni Jesú Krist, birtingarmynd Guðs í heiminum og við séum sem trén sem ýmist bera ávöxt eða ekki. Það er gott til þess að vita að öll eigum við skilið annað tækifæri. Því öll höfum við ástæður fyrir hegðun okkar og framkomu, góðum verkum eða misgjörðum. Engin manneskja er algjörlega vond eða fullkomlega góð. Við erum á allan mögulegan máta. Og oft ber líf okkar ávöxt en ekki alltaf.

Lykilorð þessa kvölds er því umburðarlyndi. Kannski hefur það verið tilhneiging okkar Íslendinga að bæði dæma fljótt og gleyma fljótt. Dómstóll götunnar er reyndar mun hraðvirkari og oft öflugri en formlegir dómstólar landsins.

Kannski ættum við, á nýju ári, að reyna að iðka meira umburðarlyndi. Það getum við gert með því að hugsa okkur tvisvar og jafnvel þrisvar um, áður en við skrifum einhver leiðindi í “kommentakerfi” fjölmiðlana á veraldarvefnum, á facebook, twitter eða öðrum félagsmiðlum. Við getum gert það með því að íhuga hvort sá eða sú sem fyrir ásökunum og umtali verður hefði allt eins getað verið þú eða ég ef aðstæður okkar væru aðrar.

Það er alltaf einhver ástæða fyrir því hvernig við erum, ekki endilega afsökun. En ástæða.

Því eigum við öll skilið annað tækifæri þegar okkur verður á í messunni. Guð er tilbúin/n til þess að veita annað tækifæri. Við ættum við að vera það líka.

Hvort sem áramótaheitið þitt er að sýna meira umburðarlyndi eða standa nú loksins með sjálfri þér. Hvort sem það er að fara í líkamsrækt, íhugun, að hætta að reykja eða bara ekki neitt þá vona ég að árið verði þér gott.

Ég vona að gamlárskvöldið verði gott þótt ekki verði það fullkomið.

Ég bið þess að nýja árið verði okkur til blessunar. Að það verði landinu okkar farsælt og marki upphaf að friðsamari og kærleiksríkari heimi en við höfum átt að kynnast.

Gleymum því aldrei að framkoma okkar og hugsanir hafa áhrif á heiminn. Þú hefur áhrif. Amen.